Dagblaðið Vísir - DV - 28.03.2007, Blaðsíða 19

Dagblaðið Vísir - DV - 28.03.2007, Blaðsíða 19
Íslendingar eru dugnaðarforkar. Atvinnuþátttaka er með hærra móti og atvinnuleysi er lítið. Samkvæmt Eur- ostat voru 83,8% Íslendingar á aldrinum 15 til 64 ára í launaðri vinnu árið 2005. Meðaltal Evrópusambands- ins það sama ár var 63,4%. Samkvæmt sömu stofnun voru 80,5% íslenskra kvenna á umræddum aldri í laun- aðri vinnu. Slík atvinnuþátttaka kvenna er einsdæmi á Vesturlöndum, en meðaltalið í Evrópusambandinu var 56%. Og auðvitað er það ekki bara þannig að hátt hlut- fall þjóðarinnar stundi launaða vinnu heldur vinnum við fleiri stundir á viku að jafnaði en fólkið í þeim löndum sem við berum okkur oftast saman við og það á við um bæði kynin. Vinnan hindrar ekki barneignir Þegar þarf að skýra lækkandi fæðingatíðni á Vesturlönd- um á undanförnum árum grípa félagvísindamenn og hag- spekingar gjarnan til atvinnuþátttöku kvenna. Aukin tæki- færi kvenna á vinnumarkaði leiðir til þess að fleiri konur kjósa að vinna meira og eignast færri börn. Ef til vill á þessi skýring við einhversstaðar, en hún virðist ekki eiga við á Ís- landi. Þrátt fyrir að mikla vinnumarkaðsþátttöku og mik- ið vinnuálag beggja kynja á Íslandi eru Íslendingar næst frjósamasta þjóð Evrópu. Samkvæmt Eurostat mætti ætla að gefnum vissum for- sendum að hver núlifandi íslensk kona muni að meðaltali geta af sér 2,05 börn. Meðaltal Evrópusambandsins er 1,52 börn, en aðeins Tyrkir eru með hærri áætlaða frjósemi, eða 2,19 börn á hverja núlifandi konu. Við látum vinnuna ekki standa í vegi fyrir því að við fjölgum okkur. Þessi mikli dugnaður hefur líka skilað okkur meiru en því að sigra í tölfræðilegum samanburðum á vinnu- og frjósemi. Íslendingar búa við mikla hagsæld. Þjóðartekjur Íslendinga á mann eru með því hæsta sem gerist. Á Íslandi hafa ansi mörg okkar það ansi gott þegar horft er til efn- islegra lífsgæða. Lífslíkur nýfæddra Íslendinga eru í hærra lagi, eða tæp 83 ár (samanborið við til dæmis lífslíkur í Tyrklandi þar sem lífslíkur nýbura eru ekki nema um 73,6 ár, sem er það lægsta sem gerist innan OECD ríkjanna). Ungbarnadauði er sá allra lægsti innan OECD, eða 2,2 ungabörn á hver 1000 árið 2002. Meðaltal OECD ríkjanna var 6,6 ungabörn af hverjum 1000. Þess má geta að tíðni ungbarnadauða fyrir hver 1.000 börn er 21,6 barn í Mexíkó og 39,4 í Tyrklandi, sem er töluvert hærra en í næstu lönd- um á eftir. Þær upplýsingar sem koma fram í þessari máls- grein má allar finna í Society at a Glance skýrslum OECD frá árunum 2005 og 2006, en að auki má geta að rannsókn- ir á ánægju fólks með lífið benda til þess að Íslendingar séu ein hamingjusamasta þjóð í heimi. Staðreynd málsins er að það er bara skrambi gott að vera Íslendingur sem býr á Íslandi. Tíð sjálfsvíg Í fljótu bragði virðist engin ástæða til að setja spurn- ingamerki við hvernig Íslendingar haga lífi sínu. Við vinn- um mikið og höfum það fínt. En það er alltaf fórnarkostn- aður sem einhver verður að bera. Í skýrslu OECD Society at a Glance fyrir árið 2005 kemur fram að sjálfsvígstíðni á Íslandi er í hærra lagi. Sú áttunda hæsta innan OECD. Það sem er meira sláandi að þegar kemur að sjálfsmorðstíðni ungmenna (5 til 24 ára) þá er Ísland í því hlutverki sem Tyrkland og Mexíkó eru í hvað varðar ungbarnadauða. Árið 2000 sviptu 1,6% einstaklingar á umræddum aldri sjálfa sig lífi á Íslandi. Meðaltal OECD ríkjanna var 0,56% og í Finnlandi, það land sem nýtur þess vafasama heiðurs að vera næst okkur innan OECD, var tíðnin 0,95%. Forskot Íslendinga er nokkuð afgerandi. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá tengslin á milli vinnuálags foreldra og sjálfsvígstíðni ungmenna. Spurningin er auðvitað hvort sjálfsvígstíðni ungmenna er ástæða til að draga úr vinnuálagi. 1,6% er þrátt fyrir allt bara um það bil eitt af hverjum 63 börnum. Það er spurn- ing sem félagsvísindin geta ekki svarað. Hagfræðingar hafa hinsvegar gefið okkur tæki til að setja svona spurningar í samhengi. Erlendir hagfræðingar nota stundum svokallaða að- hvarfsgreiningu til að reikna verðgildi ýmissa aðstæðna og atburða með því að meta hvað það myndi þurfa að greiða meðal einstaklingi mikið til að hann næði fyrra ham- ingjustigi eftir að hafa orðið fyrir áfalli. Það er áhugavert að spyrja sig hvað meðal einstaklingurinn þarf að vinna margar klukkustundir á viku til viðbótar til að afla tekna til bæta sér barnsmissi. Þetta er spurning sem hagfræðingar geta í raun ekki svarað. Þetta er spurning sem hver og einn verður að svara fyrir sig. Auður og afl og hús ... Kjallari DV Umræða miðvikudagur 28. mars 2007 19 kolbeinn hólmar sTefánsson félagsfræðingur skrifar „Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá tengslin á milli vinnuá- lags foreldra og sjálfs- vígstíðni ungmenna.“ Hrund skrifar: Af hverju atvinnuleysi? Það eru fáir á atvinnuleysisskrá en ég spyr hverjir eru það? Á nán- ast öllum vinnustöðum sem ég þekki til á, vantar fólk í vinnu og það er ekki bara í Reykjavík heldur víða úti á landi líka. Er bara ekki hægt að hreinsa upp þessa skrá núna, ekki veitir af því að fá fleira fólk til vinnu. Útlendingar hafa streymt hingað til lands og bjargað málunum að hluta en það dugir ekki einu sinni til. Þeir sem nenna að vinna fá vinnu því skil ég ekki af hverju þeir sem ekki nenna að vinna fá endalaust borgað fyrir það. Fyrir nokkrum árum hélt ég að ég þyrfti að skrá mig atvinnulausa eft- ir að hafa hætt í vinnu þar sem laun voru ekki greidd. Mér fannst það svakalegt að vera í alvörunni á leið á atvinnuleysisbætur. Ég mætti á nám- skeið sem fólk þarf að sitja til að geta skráð sig og þegar því var lokið tóku við langar biðraðir þar sem skrán- ing atvinnulausra fór fram. Þar sem ég var ekki í vinnu ákvað ég að bíða ekki í röðinni heldur að koma aft- ur seinna um daginn, ekki vantaði mig tíma. Minna en klukkutíma síð- ar var ég kominn með vinnu og byrj- aði samdægurs og ég hef ekki verið í vandræðum með að fá vinnu síðan. Er þetta ekki bara spurningin um að vilja og nenna að vinna. Andrés hafði samband: Ríkisvændishús Fréttin um ráðvilltu karlhóruna í miðborg Reykjavíkur um helgina hreyfði við mér. Það virðist augljóst að eftir lögleiðingu vændis á Íslandi verði ríkissjóður og fjármálaráðherra einu hugsanlegu dólgarnir í þessu samhengi. Eina leiðin til þess að fría Árna Mathiesen ábyrgð í þessu máli er að vændiskarlar og -konur fái að stunda sín viðskipti án skattlagning- ar. Það væri kannski réttlátt, miðað við að það er almennt viðurkennt að fólk stundi aðeins vændi í mikilli fjárhags- og félagslegri neyð. Hin leiðin væri að fría ríkið ábyrgð í málinu með sérstökum lögum. Þá gæti ríkið tekið að sér að reka vændishús þar sem skilyrði um hollustu, heilbrigði og vinnuvernd væru uppfyllt. lESENDUr Staðsetning ráðstefnunnar eða fundarins er ekki síður mikilvæg en fyrsta flokks aðbúnaður og þjónusta.Við bjóðum allt þetta; frábæra staðsetningu í hjarta borgarinnar, þrjá glæsilega sali með öllum nauðsynlegum tæknibúnaði og fyrirtaks veisluþjónustu. Kynntu þér þjónustu okkar og skoðaðu matseðla á www.veislukompaniid.is eða hringdu í síma 517 5020 og veislan er í höfn! Fundur í miðborginni Lækjargötu 2a 101 Reykjavík s 517 5020 www.veislukompaniid.is F í t o n / S Í A

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.