Morgunblaðið - 26.02.2013, Blaðsíða 1
FRJÁLSAR
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Trausti Stefánsson, spretthlaupari úr FH, hef-
ur æft af krafti í Svíþjóð í vetur. Trausti fluttist
utan síðasta haust og er í meistaranámi í fram-
leiðsluverkfræði í Stokkhólmi. Trausti æfir þar
með mjög sterkum sænskum frjálsíþrótta-
mönnum og segir það hafa dregið sig til Stokk-
hólms frekar en námið. „Ég er gríðarlega
heppinn með æfingahóp og hann er örugglega
með þeim betri á Norðurlöndum. Þarna er
sænski meistarinn í 100 og 200 metra hlaupi
karla og Evrópumeistari kvenna í 400 metra
hlaupi. Þetta eru íþróttamenn í hæsta gæða-
flokki og þau eru ekki þau einu. Það er frábært
að fá að æfa með þessu fólki,“ sagði Trausti
þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í
gær.
„Á HM innanhúss í fyrra þá ræddi ég við Vé-
stein Hafsteinsson um að ég væri að spá í að
fara í nám til Svíþjóðar. Mig langaði að vita
hvar í Svíþjóð væru góðir þjálfarar. Vésteinn
sneri sér bara við og hóaði í núverandi þjálfara
minn, Rolle Bergman, og sagðist vera með
íþróttamann fyrir hann. Þannig kynntumst
við,“ sagði Trausti og hló en bætti því við að
ekki væri auðvelt að komast að hjá þessum hópi
og hann hafi þurft að sýna fram á næga getu.
Vonbrigði að ná ekki EM-lágmarkinu
Trausti náðum góðum árangri á innan-
hússtímabilinu í fyrra. Hann hefur lagt á sig
miklar æfingar í Stokkhólmi í vetur og fór einn-
ig í æfingabúðir til Suður-Afríku í janúar. Ár-
angurinn á innnahússtímabilinu í vetur olli hon-
um vonbrigðum vegna þess að honum tókst
ekki að ná lágmarki fyrir EM innanhúss.
„Ég setti mér háleit markmið fyrir innan-
hússtímabilið en ég veiktist því miður eftir æf-
ingabúðirnar í Suður-Afríku. Þar gekk mjög
vel að æfa en þegar ég sneri aftur til Svíþjóðar
þá fór ég úr 35 stiga hita og niður í -10. Ég hafði
aldrei æft eins mikið og líkaminn var engan
veginn tilbúinn í þessi viðbrigði og gersamlega
„krassaði“. Ég missti úr tvær vikur vegna veik-
indanna en þá er nánast farinn 1/3 af innan-
hússtímabilinu. Ég hef reynt að keppa eins
mikið og mögulegt er eftir veikindin en það er
eins og einhver þreyta hafi setið í mér. Ég náði
fyrir vikið ekki lágmarkinu fyrir EM og hlaupið
á danska meistaramótinu var alveg hræðilegt.
Ég bæti upp fyrir þetta í sumar,“ sagði Trausti
sem hafnaði í 2. sæti í 400 metra hlaupinu í
Danmörku á 49,05 sekúndum en Trausti horfir
til þess að komast undir 47 sekúndur í sumar.
Mikill metnaður fyrir landsliðinu
„Ég hef mjög mikinn metnað fyrir íslenska
landsliðinu í frjálsum, sérstaklega þar sem við
erum nú komnir með þrjá mjög frambærilega
400 metra hlaupara. Ég er bjartsýnn á að við
getum sett Íslandsmet í 4x400 metra boðhlaupi
en í þeirri grein er gott Íslandsmet. Ég veit
ekki hvort ég kem til með að vera heima eða í
Svíþjóð í sumar. Ég vonast eftir því að hlaupa
undir 47 sekúndum en ég fór undir 48 sekúndur
í fyrsta skipti síðasta sumar. Ég er með ennþá
meira blóð á tönnunum eftir að hafa ekki náð
EM-lágmarkinu núna. Ég mun mæta mjög
ákveðinn í uppbygginguna fyrir sumarið og
uppsker vonandi eftir því,“ sagði Trausti enn-
fremur en hann hefur einnig hlaupið styttri
vegalengdir en segist leggja höfuðáherslu á 400
metrana.
„Ég tel mig eiga mesta möguleika á því að ná
langt í þeirri grein. 400 metra hlaupið liggur
best fyrir mér. Ég eygi smá von um að geta
keppt á stórmótum og það er klárlega stefnan.“
Bikarmeistari í körfu og frjálsum sama ár
Trausti á sér áhugaverðan bakgrunn í íþrótt-
unum. Miðað við hversu framarlega hann
stendur í frjálsum þá er stórmerkileg sú stað-
reynd að á þeim vettvangi hóf hann ekki æfing-
ar fyrr en á tuttugasta og öðru aldursári.
„Ég spilaði körfubolta þangað til ég var orð-
inn 22 ára gamall og vissi ekki að ég væri neitt
sérstaklega fljótur að hlaupa. Ég byrjaði því
seinna í frjálsum en flestir aðrir. Ég mætti á
mína fyrstu æfingu í frjálsum þegar ég var 21
árs og sá þá að ég var nokkuð góður. Ég skipti
ekki yfir úr körfuboltanum strax en gerði það
vorið 2007 eftir að hafa lent í mótlæti í körf-
unni,“ sagði Trausti sem afrekaði að verða
bikarmeistari í körfubolta með ÍR og bikar-
meistari í frjálsum með FH sama árið.
Hann sagði bekkjarfélaga sinn úr framhalds-
skóla hafa dregið sig á frjálsíþróttaæfingu hjá
FH. Trausti heldur með ÍR í boltagreinunum
en það er svolítið skondið að helsti keppinautur
FH í frjálsum er einmitt ÍR.
Gæti toppað 32 ára eins og Johnson
Trausti er 28 ára gamall og er því að komast
á þann aldur þegar íþróttamenn toppa gjarnan.
„Oft er talað um að það taki tíu ár að ná öllu út
úr líkamanum sem mannleg geta býður upp á.
Þar sem ég byrjaði 22 ára þá gæti ég hugs-
anlega toppað 32 ára. Á það má benda að
heimsmetið í minni grein, 400 metra hlaupinu,
var sett af 32 ára gömlum manni, Michael
Johnson. Ég veit að ég hef ekki náð öllu út úr
mér ennþá og horfi til þess að toppa síðar en
margir aðrir þar sem ég byrjaði seint,“ sagði
verkfræðingurinn Trausti Stefánsson í samtali
við Morgunblaðið í gær.
Hlaupari sem fór seint af stað
- Trausti Stefánsson æfir með sterku frjálsíþróttafólki í Stokkhólmi - Byrjaði 22 ára í frjálsum
- Setur stefnuna á stórmót á næstu árum - Stefnir á að hlaupa 400 metra undir 47 sekúndum
Morgunblaðið/Ómar
Fyrstur Trausti Stefánsson sigrar í 400 metra hlaupinu á Meistaramóti Íslands síðasta sumar.
Trausti Stefánsson
» 28 ára gamall iðnaðarverkfræðingur
og spretthlaupari. Nemur og æfir í
Stokkhólmi um þessar mundir.
» Trausti leggur megináherslu á 400
metra hlaup og á best 47,73 sekúndur.
Magnað Íslandsmet Odds Sigurðarsonar
í greininni er 45,36 sekúndur og hefur
staðið síðan 1984 en það var Norður-
landamet allt til ársins 2007.
ÞRIÐJUDAGUR 26. FEBRÚAR 2013
ÍÞRÓTTIR
Handbolti ÍR knúði fram sigur á Val á lokamínútunum. Ótrúlega lítið skorað í Mosfellsbænum
þar sem Haukar sigruðu Aftureldingu 16:13. Akureyri stöðvaði sigurgöngu FH-inga 2-3
Íþróttir
mbl.is
En á 76. mínútu var það Gylfi sem jafnaði
metin þegar hann renndi sér á boltann í
markteignum og sópaði honum í stöngina og
inn. Þar jafnaði hann metin í 2:2 og þegar allt
stefndi í jafntefli skoraði Gareth Bale sig-
urmark Tottenham á 90. mínútu með stór-
glæsilegu skoti. Hans annað mark í leiknum.
Tottenham er nú ósigrað í 11 leikjum í
deildinni og komst með sigrinum upp fyrir
Chelsea og í þriðja sætið.
„Það var tími til kominn. Ég er búinn að
skjóta nokkrum sinnum í stöng en það er frá-
bær tilfinning að skora í grannaslag. Við höf-
um alltaf trú á að við getum snúið leikjum
við,“ sagði Gylfi við vef Tottenham í gær-
kvöld. vs@mbl.is
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði heldur betur
langþráð mark í gærkvöld þegar Tottenham
lagði West Ham, 3:2, í ensku úrvalsdeildinni í
knattspyrnu á Upton Park í London. Þetta
var 23. leikur Gylfa með liðinu í deildinni í
vetur og fyrsta markið. Honum hafði áður
tekist að skora fyrir Tottenham í deildabik-
arnum og í Evrópudeild UEFA.
Gylfi kom inn á sem varamaður á 56. mín-
útu leiksins og var nærri því búinn að skora
með sinni fyrstu snertingu en Jussi Jääskeläi-
nen, markvörður West Ham, náði að koma
við boltann þannig að hann fór í stöng og út.
Dálítið í takt við lánleysi Gylfa uppi við mark-
ið á tímabilinu. Í staðinn komst West Ham yf-
ir í næstu sókn með marki frá Joe Cole.
„Það var tími til kominn“
AFP
Loksins Gylfi Þór Sigurðsson fagnar eftir að hafa jafnað metin gegn West Ham í gærkvöld.
- Gylfi skoraði loksins fyrir Tottenham í deildinni