Vísbending


Vísbending - 14.12.2009, Blaðsíða 4

Vísbending - 14.12.2009, Blaðsíða 4
Aðrir sálmar VíSBENDING______________ w Aðlögun Islands að alþjóðlegri efnahagssamvinnu að lokinni síðari heimsstyrjöld Jónas H. Haralz hagfræðingur r Arið 1935. í heimskreppunni miðri, starfaði þekktur sænskur hagfræðingur, Erik Lundberg, að nafni, um nokkurt skeið hér á landi á vegum Skipulagsnefndar atvinnumála. I tímaritsgrein sem hann skrifaði um veru sína benti hann á að aðgerðir til að komast út úr kreppunni miðuðust hvarvetna við hvert þjóðríki um sig, en næðu ekki til alþjóðlegra samskipta. Þetta væri sérstaklega bagalegt fyrir lítið land eins og ísland. f raun væri eina raunverulega lausnin á vanda fslands sú að eðlileg verkaskipting kæmist á þjóða á milli með samkomulagi um frjáls viðskipti. Þess gæti þó orðið langt að bíða að slík skipan kæmist á. Þessi ábending fól vissulega í sér kjarna málsins. Þess hefði því mátt vænta að íslendingar gripu fegins hendi þau færi til alþjóðlegrar samvinnu um viðskipti og skipan gjaldeyrismála sem komu til sögunnar í lok styrjaldarinnar og á árunum þar á eftir. Þegar árið 1944 efndu Bretar og Bandaríkjamenn til fundar með bandamönnum sínum um skipulag gjaldeyrismála og alþjóðlegra fjármála í Bretton Woods í Bandaríkjunum, en sá fundur leiddi til stofnunar Alþjóðgjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Almennt samkomulag um viðskipta- og tollamál er svo gert á alþjóðlegum grundvelli á ráðstefnu í Havanna árið 1948 og alþjóðastofnunin GATT (nú WTO) sett á fór til þess að fylgja þeim málum eftir. Um sama leyti hefst náin samvinna Evrópuríkja um aukningu viðskipta undir forustu Bandaríkjamanna sem lögðu því máli lið með ríflegum fjárhagslegum stuðningi, Marshallaðstoðinni. Um leið er sett á fót sérstök stofnun, Efna- hagssamvinnustofnun Evrópu, OEEC, sem fylgdi eftir samkomulagi um afnám gjaldeyris- og viðskiptahafta í áföngum. (Þeirri stofnun var síðar breytt í Efna- hags- og framfarastofnunina, OECD). Af þessum grunni sprettur svo æ nánari viðskiptaleg samvinna innan Evrópu sem leiðir til Rómarsamningsins og sameiginlegs markaðar sexveldanna svo nefndu árið 1956, sem var upphaf Evrópusambandsins, og til Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) árið 1959, eftir að tilraunir til að ná samstöðu um ein samtök fyrir alla álfuna höfðu mistekist. Það stóð íslendingum opið að taka þátt í þessari þróun. Þeir áttu fulltrúa á Bretton Woods fundinum og gerðust aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en völdu í sparnaðarskyni að halda hlut sínum í sjóðnum, hinum svokallaða kvóta, í slíku lágmarki að aðildin gat ekki komið að raunverulegum notum. Auk þess var tillögum stjórnar sjóðsins um skráningu gengis, sem hann gerði til allra aðildarríkja sinna, með öllu vísað á bug hér á landi. Sömuleiðis áttu íslendingar fulltrúa á stofnfundi GATT, en höfnuðu aðild að samtökunum. Þegar Marshallaðstoðin kom til sögunnar voru Islendingar með í leiknum. Þeir gerðust aðilar að OEEC og þáðu fjárhagslega aðstoð sem beint var til ýmis konar verklegra framkvæmda, en veigruðu sér hins vegar við skuldbindingar um afnám gjaldeyris- og viðskiptahafta. Þeir tóku einnig þátt í viðræðum um viðskiptasamvinnu sem haldnar voru á vegum OEEC, en freistuðu ekki inngöngu í EFTA, sem raunar hefði ekki getað komið til sögunnar á þessum tíma vegna deilunnar um fiskveiðilögsöguna. Þegar leið að lokum sjötta áratugarins stóðu Islendingar því enn í svipuðum sporum og þeir höfðu staðið fyrir styrjöldina. Ströng viðskipta- og gjald- eyrishöft voru í gildi, viðskipti byggðust að miklu leyti á tvíhliða samningum, íslenska krónan var ekki gjaldgeng mynt og lánstraust erlendis var ekki fyrir hendi. Á þessu verður ekki breyting fyrr en með hinni svokölluðu viðreisn árið 1960. Fullt samstarf er þá tekið upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og OEEC, gengi krónunnar er leiðrétt og gjaldeyris- og innflutningshöft afnumin. Viðræður við GATT hefjast árið 1961 og leiða til bráðabirgðaaðildar 1964 og fullrar aðildar 1967. Tengslin við EFTA og Sameiginlega markaðinn koma til ítarlegra viðræðna frá og með árinu 1961, og leiða til aðildar að EFTA árið 1970. Má þá heita að þeirra umþóttun gengis- gjaldeyris- og viðskiptamála væri lokið hér é landi sem aðrar þjóðir Vestur-Evrópu höfðu hrint í framkvæmd á fyrstu tíu til fimmtán árunum eftir styrjöldina en tekið hafði tuttugu og fimm ár á íslandi. Q Gengiö til góðs? r Arinu er að Ijúka og margir hljóta að spyrja sig hvort árið hafi verið gott. Árferði hefur verið bærilegt. Veður var gott, að minnsta kosti á Suðvesturhorni landsins. Aflabrögð voru allgóð, þó að af einstaka tegund veiddist minna en áður. Engin voru eldgos á landinu eða jarðskjálftar. I útlöndum hófust ekki nýjar stórstyrjaldir, en þær sem mest er um rætt, í írak og Afganistan, virðast svipaðar og í byrjun árs. Svínaflensan var ógnvekjandi í byrjun, en enn sem komið er hefur henni verið haldið þokkalega vel í skefjum. Ekki er víst að allt sé búið enn. Nýr forseti tók við í Bandaríkjunum og í árslok eru menn smám saman að átta sig á því að hann er ekki guð almáttugur. A Islandi tók við ný ríkisstjórn sem státar sig helst af því að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í henni. Önnur afrek hennar eru ekki minnisstæð. Þó væri ósanngjarnt að segja að hún hefði ekkert gert. Verkefnalistinn er langur, en hefur þó heldur styst frá því í byrjun árs. Það veldur vonbrigðum að enginn stjórnmálamaður hefur nýtt sér þetta einstaka tækifæri til þess að lyfta sér upp úr hópnum og segja það sem þjóðin þarf að heyra, í stað þess að segja það sem hún vill heyra. Samsæriskenningar kvikna sem aldrei fyrr. Rithöfundar nota hrunið sem efnivið. Sumir hafa það sem umgjörð um skáldsögur, aðrir búa til kenningar um það hvers vegna Island er nú kennslubókardæmi um mistök í hagstjórn. Einfaldast er að kenna einhverjum um. Sökudólgur i SeSlabankanum hljómar vel vegna stuðlasetningar. I flestum sakamála- sögum er aðeins einn höfuðpaur. Aðrir telja að hrunið hljód að vera samantekin ráð margra útlendinga. Enginn Islend- ingur hefði verið svona vondur við þjóðina. Fáir vilja viðurkenna að sökin liggur víða, ekki bara hjá þeim sem fóru illa með fé annarra, eða þeim sem áttu að gæta þess að það yrði ekki gert. Þeir sem ekkert sögðu þegar vitleysan blasti við og hinir, sem ekki hlustuðu þegar gagnrýnisraddir heyrðust, bera líka ábyrgð. Mistökum fortíðarinnar verður þó ekki breytt, en það er hægt að forðast frekari villur í nútíð og framtíð. bj Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Benedikt Jóhannesson Útgefandi: Heimur hf., Borgartúni 23,105 Rvík. Sími: 512 7575. Myndsendin 561 8646. Netfong: visbending@heimur.is. Prentun: Heimur. Upplag: 700 eintök. Öll réttindi áskilin. © Ritið má ekki afrita án leyfis útgefanda. 4 VÍSBENDING • 49 TBL. 2 0 0 9

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.