Morgunblaðið - 22.08.2012, Síða 21

Morgunblaðið - 22.08.2012, Síða 21
21 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 22. ÁGÚST 2012 Grasagarðurinn Þær voru hvorki á hjóli né með hund í bandi en Íslandsbók og kort komu í góðar þarfir þegar ákveða þurfti næstu skref í ferðalaginu um Laugardalinn í Reykjavík. Kristinn Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylk- ingarinnar og fyrrver- andi ráðherra, hefur haldið því fram að þeir sem hafni því að Evr- ópusambandið sé lausn flestra vandamála á Ís- landi, þurfi að koma með plan B. Með því viðurkennir Árni Páll að Samfylkingin hefur lítið annað fram að færa í íslenskum stjórnmálum eða efnahagsmálum en aðild að Evrópusambandinu og upp- töku evru. Sú spurning er því áleitin fyrir hvað Samfylkingin ætlar að standa og berjast fyrir þegar lands- menn hafa formlega gert Brussel- drauminn að engu. Í viðtali við Morgunblaðið 14. ágúst síðastliðinn lýsti Árni Páll því yfir að ekki væri hyggilegt að hverfa frá umsókn um aðild að ESB þó að „það séu vandamál í Evrópu“. Hann telur að „stundarhagsmunir“ eigi ekki að breyta afstöðu manna til „að- ildarferilsins“. Enginn hafi komið með trúverðuga lausn sem þjóni ís- lenskum hagsmunum betur en aðild að Evrópusambandinu. Í huga Árna Páls þurfa Íslendingar hins vegar að „hugsa ferlið öðruvísi en hingað til“. Síðan sagði ráðherrann fyrrverandi: „Við þurfum ekkert á því að halda að loka neinum dyrum strax. Það er svolítið skrítið að þeir sem ekki hafa plan B keppist við að skemma plan A.“ Dramb og yfirlæti Aðeins einn flokkur hefur sam- þykkt að aðild að Evrópusamband- inu skuli vera plan A. Ekki hefur meirihluti landsmanna samþykkt slíkt plan enda hafa kjósendur aldrei verið spurðir. Samfylk- ingin og meirihluti þingmanna Vinstri grænna hafa komið í veg fyrir það. Hér skal drambsemi og yfirlæti Samfylkingarinnar, sem felst í því að tala um ESB-aðild sem plan A, látið liggja á milli hluta. Ef plan A felst í aðild að ESB þá hlýtur plan B að felast í því að ganga ekki inn í brenn- andi hús evrunnar og Evrópusam- bandsins. Þá er hægt að hrinda plani C í framkvæmd. Gera róttæka upp- stokkun í ríkisrekstri og ná jafnvægi í fjármálum, tryggja jafnræði í líf- eyrisréttindum, hefja litla atvinnu- rekandann aftur til vegs og virð- ingar, sækja fram með nýtingu orkuauðlinda og afnema gjaldeyr- ishöft í áföngum þar sem fyrsti áfangi er sá að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta í öðrum löndum. Sam- hliða verður að hlúa að vaxtar- broddum s.s. ferðaþjónustu og tæknifyrirtækjum ekki síst með því að tryggja þeim stöðugleika í skatta- reglum en hræra ekki stöðugt í lög- um og reglum í þeim tilgangi að herða skatta- og eftirlitskrumlu rík- isins. Síðast en ekki síst verður að hrinda atlögunni sem gerð hefur ver- ið að millistéttinni frá 2009. Ekkert þjóðfélag þrífst án öflugrar milli- stéttar. Hin „norræna velferð- arstjórn“ hefur engan skilning á því að millistéttin er burðarás velferð- arkerfisins. Endurskoðun EES og fríverslun Um leið og unnið er samkvæmt plani C á að hefja undirbúning að plani D. Endurreisn og framsókn ís- lensks efnahagslífs byggist ekki síst á samstarfi við aðrar þjóðir og frjáls- um viðskiptum með vöru og þjón- ustu. Frjáls aðgangur að erlendum mörkuðum er undirstaða hagsældar. Árni Páll Árnason og aðrir sam- fylkingar hafa með framgöngu sinni og stuðningi Vinstri grænna reynt að koma málum þannig fyrir að Íslend- ingar telji sig ekki eiga aðra kosti í samfélagi þjóðanna en að ganga til liðs við Evrópusambandið. Meirihluti landsmanna er fyrir löngu búinn að átta sig á að ekkert er fjær sanni. Ís- lendingar eiga marga góða kosti og Evrópusambandið er ekki þeirra hagstæðastur. Í október 2010 lagði undirritaður til í grein hér í Morgunblaðinu að taka upp viðræður við stjórnvöld í Noregi, Kanada, Bandaríkjunum, Færeyjum og Grænlandi um við- skipta- og öryggishagsmuni land- anna vegna Norður-Íshafsins og gerð fríverslunarsamnings landanna. Samhliða því að koma á fót fríversl- unarsvæði er nauðsynlegt að kanna hvort og með hvaða hætti löndin geri með sér samning um frjálst flæði fjármagns og vinnuafls. Þá verði einnig samið um öfluga samvinnu á sviði vísinda, mennta, lista og menn- ingar. Með fríverslunarbandalagi í norðurhöfum getur orðið til eitt mesta hagvaxtar- og framfarasvæði heims. Aukin samþætting ríkja Evr- ópusambandsins með yfirstjórn rík- isfjármála landanna, gerir sam- bandið ekki aðeins minna eftirsóknarvert fyrir Ísland heldur einnig önnur ríki og þá ekki síst Sví- þjóð, Finnland, Danmörku og Bret- land. Norðurhafabandalagið verður því hugsanlega fýsilegur kostur fyrir þessi ríki. Vera kann að stofnun Norður- hafabandalagsins verði til þess að skynsamlegt sé fyrir Ísland og Nor- eg að segja skilið við Evrópska efna- hagsvæðið. Í öllu falli er nauðsynlegt að endurskoða EES-samninginn. Það eru sameiginlegir hagsmunir Evrópusambandsins og annarra EES-ríkja að sú endurskoðun fari fram, ekki síst með aukinni samþætt- ingu ríkisfjármála evruríkjanna. Ís- lendingar hafa í mörgu notið góðs af EES en einnig þurft að gjalda fyrir ókostina. Endurskoðun samningsins felst ekki aðeins í því að sníða af galla regluverks um fjármálamarkaði heldur ekki síður að tryggja sjálf- stæði löggjafans hér á landi. Gæluverkefni Þegar menn telja sig hafa fundið stórasannleika – lausnina á öllum vanda – verða þeir blindir á allt um- hverfi sitt. Plan A – aðild að Evrópu- sambandinu og upptaka evru – er stórisannleikur Samfylkingarinnar sem hefur blindað forystu flokksins á þá ótrúlegu möguleika sem Íslend- ingar eiga. Verst er þó að í blindni sinni hafa samfylkingar ekki sinnt mörgu öðru en sérstöku gæluverk- efni forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá. Af hverju ættu þeir að ómaka sig þegar lausnin er fund- in? Í sjálfu sér er ekkert við því að segja að stjórnmálaflokkur leggi allt sitt traust á aðild að ESB. Vandinn er hins vegar sá að kostnaðinn greiða allir landsmenn í formi verri lífs- kjara. Allt er látið sitja á hakanum og reka á reiðanum. Plan A hefur reynst Íslendingum dýrkeypt. Á traustum grunni Þrátt fyrir allt hefur ýmislegt gengið vel á þeim tæpu fjórum árum sem Samfylkingin og Vinstri grænir hafa setið í ríkisstjórn. Sjávar- útvegur gengur vel þrátt fyrir óvild stjórnvalda, stóriðja skilar veruleg- um tekjum, ferðaþjónusta er í sókn og mörg hátæknifyrirtæki hafa stað- ið af sér erfiðleika og gott betur. Fullhugar með nýjar og ferskar hug- myndir hafa komið fram og gefa góð fyrirheit um framtíðina. Allt þetta hefur gerst vegna þess að undirstöðurnar voru traustar. Ríkissjóður var nær skuldlaus þegar fjármálakerfið hrundi og innviðir samfélagsins sterkir. Neyðarlögin, sem Geir H. Haarde beitti sér fyrir, komu í veg fyrir gjaldþrot landsins og voru forsenda þess að Íslendingar gætu unnið sig út úr áföllum. (Jafnvel Steingrímur J. Sigfússon hefur áttað sig á þessari staðreynd. Hann launaði Geir með því að draga hann fyrir Landsdóm). Samvinnan við Alþjóða- gjaldeyrissjóðinn kom nokkrum böndum á ríkisstjórnina. Síðast en ekki síst gerði íslenska krónan lands- mönnum þrátt fyrir allt kleift að ná andanum og tryggði fyrirtækjum samkeppnishæfni. Krónan skilaði nauðsynlegu súrefni. Þegar búið er að taka til í rekstri ríkisins og endurskipuleggja rekstur þess, hrinda í framkvæmd öflugri sókn í atvinnumálum, m.a. með nýt- ingu orkuauðlinda, styrkja millistétt- ina, byggja undir framtaksmanninn, er fyrst hægt að huga að framtíð- arskipulagi í gjaldmiðlamálum. Ákvarðanir í þeim efnum kunna að mótast af því hvort unnið verður að því að koma fríverslun í norðurhöfum á fót. Við getum kallað það plan E. Eftir Óla Björn Kárason » Þegar menn telja sig hafa fundið stórasannleika – lausnina á öllum vanda – verða þeir blindir á allt umhverfi sitt. Óli Björn Kárason Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Plan B, C, D og E Mikil átök og gremja eru víðs- vegar í samfélaginu. Fólk er hneykslað yfir því að ein- staklingar og fyr- irtæki geti gengið frá skuldum og skuldbindingum sín- um með þeim hætti að stór hluti þeirra sé afskrifaður. Á sama tíma skrifar Rósa Guðbjarts- dóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæð- isflokksins í Hafnarfirði, skamm- argrein og gagnrýnir núverandi meirihluta harðlega fyrir að vilja standa við fjárhagslegar skuldbind- ingar sínar. Já, það er margt skrítið í kýrhausnum. Niðurfelling skulda er fyrir þá sem ekki geta greitt Bæjarfulltrúinn fer mikinn yfir ábyrgðarleysi meirihluta Vinstri grænna og Samfylkingar að hafa ekki krafist 3 milljarða niðurfellingar við endurfjármögnun á 13 milljarða króna láni. Hvers vegna ætli við sem tilheyrum meirihluta bæjarstjórnar Hafn- arfjarðar séum ekki sam- mála bæjarfulltrúanum? Ársreikningur fyrir 2011 og fjár- hagsúttekt hafa sýnt að Hafnar- fjarðarbær er fyllilega hæfur til að standa við fjárhagslegar skuldbind- ingar sínar og getu til að greiða niður allar langtímaskuldir sínar á 15 ár- um. Niðurfellingar á lánum eru hins vegar fyrir þá sem ekki geta greitt. Slík niðurfelling, eins og bæjar- fulltrúi Rósa Guðbjartsdóttir vildi að sveitarfélagið krefðist, hefði haft af- ar neikvæðar afleiðingar á láns- traust sveitarfélagsins og annarra sveitarfélaga hjá lánastofnunum bæði hérlendis og erlendis. Það að lána slíku sveitarfélagi teldist afar áhættusamt og kalla á mun hærri vexti en nú er. Bæjarfulltrúinn fer einnig mikinn um þann leyndarhjúp sem hafi verið yfir öllu ferlinu sem er ekki rétt því fulltrúum flokkanna í bæjarráði, þar á meðal fulltrúum Sjálfstæðisflokks- ins, var haldið upplýstum um gang mála. Tillaga Landsbankans sem bæjarfulltrúanum er tíðrætt um var kynnt sérstaklega oddvitum flokk- anna sem og fulltrúum í bæjarráði. Niðurstaða málsins hins vegar styð- ur enn og aftur það sem við í meiri- hlutanum höfum bent á. Að niðurfell- ing á skuldum komi ekki til greina. Þýsk skilanefnd lætur ekki bjóða sér það að krafist sé niðurfellingar hjá aðila sem sýnt hefur fram á að hann geti staðið við greiðslur. Pólitísk reisn Skilanefnd Defpa gerði kröfu um fullan trúnað vegna hagsmuna sinna. Hafnarfjarðarbær var ekki sammála þeirri kröfu en að sjálfsögðu hefði verið hægt að neita þeim trúnaði en þá hefði heldur ekki orðið af neinum samningum um endurfjármögnun. Með hagsmuni bæjarins og bæj- arbúa í huga var ákveðið að ganga að kröfum þeirra en þeim jafnframt gert ljóst að búast mætti við kæru og að hér séu í gildi upplýsingalög. Sú kæra sem lögð var fram kom því ekki á óvart né heldur niðurstaða Úr- skurðarnefndar um upplýsingamál. Það er ekki mikil pólitísk reisn fólgin í því að vilja ekki standa við fjárhagslegar skuldbindingar sveit- arfélagsins. Þá pólitísku hneisu mega fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eiga alveg einir. Það er hins vegar reisn í því að axla ábyrgð og standa við skuldbindingar sínar. Eftir Guðrúnu Ágústu Guð- mundsdóttur » Það er ekki mikil pólitísk reisn fólgin í því að vilja ekki standa við fjárhagslegar skuld- bindingar sveitar- félagsins. Þá pólitísku hneisu mega fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eiga alveg einir. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir Höfundur er bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Pólitísk reisn eða pólitísk hneisa?

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.