Morgunblaðið - 31.10.2013, Blaðsíða 4
4 | MORGUNBLAÐIÐ
E
ftir námið hefur Ragnar
gegnt stjórnunarstörfum
hjá fyrirtækjunum Cartier,
Boucheron, Georg Jensen
og Hèrmes. Allt eru þetta
gríðarlega stór, alþjóðleg fyrirtæki í
lúxusiðnaði, byggja á aldagamalli
hefð og eru þekkt fyrir framúrskar-
andi handverk og fágaða þjónustu.
Í dag er hann einn af stjórnendum í
hönnunardeildum Swarovski í París
og Austurríki. Hann fylgir hönn-
uninni eftir frá hugmynd að söluvöru
og vinnur náið með markaðs- og þró-
unardeildum Swarovski. Þetta stóra
fyrirtæki var stofnað árið 1895, en
það er þekkt fyrir einstaka hönnun
skartgripa úr kristöllum. Hjá fyr-
irtækinu starfa 30.000 manns í 170
löndum. Velta Swarovski Group á síð-
asta ári var þrír milljarðar evra.
Með skrifstofu á Faubourg
Saint-Honoré
Hvernig er hefðbundinn vinnudagur
hjá þér, Ragnar? „Ég hef alltaf
ferðast mikið í öllum mínum störfum,
mest á milli Tókýó, Hong Kong,
London, New York og Shanghai.
Ætli það séu ekki um hundrað dagar
á ári sem ég er á ferðalögum vegna
vinnunnar og ég nýt þess mjög. Þeg-
ar ég er í París byrjar vinnudagurinn
á göngu yfir Óperutorgið, í gegnum
Place Vendôme-torgið og með kaffi-
bolla á kaffihúsi við Óperuna. Dag-
urinn hefst um hálftíu en ætti að
byrja fyrr. Í hádeginu fer ég alltaf út
að borða, yfirleitt á frönskum
brasseríum og ég fæ mér tveggja
rétta máltíð og vínglas með. Þetta er
hluti af mínu Parísarlífi. Ég nota líka
tímann til að kíkja inn í helstu tísku-
og lúxusverslanir til að fylgjast með
nýjum vörum og skoða fólkið. Mekka
tískunnar, Colette, er þar ofarlega á
lista, enda fá þeir nýjar vörur í hverri
viku, en einnig eitthvað nýtt frá Dior,
Chanel, Gucci, Prada og fleiri áhuga-
verðum merkjum. Það er eftirsókn-
arvert að komast með vörur í Colette
en vöruúrvalið þykir endurspegla það
heitasta í tískunni hverju sinni. Ég
vinn í þessari hringiðu, en skrifstofa
mín er á rue du Faubourg Saint Ho-
noré, sem er ein glæsilegasta versl-
unargata Parísar. Þar er að finna feg-
urstu tísku- og skartgripaverslanir
heims, hið fræga hótel Costes og
skammt frá er Place Vendôme-torgið
þar sem Hótel Ritz er. Það er allt að
gerast þarna fyrir utan gluggann hjá
mér,“ segir Ragnar brosandi. „Þetta
er klárlega hjartað í lúxus- og skart-
gripaiðnaði en þó ekki hjartað í París.
Það er ekkert eitt hjarta í París. Hver
upplifir hana á sinn hátt.“
Af hverju fórstu til Frakklands?
„Ást við fyrstu sýn, það kemur frá
hjartanu og krefst ekki frekari skýr-
inga. Þess fyrir utan hef ég ferðast
um allan heim og París er einstök,
engri annarri lík.“
Hvað er ólíkt í menningu Íslands
og Frakklands? „Það mætti kannski
fyrst nefna að Frakkar sjá hlutina í
víðara samhengi og Íslendingar eru
meira í núinu.“
Hvernig er að vinna hér? „Ég er
heppinn með að vinna miðsvæðis í
París. Ég þarf hvorki að nota metró
né aðrar almenningssamgöngur og
gönguferðin mín til og frá vinnu er
upplifun í hvert einasta skipti.“
Cartier og Hèrmes
Fyrsti viðkomustaður Ragnars í lúx-
usgeiranum var franska skartgripa-
fyrirtækið Cartier. „Þar las ég allt
sem ég komst í, fór á söfn og sýn-
ingar, talaði við elstu starfsmennina
og fór í gegnum skjalasöfn fyrirtæk-
isins. Hjá þeim lærði ég að bera virð-
ingu fyrir arfleifð, hönnun og gæðum.
Þessi þrjú lykilatriði hafa komið sér
vel að notum alla tíð í mínum störf-
um,“ segir hann.
Ragnar lærði líka allt um demanta
hjá Cartier. „Þeir eru metnir út frá
reglunni um hin fjögur C: cut, clarity,
color og carat weight. Það er skurð-
urinn sem hefur mest gildi því hann
ræður hvernig ljósið endurspeglast
inni í demantinum, hvað fer inn og út
úr honum.“
Hvert er dýrasta demantsskartið
sem þú hefur handleikið? „Það kost-
aði jafn mikið og heil blokk í Reykja-
vík, ef ekki meira, miðað við að hver
íbúð kosti 40 milljónir. Summan af
blokkinni væri þá 1,6 milljarðar.“
Eru kúnnarnir ekki mjög ríkir?
„Þekkir þú marga sem kaupa sér
heila blokk áður en farið er í „gala
dinner“?“
En hvað er eiginlega lúxus? „Ég
hef alltaf líkt honum við draum. Það
má auðveldlega segja að hann sé
blanda af hönnun, gæðum og þjón-
ustu. Fyrir mér er lúxus tíminn.“
Var það alltaf draumurinn að
starfa hjá svona fyrirtækjum? „Ég
hef oft verið spurður að þessu í at-
vinnuviðtölum og ég segi alltaf að
þetta hafi komið eðlilega.“
Væntanlega hefurðu samt haft
ákveðin plön er þú hélst til náms í
Frakklandi? „Jú, ég held samt að lúx-
us og Frakkland eigi einfaldlega
mjög vel saman.“
Eins og fyrr segir vann Ragnar hjá
Hèrmes. Hann var sölustjóri
skartgripalínu þeirra og ferðaðist á
milli helstu stórborga heims til að
þjálfa sölufólk og hitta góða við-
skiptavini. Meðal frægustu og jafn-
framt dýrustu vara Hèrmes er Birk-
in-taskan. Þetta er dömuhandtaska
sem var upphaflega tileinkuð leikkon-
unni Jane Birkin. Frakkar hafa mikið
dálæti á Jane, hún var ástkona og
barnsmóðir eins dáðasta söngvara og
lagasmiðs Frakklands, Serge Ga-
insbourg. Birkin-taskan er handgerð,
hún getur kostað allt að fimm millj-
ónum króna og biðlistinn eftir henni
er tvö ár! Það var söðlasmiður að
nafni Thierry Hèrmes sem stofnaði
fyrirtækið árið 1837. Framleiðslu-
varan var söðlar sem síðan þróuðust
út í lúxusleðurvarning og skartgripi.
„Fyrsta daginn minn hjá Hèrmes
fann ég fyrir einhverjum rótum,“ seg-
ir Ragnar og bætir við að tengingin
hafi eflaust verið langalangafi hans
sem var líka söðlasmiður, Eggert
Kristjánsson frá Sauðárkróki. „Svo
var afi Hjörtur Ragnar Björnsson úr-
smiður. Ég man eftir mér sem
krakka á vinnustofunni hjá afa, að
skrúfa í sundur úr og setja þau saman
aftur, segir Ragnar. „Þessi blanda af
leðri og málmi og þessi gamalgróna
hefð, ég fann að ég var á góðum stað
og þetta kom allt eðlilega. Eins og
þetta hefði alltaf beðið mín,“ segir
hann.
Hvað hefur komið þér mest á óvart
í störfum þínum í Frakklandi?
„Ég er búinn að vera hér svo lengi
að ég er orðinn samdauna þessu og
ekkert kemur mér á óvart lengur.
Mér finnst nú samt Frakkarnir held-
ur málglaðir og seinir til fram-
kvæmda. Ég er ennþá það mikill Ís-
lendingur í mér, og mér finnst að oft
mætti leysa hlutina hraðar, frekar en
að tala um þá endalaust.“
Eru frönsk fyrirtæki orðin al-
þjóðlegri en áður? „Ég get sagt með
réttu að í dag er ég í mjög alþjóðlegu
fyrirtæki af því að ég vinn með fólki á
skrifstofunni í París af tuttugu þjóð-
ernum.“
Hefur orðið þróun síðastliðin ár
miðað við þína reynslu? „Fyrir okkur
Íslendinga hefur heimurinn opnast
síðastliðin tuttugu ár, ég sé sömu þró-
un hér vegna þess að franskir náms-
menn leita nú meira út fyrir land-
steinana og enska er orðin
nauðsynleg. Í fyrirtækjum þar sem
ég hef ráðið inn fólk hefur ensku-
kunnátta verið skilyrði.“
Fólk vinnur mikið hér í borginni og
oft eru helgarnar eini frítíminn, hvað
gerir þú um helgar? „Ég borða há-
degismat á kaffihúsi og fer í göngu-
ferðir. Ég get gengið borgina end-
anna á milli og ég sé alltaf eitthvað
nýtt. Það sem gerir París svo ein-
staka er að geta farið á milli hverf-
anna sem eru öll svo ólík.“
Ragnar býr í níunda hverfi á milli
Óperunnar og Montmarte. „Hverfið
mitt er svokallað bobo-hverfi sem
þýðir bohemian bourgeois [blanda af
listamönnum og fínu fólki, innskot
blaðamanns]. Þar býr fullt af fólki á
mínum aldri og hefur komið sé fyrir í
þægilegu, ekta Parísarhverfi sem er
laust við allan túrisma og önnur
óþægindi,“ segir hann og hlær.
„Þetta er markaðshverfi, þarna er
kjötkaupmaður, fisksali, ostabúð, vín-
búð og kaupmennirnir þekkja alla
viðskiptavini með nafni. Þess vegna
er svo þægilegt að koma heim og
labba upp brekkuna og upp í níunda
hverfi og ganga þá inn í svona ekta
París eins og maður sér í bíómynd-
um.“
Hvert er þá uppáhaldskaffihúsið
þitt í borginni?
„Mér finnst alltaf skemmtilegt að
fara á Café de Flore eða á Deux
Magots í St. Germain. Ég hef verið
fastagestur þar síðan ég kom fyrst til
Parísar enda bjó ég steinsnar frá
þeim og skólinn minn var í næstu
götu. Þarna eru mínar rætur og svo
auðvitað líka á Place Vendôme þar
sem ég hef alltaf unnið.“
Svo varstu markaðsstjóri hjá
Boucheron í París. Í hverju fólst
starfið?
„Ég tók þátt í að byggja upp nýja
ímynd fyrir þá, og ég sá um markaðs-
setningu á nýjum línum sem í dag
eru orðnar klassískar. Þar á meðal er
línan Quatre en það er hringur smíð-
aður úr fjórum gulltegundum og
munstrum sem tengjast sögu fyr-
irtækisins. Að sjá svona hugmyndir
verða að góðri söluvöru er það
skemmtilegasta sem ég fæst við.“
Margar frægar leikkonur fá lánað
skart hjá Cartier, Boucheron og öðr-
um þekktari skartgripaframleið-
endum. Kynntistu því sjálfur? „Já
mjög mikið.“
Hver er þá uppáhaldsleikkonan af
þeim sem fengu lánað skart? „Mér
finnst alltaf gaman að fá söngfuglinn
Céline Dion í heimsókn,“segir hann
og hlær.
Kristall í starfsviðtalinu
Eftir sex ára veru hjá bæði Cartier
og Boucheron, fór Ragnar yfir til
Georg Jensen í Kaupmannahöfn til
að gegna stöðu yfirmanns hönnunar-,
þróunar- og markaðsdeildar fyrir úr
og skartgripi.
Af hverju er þessi venja hjá fólki í
lúxusiðnaði að skipta um störf á 3-4
ára fresti? „Fyrirtækin skipta mjög
oft um hönnuði og stjórnendur. Þeir
flytja sig frá einu tískuhúsi til annars.
Í kringum þetta fólk er svo hirð sem
fylgir þeim.“
Hvernig berðu þig að við að finna
þessi störf? „Þetta er mjög lítill heim-
ur og það er mikilvægt að hafa góð
sambönd og vinna með góðum hausa-
veiðurum. Það eru þeir sem láta þig
vita um leið og eitthvað er að gerast á
markaðnum.“
Nýlega fékk Ragnar tilboð um
starf hjá Swarovski og ákvað að
flytja sig til þeirra. „Swarovski er
kristall og þegar ég var í atvinnu-
viðtalinu sló ég upp mynd af íslensku
jöklabroti sem valt upp á sandinn og
sagði að þetta ætti ég sameiginlegt
með Swarovski, þetta kristaltæra.
Ég reyni alltaf að nota svona mynd-
líkingar í starfsviðtölum. Þau hjá
Swarovski voru víst voða hrifin og
eru enn að tala um þetta,“ segir
hann.
Hverja telur þú möguleika Íslend-
inga sem hyggja á nám eða störf í
Frakklandi?
„Ég myndi segja að Íslendingar
hafi góða möguleika þökk sé samn-
ingnum um evrópska efnahags-
svæðið. Frönsk fyrirtæki verða sífellt
alþjóðlegri og allt er miklu opnara en
það var fyrir tuttugu árum. Þegar ég
kom til Frakklands var enginn slíkur
samningur í gangi. Ég þurfti að fá
dvalarleyfi og ég held að ég hafi bara
fengið ráðningu hjá bandaríska
tölvufyrirtækinu Dell af því að ég tal-
aði góða ensku. Í dag er enskukunn-
átta orðin almennari og meira er ver-
ið að sækjast eftir sérfræðiþekkingu.
Hér hjá Swarovski í París vinnur fólk
af tuttugu þjóðernum og nokkrir tala
enga frönsku. Þessir starfsmenn
hafa verið ráðnir vegna þess að þeir
eru framúrskarandi góðir hönnuðir.“
Sjálfur ertu að lifa drauminn. „Já,
og ég kom með þetta takmark til
Parísar. Ég man eftir fyrsta deg-
inum, ég kom beint frá Íslandi sem
túristi. Ég gekk um göturnar, horfði
upp á byggingarnar og síðan settist
ég inn á kaffihúsin. Þetta tvennt
heillaði mig við borgina,“ segir hann
og bætir svo við: „Ef ég stæði í sömu
sporum í dag og ég gerði fyrir tutt-
ugu árum yrði valið hið sama.“
gudrun@actacor.is
360° reynsla af demöntum
og eðalmálmum
Frakkland „Ást við fyrstu sýn, það kemur frá hjartanu og krefst ekki frekari skýr-
inga. Ég hef ferðast um allan heim og París er einstök, engri annarri lík.“
Þegar ég var í atvinnuviðtalinu sló ég upp mynd
af íslensku jöklabroti sem valt upp á sandinn
og sagði að þetta ætti ég sameiginlegt með Swar-
ovski, þetta kristaltæra. Þau hjá Swarovski voru
víst voða hrifin og eru enn að tala um þetta.
Vesturbæingurinn Ragnar Hjartarson hefur lifað skemmtilegu lífi. Hann ólst upp á Ægisíðunni innan um grásleppukarla
og sjávarlíf en eftir nám í Verslunarskólanum og í Háskóla Íslands fylgdi hann hjartanu og hélt út í hinn stóra heim til að
mennta sig. Hann hefur starfað hjá nokkrum af skartgripahúsum Parísar og er í dag í stjórnunarstöðu hjá Swarovski.