Skessuhorn - 11.12.2013, Page 25
25MIÐVIKUDAGUR 11. DESEMBER 2013
Opinn íbúafundur um
hitaveituna á Akranesi
Akraneskaupstaður og Orkuveita Reykjavíkur
boða til opins íbúafundar um stöðu og horfur
í hitaveitumálum bæjarins fimmtudaginn
12. desember kl. 20:00 í Tónbergi.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri setur fundinn og Bjarni
Bjarnason forstjóri Orkuveitunnar kynnir stöðuna og hvað
er til ráða.
Ábendingar verða vel þegnar á fundinum
og fyrirspurnum verður svarað.
Össur dansar listilega á jarð-
sprengjusvæði í bók sinni Ári drek-
ans – og er furðu fimur og þróttmik-
ill í stíl og aðferð, já hann fer víða af
mikilli hugvitssemi og skemmtileg-
heitum um málefni sem mörgum
þykja leiðigjörn. Allt sviðið er und-
ir í pólitíkinni – og óhjákvæmilegt
að við ófullkomnir þátttakendur – á
senu eða utansviðs í því dramatíska
leikriti sem íslensk stjórnmál óneit-
anlega eru – hrökkvi stundum í kút
þegar einn aðalleikaranna, einna
knáasti íþróttamaðurinn á vellin-
um kastar kúlunni í óvæntar áttir
– og hún lenti stundum í eldfimum
jarðvegi. Össur skrifar ekki þessa
dramatísku frásögn til að þóknast
mönnum, og er algerlega meðvit-
aður um að hann er að segja sög-
ur út frá eigin upplifun og sjónar-
hornum – aðrir sjái heiminn öðru-
vísi og dragi aðrar ályktanir, eins
og höfundur undirstrikar sjálfur í
formála bókar. „Ég reyni að skrúfa
hvergi fyrir sjálfan mig,“ segir Öss-
ur og kannski er það meginstyrkur
þessarar bókar. Hún er krafmikil,
fyndin, hjartahlý, litterer og gáska-
full eins og karlinn, og afar fróð-
leg, - en auðvitað er auðvelt að vera
ósammála honum í ýmsum punkt-
um, þó það nú væri.
Listræn tök
Það er gífurlegur vandi að fjalla
um stjórnmál á bók þannig að les-
endur missi ekki áhuga – og mikil
kúnst að geta haldið þeim við efn-
ið. Þetta tekst Össuri ævintýralega
vel og beitir til þess ýmsum aðferð-
um. Einna snjallast þykir mér hve
hratt og vel hann skiptir milli sviða,
frá makríl í Norður-Atlantshafi til
Malaví í Afríku, litið við í Lundún-
um og svo birtist hann í Brussel og
gerir Janos Martonyi utanríkisráð-
herra Ungverjalands að sérlegum
talsmanni Íslands í makríldeilunni.
Mektarfólk um allan heim verður
að málvinum utanríkisráðherrans
íslenska og maður á von á að hann
bjóði forsetum og kóngum í nefið í
New York, svo hvílist hann afslapp-
aður á brókinni fjarri mannabyggð-
um í Djúpinu – en er óðara kannski
rokinn til Abu Dhabi og brunar svo
beint í gufubað í Laugum. Og skeyti
hans og skot fljúga með smassi og
farsímtölum um loftin blá – það er
hraði í frásögn og það er flogið hátt
– heimurinn allur er undir. Og svo
okkar pólitíska heimaböl.
Pólitíkin er oft harðúðug og
einsog heilfryst í blokkum og svið-
ið myrkvast. Þá verður hún oft þíð-
leg á augabragði með persónuleg-
um vendingum frá konunum í lífi
Össurar, Árnýju, Birtu og Ingveld-
ar Esperönzu. Þær ljá hinum harða
pólitíkusi mannúð og blíðu – og
smá fjarlægð á kuldann og harð-
neskjuna í því pólitíska hraðfrysti-
húsi þarsem bóndinn vinnur. Með
því að spegla viðfangsefni í hörð-
um heimi með athugasemdum og
kommentum frá þeim og um þær
- mýkist allt, grösin gróa, blómin
brosa, sólin skín á ný og pólitík-
usinn (og lesandinn) taka hvaðeina
í sátt. Stílbrögð af þessum toga eru
oft afar vel úr garði gerð og víðar
má njóta þess að Össur hefur list-
ræn tök á frásögninni.
Mikill fengur er að því að fá á
bók persónulega upplifun manna
sem standa í fremstu víglínu ís-
lenskra stjórnmála. Og það áður en
vígvöllurinn stirðnar í gleymskunn-
ar safni. Mér segir líka hugur um
að öll sú vinna og aðferðafræði sem
Össur beitti sem utanríkisráðherra
í samskiptum við Evrópubandalag-
ið muni gagnast til langrar framtíð-
ar, jafnvel þótt fenni um hríð í spor
þeirra sem unnið hafa að evrópska
bræðralaginu. Öll él birtir upp um
síðir, - jafnvel fyrr en nokkurn varir.
Það er líka fróðlegt að kynnast mál-
efnum þróunarsamvinnu og sam-
stöðu með öðrum þjóðum í frásögn
hans – því hér skynjar maður raun-
verulega samlíðun með fólkinu
sem háir baráttuna fyrir brauði – og
lífi sínu fjarri vestrænni velferð.
Frá afreki til ráðvillu
Í gegnum frásögn Össurar má
skynja mikil vatnaskil í byrjun árs
2012 – ríkisstjórnin sem unnið
hafði afrek við björgunarstörf eft-
ir hrun íslenska efnahagskerfis-
ins og hlaut fyrir það einróma lof
á erlendum vettvangi var komin í
þrot hér heima. Vinstri stjórnin átti
við alls konar innanmein að stríða,
samstarfsflokkurinn VG var marg-
klofinn. Eftir að helstu „hreins-
unarstörfum“ var lokið virðist sem
stjórninni hafi verið flest hvað
ómögulegt. Öll helstu mál stjórn-
arinnar voru í þófi – og hún virð-
ist ekki hafa haft meirihluta til að
ljúka þeim.
Þar við bættist ágreiningur um
þau mál sem höfðu komið upp,
ekki síst vegna landsdóms yfir Geir
Haarde. Landsdómurinn virðist
hafa verið óráðsferðalag frá upp-
hafi. Pólitík í lýðræðisþjóðfélagi á
að gera upp í umræðum og kosn-
ingum, en pólitísk réttarhöld eiga
ekki við. Margir vöruðu við þessum
málaferlum og afleitar afleiðingar
koma berlega í ljós í Ári drekans.
Vonbrigði
Einna stærst erindi þessarar ríkis-
stjórnar var aðildarumsókn að Evr-
ópubandalaginu. Sú vegferð var
bundin í stjórnarsáttmála og sam-
þykkt af meirihluta Alþingis. Engu
að síður gengu margir þingmenn
Vinstri grænna gegn sáttmálanum
– og lögðu steina í götu vegferð-
arinnar sem farin var undir stjórn
Össurar. Mér finnst hann fara mjúk-
um höndum um þessa samstarfs-
menn sína. Margir þingmanna VG
snérust gegn ríkisstjórninni í fleiri
mikilvægum málum – og gengu
meira að segja úr flokki sínum, og
hvert mikilvæga og glæsilega mál-
ið af öðru lenti í strandi: rammi um
virkjanaröð, breytingar á stjórnar-
ráði, fiskveiðistjórnunarfrumvörp
- og sjálft stjórnarskrármálið. Jó-
hanna Sigurðardóttir var í forystu
við björgunarstörfin og mér fannst
Össur að meinalausu hafa mátt vera
stoltari af því að hafa stutt hana til
þeirra verka. En ekki varð ráðaleys-
ið minna þegar kom að uppbygg-
ingarfasanum á seinni hluta kjör-
tímabilsins. Það var ekki bara kom-
inn kyrkingur í stjórnarsamstarfið
– loftið tók einnig að þrútna inn-
an Samfylkingarinnar. Þar var Öss-
ur ekki í neinu aukahlutverki.
Fylgishrunið í kosning-
unum 2013
Ef til vill má einmitt skynja fylgis-
hrun jafnaðarmanna í kosning-
unum 2013 í lýsingum Össurar á
pólitískri framvindu í Ári drek-
ans. Vandi íslenskra sósíaldemó-
krata varð meiri en sjálfrar stjórn-
arinnar, meðal annars vegna þess
að væntingar til Samfylkingarinn-
ar voru miklu meiri en hún gat ris-
ið undir. En líka vegna þess hvern-
ig tekið var á viðkvæmum málum.
Hvað eftir annað virðast ráðamenn
stjórnarinnar hafa talið nóg að gert
til hjálpar heimilinum – og heykt-
ust á að stíga stór skref , þótt mörg
smærri væri stigin – kannski stærri
samanlagt en stóraskrefið sem nú-
verandi ríkisstjórn sté á dögun-
um í Hörpu. En það gildir ekki –
kjósendur refsuðu Samfylkingunni
vægðarlaust í kosningunum og
verðlaunuðu Framsókn sem bauð
betur í þessu efni. Össur nefn-
ir dæmi um fyrirhugaðar aðgerð-
ir sem runnu út í sandinn í stjórn-
arsamstarfinu – og hann var ekki
sáttur við aðferðir og hætti leið-
toga stjórnarflokkanna.
Össur segir að Jóhanna hafi leitt
flokkinn alltof langt til vinstri. Mér
kemur dálítið á óvart hversu Össur
staðsetur sjálfan sig langt til hægri
í hópi íslenskra sósíaldemókrata.
Þannig mat hann mál strax í árs-
byrjun 2012 að nauðsynlegt væri
að næst yrði gengið til kosninga
með „minni vinstrisveiflu“ og síð-
ar á árinu skýtur hann fram sams
konar mati um að Jóhanna hafi leitt
flokkinn of langt til vinstri. Þarna
finnst mér hann á villigötum – mér
sýnist miklu frekar að Samfylking-
in hefði haft gott af því að fara ein-
hverja skilgreinda leið til vinstri
– en ætli staðreyndin sé ekki nær
því að vera sú að flokkurinn hafi
ekki alveg vitað hvert hann var að
fara. Hann var bara í því að lifa –
hafa það af að lifa út kjörtímabilið.
Þetta finnst mér líka áberandi í lýs-
ingum Össurar – og einn af kost-
um þess forms sem hann hefur á
frásögninni – er að lesandinn getur
hæglega dregið sínar eigin ályktan-
ir af lýsingum hans á atburðarás-
inni. Samverkandi þættir urðu þess
valdandi að Samfylkingin missti
trúnað og traust kjósenda.
Hrunið var ekki einvörðungu
efnahagshrun, heldur og siðferði-
legt, félagssálrænt hrun sem við
sem þjóð erum enn að kljást við.
Vinstri stjórnin vann aldrei nógu
vel að nauðsynlegri hugmynda-
vinnu, hvorki við skilgreiningar á
vandamálum né framtíðarmark-
miðum. Það vantaði lifandi mark-
mið, kyndilbera sem lýst gátu til
framtíðar og leitt þjóðina að blóm-
legum ökrum og slegnum túnum.
Það voru mikil mistök hjá rík-
isstjórninni að skilgreina sig sem
„norræna velferðarstjórn“, því þessi
ríkisstjórn gat aldrei orðið ann-
að en „björgunarstjórn“ – velferð-
ina gat hún aldrei bætt – og ekki
varið nema í tímabundinni nauð-
vörn. Með nafngiftinni bjó hún sér
til mælikvarða sem gat ekki orðið
öðruvísi en henni til óhæginda – en
sem björgunarstjórn eftir hrunið
vann hún afrek – sem útlendingar
kölluðu „íslenska efnahagsundrið“.
Og það verður ekki af henni tekið.
Flinkur pólitíkus í
flóknum samskiptum
Mörgum kann að þykja óvænt
hversu mikið umburðarlyndi ríkir
þarsem forseti lýðveldisins kemur
við sögu- hann var í utanríkisráð-
herratíð Össurar oft á ystu brún.
En á milli þeirra er kersknifullt
kærleikssamband- strákabandalag,
sem er æðra pólitískum ágreiningi
í þeim skilningi að fyrirgefningin
er ríkjandi við pólitísk landamæri.
En af því ég var einu sinni hluti af
þessu strákabandalagi frá því allir
við þjónuðum hugsjóninni á Þjóð-
viljanum forðum daga, vil ég ekki
fjölyrða frekar um þennan þáttinn.
En þær eru litríkar lýsingarnar af
forseta lýðveldisins í þessari bók.
Sá held ég að hafi hlegið í kjöltu
sér við lesturinn.
Reyndar á það við um samskipti
Össurar við velflesta, að þau ein-
kennast af góðmennsku og kerskni
– og þá er ekki gerður mannamun-
ur. Hins vegar er hann líka skap-
mikill ólíkindamaður og hann er
svosem ekkert að hlífa sér í lýs-
ingum þar sem hann lætur allt,
sem honum býr í hug þá stund-
ina, flakka við menn sem missak-
lausir verða að láta sér það lynda.
En hann er undra flinkur að vinna
úr slíkum stöðum og mannleg-
um samskiptum yfirleitt. Oft verða
til falleg þverpólitísk mannúðar-
bandalög í kringum Össur, einsog
samband hans við Ögmund Jónas-
son ber vott um.
Það er líka með ólíkindum að
jafn önnum kafinn stjórnmálamað-
ur og höfundurinn er skuli hafa
búið yfir þori og þrótti til að rita
bók af þessu umfangi og af slíkum
bókmenntalegum gæðum á jafn
skömmum tíma og raun ber vitni.
Með henni hefur Össur enn einu
sinni unnið pólitískt þrekvirki.
Óskar Guðmundsson í Véum
Hugleiðing í tilefni af Ári drekans eftir Össur Skarphéðinsson
Þessi bók er pólitískt þrekvirki
Óskar Guðmundsson í Véum
„Mektarfólk um allan heim verður að málvinum utanríkisráðherrans íslenska og maður á von á að hann bjóði forsetum og
kóngum í nefið í New York…“ F. v. Angela Merkel kanslari Þýskalands, Joachim Sauer eiginmaður hennar, Össur Skarphéðins-
son, Nicholas Sarkozy forseti Frakklands og Carla Bruni eiginkona hans.