Bændablaðið - 12.05.2011, Qupperneq 30

Bændablaðið - 12.05.2011, Qupperneq 30
30 Bændablaðið | fimmtudagur 12. maí 2011 Nokkur umræða hefur verið á undanförnu um skort á nýliðun í mjólkurframleiðslunni, ásamt fullyrðingum um að ógjörningur sé fyrir nýja aðila að hasla sér völl í greininni, því jarðir til mjólkur- framleiðslu séu svo óheyrilega dýrar. Þessar fullyrðingar hafa verið settar fram án nokkurs frekari rökstuðnings. Þá hefur það verið nefnt að engu sé líkara en að for- svarsmenn LK haldi að núverandi kúabændur séu eilífir og skortur sé á framtíðarsýn samtakanna í þessum efnum. Því er til að svara að það hefur ávallt verið stefna Landssambands kúabænda að nýliðun verði best tryggð, með því að afkoma greinarinnar sé með þeim hætti að hún sé samkeppnis- fær við aðrar atvinnugreinar um fólk og fjármagn. Kannski er eini raunverulegi nýliðunarvandinn nú um stundir sá að enginn vill fara út úr greininni. Einn reyndasti fasteignasali landsins í þessum efnum tjáði mér að honum væri ekki kunnugt um neitt kúabú þar sem raunverulegur söluvilji væri til staðar. Þá bendir framboð á greiðslumarki sem boðið var til sölu á kvótamarkaði þann 1.apríl sl. einnig eindregið til hins sama. Ég trúi ekki öðru en allir geti sam- mælst um að hver og einn eigi að vera sjálfráða um eigin búskapar- lok. En er endurnýjun stéttarinnar eitthvað erfiðari nú um stundir en oft áður? Ég man reyndar ekki eftir öðru en hrakspármenn hvers tíma hafa ávallt talið algerlega vonlaust fyrir efnalítið ungt fólk að hasla sér völl í mjólkurframleiðslu. Í þessum efnum hafa ýmsir starfandi bændur á hverjum tíma verið ein- hverjir ötulustu úrtölumennirnir. Það kveður því við nokkuð nýjan tón að nú séu það helst talsmenn ungbænda og ráðherra málaflokks- ins sem slíkan hræðsluáróður stunda. Það skal þó ekki dregið úr því að það hefur aldrei verið auðvelt að hefja búskap, en stað- reyndin er sem betur fer samt sú að í langflestum tilfellum hafa hlut- irnir gengið upp. Þetta er og hefur ávallt verið mikið átak sem getur vel gengið upp, ef fólk er reiðubúið að leggja á sig mikla vinnu. Ég held að áður en slíkar full- yrðingar eru settar fram sé rétt að skoða þessa hluti í sögulegu sam- hengi. Nærtækast er að líta í eigin rann, en undirritaður kom efnalítill inn í greinina á vordögum 1991 og keypti þá kúabú í fullum rekstri með 105 þúsund lítra greiðslumark af óskyldum aðila uppá 24 millj- ónir. Enn eru í fersku minni tölur úr rekstraráætlun þeirri sem lögð var til grundvallar kaupunum, en hún gerði ráð fyrir búgreinatekjum uppá 5.250 þús. krónur þannig að kaupverð jarðarinnar var ársveltan sinnum 4,6. Á þeirri jörð bjuggum við svo í níu ár, uns ákveðið var að flytja sig aðeins til og aftur var keypt kúabú í fullum rekstri með 140 þús.lítra greiðslumark, einnig af óskyldum aðila og í þetta sinn á 53 milljónir. Ársveltan á því búi hefur líkast til verið í kring um 11 milljónir og kaup- verðið því ársveltan sinnum 4,8. Mín tilfinning er sú, eftir að hafa fylgst með þessum markaði um árabil að í gegnum tíðina hafi þetta hlutfall oftast legið á bilinu 4-5 sinnum ársveltan fyrir þokkalega uppbyggðar jarðir. Auðvitað eru til einhverjar undantekningar frá þessu, svo sem þegar góðærið stóð sem hæst, en þá fór jarðaverð líkt og annað fasteignaverð í hæstu hæðir. Það er hinsvegar ekkert sem bendir til annars en það muni aftur ná fyrrgreindu jafnvægi. Þrátt fyrir að það kunni að vera ein- hverjum torskilið, þá er fjárfest- ing í mjólkurframleiðslu ekkert öðrvísi en fjárfesting í öðrum atvinnurekstri. Þeir sem fjárfesta í slíkum rekstri gera það í þeirri trú að fjárfestingin renti sig og gildir þá einu hvort viðkomandi á fjármagn til kaupanna eða þarf að byggja á lánsfé. Yfirleitt hafa hins- vegar vel uppbyggðar jarðir oftast nær selst á verði sem er langt innan við þau áþreifanlegu verðmæti sem að baki liggja. Að mínu mati er einn mikil- vægasti þátturinn í sambandi við nýliðun gott aðgengi að lánsfé á hagstæðum kjörum, þar er verk að vinna. Það þarf að koma fjármála- fyrirtækjum í skilning um að eitt- hvert albesta veð sem til er í veröld- inni er land og því ætti að vera hægt að lána út á land sérstaklega, á mun betri kjörum en út á margt annað. Illa ígrundaðar stjórnvaldsákvarð- anir um breytingar á starfsumhverfi sem og á þeim lagaramma, sem gildir um starfsemi af þessu tagi, geta því haft mjög neikvæð áhrif á nýliðun greinarinnar. Það verður til að mynda ekki betur séð en ef þau frumvarpsdrög um breytingar á jarða- og ábúðalögum sem kynnt voru nýlega nái fram að ganga muni þrengjast mjög um lánamöguleika með ófyrirsjáanlegum áhrifum á nýliðun og uppbyggingu á allri atvinnustarfsemi í sveitum landsins. Þess utan eru þessar fyrirhuguðu lagabreytingar einhver ótrúlegasta aðför síðari tíma að eignum og eignarrétti til sveita, en þeim verða ekki gerð frekari skil að þessu sinni. Raddir kúabænda Nýliðun í mjólkurframleiðslu Síðastliðin þrjú ár hefur mikil áhersla verið lögð á að bæta skýrsluhald í nautgriparækt. Stærstu áfangarnir í þeirri við- leitni eru eflaust tilkoma miðlæga skýrsluhaldskerfisins HUPPU og í kjölfarið gæðastýrt skýrsluhald í nautgriparækt. Nú þegar hvort tveggja hefur slitið barnsskónum er orðið tímabært að huga að því hvernig við getum gert enn betur og þannig byggt á þeim árangri sem náðst hefur. Skýrsluhaldið er grunnurinn að ræktunarstarfinu sem síðan á að skila okkur betri gripum til framleiðslunn- ar. Í gegnum skýrsluhaldið söfnum við upplýsingum um þá eiginleika sem við teljum verðmæta og viljum því leggja áherslu á að bæta. Þannig endurspeglar skýrsluhaldið í raun þau markmið sem við höfum sett okkur varðandi ræktun, og á það jafnt við um allar þær búfjártegundir sem við erum að vinna með. Kapp á að efla skýrsluhaldið Ræktunarmarkmið íslensku kýrinnar miða að því að ná fram afurðasömum, sterkbyggðum, endingargóðum og hraustum gripum. Til að ná þessum markmiðum hafa ýmsir eiginleikar verið skilgreindir, upplýsingum um þá safnað í gegnum skýrsluhaldið og niðurstöður úrvinnslu þeirra upp- lýsinga síðan notaðar til að leggja mat á hvaða gripir það eru sem við teljum æskilegt að nota til að búa til næstu kynslóð. Það þarf þó alltaf að hafa það í huga að öryggi matsins er aldrei meira en gæði gagnanna sem liggja því til grundvallar og þá erum við komin að mikilvægi þess að leggja allt kapp á að efla skýrslu- haldið eins og okkur frekast er unnt. Margvíslegar aðferðir eru mögu- legar til að ná betra og öruggara mati á kynbótagildi gripanna. Við getum tekið einstaka eiginleika, fundið nýjar og betri leiðir til að meta þá og þannig náð betur að fanga hvaða gripir eru eftirsóttir til undaneldis og hverjir ekki. Nýjar nálganir við úrvinnslu gagnanna og öflugri reikni- aðferðir geta líka hjálpað okkur og nú hefur erfðatæknin opnað möguleika á því að skoða raunverulega sam- setningu erfðavísa einstakra gripa og nýta í kynbótastarfið. Rúmlega 600 bændur eru skráðir í skýrsluhald í nautgriparækt, sem eru tæp 90% þeirra sem framleiða mjólk á Íslandi. Þegar unnið er með smáan erfðahóp líkt og í tilfelli íslensku kýrinnar er mikilvægt að virkja sem flesta gripi inn í ræktunarstarfið í gegnum skýrsluhaldið. Mikið hefur verið rætt um þann skaða sem hlýst af notkun heimanauta og hvaða áhrif mikil heimanautanotkun íslenskra bænda hefur á mögulegar framfarir í ræktunarstarfinu, en það er ljóst að hér eigum við líka óplægðan akur því gripir á þessum búum standa algerlega fyrir utan ræktunarstarfið. Það er ánægjulegt að sjá og finna mikinn áhuga bænda á ræktunar- málum. Menn hafa ákveðnar skoð- anir og hika ekki við að koma þeim á framfæri. Þannig náum við líka best að skapa umræðu og virkja alla til að taka þátt í ræktunarstarfinu. Við viljum leggja allt kapp á að auka öryggi afkvæmadóma nautanna og skoða nýja möguleika á að meta þá eiginleika sem við teljum verðmæta. Til þess þurfum við að fá sem flesta gripi virka inn í skýrsluhaldið. Það getur oft verið gaman að leika sér með tölur. Við höfum gjarnan haldið því á lofti að ef við náum að útrýma þessari miklu notkun heim- anauta, þá gætum við bæði stækkað afkvæmahópa hvers nauts sem kemur til dóms og fjölgað þeim naut- um sem hægt er að afkvæmaprófa með nægjanlegu öryggi. Nú liggur nýtt kynbótamat fyrir í nautgripa- rækt. Fagráð í nautgriparækt mun fjalla um niðurstöður afkvæma- dóms nautaárgangs 2005 en það er ljóst að eins og svo oft áður erum við ekki með nægjanlegan fjölda dætra bak við öll nautin til að geta tekið ákvörðun um áframhaldandi notkun þeirra. Því þurfa þau naut að bíða endanlegs dóms þar til frekari upplýsingar hafa safnast um dætur þeirra en eðli málsins samkvæmt tefur þetta framkvæmd kynbótastarfsins og þar með erfða- framfarir. Getum við eflt ræktunarstarfið enn frekar? Með því að fá fleiri bændur inn í skýrsluhaldið getum við eflt rækt- unarstarfið enn frekar og komist nær því að ná mestu mögulegu framförum í þeim eiginleikum sem við ræktum fyrir. Gæðastýrt skýrsluhald í nautgriparækt var fyrsta skrefið í þá átt að launa bændum fyrir að ástunda góð vinnubrögð í skýrsluhaldi. Það þekkist t.d. í Noregi að skýrslu- haldsbændur fái hærra verð fyrir framleiðslu sína en þeir sem kjósa að standa fyrir utan ræktunar- starfið. Ræktunarstarf í íslenskri nautgriparækt er rekið fyrir fé úr sameiginlegum sjóðum. Á tímum niðurskurðar kemur eðlilega upp sú spurning hvort rétt sé að allir njóti sama réttar til að nýta sér ávinning ræktunarstarfsins, hvort sem þeir leggja eitthvað af mörk- um til þess eða ekki. Við eigum augljósa möguleika á að efla ræktunarstarfið enn frekar með því að bæta skýrsluhalds- þátttöku. Þá hefur hér ekki verið minnst á skýrsluhaldið sem öflugt tól fyrir bóndann í stjórn búsins, sem það að sjálfsögðu er. Með tilkomu HUPPU skýrslu- haldskerfis í nautgriparækt hefur aðgengi bænda að skýrsluhalds- upplýsingum verið aukið til muna, skráningar upplýsinga eru nú í mun meira mæli í höndum bænda sjálfra. Þá eru nýjustu upplýsingar um hjörð- ina nú aðgengilegar bændum inni í kerfinu hvenær sem menn vilja nálgast þær. Ég vil hvetja þá bændur, sem ekki eru nú þegar þátttakendur í skýrsluhaldi í nautgriparækt, til að kynna sér málið. Ávinningur þátt- töku er ótvíræður, hvort sem horft er á upplýsingasöfnun fyrir búrekstur- inn eða eflingu hins sameiginlega ræktunarstarfs sem allir njóta síðan góðs af. Hægt er að hafa samband við nautgriparæktarráðunauta BÍ eða héraðsráðunauta viðkomandi bún- aðarsambands til að fá aðstoð við að hefja skýrsluhald. Skýrsluhaldið er grunnurinn að ræktunarstarfinu Fjóstíran Líf og starf Ráðunautur í nautgriparækt Gunnfríður E. Hreiðarsdóttir Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey 2, stjórnarmaður í LK Síðastliðið haust kom í ljós að bæði fóður og afurðir frá bæjum í Engidal í Skutulsfirði voru meng- aðar af díoxíni en allt bendir til þess að mengunina megi rekja til sorpbrennslustöðvarinnar Funa. Í apríl síðastliðnum var síðan kynnt áfangaskýrsla sérfræðihóps á vegum Matvælastofnunar um áhrif díoxínmengunar á framtíð búskapar í Engidal í Skutulsfirði. Niðurstaða sérfræðihópsins var sú að óráðlegt væri að stunda búskap á svæðinu þar til rann- sóknarniðurstöður sýndu að það væri í lagi. Síðan þá hefur öllu búfé á tveimur bæjum í dalnum verið slátrað. Það er ljóst að málið er alvarlegt og hefur gríðarleg áhrif. Allt frá því málið kom fyrst upp hefur þögn umhverfisráðherra verið æpandi en mengunarmál heyra undir hennar ráðuneyti. Fjölmargir aðrir aðilar hafa haft af því frumkvæði að veita málinu brautargengi, þ.á m.. Bændasamtökin, Matvælastofnun, sjávarútvegs- og landbúnaðar- ráðuneytið, Mjólkursamsalan og Alþingismenn. En umhverfisráð- herra hefur kosið að halda sig til hlés. Ef til vill er það vegna þess hversu óþægilegt málið er fyrir hana persónulega sem og stjórnsýslu þá sem heyrir undir hennar ráðuneyti. Þegar ísbjörn gekk á land í Hælavík á Hornströndum í apríl var umhverfisráðherra ekki lengi að koma sér í sviðsljósið með því að fara fram á rannsókn á tíðum heimsóknum ísbjarna til Íslands. Hún óskaði eftir greinargerð frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Veðurstofunni og öðrum sérfræðingum. Þessi vinnu- brögð hljóta að sæta mikilli furðu. Umhverfisráðherra þegir þegar upp kemur alvarlegt mengunarslys sem hefur áhrif á bændur, fjölskyldur þeirra og skapar óvissu um fram- tíð búskapar á stóru svæði. Þegar ísbjörn gengur á land, sem varla geta talist stór tíðindi, hleypur hún hins vegar upp til handa og fóta. Öll spjót beinast að umhverfis- ráðuneytinu sem veitti hinum bóta- skylda aðila starfsleyfi auk þess sem mengunarmál heyra undir það ráðuneyti. Umhverfisráðherra fær falleinkunn fyrir frammistöðu sína í þessu máli en meðaleinkunn hennar í málum er snerta bændur og búskap verður þó varla fyrir miklu tjóni. Elías Blöndal Guðjónsson lögfræðingur Bændasamtaka Íslands elias@bondi.is Ekki benda á mig II

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.