Reykjavík - 13.06.2015, Page 8

Reykjavík - 13.06.2015, Page 8
8 13. Júní 2015REYKJAVÍK VIKUBLA Ð Hverjir fá kvótann? - 1. hluti Ein af stórum fréttum vikunnar var að Hafrannsóknarstofnun leggur til að auka megi þorskkvótann við Ísland um 23 þúsund tonn. Góðar fréttir eru líka af ýsunni segja fjölmiðlar. Efnahagur landins hvílir á veiðum og vinnslu. En enda þótt svo sé, eru þeir ekki margir sem eru á bak við þau fyrirtæki sem fá úthlutað kvóta til þess að sækja þessi verðmæti og hafa af þeim arð. Ætla má að um eða innan við eitthund- rað einstaklingar fái megnið af þeim arði sem verður af veiðum og vinnslu hér við land. Í viðamikilli úttekt Reykjavíkur vikublaðs, var reynt að grafast fyrir um hvaða einstaklingar væru að baki þeim sjávarútvegsfyrirtækjum sem fá úthlutað meiru en einu prósenti af heildarkvótanum við Ísland. Úttektin, sem þó er ekki tæmandi, leiðir í ljós að tiltölulega fáir einstaklingar eru að baki þessum fyrirtækjum, eru ýmist ráðandi í rekstri þeirra, eða eiga áber- andi stóra eigarhluti. Þetta fólk er að baki um 20 fyrirtækjum sem saman- lagt fá úthlutað um þremur fjórðu af öllum kvóta hér við land. HB Grandi og Brim eru þær stórútgerðir sem mest eru áberandi í höfuðborginni. Yfir 15 prósent af heildarkvótanum við landið fellur þessum fyrirtækjum í skaut. En í grófum dráttum má ætla að tveir til þrír einstaklingar séu ráðandi í þessum fyrirtækjum. Þessir menn eru Guðmundur Kristjánsson, kenndur við Brim og Kristján Loftsson, fram- kvæmdastjóri Hvals hf. , sem ásamt systur sinni Birnu er lang stærsti hlut- hafinn í HB Granda. Ætla má að þau séu ráðandi fyrir um 43 prósentum hlutafjár í almenningshlutafélaginu. Það er mun stærri hlutur en lífeyr- issjóðir eiga samanlagt í félaginu, en hlutafar eru alls um 1.750 samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félagsins. Litlar breytingar Fyrir nokkrum árum var birt í fréttum Stöðvar 2 úttekt þar sem fjallað var um einstaklingana að baki sjávarútvegsfyr- irtækjunum. Sú úttekt sýndi að um 70 manns væru að baki 70 prósentum af úthlutuðum kvóta. Sú úttekt átti við árið 2009. Síðan hafa orðið nokkrar breytingar á eignarhaldi sjávarútvegs- fyrirtækja. HB Grandi hefur verið skráður á markað og þar eru lífeyr- issjóðir nú áberandi í hópi hluthafa. Fyrirtækið Stálskip í Hafnarfirði seldi frá sér skip og kvóta og útgerðin Berg- ur-Huginn hefur fengið nýja eigendur. Þetta hefur þó ekki mikil áhrif á heildarmyndina. Stærstu eigendur HB Granda eru til að mynda þeir sömu og enda þótt Stálskipafjölskyldan sé hætt útgerð og Magnús Kristinsson sé ekki lengur skráður eigandi Bergs-Hugins, þá er upp til hópa sama fólkið sem er að baki þessum fyrirtækjum. Afmörkun Efnið er afmarkað með því að miða við fyrirtæki sem fá úthlutað einu pró- sentustigi eða meira af heildarkvóta við Ísland, mælt í þorskígildistonnum, eins og Fiskistofa kynnir úthlutunina. Stuðst er við lista yfir þessi fyrirtæki sem finna má á vefsíðu Fiskistofu. Dæmi eru um að eignarhlutir í sjávarútvegsfyrirtækjunum séu skráð beint á einstaklinga en algengara er að beinir eignarhlutir séu skráðir á ýmis hlutafélög eða einkahlutafélög. Sú keðja hefur verið rakin til einstak- linga, yfirleitt með því að fara í gegnum ársreikninga félaganna. Tekið skal fram að hér er eingöngu fjallað um eigendur fyrirtækjananna eins og nýj- ustu tiltækar upplýsingar sýna. Sjónum er helst beint að stórum/ráðandi hlut- höfum, en í fjölmörgum tilvikum eru hluthafar margir og eiga lítinn hlut hver. Hinir stærstu fá væntanlega arð í takti við eignarhlut. Taka má fram að í úttektinni hefur ekki verið farið sérstaklega yfir stjórnir fyrirtækjanna eða reynt að greina valdahlutföll eða blokkir sérstaklega innan eigendahóps einstakra fyrirtækja. 22 fyrirtæki 22 fyrirtæki falla í þann flokk að fá úthlutað einu prósentustigi eða meira af heildarkvótanum og fá í eigin nafni í heildina úthlutað 71,62% af heildar- kvótanum við Ísland. Þó er ekki allt sem sýnist. Þannig eru eignatengsl milli sumra fyrirtækjanna við önnur sjávarútvegsfyrirtæki sem fá innan við prósent úthlutað í eigin nafni. Athugun á þessu efni var ekki tæm- andi, en nefna má sem dæmi að Ísfé- lagið í Vestmannaeyjum á útgerðina Dala-Rafn og tengsl eru á milli Brims og annarra útgerða, t.d. K. G. Fiskverk- unar sem fær úthlutað rétt undir einu prósenti af heildarkvótanum. Í grófum dráttum má ætla að þessi 22 fyrirtæki, eða eigendur þeirra öllu heldur, fái út- hlutað um 73 prósentum kvótans, hátt í þremur fjórðu alls kvóta hér við land. Einstaklingar Á milli 90-100 einstaklingar eru í hópi helstu eigendur þessara fyrir- tækja þegar eignakeðjan hefur verið rakin. Rétt er að nefna að lífeyrissjóðir, skráð fyrirtæki og kaupfélög eru tekin út fyrir sviga í þessum efnum. Þá má halda því til haga að smærri hluthafar, sem eiga jafnvel ekki nema brot úr pró- senti, eru ekki í þessum hópi. Enda þótt um 70 manns hafi verið á bak við 70 prósent af kvótanum árið 2009, skv. úttekt fréttastofu Stöðvar 2, þá má geta þess að þessi yfirferð sem miðast við yfirstandandi fiskveiðiár, er örlítið ná- kvæmari en úttekt Stöðvar 2. Það veit höfundur þessarar úttektar, því hann vann sjálfur þá úttekt sem Stöð 2 birti hér um árið. Þetta skýrist einkum af að nákvæmari upplýsingar um hluthafa nokkrurra félaga, til dæmis Gjögurs frá Grenivík, voru aðgengilegar að þessu sinni. Tengsl Innbyrðis eru ýmis tengsl milli fyr- irtækjanna 22. Nefna má að Sam- herji á Útgerðarfélag Akureyringa. Sömuleiðis eiga Samherji og Gjögur sameiginlega Síldarvinnsluna, en svo á Síldarvinnslan aftur útgerðina Berg- -Hugin. Guðmundur Kristjánsson og Hjálmar bróðir hans eiga Brim, KG fiskverkun og eru þar að auki með umtalsverðan hlut í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Völd, áhrif og peningalegur ágóði þeirra einstaklinga sem eru að baki þessum fyrirtækjum geta því verið mun meiri en ætla má við fyrstu sýn. Verðmæti Skjóta má á virði þessa kvóta sem fyr- irtækjum í eigu þessara einstaklinga fá úthlutað. Verð á kvóta liggur alla jafna ekki á yfirborðinu. Hins vegar urðu þau tíðindi á síðasta ári að útgerðin Stálskip í Hafnarfirði seldi togara sinn Þór og allan kvóta til annarra útvegs- fyrirtækja. Verðið sem eigendur Stál- skipa fengu fyrir kvótann hefur aldrei verið gefið út. Hins vegar var greint frá því í DV í apríl í fyrra að 8 millj- arðar króna hafi fengist fyrir kvótann. Þetta eru vitaskuld slumpfræði nokkur, en Stálskip fengu úthlutað um einu prósenti af heildarkvótanum, mælt í þorskígildistonnum. Þannig mætti gróflega áætla að virði 100% af kvót- anum sem úthlutað er við Ísland megi meta til 800 milljarða króna. Af því má svo aftur leiða að kvóti fyrirtækjanna í úrtakinu sé um 584 milljarða króna virði. Í kringum 100 einstaklingar eru svo aftur á bak við stærstan hluta þeirra verðmæta. Verðmæti auðlindar Nýlega voru birtar fréttir um að reynt væri að meta auðlindir til lands og sjávar til beinharðra peninga. Fram kom í viðtali fréttastofu Rúv við Sigurð Jóhannesson hagfræðing við Háskóla Íslands að fiskurinn væri metinn á 1.100-1.200 milljarða króna. Jarðhiti til húshitunar væri metinn á 230 til 460 milljarða og raforka 20 til 100 milljarða króna. „Sem er þá eitthvað 4 til 6 milljónir á hvert mannsbarn,“ segir Sigurður. Þessi tala er vitaskuld nokkuð rúmt meðaltal. Ætla má að þeir einstaklingar sem eru ráðandi yfir verðmætustu auðlindinni, ef marka má yfirlit Sigurðar Jóhannessonar, fái heldur meira í sinn hlut og flestir miklu minna. Í næstu tölublöðum Reykjavíkur vikublaðs er stefnt að því að fara nánar yfir þessi mál og upplýsa lesendur um hverjir það eru sem fá arðinn af þeim gæðum sem fólgin eru í þessari verð- mætustu auðlind landsmanna. ÚTTEKT Ingimar Karl Helgason Kristján og Birna Félagið Vogun er lang stærsti hlut- hafinn í HB Granda. Grandi er sömuleiðis það fyrirtæki sem mestan kvóta fær úthlutað, tæplega 11 pró- sentum af heildarkvótanum, sam- kvæmt lista Fiskistofu. Vogun á 33,51 prósent í HB Granda. Vogun er svo aftur í 99 prósenta eigu Hvals hf. Hluthafar í Hval hf. skipta tugum, eru um eitthundrað eða þar um um bil, samkvæmt nýjasta ársreikningi félagsins. Stærsti hluthafinn er Fiskveiðihluta- félagið Venus sem á um 40 prósenta hlut. Þar eiga Kristján Loftsson og Birna Loftsdóttir stærstan hlut. Hampiðjan á líka ríflegan hlut í HB Granda, er þriðji stærsti hluthafinn með 8,79 prósenta hlut. Vogun og Fiskveiðihlutafélagið Venus, sem áður voru nefnd, eiga yfir 50 prósenta hlut í Hampiðjunni. Fiskveiðihlutafélagið Venus á svo aftur í eigin nafni 0,65 prósenta beinan hlut í HB Granda. Þessir aðilar eiga því samanlagt 42,95 prósenta hlut í almennings- hlutafélaginu HB Granda í gegnum þessi félög. Þess má geta að Vilhjálmur Vil- hjálmsson, forstjóri HB Granda, er jafn- framt stjórnarformaður Hampiðjunnar. Mikill arður Á árinu 2014 lagði stjórn Hvals til að upp undir milljarður króna yrði greiddur í arð til hluthafa. Bróður- parturinn af hagnaði félagsins það ár, kom til af eignarhlutnum í Vogun, Af því hafa eigendur Fiskveiðihluta- félagsins Venusar fengið bróðurpart í sinn hlut, um 400 milljónir króna. Smærri hluthafar hafa eðlilega fengið minna, en benda má á að eins prósents hlutur hefði skilað um tíu milljónum króna í arð það árið. Fyrirtækin og hlutfall af kvótanum: HB Grandi hf. 10.67% Samherji Ísland ehf. 5.98% Þorbjörn hf 5.49% FISK-Seafood ehf. 4.84% Brim hf 4.51% Vísir hf 4.05% Vinnslustöðin hf 3.99% Rammi hf 3.98% Skinney-Þinganes hf 3.81% Síldarvinnslan hf 3.19% Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf 3.10% Nesfiskur ehf 2.39% Gjögur hf 2.32% Ísfélag Vestmannaeyja hf 2.09% Útgerðarfélag Akureyringa ehf 1.98% Ögurvík hf 1.86% Bergur-Huginn ehf 1.51% Jakob Valgeir ehf 1.33% Eskja hf 1.29% Loðnuvinnslan hf 1.14% Guðmundur Runólfsson hf 1.06% Stakkavík ehf 1.04% Guðmundur Kristjánsson er kenndur við Brim. Hann hefur ítök víða. Kristján Loftsson á stóran hlut í HB Granda ásamt systur sinni.

x

Reykjavík

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Reykjavík
https://timarit.is/publication/1086

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.