Monitor - 30.01.2014, Blaðsíða 13

Monitor - 30.01.2014, Blaðsíða 13
Á kveðin nostalgía gerði vart við sig þegar blaðamaður Monitor mætti í Borgarleik- húsið í vikunni. Það var alltaf svo hátíðleg stund að fara í leikhús á yngri árum, mamma tróð manni í sparifötin og ef maður var góður var alltaf möguleiki á nammi í hléi sem sett var í sérstakan plastpoka til að trufla ekki leikar- ana. Þvílík tækni. Að þessu sinni var undirrituð hinsvegar komin í Borgarleikhúsið til þess að hitta Ragnar Bragason leikstjóra og fékk meðal annars að heyra um uppvaxtarárin á Súðavík, Vaktarseríu- ævintýrið og norska kryddið. Sjoppan var lokuð en það kom ekki að sök. Hvað varð til þess að þú varðst leikstjóri? Eins og í svo mörgu í lífinu voru það nú bara tilvilj- anir sem leiddu til þess. Til að fylla upp í einingar í menntaskóla endaði ég í áfanga í kvikmyndagerð hjá Önnu G. Magnúsdóttur sem er núna framleiðandi í Svíþjóð. Hún lét okkur gera stuttmyndir í hópum og þegar hún sá hvernig við gerðum þær benti hún mér kurteislega á að ég hafi leikstýrt myndunum. Hún hvatti mig til að gera meira og ég tók hennar orð fyrir því að það væri eitthvert vit í því sem ég væri að gera. Þannig að þú ert sjálfmenntaður í greininni? Já, í rauninni fór ég bara lengri leiðina. Ég prófaði mig áfram í gegnum „happa-glappa“ (e.trial and error) aðferðina og reyndi að læra af hverju verkefni. Skiptir þá miklu máli að vera duglegur að prófa sig áfram? Já, og líka bara að sökkva sér ofan í þetta. Ég hef oft sagt að Aðalvídeóleigan á Klapparstíg hafi verið minn kvikmyndaskóli. Ég var þar daglegur gestur í mörg ár og drakk þar í mig kvikmyndasöguna. Þú ólst upp á Súðavík. Hafði það einhver áhrif á leikstjórnarferilinn? Ég veit ekki hvort það hafi haft bein áhrif á mig sem leikstjóra en æskan hefur náttúrlega mótandi áhrif og það eru forréttindi að alast upp í svona litlu og nánu samfélagi. Þar kynnist maður mörgum og ekki bara jafnöldrum sínum heldur líka fólki á öllum aldri og þorpið er eins og fjölskyldan manns. Áhugi minn á skáldskap og þessháttar hófst þar, ég las allt sem ég komst í og fór í bíó tvisvar í viku. Sækir þú mikið til Súðavíkur í dag? Já, ég reyni að eyða sumrunum þar að minnsta kosti, bæði til afslöppunar og vinnu. Ég hef skrifað svolítið mikið þar og Súðavík er ennþá minn heimastaður. Mér líður eins og ég sé gestur hérna í borginni en kemst heim á sumrin. Þú leikstýrðir Vaktarseríunum svokölluðu, af hverju heldur þú að þær hafi orðið svona vinsælar? Ég held að það hafi aðallega verið af því að þær komu á góðum tíma, en Íslendingar voru þá orðnir dálítið sveltir á leiknu gæðaefni í sjónvarpi. Það gerist annað slagið að maður hitti á einhverja svona gullæð eins og Vaktarseríurnar voru. Kemistrían í hópnum virkaði líka vel og þetta var náttúrlega alveg ofurgóður hópur sem vann að þessu og allt gekk upp. Óhætt er að segja að persónurnar í seríunum hafi slegið í gegn. Hvernig urðu þær til? Persónurnar spretta upphaflega út frá hugmynd- inni um kalda stríðið og stórveldin Rússland og Bandaríkin. Semsagt að á næturvakt á bensínstöð mætast kapítalistinn Ólafur, kommúnistinn Georg og á milli væri litla Ísland eða Daníel. Hvernig var handritið unnið? Handritið var unnið í hópvinnu, við sem unnum að því vorum bara í vinnubúðum og tókum þrjá til fjóra mánuði þar sem við hittumst á hverjum degi og skrifuðum. Áttu einhver uppáhaldsatriði úr þáttunum? Ég get hlegið endalaust að þættinum í Næturvakt- inni þegar Ólafur Ragnar byrjar að laktósa, hann tekur inn skemmt fæðubótarefni og byrjar að mjólka. Mér fannst það alveg sérstaklega fyndið að sjá Pétur Jóhann mjólkandi. Svo stendur líka hungurverkfallið í Fangavaktinni upp úr. En síðan eru þættirnir alveg uppfullir af yndislegum atvikum, það er eiginlega hægt að nefna endalaust atriði sem eru uppáhalds. Fyrir nokkrum árum framleiddi norska sjónvarps- stöðin TV 2 endurgerð á Næturvaktinni. Sást þú eitthvað af henni? Ég held ég hafi horft á einn þátt en hafði svo ekki taugar í meira. Mér fannst það bæði skrýtið og einhvernveginn truflandi að sjá eitthvað sem maður þekkir vel og hefur unnið að lengi túlkað af öðru fólki. Mér finnst líka þessar persónur svo mikið vera leikararnir sem túlkuðu þær upphaflega og var ekki alveg að tengja við þetta. Þættirnir voru eflaust alveg fínir en ég lagði ekki á mig að horfa á þá alla. Hvernig fannst þér Norðmennirnir tækla íslenska húmorinn? Þetta var svona að mestu leyti beinþýtt. Var bara handritið eins og það var, með einhverju norsku kryddi. Þeirra útgáfa var samt meira svona „gríní- grín“ eins og ég kalla það. Kosturinn við Vaktaserí- urnar er að þetta er blanda af húmor og drama en þeir tóku kannski meira kómíska partinn sem virkar að mínu áliti ekki nema dramað sé til staðar. Þú hefur ekki aðeins verið í gríninu, en kvikmynd- irnar Börn (2006) og Foreldrar (2007) voru dramat- ískari og vöktu mikla athygli. Hver var hugsunin bakvið þær? Með Börn og Foreldra lagði ég upp með þá hugmynd að mig langaði að gera þá tilraun að búa til kvikmynd algjörlega frá grunni, það er að leggja ekki til einhvern söguþráð og persónur eins og er nú yfirleitt gert. Það var bara byrjað á algjörum núllpunkti, sem þýðir í rauninni að þetta gerðist bara allt organískt, fyrst urðu til persónur og saga en það var aldrei skrifað neitt hefðbundið handrit, heldur varð allur leiktextinn til fyrir framan myndavélina, semsagt bara í spuna. Þannig að það var ekki eiginlegt handrit sem er skrifað niður hvað fólk er að segja heldur varð það bara til á staðnum. Þetta er ekki beint hefðbundin leið til þess að búa til kvikmynd eða hvað? Nei, ég leik mér oft með vinnuaðferðir sem eru ekki hefðbundnar að þessu leyti. Í Börnum og Foreldrum var þetta gert svona og í Vaktarseríunum komu leikararnir bara inn sem handritshöfundar, við skiptum niður með okkur vinnunni og unnum í mjög miklu samstarfi. Í leikhúsinu hef ég þróað það þannig að ég legg til upphaflega söguþráð og persónur, hvað gerist, upphaf, miðju og endi og allt það. Svo koma leikararnir inn og ég þróa baksvið og smáatriði á persónunum í gegnum fundi og svo tökum við svona tímabil þar sem við erum að spinna og leita og svo sest ég niður og skrifa endanlegt leikrit og við tekur hið hefðbundna ferli. Ég er alltaf að reyna að nota leikarann sem skapandi afl frekar en eitthvað túlkandi og það gefur margt af sér. Þegar hluturinn er loks tekinn upp eða frumsýndur hefur leikarinn lifað mjög lengi með persónunni sinni, kannski hálft ár eða meira, og það verður bara öðruvísi. Hvaðan færð þú innblástur til þess að fara þessa óhefðbundnu leið? Innblásturinn kemur meðal annars frá öðrum kvikmyndagerðamönnum sem koma upphaflega úr leikhúsunum. Það eru til dæmis Mike Leigh og John Casavettes sem spruttu úr leikhúsinu og hafa beitt álíka aðferðum. Er einhver munur á því að leikstýra gríni og drama? Í rauninni er enginn munur á því þegar það kemur að því að leikstýra. Maður setur sig kannski í aðeins öðruvísi stellingar þegar eitthvað á að vera fyndið, tímasetningar eru til dæmis mjög mikilvægar í grín- inu. En annars geri ég ekki mjög mikinn greinarmun á þessu tvennu því ég hef yfirleitt alltaf blandað þessum saman. Mér finnst drama án kómedíu og kómedía án drama einhvernveginn ekki virka. Þessir tveir þættir, hláturinn og gráturinn, mér finnst skemmtilegt að reyna að stilla þeim upp innan sömu verka. Það eina sem ég leitast við er að það komi frá einhverjum sönnum stað í leikaranum. Ef það er satt þá virkar það, hvort sem það á að vera fyndið eða harmrænt. Nú ertu snúinn aftur í leikhúsið en þú þreyttir frumraun þína þar árið 2012 með leikritinu Gull- regn sem sló rækilega í gegn. Hrífstu af leikhúsinu? Já, ég er mjög hrifin af leikhúsinu. Eitt sem ég sagði einu sinni í gríni var að þetta væri þægileg innivinna og það er það að hluta til. Í leikhúsinu ertu svolítið verndaðri heldur en í kvikmyndinni. Kvikmyndin er mikill hasar í framkvæmd, maður er að þeysast á milli staða og að fiska í litlum bitum en hefur meiri frið til að dunda sér í leikhúsinu. Ég er ekki leikhúsmaður að upplagi og þegar ég gerði Gullregn hafði ég aldrei unnið í leikhúsi áður sem leikstjóri og leikskáld þannig að ég nýtti mér bara það sem ég kunni úr kvikmyndunum og sjónvarpi. Ég var ekkert að reyna að enduruppgötva eitthvert leikhúsform heldur tók ég bara það sem ég hef gert áður og tók það með mér inn. Þannig að þessi tvö verk mín sem ég hef gert í leikhúsi hafa ekki verið langt frá því sem ég hef gert áður, formið er bara ögn öðruvísi. Annað kvöld verður nýjasta leikritið þitt, Óska- steinar, frumsýnt í Borgarleikhúsinu. Hvaða saga er sögð í því verki? Óskasteinar fjalla um hóp ógæfufólks sem ákveður að leiðrétta hlut sinn í lífinu með því að reyna að ræna bankaútibú í litlum bæ í nálægð við Reykjavík. Eins og svo oft þegar fólk ákveður að gera einverja vitleysu misheppnast ránið hrapallega og þau þurfa að brjótast inn í leikskóla og leita skjóls þar. Á flóttanum taka þau eldri konu sem gísl og eyða þau öll dágóðum tíma á leikskólanum frameftir nóttu og bíða eftir bílstjóranum sem stakk af. Áhorfendur fá semsagt að fylgjast með þessu fólki og hvernig það þreyir nóttina. Við hverju mega áhorfendur búast? Fólk getur búist mjög, mjög skemmtilegri sýningu. Þetta er hlátur og grátur í bland og er kannski ögn kómískara en Gullregn. Ég er að fjalla svolítið um sömu hluti og ég hef verið að fjalla um áður, sem er fjölskyldan, sambönd foreldra og barna sem og vöggugjafirnar, hvað það er sem gerir okkur að því sem við erum. Þetta er svona gangandi þema í flestu sem ég geri, ég er á vissan hátt alltaf að hjakka í sama farinu. Óskasteinar er annar hluti í þríleik um svona afkima íslensks samfélags sem ég er að gera fyrir leikhús þar sem Gullregn var fyrsti hluti. Ég ætla að gera síðan eitt leikrit í viðbót sem ég byrjaður að smíða. Þýðir það að þú ætlir að halda áfram í leikhúsinu? Ég hugsa þetta í þessum þremur verkum til að byrja með. En svo er ég líka með ýmis verkefni í kvikmyndum og sjónvarpi. Ég er að reyna að láta mér endast ævina til að gera allt sem ég vill gera. Ef við snúum okkur aftur að kvik- myndunum, hver er staða Íslands í kvikmyndagerð í dag? Staða Íslands í kvikmyndagerð er tvíþætt. Ytri ramminn, sá praktíski, er alveg skelfilegur eins og staðan er í dag. Afstaða stjórnvalda gagn- 13fimmtudagur 30. janúar 2014 Monitor Texti: Auður Albertsdóttir audura@monitor.is Myndir: Þórður Arnar Þórðarson thordur@mbl.is Mér fannst það alveg sérstaklega fyndið að sjá Pétur Jóhann mjólkandi. RagnaR á 30 sekúndum Fyrstu sex: 150971 Mín versta martröð: Að mæta í vinnuna til að leikstýra og vita ekki einu sinni hvert verkið er. Æskuátrúnaðargoð: Bob moran Það sem fékk mig fram úr í morgun: skemmtilegur dagur framundan í vinnunni Draumahæfileiki: Að geta búið til tónlist Ég hef aldrei: komið til Færeyja

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.