Hafnarfjörður - Garðabær - 07.02.2014, Blaðsíða 11

Hafnarfjörður - Garðabær - 07.02.2014, Blaðsíða 11
Eignaumsjón er óháður fagaðili þegar kemur að rekstri húsfélaga og rekstrarfélaga – og því frábær lausn fyrir eigendur atvinnuhúsnæðis. Í okkar umsjá ertu í góðum höndum - við sjáum um fjármálin, fundina, undirbúning framkvæmda og viðhalds og annarra þátta sem þarf að leysa. Er húsfélagið í lausu lofti ? » Vantar óháðan aðila til að annast málefni húsfélagsins eða rekstrarfélagsins ? Eignaumsjón hf . – Suður landsbraut 30 – Sími 585 4800 – afgreids la@eignaumsjon. is – www.eignaumsjon. is 117. febrúar 2014 Garðbæingurinn Þór Jónsson er landsþekktur fyrir störf sín við frétta- mennsku. Hann hefur fyrir nokkru lagt þau störf á hilluna og stundar lögfræðinám. Hann er stúdent frá FG en er líka menntaður í blaðamennsku. Hann gaf út skólablað tólf ára gamall, en segir að leiðtogafundurinn í Höfða 1986 hafi haft grundvallaráhrif á að hann valdi sér fréttamennsku sem starfsvettvang, en hann ætlaði alltaf að verða dýralæknir þegar hann yrði stór. Helstu áhugamál hans eru sönglist – en hann hefur sungið í óperum – og stangveiði, auk þess að sökkva sér líka í sagnfræði og bókmenntir. Eins og sönnum Garðbæingi sæmir, þá heldur hann með Stjörnunni, en Manchester United er í uppáhaldi af erlendum vettvangi. Þór er þriggja barna faðir og hefur auk Íslands átt heimili í Svíþjóð og Kanada. Þór Jónsson er í yfirheyrslunni að þessu sinni. Hvernig er Ísland í sambanburði við önnur lönd sem þú hefur búið í? Þjóðfélagið er auðvitað smærra í sniðum og því fylgja kostir og gallar. Ég gæti t.d. trúað að sérstakir hæfileikar manna uppgötvist frekar hér en hjá stærri þjóðum. Prinsippleysi og minnimátt- arkennd eru þó ekki eins áberandi úti í löndum. En alltaf finnst manni samt best á Íslandi, þrátt fyrir allt, stutt í fallega náttúru, hér eru fjölskylda og vinir og til- tölulega mikið öryggi sem er mikilvægt þegar maður á börn að vaxa úr grasi. Hver er stærsti sigur þinn? Án vafa að ná tökum á áfengisdrykkj- unni. Hver er þinn helsti kostur? Ég læt aðra um að dæma það. En galli? Mér finnst auðveldara að svara því. Ég get verið orðhvatur og orðhvass. Það er yfirleitt ekki illa meint en oft misskilið. Hvað áttu marga „vini“ á Facebook? 1556 Uppáhaldstónlistarmaður eða tónlist- arstefna? Óperutónlist, án hennar fengi ég ekki þrifist, annars er ég alæta á tónlist en finnst erfiðast að melta nútímajazz . Uppáhaldstónlistarmaðurinn hlýtur því að vera óperusöngvari og þá vand- ast valið, en ég ætla, úr því að ég er til- neyddur, að nefna Gigli, nei, Caruso, eða Cappuccilli og Domingo eða .... Hvaða bók eða listaverk hefur haft mest áhrif á þig og hvers vegna? Ég hugsa að það sé trílógía Väinös Linna um örlög hjáleigubændanna Koskela og Óþekkti hermaðurinn eftir sama höf- und. Ég las þær allar fjórar í striklotu á táningsárunum og þær kyntu undir áhuga minn á styrjaldarsögunni. Sjónvarp, útvarp, bók eða net? Net, því að þar er bæði sjónvarp og út- varp og allt hitt. Hvað kveikti áhuga þinn á fjölmiðlum? Þegar ég fjallaði um leiðtogafund Reag- ans og Gorbatjovs og stóð svo nærri valdamestu mönnum heims að ég varð að víkja úr vegi þannig að Shultz og Shevardnadze gætu heilsast í Háskólabíó ákvað ég að hella mér út í blaða- og fréttamennsku. Ekki spillti heldur fyrir að mér tókst að gera Hjálmar W. Hann- esson sendifulltrúa sturlaðan úr reiði með því að fjalla um efasemdir um að íslensk stjórnsýsla réði við leiðtogafund af þessu tagi. Alveg óháð því hvort reiði hans var réttmæt þá var kostulegt að sjá erindreka íslenska ríkisins æða um anddyri Háskólabíós eins og sært dýr. Fyrir mér var þetta staðfesting á því að íslenskir embættismenn ynnu í vernduðu umhverfi og þættust yfir gagnrýni hafnir. Því fannst mér verða að breyta. Annars hafði áhuginn blundað lengi eða alveg frá því að ég tók þátt í að gefa út fjölritað bekkjarblað í 12 ára bekk í Flataskóla. Hvernig finnst þér að starfa við fjöl- miðla? Þetta er afskaplega mikilvægt starf. Góð blaðamennska er jafnnauðsynleg lýð- ræðinu og slæm blaðamennska er hættu- leg því. Hraðinn er of mikill og álagið enda kemur það iðulega niður á frétt- unum, sem verða ekki nógu vandaðar og allt of oft einhliða. Metnaðurinn er ekki nógu mikill en það er ekki blaða- og fréttamönnum að kenna heldur stjórn- endum og eigendum fjölmiðla, því að þeir einblína um of á excelinn sinn. Vandaður fréttaflutningur kostar pen- inga og það gengur ekki að líta aðeins til afkasta. Magn og gæði fara ekki endi- lega saman. En að þessu rausi slepptu er starf við fjölmiðla mjög spennandi og skemmtilegt, fjölbreytt og, þegar vel tekst til, samfélagslega mikilvægt. Hvað er skemmtilegast við það starf? Ég held að mér hafi fundist starfið gefa mér mest þegar mér tókst að afhjúpa eitthvað sem reynt var að leyna al- menningi en skipti hann máli að vita. Biskupsmálið er mér ofarlega í huga og Miksonmálið, sömuleiðis fréttasyrpa sem ég flutti um kjarnorkuvopnaskip Bandaríkjahers sem komu hingað til lands. Var erfitt að hætta? Já – og nei. Ég var orðinn þreyttur á færibandavinnu í fréttamennsku þegar ég ákvað að söðla um og gerast upplýs- ingafulltrúi. Hins vegar var ég að segja skilið við starf sem ég kunni og þekkti mjög vel, sem ég hafði menntað mig til og hafði yfirleitt mikla ánægju af. En ég hafði lengi verið varafréttastjóri og sem slíkur sinnt ýmsum leiðinlegum skrif- stofuverkefnum auk þess sem ég var lát- inn bera ábyrgð en hafði ekki völd í sam- ræmi við hana. Það sem gerði útslagið, þegar ég ákvað að hætta, var aftur á móti ótti, sem ég varð var við hjá sjálfum mér, við að fara út fyrir þægindahringinn og takast á við ný verkefni á öðrum og að mörgu leyti framandi vettvangi. Ég vildi ekki láta undan slíkum ótta. Hvað er að þínu mati mikilvægast fyrir Garðabæ? Garðabær er lítill og vinalegur bær sem heldur sumum helstu perlum sínum vandlega leyndum fyrir öðrum, s.s. hinum merkilega landnámsskála í miðbænum sem ég tók þátt í að grafa upp. Ég held að hann eigi að kappkosta að vera lítill og vinalegur áfram til að forðast vaxtarverki nágranna sinna, teygja sig sem minnst út í sjó eða upp í heiðar heldur finna jafnvægi sitt og halda því, en hann má gjarnan auglýsa kosti sína til að laða að gesti. Einhverjir gætu minnst á útþenslu til Bessastaða úr því að ég er tala um að hann eigi ekki færa mikið út kvíarnar, en þá er til þess að líta að ég hef alltaf talið Álftanes til Garðabæjar, sameiningin var í mínum huga aðeins stjórnsýslulegt formsatriði til staðfestingar á því. Að því sögðu, hvað mættu bæjaryfir- völd gera betur? Það er mikilvægt fyrir bæinn að styðja áfram vel við íþróttastarf í bænum, helst enn betur. Stjarnan mótar sjálfsmynd bæjarins meira en t.a.m. atvinnulíf, um- hverfi, sérkenni eða saga, þannig að það hefur að miklu leyti verið um íþróttirnar sem bæjarbúar hafa sameinast. Því er engin frekja að halda uppi kröfunni um öflugan stuðning við íþróttir og nauðsyn þess að ljúka mannvirkjagerð sem lofað hefur verið, s.s. hvað snýr að handbolt- anum, og endurbótum á ýmissi aðstöðu til íþróttaiðkana. Eftir það má svo fara að huga að knatthúsi í bænum. Hvaða stundir í lífinu eru gleðileg- astar? Ég er kominn á svo hægan snúning að ég hugsa að mestu ánægjustundirnar séu að sjá börnin vaxa og dafna og ná árangri í því sem þau kjósa að taka sér fyrir hendur. Svo er aldrei leiðinlegt að sjá Stjörnuna vinna–eða Manchester United, þótt það gerist æ sjaldnar. Leiðinlegast? Ef til vill skattframtalið. Hvað gerir þú þegar þú ert argur eða ekki í góðu skapi? Sennilega skattframtalið. En þegar þér leiðist? Alveg örugglega skattframtalið. Hvenær líður þér best? Þegar ég er ekki að vinna við skattfram- talið. Nei, í alvöru, ég fæ góða aðstoð við skattframtalið. Ég reyni almennt að tileinka mér eins og ég get það sem mér virðist vera eðlislægt börnum og voffum, að reyna að láta sér líða sem best við hverjar þær aðstæður sem bjóðast hverju sinni og nöldra sem minnst. Árangurinn er upp og ofan. Áttu þér fyrirmynd í leik eða starfi? Engan einn en ég dáist yfirleitt að þeim sem gera rétt og þola ekki órétt, einkum þegar er við ramman reip að draga. Hvað er framundan hjá Þór Jónssyni? Því er auðsvarað, hann er að fara að sökkva sér ofan í bækurnar um saka- málaréttarfar og réttarheimildafræði og skrifa BA ritgerð um bótarétt. Lífsmottó: Þegar stórt er spurt .... Kannski að vera óhræddur að spyrja, ef mig vantar upp- lýsingar. Svo eru tvær reglur sem pabbi kenndi mér ungum og hafa reynst mjög vel. Önnur er sú að hafa í huga hvort að- gerðir manns stuðli raunverulega að því að tilætlaður árangur náist, samanber ummæli Karls Marx: „Was willst du damit erreichen?“ Hin er sú að þú slæst ekki við apa, þú réttir honum banana. Þór Jónsson: Varð þreyttur á færibandavinnu við fréttamennsku

x

Hafnarfjörður - Garðabær

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hafnarfjörður - Garðabær
https://timarit.is/publication/1080

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.