Morgunblaðið - 16.07.2013, Page 4
4 ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. JÚLÍ 2013
VIÐHORF
Víðir Sigurðsson í Växjö
vs@mbl.is
Svíar eiga hrós skilið fyrir fram-
kvæmd sína á úrslitakeppni Evr-
ópumóts kvennalandsliða í fótbolta
sem nú stendur yfir í landinu. Við
sem fylgjum íslenska liðinu vorum
fyrst í Kalmar og núna í Växjö und-
anfarna daga, og á báðum stöðum
hefur keppnin greinilega vakið
mikla athygli almennings.
Merki keppninnar er út um allt
og fólk í bolum merktum henni er
alls staðar. Á götunum, í búðunum,
það er eins og flestir tengist keppn-
inni á einhvern hátt.
Svæði fyrir áhugafólk, svokölluð
„Fan Zone“, hafa verið sett upp í
miðborgum keppnisstaðanna og
þau eru vinsæl en þar er boðið uppá
ýmsa afþreyingu sem tengist fót-
boltanum, veitingar, andlitsmálun,
skemmtiatriði, og leiki keppninnar
á breiðtjöldum. Þaðan er svo boðið
uppá fríar rútuferðir á völlinn á
leikdögum.
Aðsóknarmetið á EM hefur þeg-
ar verið slegið. Í fyrstu 12 liða
keppninni í Finnlandi fyrir fjórum
árum seldust 129 þúsund miðar en
snemma í gær var búið að selja 135
þúsund miða og heilmikið eftir enn.
Mun fleiri mæta á vellina, tæplega
4.000 og tæplega 5.000 manns hafa
séð leiki Íslands, svo það eru ekki
bara gestgjafarnir sem draga að
sér athyglina.
Mikið er sýnt frá keppninni í
sænska sjónvarpinu og dagblöð og
netmiðlar fjalla ítarlega um hana.
Smålandsposten, dagblað sem hef-
ur aðsetur í Växjö, lagði næstum
því heila opnu undir leik Íslands og
Þýskalands í gær.
Eina vandamálið er að við ís-
lensku fjölmiðlamennirnir vinnum
alltaf lengur fram á kvöldin en aðr-
ir kollegar okkar, sem þurfa að
skila mikið fyrr vegna tíma-
mismunar. Erum alltaf á síðustu
stundu áður en fréttamannasvæð-
unum er lokað. En það er svo sem
gömul saga og ný!
Vel að verki
staðið hjá
Svíunum
EM 2013
Víðir Sigurðsson í Växjö
vs@mbl.is
Hún er aðeins 18 ára gömul en
stóð vaktina í miðri vörn Íslands
gegn fimmföldum Evrópumeist-
urum Þýskalands með miklum sóma
í fyrrakvöld. Glódís Perla Viggós-
dóttir kom fyrst inní íslenska A-
landsliðið síðasta haust en hefur tek-
ið þátt í öllum leikjum þess á árinu
og tók stöðu Sifjar Atladóttur í
Þýskalandsleiknum í Växjö. Eftir að
hafa komið inná fyrir hana í hálftíma
í viðureigninni við Noreg í fyrstu
umferðinni.
Glódís sagði við Morgunblaðið að
hún hefði vitað með sólarhrings fyr-
irvara að hún myndi spila gegn Þjóð-
verjum. „Já, það var búið að tilkynna
okkur liðið kvöldið áður þó það væri
ekki gefið út fyrir skömmu fyrir leik.
Ég var mjög sátt við það, ég vildi
bæta upp fyrir frammistöðuna gegn
Norðmönnum því ég var stressuð í
þeim leik og mér gekk ekki eins vel
og ég vildi. Það var því gott að fá
þennan leik og tækifæri til að bæta
fyrir það gegn besta liðinu.“
Erfitt að keppa við hana
Hún vissi ekki hvernig framhaldið
yrði og hvort hún eða Sif myndi
hefja leikinn gegn Hollandi á morg-
un. „Nei, ég hef ekki hugmynd um
það. Ef hún er klár í að spila, er
þetta samkeppni milli okkar, ef hún
er ekki klár, þá fæ ég væntanlega
tækifæri aftur. Þetta er alltaf svona í
fótboltanum, það er einhver sem
nagar í bakið á manni, eða maður
sjálfur að naga í bakið á einhverjum
öðrum. Þannig á þetta að vera. Ég
er tilbúin að byrja ef ég verð valin,“
sagði Glódís en vildi annars ekki
gera of mikið úr því að hún væri í
beinni samkeppni við Sif.
„Hún er rosalega góður varnar-
maður og það er erfitt að keppa við
hana um stöðu. Ég hef alls ekki
fundið fyrir því að hún líti á mig sem
beinan keppinaut því Sif er búin að
kenna mér heilmikið á þeim tíma
sem ég hef verið með landsliðinu.“
Stressið hvarf í upphitun
Þrátt fyrir ungan aldur og tak-
markaða reynslu sagðist Glódís ekki
hafa fundið fyrir miklu álagi við það
að koma inní liðið fyrir leikinn gegn
Þjóðverjum.
„Nei, mér fannst það ekki erfitt.
Ég náði stressinu úr mér í upphit-
uninni, komst strax inní leikinn og
fannst ég ná mér vel á strik um leið.
Það var geysilega mikið að gera,
þær lágu á okkur allan tímann þann-
ig að þetta var erfitt, mikil áskorun,
og það var greinilegt að maður mátti
ekki gera nein mistök, þá yrði refsað
fyrir það. En þegar allt er komið í
gang er þetta bara fótboltaleikur,
maður þarf að hugsa um þetta eins
og hvern annan leik, og það tókst
ágætlega. Það er aldrei gaman að
tapa en þetta var mjög sanngjarn
sigur. Þær voru miklu betri en við og
áttu þetta bara skilið. En þetta er
mín stærsta reynsla til þessa, að
spila á móti Þýskalandi og það í 90
mínútur á stórmóti. Þetta gerir mik-
ið fyrir sjálfstraustið,“ sagði Glódís.
Truflar mig ekkert
Hún sagði jafnframt að sér væri
alveg sama þó einhverjir hefðu
áhyggjur af því að tefla henni fram í
lykilstöðu í liðinu svona ungri. „Já,
ég hef heyrt það en það truflar mig
ekkert. Mér finnst að aldurinn eigi
ekki að skipta neinu máli, allir eiga
að geta sýnt sig og sannað.
Glódís er uppalin hjá HK í Kópa-
voginum og fór ung að spila með
meistaraflokki HK/Víkingi. Þar lék
hún sem sóknarmaður tímabilið
2011 og var með markahæstu leik-
mönnum 1. deildar með 14 mörk í 11
leikjum.
Hún gekk síðan til liðs við Stjörn-
una í fyrra og er í lykilhlutverki í
Garðabæjarliðinu sem virðist stefna
hraðbyri á meistaratitilinn eftir að
hafa náð fullu húsi stiga eftir fyrri
umferðina.
Snilld að spila með Stjörnunni
„Ja, ég veit það nú ekki. Mótið er
nú bara hálfnað,“ svaraði Glódís
þeirri fullyrðingu að Stjarnan ætti
meistaratitilinn vísan. „Jú, vissulega
erum við í góðri stöðu. Það er bara
snilld að spila með Stjörnunni, þar
standa allar rosalega vel saman.
Þetta er skemmtilegur hópur.“
Hún stefnir hiklaust á að komast í
atvinnumennsku í fótboltanum en
hefur ekki sett sér neitt takmark í
þeim efnum.
„Já, það er markmiðið, en ég veit
ekki hvenær það verður. Þetta ger-
ist bara þegar það gerist. Ég veit
ekki til þess að það sé neitt í gangi
eins og er. Maður má heldur ekkert
hugsa um það, best að vera bara í
núinu, og hugsa ekki lengra en um
næsta leik.“
Sniðugra að fara fyrst
til Bandaríkjanna
En hugurinn er þó farinn að leita
vestur um haf. „Já, það væri sniðugt
að fara í háskóla í Bandaríkjunum.
Mig langar svolítið til þess ef ég finn
góðan skóla sem mér líst á og vill fá
mig. Ég hef velt því fyrir mér, og því
að fara beint í atvinnumennsku í
Evrópu. Það er svolítið sniðugra að
fara fyrst til Bandaríkjanna því ef
maður skrifar undir atvinnusamning
er ekki hægt að fara þangað eftir
það. En það er hinsvegar alltaf hægt
að fara í atvinnumennsku eftir að
hafa verið í Bandaríkjunum.“
Glódís þarf að fara að huga að
þessum málum því hún er á mikilli
hraðferð í skólanum. Var ári á undan
jafnöldrum sínum upp grunnskólann
og er nú við það að ljúka mennta-
skólanum á þremur og hálfu ári. „Já,
ég útskrifast um næstu jól svo vissu-
lega þarf ég að fara að ákveða mig
hvað úr hverju.“
Prakkararnir Fanndís
og Hallbera
Hún kveðst njóta þess að vera í A-
landsliðshópnum. „Þetta er frábær
hópur, allar svo jákvæðar og glaðar,
og svo eru miklir prakkarar í þess-
um hópi. Hverjar aðallega? „Það eru
Fanndís og Hallbera sem eru alltaf
að finna upp á einhverju!“
En Glódís og samherjar einbeita
sér nú fullum fetum að stóra leikn-
um gegn Hollandi annað kvöld en
þar er sæti í átta liða úrslitum Evr-
ópumótsins í húfi. Hún er bjartsýn.
„Já, ég sé bara að við eigum góða
möguleika. Noregur vann Holland,
við hefðum getað unnið Noreg,
þannig að við eigum að geta unnið
þær hollensku. Og það verðum við
að gera til að ná okkar markmiðum,“
sagði Glódís Perla, sem sjálf hefur
upplifað það að komast í fjögurra
liða úrslit Evrópukeppninnar með
U17 ára landsliði Íslands.
Aldur skiptir ekki máli
Glódís Perla Viggósdóttir ánægð með að hafa fengið tækifærið gegn Þjóð-
verjum Sif hefur kennt henni heilmikið Ætlar sér í atvinnumennsku
Morgunblaðið/Víðir Sigurðsson
Växjö Glódís Perla Viggósdóttir og samherjar hennar í íslenska landsliðinu fengu fjölda vina og vandamanna í
heimsókn á æfingasvæðið í Växjö í gær en æfing liðsins var opin og margir nýttu sér það.
Glódís Perla
Viggósdóttir
» Hún er 18 ára og lék með HK
og síðan HK/Víkingi í meist-
araflokki en gekk til liðs við
Stjörnuna eftir stutta dvöl í
Danmörku haustið 2011.
» Glódís lék sinn 11. A-
landsleik gegn Þýskalandi í
fyrrakvöld. Hún lék 24 leiki
með U17 ára landsliðinu og á
leikjametið þar.