Hafnarfjörður - Garðabær - 30.05.2014, Blaðsíða 7

Hafnarfjörður - Garðabær - 30.05.2014, Blaðsíða 7
730. maí 2014 SveitarStjórnakoSningar 2014 Hvað á að kjósa?: Áherslur oddvita flokkanna í Hafnarfirði Sex flokkar bjóða fram í bæjarstjórnarkosningunum í Hafnarfirði á morgun. Þetta eru Björt framtíð, Framsóknarflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sjálf- stæðisflokkurinn og Vinstri græn. Samfylking og VG hafa starfað saman í meirihluta á kjörtímabilinu. Framboð BF og Pírata eru ný. Skoðanakannanir hafa sýnt að meirihlutinn heldur ekki velli, fari kosningar eins og síðasta könnun Félagsvísindstofnunar Háskólans gefur til kynna, en hún var birt í Morgunblaðinu um miðjan mánuðinn. Í þeirri könnun mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 31,6 prósenta fylgi, sem er raunar umtalsvert minna en í kosningunum 2010, þegar hann fékk rúm 37 prósent atkvæða og fimm fulltrúa kjörna. Samfylkingin mælist með 24 prósent. Það er töluvert minna en í síðustu kosn- ingum, þegar hún fékk yfir 40 prósenta fylgi og fimm bæjarfulltrúa kjörna. Vinstri græn mældust með rúmlega 8 prósenta fylgi í könnuninni. Þau héldu sínum bæjarfulltrúa, færu kosningarnar svona, en VG fékk rúm 14 prósent í síðustu kosningum. Nýju framboðin Björt framtíð og Píratar hafa samanlagt mælst með hátt í 30 prósenta fylgi. Fylgi við BF mælist um 20 prósent nú og Píratar með rúm 8 prósent. Framsóknarflokkurinn náði ekki inn manni í síðustu kosningum. Þá fékk flokkurinn um 7 prósenta fylgi og mælist með annað eins nú ef marka má könnun Félagsvísindastofnunar. Nýjasta könnunin í Hafnarfirði, sem hafði verið birt þegar blaðið fór í prentun, birtist í Fréttablaðinu 22. maí. Þar blasir við örlítið önnur mynd. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur, en með 28 prósenta fylgi. Fylgi við Samfylkinguna mælist 25 prósent rúm. Fylgi við Bjarta framtíð tæp 17 prósent og fylgi við Vinstri græn mælist tæp 13 prósent. Fylgi við Pírata mældist í þeirri könnun rúm 12 prósent en framsókn mælist með rúm 7 prósent, eins og í könnun Félagsvísindastofnunar, og nær ekki inn manni. Björt Framtíð: Leggst gegn loforða- listum fyrir kosningar Guðlaug Kristjánsdóttir er borin og barnfædd í Hafnarfirði. Hún er þekkt fyrir störf sín hjá BHM þar sem hún hefur gegnt formennsku um árabil, og er nú oddviti Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði. Spurð um þrjú brýnustu málin fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar til skemmri og lengri tíma segist Guðlaug ekki vilja aðskilja markmið með þessum hætti. „Allt sem við gerum í dag hefur áhrif til framtíðar og því brýnt að horfa fram í tímann þegar ákvarðanir eru teknar,“ segir Guðlaug, og bætir því við að Björt framtíð vilji „hrista aðeins upp“ í bæjarpólitíkinni í Hafnarfirði. Það sé markmið til skemmri tíma. „Annars er grunnáhersla Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði á framtíðar- stefnu, sem við myndum vilja móta þvert á flokka og með greiðri aðkomu bæjarbúa. Hvernig bæ vilja Hafn- firðingar sjá til framtíðar? Fyrir hvað stendur bærinn okkar? Sátt um sam- eiginlega framtíðarsýn myndi styrkja mjög starf bæjarstjórnar að okkar mati. Við erum þar með gnótt af hug- myndum til að leggja í púkkið,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir. Framsóknarflokkurinn: Hagkvæmur rekstur bæjarins Ágúst Garðarsson, oddviti Fram- sóknarflokksins er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði. Hann er stúdent frá Flens- borgarskóla, BA í stjórnmálafræði frá HÍ og stundar nú MPM nám í verk- efnastjórnun við Háskólann í Reykja- vík. „Fjármál, ferðamál, íþrótta- og tómstundamál, skólarnir, velfarðar- mál, þjónusta, atvinnu- og skipulags- mál eru allt mikilvægir málaflokkar. Fjárhagsstaða bæjarins er slæm. Það er engum blöðum um það að fletta. Það er auðvitað mál sem þarf að taka og bæjaryfirvöld hafa þegar hafið þá vinnu að einhverju leyti. Þeirri vinnu verður að halda áfram og ég er viss um að þeir sem koma til með að taka við stjórnun bæjarins muni leita allra ráða til þess að gera rekstur bæjarins eins hagkvæman og mögulegt er. Skuldir og skuldbindingar sem hlutfall af tekjum er um 201% í lok árs 2013 ef horft er á drög að ársreikningi,“ sagði Ágúst í viðtali við blaðið fyrr í vor. Píratar: Ágætt fyrst skref Brynjar Guðnason, oddviti Pírata er uppalinn í Hafnarfirðinum. „Ég hef alltaf haft skoðanir og fylgst með stjórnmálum, var skráður í Sam- fylkinguna sem unglingur en áttaði mig fljótlega á því að ég ætti ekki samleið með þeim og sagði mig úr flokknum áður en ég fékk kosningarétt. Frá þeim tíma og þangað til ég skráði mig í Pírata var ég virkur í ópólitískum fé- lagsstörfum,“ sagði Brynjar í nýlegu viðtali við blaðið. „Það brýnasta er að ná betri tökum á fjármálum, opna bókhaldið fyrir bæj- arbúum og tryggja aukið þátttökulýð- ræði.“ Til lengri tíma telur Brynjar það til mikilvægustu markmiðanna að „opna stjórnsýsluna upp á gátt og gera hana gegnsæja og aðgengilegri bæjarbúum – þar á ég við t.a.m. opið bókhald, að gera íbúum auðveldara að fylgjast með og hafa áhrif á mál sem tekin eru fyrir í nefndum og ráðum og að bærinn leggi áherslu á að birta öll gögn á opnum sniðum. Opið bókhald veitir mikið og nauðsynlegt aðhald á meðferð bæði kjörinna fulltrúa og embættismanna með peningana okkar,“ sagði Brynjar í samtali við blaðið fyrr í vor. Þess má geta að bæjaryfirvöld byrjuðu nýlega að birta nákvæmar upplýsingar um fjárreiður bæjarins, þar á meðal eru framlög til einstakra skóla og leikskóla, til íþróttafélaga og félagasamtaka, kostnaður við mokstur og hirðingu, auk þess sem greint er frá kostnaði við stjórnsýslu bæjarins, auk skatttekna. Rauntölur eru birtar með samanburði við fjárhagsáætlun bæjarins; bæði fyrir hvern mánuð og einnig miðað við árið. „Þetta er ágætt fyrsta skref en við viljum að hver færsla í bókhaldinu sé birt á netinu, fyrir utan þær sem er eðlilegt að birta ekki sem stakar færslur vegna persónuverndarsjónarmiða, og það sé hægt að leita í þeim á þægilegan hátt.“ Vinstri græn: Betra samfélag næstu fjögur ár Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Hafnarfirði, er bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar og hefur gegnt því embætti undanfarin misseri. Hún er Hafnfirðingur í húð og hár. „Bæði ég sem bæjarstjóri og fulltrúar okkar Vinstri grænna í nefndum og ráðum bæjarins höfum lagt okkur fram um að vera trú hugsjónum okkar um velferð, jafnrétti og samvinnu. Verk- efnin á þessu kjörtímabili hafa verið bæði flókin og krefjandi en okkur hefur tekist að stórbæta fjárhag Hafnarfjarðar með gagngerri endurskipulagningu á rekstri, stjórnun og endurfjármögnun lána bæjarins. Ég vona því að bæjar- búar séu sáttir við það hvernig til hefur tekist og að okkur gefist tækifæri til að halda áfram að byggja upp enn betra samfélag næstu fjögur árin,“ segir Guð- rún Ágústa. Guðrún Ágústa nefndi húsnæðis- málin fyrst, þegar hún var spurð um brýnustu mál í viðtali í síðasta tölu- blaði. Fólk verði að geta eignast eða leigt sér húsnæði. „Það á ekki að vera nauðsynlegt að eiga fasteign alla ævi og það ætti líka að vera hægt að leigja hús- næði alla ævi. Það er líka nauðsynlegt að auka framboð af félagslegu húsnæði í bænum.“ Hún nefnir einnig stofnun emb- ættis umboðsmanns Hafnfirðinga, sem bæjarbúar eigi að geta leitað til, séu þeir ósáttir við málsmeðferð eða ákvarðanatöku bæjarins. „Við höfum stigið nokkur skref í átt að gegnsærri stjórnsýslu með birtingu gagna með fundargerðum og gert hana aðgengi- legri. Stofnun embættis umboðsmanns Hafnfirðinga er í raun eðlilegt skref í kjölfar þeirra sem við höfum þegar stigið.“ Jafnframt þurfi að jafna tæki- færi barna í bænum. „Með auknu fjár- magni til fræðslumála, með upptöku frístundakorts í stað núverandi fyrir- komulags og ekki síst að skoða hvort við getum ekki sett á stofn myndlist- arskóla hér í Hafnarfirði svo eitthvað sé nefnt.“ Rætt er við oddvita Samfylkingar- innar og Sjálfstæðisflokksins á bls. 14. Skapandi samstarf Fjölbreyttni í skólastarfi Sú auðlind sem er hverju bæjarfélagi verðmætust er mannauðurinn. Í lýð- ræðisþjóðfélagi er fátt mikilvægara en að skapa rými fyrir börnin okkar og unga fólkið þar sem þeim gefst færi á að finna rödd sína svo þau geti tjáð sig um þau málefni sem að þeim snúa. Til þess að einstaklingurinn geti þroskað með sér lýðræðisvitund á þennan hátt skiptir máli að hlúa að fjölbreyttu skólastarfi og að auka vægi skapandi greina. Fjölbreyttara val í skólastarf eykur frumkvæði og skapandi hugsun og tryggir að allir fá jöfn tækifæri til þess að þróa sitt einstaka áhugasvið, prófa sig áfram og uppgötva sjálfan sig. Öflugt samstarf við Gaflaraleikhúsið Á síðustu þremur árum hafa grunn- skólar Hafnarfjarðar átt öflugt sam- starf við Gaflaraleikhúsið um leik- listarkennslu fyrir unglinga. Þetta samstarf hefur gefið góða raun og skilað sér í faglegri leiklistar- og tjáningarkennslu og auknum metnaði og áhuga unglinganna þar sem þau fá að starfa í alvöru leik- húsrými með öllu tilheyrandi. Við í Samfylkingunni viljum byggja á þeirri reynslu sem hefur skapast í samstarfi grunnskólanna og Gafl- araleikhússins og efna til sambæri- legs samstarfs við fleiri aðila og á fleiri sviðum. Til dæmis mætti koma á samstarfi við myndlistarfólk, gall- erí, söngskóla og efla enn fremur samstarf við framhaldskólana og þá sérstaklega þegar kemur að ýmsum iðn- og tæknigreinum. Að þjálfa skapandi hugsun Sjálf kenndi ég börnum og ungu fólki leiklist og tjáningu í átta ár. Í gegnum starf mitt hef ég séð það aftur og aftur hvað þau búa að því alla ævi að fá að kynnast rödd sinni, skapandi hugsun og ólíkum nálgunum. Með því að gefa börnum og ungu fólki tækfæri til að kynnast mismunandi skapandi-, list- og verkgreinum erum við að ala upp einstaklinga sem búa yfir auknu sjálfstrausti, skapandi hugsun og lýð- ræðisvitund. Einstaklinga sem munu taka virkari þátt í samfélaginu og leita skapandi lausna á þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir. Höfundur er Eyrún Ósk Jónsdóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði Ágúst Garðarsson. Brynjar Guðnason. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir. Guðlaug Kristjánsdóttir.

x

Hafnarfjörður - Garðabær

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hafnarfjörður - Garðabær
https://timarit.is/publication/1080

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.