Bændablaðið - 12.05.2011, Qupperneq 8
8 Bændablaðið | fimmtudagur 12. maí 2011
Fréttir
Dýraverndarmál í brennidepli
- Ódýr matur er á kostnað velferðar búfjár, segir formaður Dýraverndarsambands Íslands
Að undanförnu hafa birst í fjöl-
miðlum fréttir af aðbúnaði hús-
dýra þar sem bent er á að víða
sé pottur brotinn í þeim efnum.
Meðal annars hefur verið vakin
athygli á þeim aðstæðum sem
varphænur á Íslandi búa við, að
standa á neti allt sitt líf og bent á
að víða í Evrópu sé verið að hverfa
frá því að bjóða hænunum slíkar
aðstæður enda samræmist þær
ekki kröfum um dýravelferð. Fleiri
dæmi hafa verið tínd til, svo sem
geldingar svína auk annars.
Ein ástæða þess að þessi mál hafa
komist í auknum mæli í umræðuna
upp á síðkastið er stofnun félagsskap-
arins Velbús í febrúar síðastliðnum.
Velbú eru frjáls félagasamtök um
bætta velferð og lífsskilyrði búfjár
á Íslandi. Stefna félagsins er að skapa
tenglanet sem tengist öðrum félögum
sem starfa að sömu eða svipuðum
málefnum. Sömuleiðis ætlar Velbú
sér að vera virkt á Facebook og
netinu almennt.
Blaðamaður settist niður með
tveimur stjórnarmönnum Velbús á
dögunum, þeim Sif Traustadóttur og
Róbert Heimi Helgasyni og ræddi
við þau um markmið félagsins og
stöðu dýravelferðar á Íslandi. Þau
segja að félagar í Velbú séu fólk úr
ólíkum áttum sem deili þeirri skoðun
að ástæða sé til að hafa áhyggjur af
þróun mála varðandi dýravelferð hér
á landi.
„Flestir í Velbú hafa reynslu af því
að búa erlendis og hafa fylgst með
þróun mála þar. Staðreyndin er sú að
neytendur hér á landi hafa sáralítið
val um vöru sem er vistvæn eða líf-
ræn og dýravelferð er fyrir borð borin
víða,“ segir Sif.
Erum á hættulegri leið
Róbert ólst upp í Bandaríkjunum en
kom heim á sumrin í sveitina. „Þegar
ég var yngri var staðan úti sú sama
og mér finnst vera hér, þ.e.a.s. að
það var bara um eina vöru að ræða.
Neytendur höfðu ekki val um afurðir
af búfé sem hafði búið við aðstæður
sem við viljum meina að uppfylli
kröfur um dýravelferð. Svo breyttist
þetta mjög hratt, kannski á áratug. Þá
var farið að bjóða upp á slíkar afurðir.
Þegar ég fluttist til Íslands vildi ég
vekja athygli á þeirri hættu sem við
stöndum frammi fyrir. Þá á ég við að
kröfur um lágt verð og hagræðingu
verði til þess að gæði vörunnar og
velferð dýranna verði látin víkja.“
Ísland að dragast aftur úr
Velbú hyggst til að byrja með reyna
að beita sér af krafti fyrir bættum
aðstæðum í kjúklinga- og eggjarækt.
Róbert segir að þar virðist Ísland vera
að dragast verulega aftur úr.
„Langstærstur hluti eggjafram-
leiðslunnar er til dæmis frá búr-
hænum, sem er lægsti gæðaflokkur
í aðbúnaði varphæna, þrátt fyrir
að það sé ekki brot á þeim reglum
sem gilda núna. Stærsti vandinn við
breytingu yfir í betri aðbúnað er að
betri aðbúnaður þýðir hærra verð og
það þurfa að vera neytendur sem eru
tilbúnir til að kaupa slíka vöru. Það
sem við viljum sýna bændum fram á
er að sá hópur neytenda er til.“
Deilt á loðdýraræktina
Velbú hefur tekist vel upp við að
ná eyrum fjölmiðla frá stofnun.
Þau hafa sent frá sér ábendingar og
yfirlýsingar sem fjallað hefur verið
um og þráðurinn spunninn áfram.
Meðal annars sendu samtökin frá sér
bréf til helstu fjölmiðla þar sem þau
gagnrýndu hugmyndir um kynningu
Íslands sem ákjósanlegs lands fyrir
erlenda fjárfestingu í loðdýrarækt.
Í því var meðal annars gagnrýnt
að staðið væri að slíkri kynningu í
ljósi þess að hér væru reglur ekki
eins strangar eins og í Evrópu og
sömuleiðis að beitt væri aðferðum
við aflífun dýranna sem ekki sam-
ræmdust kröfum um dýravernd.
Þessu bréfi svaraði formaður
Sambands íslenskra loðdýrabænda
í grein í Fréttablaðinu 28. apríl
síðastliðinn. Í greininni gagnrýndi
hann málflutning Velbús harðlega og
taldi að þau gerðu rétt í að ræða við
loðdýrabændur og kynna sér þeirra
aðstæður áður en farið væri af stað
með málflutning sem ekki stæðist
skoðun, að hans mati.
Þau Sif og Róbert segja að
almennt hafi þau fengið góð við-
brögð við sínum málflutningi frá
bændum og búgreinafélögum.
„Fólk upplifir þetta kannski svo-
lítið sem árás en þegar það kynnir sér
hvað við erum að setja fram og við
fáum tækifæri til að ræða við bændur
hefur mér fundist að fólk taki okkar
málflutningi af skynsemi,“ segir Sif.
Þau vilja gjarnan þiggja boð loð-
dýrabænda um samræður og hafa
þá trú að þessir tveir hópar muni ná
skilningi á stöðu hvor annars ef þeir
setjast saman niður.
Peningar skipta máli
Velbú eru samtök um dýravelferð
eins og áður segir. Róbert segir hins
vegar að þau geri sér grein fyrir
því að peningar skipti miklu máli í
þeirri baráttu. „Það þýðir ekkert að
standa skrækjandi með skilti fyrir
framan bóndabýli og ætlast til þess
að bóndinn breyti aðbúnaði dýranna
þegar verðið sem hann fær fyrir sínar
afurðir ræður að bróðurpartinum því
sem hann getur gert til úrbóta. Það
sem þarf að gera er að skapa markað
þar sem neytendur kalla eftir bættum
aðbúnaði, vistvænum og lífrænum
vörum. Slíkum kröfum fylgir dýra-
velferð.“
Sif segir að Velbú vilji vinna með
framleiðendum. „Við erum ekki á
móti þeim og viljum hjálpa fram-
leiðendum til að bæta dýravelferð, til
að koma þeim vörum á markað og til
að fá hærra verð fyrir þær. Við höfum
reynt að ná eyrum búgreinafélaganna
og höfum átt mjög gagnlega fundi
með þeim.“
Þau benda á að staða búgreina
sé afar misjöfn og víða sé framleið-
endum stakkurinn þröngt skorinn í
breytingum á búum sínum í átt til
aukinnar velferðar dýranna. „Þetta
er til dæmis mjög erfitt í svínakjöts-
framleiðslunni. Það eina sem neyt-
andinn virðist horfa á er verðið og
hann vill þrýsta því neðar og neðar.
Eina leiðin fyrir framleiðendur er því
að taka tillit til þess og það kemur
óhjákvæmilega niður á gæðum og
velferð dýranna. Krafa neytenda
hefur verið lágt verð. Þegar er hins
vegar bara um eina vöru að ræða, ef
allt svínakjöt er í grunninn eins, þá er
auðvitað bara um eitt verð að ræða,“
segir Róbert.
Öfgarnar það sem er að í
dýravernd
Það skiptir öllu máli hvernig hlutirnir
eru settir fram, að mati Sifjar.
„Það næst enginn árangur nema
unnið sé með framleiðendum. Við í
Velbú segjum ekki, eins og til dæmis
PETA, [stærstu dýraverndarsamtök í
heimi, innsk. blm.] að allir eigi bara
að vera grænmetisætur. Það er bara
ekki hægt. Yfir níutíu prósent fólks er
kjötætur og vill vera það áfram. Við
erum það sjálf. Við viljum hins vegar
hafa val um að kaupa kjöt sem við
getum verið örugg um að sé af dýrum
sem hafa verið alin við viðunandi
aðstæður.“
„Við viljum ekki verða öfgasam-
tök. Það er það sem er að í dýravernd,
samtök eins og PETA. Þau gera
nokkuð sem flestum er náttúrulegt,
að hafa samúð með og bera góðan
hug til dýra, að einhverju hlægilegu
eða hallærislegu. Að halda því fram
að allir sem borði kjöt séu morðingjar
mun ekki vinna málstaðnum stuðn-
ing. Við viljum ástunda dýravernd
með skynsemi og samvinnu að
leiðarljósi,“ segir Róbert.
/fr
Róbert Heimir Helgason og Sif Traustadóttir stjórnarmenn í Velbúi.
Þýðir ekki að standa skrækjandi með skilti fyrir framan bændur, segir stjórnarmaður í Velbúi:
„Viljum ekki verða öfgasamtök“
- Dýravernd með skynsemi og samvinnu við framleiðendur að leiðarljósi
Í lok síðasta mánaðar var haldið
fjölmennt málþing í Norræna
húsinu þar sem fjallað var um
aðbúnað dýra í íslenskum land-
búnaði. Það var Norræna húsið
sjálft sem stóð fyrir þinginu en það
var haldið í kjölfarið á sýningunni
Manna sem fjallaði um tengsl
fæðu og umhverfis. Í kynningu á
fundinum kom fram að umræða
hefði sprottið upp um ýmsa van-
kanta á aðbúnaði og velferð dýra
í íslenskum landbúnaði. Meðal
gesta voru m.a. Jón Bjarnason,
sjávarútvegs- og landbúnaðarráð-
herra, sem ávarpaði samkomuna.
Fyrsti ræðumaður var Linda
Pétursdóttir, fyrrum alheimsfegurð-
ardrottning og eigandi Baðhússins,
en hún fjallaði um sjónarmið neyt-
enda til dýraverndar.
Hún sagðist vera mikill dýravinur
og hefði verið alla tíð. Nýlega hefði
hún tjáð sig um dýraverndarmál á
Netinu og vakið hörð viðbrögð.
Linda taldi mikilvægt að neytendur,
bændur og matvælaframleiðendur
tækju höndum saman til þess að dýr
gætu lifað lífi sínu á mannúðlegan
og náttúrulegan hátt.
Mikill tvískinnungur
í umræðunni
Ólafur R. Dýrmundsson hélt erindi
sem hann kallaði „Ódýr matur –
dýrkeypt blekking“. Ólafur, sem er
jafnframt landsráðunautur BÍ í líf-
rænum búskap, kom fram á fundinum
sem formaður Dýraverndarsambands
Íslands og talaði í þeirra nafni. Ólafur
sagði að ódýr matur væri dýrkeypt
blekking að því leyti að fórnarkostn-
aðurinn fælist m.a. í verri velferð
búfjár. Hann sagði mikinn tvískinn-
ung gæta í umræðunni um þessi mál.
Dæmi væri um að sama fólkið, annars
vegar, gerði kröfu um lægra matar-
verð og að búin stækki og hins vegar
að dýrin fái að njóta eðlislægs atferlis
við sem náttúrulegastar aðstæður líkt
og í lífrænt vottuðum búskap. Ólafur
taldi mikla þörf á aukinni umræðu og
mikilvægt væri að upplýsa neytendur
um landbúnað og endurvekja tengsl
á milli sveita og þéttbýlis.
Skiptar skoðanir um hvað
felst í velferð
Sif Traustadóttir dýralæknir sem
rætt er við hér á síðunni tók fyrir
uppeldi og líf búrhænsna í eggja-
framleiðslu. Hún sýndi myndir úr
hænsnabúum og útskýrði aðbúnað
sem hún taldi ekki til eftirbreytni.
Nefndi hún í því samhengi þröng búr,
skort á fersku lofti og dagsbirtu, að
fuglar geti ekki breytt úr vængjum
og þyrftu að standa á neti alla sína
tíð. Í umræðum á eftir erindum tók
Jarle Reiersen, dýralæknir alifugla
og starfsmaður Reykjagarðs, til máls
og mótmælti ýmsum fullyrðingum
Sifjar. Hann færði m.a. rök fyrir því
að „kannibalismi“ væri stærra vanda-
mál þar sem búra nyti ekki við og
baráttan við sjúkdóma skilaði meiri
árangri við þær aðstæður sem væru
á flestum hænsnabúum hérlendis þar
sem hænum er ekki hleypt undir bert
loft. Jarle benti jafnframt á að huga
þyrfti að velferð neytenda og hún
væri betur tryggð ef farið væri eftir
ströngum reglum um sjúkdómavarnir
á alifuglabúum.
Lokaerindið hélt Oddný Anna
Björnsdóttir en hún gerði að umtals-
efni lítið úrval af lífrænum vörum á
Íslandi. Á eftir hennar erindi spunnust
upp líflegar umræður en til þess að
svara spurningum gesta komu í pall-
borð, auk frummælenda, þeir Kristján
Oddsson bóndi á Neðra-Hálsi í Kjós
og Hörður Harðarson svínabóndi í
Laxárdal. Almennt voru umræður
málefnalegar á þinginu en bændur
voru þar áberandi ásamt dýralæknum
og öðru áhugafólki um dýravelferð.
/Myndir og texti: TB