Bæjarins besta - 19.02.2009, Side 20
20 FIMMTUDAGUR 19. FEBRÚAR 2009
Litlir sprotar geta orðið
að stórum fyrirtækjum
Rúmt ár er frá því að Impra á
Nýsköpunarmiðstöð opnaði starfs-
stöð á Ísafirði og þar starfa tveir
verkefnisstjórar; Arna Lára Jóns-
dóttir og Sigríður Ó. Kristjáns-
dóttir. Á þessu fyrsta ári Impru,
sem er einn sproti Nýsköpunar-
miðstöðvarinnar, hefur fjölmörg-
um verkefnum verið hleypt af
stokkunum og eru fleiri í bígerð.
Þar ber einna hæst um þessar
mundir stofnun nýs viðskipta-
seturs á Ísafirði sem hlotið hefur
nafnið Eyrin.
Arna Lára Jónsdóttir er stjórn-
málafræðingur að mennt og starf-
aði áður hjá Atvinnuþróunarfé-
lagi Vestfjarða. Sigríður Ó. Krist-
jánsdóttir er viðskiptafræðingur
og var verkefnisstjóri hjá Háskóla-
setri Vestfjarða áður en hún var
ráðin til Impru. Bæjarins besta
forvitnaðist nánar um starfsemi
Impru og hins nýja viðskiptaset-
urs.
– Hvert er hlutverk Impru á
Ísafirði?
„Impra er deild innan Nýsköp-
unarmiðstöðvar Íslands sem hef-
ur það hlutverk að styðja við
frumkvöðla og sprota á ýmsan
hátt. Stuðningurinn felst meðal
annars í námskeiðum og alls kyns
styrkjaverkefnum sem felast
bæði í beinum peningaúthlutun-
um og öðrum stuðningi“, segir
Sigríður.
„Við leggjum mikla áherslu á
það að handleiða frumkvöðla og
fyrirtæki, fólk kemur til okkar
og við leiðbeinum þeim í rétta
farveginn. Það er okkar megin-
hlutverk og svo rekum við nokk-
ur stuðningsverkefni. Til dæmis
erum við með verkefni í menn-
ingartengdri ferðaþjónustu og
ýmis verkefni sem snúa sérstak-
lega að konum, bæði þá Brautar-
gengi og verkefni fyrir konur sem
vilja fara í útrás með verkefni
sín, Konur í Útrásarhug.
Við störfum bæði svæðisbund-
ið og á landsvísu. Okkur hefur
fundist mikill styrkur í því þar
sem að það þýðir að við erum
ekki of einangraðar heldur fáum
líka heildarsýn“, segir Arna Lára.
– Starfstöðin á Ísafirði er í góðu
samstarfi við aðrar stöðvar sem
eru víða um land.
„Impra rekur starfsstöðvar á
Ísafirði, Akureyri, Höfn í Horna-
firði og í Vestmannaeyjum auk
þeirrar stöðvar sem er í Reykja-
vík. Í vinnslu er að opna starf-
stöðvar á Sauðárkróki, Húsavík
og Egilsstöðum. Tengslanetið
nær því um allt land og fólk sem
er að huga að nýsköpun, hvort
sem það er innan starfandi fyrir-
tækis eða verið er að koma ein-
hverju nýju á fót, á að geta leitað
til Impru alls staðar á landinu.
En verkefni hverrar stöðvar fyrir
sig eru bæði staðbundin og að
einhverju leyti á landsvísu“, segir
Sigríður.
– Rúmt ár er síðan Impra tók
til starfa á Ísafirði. Er eitthvað
sem stendur upp úr hjá ykkur á
árinu?
„Þetta hefur verið ofsalega
skemmtilegur tími og það hefur
verið mjög mikið að gera. Gaman
er að vinna í svona frjóu umhverfi
þar sem fólk er að koma til okkar
með alls kyns hugmyndir. Við
erum í stöðugu sambandi við
bjartsýnt fólk sem gefur manni
mikið persónulega.
Við höfum verið að prufu-
keyra þróunarverkefni sem er
mjög skemmtilegt og nú síðustu
vikurnar höfum við verið að und-
irbúa opnun viðskiptaseturs sem
er líka mjög spennandi. Við ætl-
um að opna setrið 6. mars í Vestra-
húsinu“, segir Arna Lára.
„Við erum byrjaðar að auglýsa
og kynna viðskipasetrið og þeir
sem eru að vinna að viðskipta-
hugmyndum og vantar aðstöðu
geta því sótt um hjá okkur. Við
förum fram á að fólk sé að vinna
að sinni eigin viðskiptahugmynd
og hún má ekki vera í beinni
samkeppni við annað sem er á
svæðinu. Það þarf því að vera
fólgin svæðisbundin nýsköpun í
því sem fólk er að gera“, segir
Sigríður.
„Í fyrstu höfum við pláss fyrir
fjóra til fimm frumkvöðla en við
sjáum fram á að geta stækkað
eitthvað út frá því í framtíðinni,
ef það verður það mikil eftir-
spurn,“ segir Arna Lára.
„Við viljum vitaskuld að sem
flestir frumkvöðlar séu starfandi
hér. Við köllum þetta viðskipta-
setur frekar en frumkvöðlasetur
þar sem krafan um nýsköpun er
ekki eins mikil og í frumkvöðla-
setrunum í Reykjavík og í Eldey
á háskólasvæði Keilis á Reykja-
nesi. Grunnhugmyndin með við-
skiptasetrinu er sú að frumkvöðl-
ar geti fengið aðstöðu þar til verk-
efni þeirra eru komin það langt á
veg að þeir geti borgað leigu á
almennum markaði. Leigan byrj-
ar mjög lág en eftir því sem veltan
eykst hjá fyrirtækjunum hækkar
hún“, segir Sigríður.
„Viðskiptasetrið er mjög sam-
bærilegt Kvosinni og Torginu
sem Nýsköpunarmiðstöð hefur
komið á fót í Reykjavík. Þetta er
tækifæri fyrir fólk sem lengi hef-
ur gengið með hugmyndir að
koma boltanum af stað. Þarna
mætir það bara í vinnuna á
morgnana og vinnur að sínum
hugmyndum og lætur þær verða
að veruleika.
Setrið er verkefni sem Impra
er að vinna í samstarfi við At-
vinnuþróunarfélag Vestfjarða og
Háskólasetur Vestfjarða með
fjárhagslegum stuðningi Vaxtar-
samnings Vestfjarða, Vinnu-
markaðsráðs Vestfjarða og Penn-
ans“, segir Arna Lára.
„Nýsköpunarmiðstöðin rekur
setrið og útvegar því starfsfólk
ásamt Atvinnuþróunarfélaginu“,
bætir Sigríður við.
– Hvernig sjáið þið framhaldið
með viðskiptasetrið?
„Við höfum fjármagn til tveggja
ára til að byrja og vonumst auð-
vitað til að þetta geti gengið leng-
ur. Við vonumst einnig til að fá
inn með tímanum fjölbreyttari
frumkvöðla en til að byrja með
verður þarna aðstaða fyrir þá sem
sitja við borð og tölvur við sína
vinnu. Það eru uppi hugmyndir
um möguleika á aðstöðu fyrir
fjölbreyttari tegundir frumkvöðla-
starfsemi og við hvetjum fólk til
að koma og spjalla við okkur sé
það með hugmyndir, því við gæt-
um verið með lausnir til að skoða
fyrir þá sem eru með öðruvísi
rekstur“, segir Sigríður.
Sigríður og Arna Lára segja
að mjög spennandi tímar séu
framundan hjá Impru.
„Nýsköpun er aðal orðið um
þessar mundir og við þurfum
skapa nýja hluta og nýrra leiða
til að afla gjaldeyris inn í þjóðfé-
lagið. Mjög mikilvægt er því að
það fari af stað ný starfsemi. Við
höfum séð hvað getur orðið úr
litlum sprotum eins og 3X-Stál,
Villimey, Fossadal og eins og
var með Póls. Sprotar geta vaxið
og orðið að stórum fyrirtækjum.
Við Vestfirðingar eigum mikið
af góðum sprotafyrirtækjum og
það skiptir mjög miklu máli að
hlúa vel að þeim á meðan þau
eru að fara af stað til þess að þau
geti stækkað og orðið að ein-
hverju“, segir Sigríður.
„Við viljum því skapa þetta
umhverfi til þess. Við sjáum líka
gríðarlegan styrk í því að hafa
setrið í Vestrahúsinu í tengslum
við allar þær stofnanir sem þar
eru. Það er því stutt að leita ef
fólk þarf á sérfræðiaðstoð að
halda. Þetta er gríðarlega frjótt
umhverfi sem gott er fyrir frum-
kvöðla að komast í“, Arna Lára.
– Eitthvað að lokum?
„Við hvetjum alla þá sem eru í
nýsköpunarhugleiðingum að
leita til okkar eða a.m.k. að kíkja
inn á heimasíðu Impru, sem er á
slóðinni nmi.is/impra, og afla sér
upplýsinga“, segir Sigríður.
„Það þarf ekki nema eitt símtal
til að boltinn fari að rúlla og ef
við getum ekki aðstoðað þá erum
við með gríðarlega sterkt tengsla-
net í kringum okkur og getum
því vísað fólki áfram ef þess þarf.
Það er einmitt styrkurinn í því að
vera svona dreifð út um allt land,
því hjá Impru er saman komin
ótrúleg þekking úr hinum ýmsu
atvinnugreinum“, segir Arna Lára.
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir og Arna Lára Jónsdóttir.