Morgunblaðið - 19.06.2014, Blaðsíða 9

Morgunblaðið - 19.06.2014, Blaðsíða 9
Almar segist vera bjartsýnn á að Bjarni Benediktssson, fjármála- og efnahagsráðherra, leggi fram frumvarp um einföldun á vörugjalda- og virðisaukaskattskerfunum í haust. Bjarni hefur skipað stýrihóp sem á að fjalla um málið, en markmiðið er að hverfa frá sér- tækri neyslustýringu með vörugjöldum og einfalda virðisaukaskattskerfið með minni mun á milli þrepa, færri undanþágum og auknu jafnræði milli skyldra atvinnugreina. Meðal verkefna hópsins er að leita leiða til að breikka skattstofna og sporna við skatt- svikum til að unnt verði að létta skattbyrði almennings og fyrirtækja auk þess sem meta á mögulegar mótvægisaðgerðir til að mæta þörfum tekjulægri hópa, eins og fram kemur á vef fjármálaráðuneytisins. Í stýrihópnum eiga sæti þrír fulltrúar fjármálaráðuneytis, þau Guðrún Þorleifsdóttir lög- fræðingur, Maríanna Jónasdóttir og Tómas Brynjólfsson skrifstofustjórar. Efsta þrepið eitt það hæsta Bjarni hefur sagt að brýn þörf sé á því að endurskoða virðisaukaskattskerfið. Efsta þrepið er eitt það hæsta í heiminum en margsinnis hefur verið bent á að skilvirkni kerf- isins haldist ekki í hendur við hátt skatthlutfall. Hefur það gefið töluvert eftir á síðari árum, bæði sem hlutfall af heildarskatttekjum ríkisins og landsframleiðslu. Almar fagnar þessum tíðindum og segist vera bjartsýnn á að tillögur í þessa veru verði lagðar fram í haust. „Við erum hins vegar ekki eins bjartsýn á að auðvelt verði að kalla fram breytingar á landbúnaðarkerfinu og tollamúrunum sem vernda það. En við finnum þó meðbyr og munum vinna að málinu af krafti og baráttugleði,“ segir hann. Í ræðu á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í apríl sagðist Bjarni sjá það fyrir sér að vörugjöldin myndu fara af öllu nema stóru vörugjaldaflokkunum, bifreiðum, eldsneyti, áfengi og tóbaki. „Það er ekki ástæða til að vera með vörugjöld á öðrum flokkum,“ sagði Bjarni og bætti við: „Við ætlum að einfalda kerfið með hag og þarfir fjölskyldunnar í huga. Það er löngu tímabært að viðurkenna að til dæmis ýmis heimilistæki eins og sjónvörp eru ekki lúxusv- arningur sem ríkið á með hárri skattlagningu að vera að reyna að koma í veg fyrir að fólk kaupi sér.“ Hann sagðist einnig vilja sjá breytingar í áherslunni í umræðunni um tolla. Ekki ætti einungis að einblína á það hvernig við gætum fellt niður tolla, heldur athuga hvernig við gætum fengið fellda niður tolla á okkar vörur. Vörugjöldin í endurskoðun Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í seinustu viku að iPod Touch- spjaldtölvan frá Apple hefði um nokkurra ára skeið verið tollflokkuð með röngum hætti. Í dómnum kemur fram að fyrst um sinn hafi tölvan verið sett í tollflokkinn „hljóðupptöku- eða hljóðflutningstæki“ og seinna meir í „myndupptökutæki eða myndflutningstæki“. Stefnandinn í málinu, Skakkiturn ehf., sem er umboðsmaður Apple á Íslandi, taldi hins vegar að setja ætti tækið í tollflokkinn „sjálfvirkar ferðagagnavinnsluvélar og einingar til þeirra“. Sá flokkur ber engin gjöld eða tolla. Að mati héraðsdóms reyndist síðastnefndi flokkurinn vera sá rétti og ber ríkinu nú að endurgreiða þær rúmar sextán milljónir króna sem Skakkiturn hafði áður greitt við inn- flutning tölvunnar. Almar segir að Félag atvinnurekenda hafi aðstoðað stefnanda, og fylgt málinu eftir al- veg frá byrjun, og að niðurstaðan sé ánægjuleg. Engin vörugjöld á tölvum Tollar og vörugjöld á tónlistarspilara eru samtals 32,5 prósent en eins og áður sagði eru engin slík gjöld lögð á tölvur sem fluttar eru til landsins. Almar bendir meðal annars á að hægt sé að nota tækið til að vafra um netið, senda tölvupósta, spila tölvuleiki og svo framvegis. Það sé alveg ljóst að um sé að ræða tölvu, en ekki vasadiskó. Enda segir í dómnum sjálfum: „Með staðalbúnaði nýtist tækið meðal annars til þess að komast á veraldarvefinn, vera í tölvupóstsamskiptum eða öðrum stafrænum samskiptum og til að leika tölvuleiki, auk þess sem unnt er að taka upp hljóð og geyma og spila tónlist og myndefni á tækinu. Þá getur notandinn hlaðið öðrum forritum inn á tækið og því lagað notkun þess að ákveðnu marki að eigin þörfum. iPod touch hefur því margþætt notagildi sem helgast af eiginleikum tækisins sem tölvu. Smæð tækisins kann að torvelda notkunarmöguleika þess við ákveðna vinnslu en opnar einnig á aðra möguleika.“ iPod Touch er lófatölva – ekki afspilunartæki Hann nefnir að vel sé hægt að gera skatt- kerfið hagkvæmt og gagnsætt með afnámi tolla og vörugjalda án kostnaðar fyrir ríkissjóð. Til dæmis megi stýra tekjuáhrifunum á ríkissjóð með ýmsum hætti, svo sem með því að hækka neðra þrep virðisaukaskatts tímabundið. Aðal- atriðið sé að skattkerfið verði bæði einfalt og skýrt. Eins fram hefur komið hefur Félag atvinnu- rekenda unnið að því að grisja þennan frumskóg tolla og vörugjalda og bent á ýmis dæmi um mis- ræmi, og oft á tíðum ósanngirni, í kerfinu. Mark- miðið er að efla vitund landsmanna um þetta flókna kerfi. Félagið bendir meðal annars á að venjulegur hátalari beri engin vörugjöld en heyrnartól, sem notuð eru fyrir ýmiss konar tónhlöður, bera 25% vörugjöld. Heyrnartól bera einnig almennt 7,5% verðtoll, en engan verðtoll frá ríkjum innan Evr- ópska efnhagssvæðisins og fleiri ríkjum. „Þetta ber vott um þrautseigju kerfisins þannig að til- tölulega nýlegar vörur lenda í klóm aðflutnings- gjalda og það án þess að hið opinbera virðist bregðast við með einhverjum hætti,“ segir Félag atvinnurekenda. Kerfið stuðli þannig að neyslu- stýringu án þess að nokkur ástæða sé til. Tollar þrátt fyrir skort Það hefur vakið furðu að þrátt fyrir skort á nautakjöti séu enn til staðar háir tollar á vör- unni. Félagið segir að skorturinn hafi verið mik- ill og því hafi hart verið tekist á um þá tollkvóta sem atvinnuvegaráðuneytið úthlutar árlega. „Sumir stórir nautakjötsinnflytjendur fá stund- um engan tollkvóta og geta því ekki flutt inn og selt nautakjöt á samkeppnisgrundvelli þar sem tollurinn er svo hár, bæði almennur tollur og EB-tollur, þ.e. tollur vegna innflutnings frá ríkj- um innan Evrópusambandsins,“ bendir félagið á. Sem dæmi sé 18% verðtollur og 877 króna magntollur á hvert kíló af nautalundum. Stund- um hafi verið brugðist við skorti með því að gefa út almenna tollkvóta á nautakjöti, en í febrúar á þessu ári var það einmitt gert. Það þýðir að ótil- greindu magni af kjöti var hleypt inn í landið á lægri tollum. „Þetta leiðir oft á tíðum til þess að þeir aðilar sem hafa boðið í hina árlegu tollkvótaúthlutun á mjög háu verði sitja uppi með þann kostnað á meðan aðrir geta flutt inn kjötið á lægri tollum,“ segir í umfjöllun Félags atvinnurekenda. Hár tollur á lífrænt kjúklingakjöt Áhugi á lífrænt ræktuðum kjúklingum hefur aukist til muna eftir að umræðan um verk- smiðjubúskap og velferð dýra komst í hámæli. Ljóst er að töluverð eftirspurn er eftir lífrænu kjúklingakjöti, en það hefur hingað til ekki verið framleitt hér á landi. Til samanburðar er lífrænn kjúklingur um fimmtán prósent af heildarneyslu á kjúklingi í Danmörku. Engu að síður ber inn- fluttur lífrænn kjúklingur sama toll og sömu gjöld og venjulegir verksmiðjuframleiddir kjúk- lingar, sem nóg framboð er af hér á landi, eða 30% verðtoll og 439 króna magntoll á hvert kíló. Verslunarfyrirtækið Hagar hefur óskað eftir því að tollkvótar á ost úr buffala-, geita- og ær- mjólk verði opnaðir. Finnur Árnason, forstjóri Haga, hefur sagt eðlilegt að heimilt verði að flytja inn bæði ost og lífrænan kjúkling án inn- flutningstolla ef innlendir framleiðendur geta ekki annað eftirspurn. Því hefur ráðuneytið hins vegar hafnað. Félag atvinnurekenda bendir á að þessir sér- stöku ostar beri 30% verðtoll og að lagður sé 430 króna magntollur á hvert kíló af þeim þrátt fyrir að sambærilegir ostar séu ekki framleiddir á Ís- landi. „Um er að ræða sömu álagningu og leggst á innflutta osta úr kúamjólk sem framleiddir eru í miklu magni á Íslandi,“ segir í umfjöllun félags- ins. Tollar þrátt fyrir litla framleiðslu Félagið vekur einnig athygli á því að 50% verðtollur sé lagður á kartöflusnakk en enginn á kornsnakk frá ríkjum innan Evrópusambands- ins. Almennt ber þó kornsnakkið 20% verðtoll og skiptir þá engu þótt afar lítil framleiðsla sé á því hér á landi. Félagið bendir á að hér séu aðeins tveir fram- leiðendur og annar framleiðsla þeirra á engan hátt heildarneyslu neytenda á kartöflusnakki. „Allt bendir til þess, þar á meðal hin sveiflu- kennda uppskera á innlendum kartöflum, að inn- lenda framleiðslan á kartöflusnakki sé að miklu leyti búin til úr erlendu hráefni sem íslensku framleiðendurnir flytja inn til landsins annað hvort tollfrjálst eða á mjög lágum tollum. Þessir háu tollar sem lagðir eru á innflutt kartöflusnakk eru því að vernda framleiðslu sem að mestu leyti er búin til úr innfluttu hráefni, neytendum til tjóns,“ segir Félag atvinnurek- enda. En hvað með franskar kartöflur? Alls er 76% verðtollur lagður á þær. Í umfjöll- un félagsins segir að aðeins einn framleiðandi, Þykkvabæjar, framleiði slíkar kartöflur hér á landi. Almennt hafi verið skortur á íslenskum kartöflum og því sé framleiðandinn fjarri því að anna eftirspurn neytenda eftir vörunni. „Þykkvabæjar flytur því inn kartöflur erlend- is frá, allt árið um kring, ýmist á 30% tollum eða tollfrjálst og notar þær meðal annars í fram- leiðslu á frönskum kartöflum. 2,8% af heildar- framleiðslu kartaflna hérlendis fara í að búa til franskar kartöflur en sala Þykkvabæjar nemur eingöngu 7% af innanlandsneyslu vörunnar. Inn- an við 5% af þeirri sölu eru unnin úr íslenskum kartöflum. Ofurtollur er því lagður á rúmlega 95% af neyslu Íslendinga á frönskum kartöflum undir því yfirskini að verið sé að vernda þau 5% sem eftir standa,“ segir í umfjölluninni. gjöld á öllum sviðum MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 19. JÚNÍ 2014 9FRÉTTASKÝRING H V ÍT A H Ú S IÐ / S ÍA – 1 4 - 1 3 5 1

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.