Morgunblaðið - 02.02.2012, Qupperneq 4
HANDBOLTI
Guðmundur Hilmarsson
gummih@mbl.is
Færeyska handknattleiksliðið
Neistin í Færeyjum skartar nú ís-
lenskum bræðrum í liði sínu. Finn-
ur Hansson hefur leikið með því
síðustu árin en í vikunni gekk bróð-
ir hans, Daníel, í raðir félagsins.
Hann verður í láni hjá færeyska
liðinu frá Íslandsmeisturum FH út
tímabilið en Daníel kom til FH frá
Stjörnunni síðastliðið sumar.
Finnur er 32 ára gamall og leik-
ur í stöðu skyttu en Daníel er 21
árs gamall hornamaður. Báðir eru
þeir synir Hans Guðmundssonar
sem gerði garðinn frægan með
FH-ingum á árum áður og lék 32
leiki með íslenska A-landsliðinu þar
sem hann skoraði 105 mörk.
Kom fyrst til Færeyja
fyrir 14 árum
Finnur er orðinn öllu vanur í
Færeyjum en 14 ár eru liðin frá
því hann kom fyrst til eyjanna.
Hann hefur komið heim til Íslands
í stuttan tíma tvívegis á þessum
tíma og spilað með FH en hann
hefur spilað með fjórum liðum í
Færeyjum og með þeim öllum hef-
ur hann orðið meistari, annað hvort
landsmeistari eða bikarmeistari.
Finnur ákvað að taka upp færeyskt
ríkisfang og var þá í kjölfarið val-
inn í færeyska landsliðið. Hann
hefur spilað 14 landsleiki fyrir
Færeyjar og lék til að mynda með
Færeyingum í undankeppni fyrir
HM 2011.
Finnur er á sínu fimmta ári í
herbúðum Neistans en hann hefur
einnig leikið með Kyndli, H-71 og
Strandar Íþróttafélagi. Finnur og
félagar hans í Neistanum hafa
hampað færeyska meistaratitlinum
síðustu tvö árin og hann varð einn-
ig meistari með liði Kyndils og bik-
armeistari með liðum H71 og
Strandar Íþróttafélagi. Þess má
geta að karl faðir hans lék með liði
H71 á sínum tíma.
„Ég er bara virkilega ánægður
hér í Færeyjum,“ sagði Finnur við
Morgunblaðið en hann starfar sem
sölumaður samhliða því að spila
með liði Neistans.
Sló út gamla lið sitt og pabba
Finnur er ánægður með að hafa
fengið bróður sinn í liðið en þeir
eru samfeðra.
„Daníel er örvhentur hornamað-
ur. Við vorum búnir að vera í vand-
ræðum með þessa stöðu og þegar
hann kláraði skólann nú um ára-
mótin þá hafði ég samband við FH-
ingana og spurði hvort við gætum
ekki fengið hann að láni. Þeir voru
til í það og nú er hann byrjaður að
spila með okkur og ég veit að hann
á eftir að standa sig vel,“ sagði
Finnur.
Fyrsti leikur Daníels með liði
Neistans var undanúrslitaleikur í
bikarnum um síðustu helgi þar sem
Neistin sló út H71, gamla lið Finns
og föður hans. Neistin er því komið
í úrslit í bikarkeppninni og er sem
stendur í þriðja sæti í deildinni.
„Við byrjuðum mótið illa en við
höfum verið að sækja í okkur veðr-
ið og við stefnum á að ná öðru sæt-
inu og komast í úrslit um meist-
aratitilinn en tvö efstu liðin eftir
deildakeppnina leika til úrslita,“
sagði Finnur.
KÍF frá Kollafirði er langefst í
færeysku úrvalsdeildinni með 24
stig en VÍF frá Vestmanna og
Neistin eru með 15 stig og H71 er
með 14 stig. Sjö lið leika í deildinni
sem er sú efsta af þremur í Fær-
eyjum.
Neistinn tók þátt í Evr-
ópukeppninni í haust. Liðið sló út
Latsia frá Kýpur í 1. umferð EHF-
keppninnar, vann 30:17 á Kýpur og
37:25 í Þórshöfn, en féll úr leik fyr-
ir portúgalska liðinu Madeira SAD
í 2. umferðinni. Tapaði þá 20:34 í
Þórshöfn og 17:31 á eyjunni Ma-
deira.
Barnabarn Bigga Björns
Handboltinn er Finni í blóð bor-
inn. Eins og áður segir var faðir
hans, Hans Guðmundsson, sig-
ursæll í liði FH auk þess sem hann
lék í nokkur ár með landsliðinu og
var atvinnumaður á Spáni um tíma.
Móðir hans, Sólveig Birgisdóttir,
lék með meistaraflokki FH í mörg
ár og afi hans, Birgir Björnsson,
lék 500 leiki með FH og lék með
landsliðinu ásamt því að þjálfa það
en Birgir lést á síðasta ári.
Spurður hvar handboltinn í Fær-
eyjum standi í samanburði við bolt-
ann á Íslandi sagði Finnur; „Það
hafa orðið miklar framfarir hér en
ég myndi segja að bestu liðin væru
líklega að berjast í neðri hlutanum
í úrvalsdeildinni heima á Íslandi.
Við höfum síðustu árin komið til Ís-
lands og spilað á opna Reykjavík-
urmótinu og Ragnarsmótinu og
höfum verið að standa í íslensku
liðunum,“ sagði Finnur, sem er bú-
settur í Miðvogi og á þar eiginkonu
og fjögur börn.
Gat ekki hafnað þessu boði
Spurður út færeyska landsliðið
sagði Finnur; „Færeyingar vildu fá
mig til að spila með landsliðinu í
undankeppni fyrir HM 2011 og ég
gat ekki hafnað því boði. Þetta var
það eina sem ég átti eftir að prófa
á ferlinum,“ sagði Finnur en Fær-
eyingar voru í riðli með Svisslend-
ingum, Kýpurbúum og Hvít-
Rússum og höfnuðu í neðsta sæti.
Finnur fékk
bróður sinn til
færeysku
meistaranna
Finnur og Daníel Hanssynir spila með
Neistanum Finnur fékk færeyskt rík-
isfang og spilar með landsliðinu
Bræður Daníel Hansson og Finnur Hansson eru nú orðnir samherjar með Neistanum í Þórshöfn.
4 ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. FEBRÚAR 2012
FRJÁLSAR
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
FH-ingurinn Bergur Ingi Pétursson, Íslandsmethafi í
sleggjukasti, leggur nú drög að því að flytjast tíma-
bundið til Svíþjóðar. Bergur hefur sett stefnuna á að
gera atlögu að ólympíulágmarkinu í greininni og hefur
hug á því að einbeita sér að æfingum og keppni á
árinu.
„Ég ætla að reyna að komast til Svíþjóðar og hefja
þar æfingar á fullu. Vonandi kemst ég í keppnisform til
þess að ná lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana. Ef mér
tekst að fjármagna dæmið mun ég fara sem fyrst og
það væri draumur að komast strax út í næstu viku,“
sagði Bergur í samtali við Morgunblaðið í gær
Ef áætlanir hans ganga eftir mun hann dvelja í bæn-
um Växjö í suðurhluta Svíþjóðar, en þar er sjöþraut-
arkonan Helga Margrét Þorsteinsdóttir einnig búsett
og stundar æfingar.
Bergur kemur þá til með að æfa undir handleiðslu
sænska þjálfarans Pers Karlssons sem er fyrrverandi
sleggjukastari og á best 75,78 metra. „Þetta lítur allt
saman ansi vel út og það er bara spurning hvort pen-
ingamálin gangi upp,“ sagði Bergur ennfremur.
Fór í speglun á hné
Íslandsmet Bergs er 74,48 metrar sem hann setti í
Hafnarfirði vorið 2008 og fór í kjölfarið á Ólympíu-
leikana í Peking en lágmarkið er 74 metrar. Að sögn
Bergs mun það taka hann nokkra mánuði að komast í
keppnisform þar sem hann er að jafna sig af meiðslum.
Ef allt gengur eftir er hann bjartsýnn á að geta gert at-
lögu að lágmarkinu í sumar en hann hefur tíma til 17.
júlí til að ná lágmarkinu. Bergur greindist með brjósk-
los í baki síðasta vetur og síðasta sumar kom í ljós að
liðþófi í hnénu var skaddaður og hann náði ekki að ljúka
tímabilinu síðasta haust af þeim sökum.
„Heilsan er virkilega góð. Ég myndi segja að ég væri
búinn að ná mér í bakinu og ég er byrjaður að lyfta lóð-
um á ný. Á næstunni ætti ég að geta byrjað að kasta af
einhverju viti. Þetta lítur því rosalega vel út,“ sagði
Bergur en hann fór í speglun á hné í október. „Það kom
rifa í liðþófann en í spegluninni kom í ljós að þetta hafði
verið lengur til staðar en ég gerði mér grein fyrir og
fyrir vikið hafði brotnað upp úr brjóski. Í aðgerðinni var
þetta allt þrifið upp,“ sagði Bergur Ingi Pétursson.
Bergur til Svíþjóðar?
Vill komast aftur í keppnisform og gera atlögu að ólympíu-
lágmarkinu Verður þá undir leiðsögn Pers Karlssons í Växjö
Morgunblaðið/Eggert
Heill Bergur Ingi Pétursson hefur barist við meiðsli í baki og hné und-
anfarin misseri en er nú tilbúinn í baráttuna um ólympíusæti.