Ský - 01.12.2009, Síða 37

Ský - 01.12.2009, Síða 37
 4. tbl. 2009 SKÝ 37 Það varð að vera félagar í Æskulýðsfylkingunni en þetta var engin úrvalssveit og því síður að allir í hópnum væru vænlegir til pólitískrar forystu. Ég hafði ekki hugann við slíkt heldur taldi mig oft vera að gera mönnum greiða sem áttu ekki margra kosta völ í dýru námi. Og ég varaði menn oftast við að gera sér ekki neinar hugmyndir um að þeir væru að fara til Himnaríkis. Eftir á að hyggja áttum við að slíta þessu erlenda samstarfi fyrr, en það varð ekki fyrr en innrásin var gerð í Tékkóslóvakíu 1968.“ Við snerum baki við Sovétríkjunum Innrásin í Tékkóslóvakíu 21. ágúst 1968 var vendipunktur að sögn Kjartans. Þá misstu margir sósíalistar endanlega trúna á forystuhlutverk Sovétríkjanna. Þessir atburðir áttu sér talsverðan aðdraganda og í íslenskum stjórnmálum var sú staða uppi að Sósíalistaflokkurinn var að líða undir lok og Alþýðubandalagið að verða til sem stjórnmálaflokkur. Kjartan var enn framkvæmdastjóri flokksins sem aftur var útgefandi Þjóðviljans. Hann rifjar upp þessa ágústdaga. „Einar Olgeirsson, formaður flokksins, var eins og stundum endranær í boði einhvers staðar í Austur-Evrópu. Magnús Kjartansson var í London og því fáliðað í forsvari fyrir flokkinn en Lúðvík Jósepsson varaformaður var tiltækur. Á Þjóðviljanum var þannig ástatt að Sigurður Guðmundsson, sem var ritstjóri við hlið Magnúsar var veikur. Á blaðinu voru því helst í fyrirsvari þeir Svavar Gestsson, þá kornungur maður sem leysti ritstjórana af, og Ásmundur Sigurjónsson sem sá um erlendar fréttir. Menn hringdu fljótlega af blaðinu og vildu fá afstöðu flokksins. Ég náði ekki í Einar en ákvað að kalla saman framkvæmdanefnd flokksins. Fyrir fundinn átti ég tal við Guðmund Hjartarson, einn nefndarmanna, og vorum við sammála um að ekkert kæmi til greina nema harðasta fordæming á innrásinni. Þegar leið á daginn hringdi Magnús Kjartansson frá London. Ég hafði þá samið drög að ályktun til að leggja fyrir fundinn og fékk ég heimild Magnúsar til að greina fundarmönnum frá fullum stuðningi hans við þann texta. Það var dýrmætt og kann að hafa ráðið úrslitum um að ályktunin var samþykkt einróma. Á fundinum voru auk mín og Guðmundar Hjartarsonar, þeir Lúðvík Jósepsson, Guðmundur Vigfússon, Eðvarð Sigurðsson og Snorri Jónsson - svo ég nefni þá sem ég man eftir. Þessi ályktun var svo birt sem forystugrein í Þjóðviljanum daginn eftir. Kjartan segir að rætt hafi verið að setja inn í ályktunina yfirlýsingu um að Sósíalistaflokkurinn ryfi öll samskipti við Sovétríkin en horfið hafi verið frá því. „Okkur fannst það svolítið kjánalegt þar sem flokkurinn hafði ákveðið að leggja sjálfan sig niður innan fárra mánaða. Við lögðum hins vegar ríka áherslu á að þeir flokksmenn sem áttu sæti í miðstjórn Alþýðubandalagsins stæðu þá þegar að samþykkt þar um að hafna öllum samskiptum við valdaflokka innrásarríkjanna. Ýmsir reyndu á næstu árum að fá þessari afstöðu breytt og fá flokksleg samskipti tekin upp milli Alþýðubandalagsins og flokka í löndum Varsjárbandalagsins. Til þess var mjög alvarleg viðleitni í gangi af hálfu Sovétríkjanna og Austur-Þýskalands. Þeir vildu hnekkja þessari samþykkt okkar frá 1968 en við stóðum mörg á verði gegn því og réðum stefnunni.“ Varð þetta að ágreiningi innan raða flokksmanna? „Ég tel mig eiga margt að þakka því fólki sem skipaði forystu Sósíalistaflokksins. Ég lærði margt af kynnum við það og hef vonandi orðið skárri maður af. En svo fór að milli mín og flestra af minni kynslóð þróaðist alvarlegur ágreiningur við suma þessa eldri menn um höfuðmál, ekki síst um tengslin við Austur-Evrópu. Ég tók svo við Þjóðviljanum sem ritstjóri 1972. Magnús Kjartansson var þá nýlega hættur í því starfi eftir 25 ár en milli okkar var góður trúnaður og vinskapur . Hann lagði hart að mér að gangast undir þetta ok.“ Vissum að njósnir voru stundaðar Í bók Guðna Jóhannessonar, Óvinir ríkisins, kemur fram að meðan kalda stríðið stóð sem hæst á Íslandi fylgdust andstæðingar með óvinum sínum eftir megni. Einhvers konar njósnastarfsemi á báða bóga virðist hafa verið staðreynd á meirihluta sjötta og sjöunda áratugarins þótt eftir eðli málsins færi hún oftast lágt. Það vakti því talsverða athygli á síðasta ári þegar komu fram gögn sem sýndu að íslensk dómsmálayfirvöld höfðu heimilað símhleranir í röðum vinstri manna allt til loka sjöunda áratugarins. Þetta varð opinbert, m.a. fyrir tilstilli Kjartans sem beitti sér fyrir því að gögn um þær voru gerð opinber. Að hve miklu leyti voru forystumenn vinstri manna meðvitaðir um það á sjötta og sjöunda áratugnum að ef til vill væri fylgst með þeim? „Við töldum okkur auðvitað vita að í bandaríska sendiráðinu væru heljarmiklar skrár um fólk. Þetta byggðist aðallega á því að það henti aftur og aftur að einhver sem tengdist okkar stjórnmálahreyfingu sótti um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna en fékk neitun. Í samtölum við starfsfólk sendiráðs þeirra kom skýrt fram að miklar og ítarlegar upplýsingar lágu fyrir um fólk og um undarlegustu hluti. Það hlaut að liggja þarna að baki net innlendra hjálparmanna og ég man eftir einu tilviki þar sem skýrsla eða plögg af því tagi komust í okkar hendur,“ segir Kjartan og vísar án efa þarna til þess þegar Þjóðviljinn birti 1963 punkta úr fórum Ásgeirs nokkurs Magnússonar. trúði ekki á símahleranir En vissuð þið að símar voru hleraðir? „Það var oft minnst á símahleranir. Menn sögðu: Bjarni Ben lætur hlera. Við höfðum engar sannanir fyrir því og ég var alltaf heldur tortrygginn á að þetta væri rétt og eyddi þeim grunsemdum með sjálfum mér. Menn þóttust heyra klikk í símanum sem var víst ekkert að marka og ef svo væri, gat þá ekki alveg eins verið að Rússarnir væru að fylgjast með okkur. Þeir gætu viljað vita hvað væri að gerast innan flokksins. Þegar það kom svo fram í dagsljósið að þetta hefði verið með þeim hætti sem nú er vitað og á vegum lögreglustjórans í Reykjavík og dómsmálaráðherra þá kom mér það raunar á óvart.“ Gerðuð þið ráð fyrir því í samtölum og fundahöldum að njósnað væri um ykkur? „Einhvern tímann á Hermann Jónasson, formaður Framsóknar- flokksins að hafa sagt við Einar Olgeirsson: Nú eru þeir að hlera. Þetta voru svona gamansögur. En ég held að mjög sjaldgæft hafi verið að menn höguðu orðum sínum í símtölum með einhverjum sérstökum hætti vegna þessa. Það gæti þó hafa komið fyrir Einar Olgeirsson á ögurstundum. Á árum kommúnistaflokksins fyrir stríð voru menn ávallt viðbúnir samsæri, voru búnir undir að flokkurinn þyrfti að fara neðanjarðar og þeir sem mótuðust í slíku andrúmslofti voru tortryggnir alla sína ævi. Og menn voru varir um sig hægra megin línunnar líka. Sigurður A. Magnússon hefur í einni af æviminningabókum sínum eftir Eyjólfi Konráði Jónssyni ritstjóra Morgunblaðsins og alþingismanni Sjálfstæðisflokksins að hann svæfi alltaf með skammbyssu undir koddanum. Menn geta kallað þetta geðbilun í dag en þá stóð mönnum ótti af útsendurum heimskommúnismans og gátu haft viss rök fyrir því þótt þau væru ekki alltaf merkileg.“ Hverjir njósnuðu fyrir rússana? Nú er vitað að Sovétmenn stunduðu talsverðar njósnir á Íslandi allt frá því skömmu fyrir 1960 og þekkt nokkur dæmi um tilraunir þeirra til að ráða Íslendinga í sína þjónustu. Hér starfaði um tíma á áttunda áratugnum KGB maðurinn Gergel sem sagðist hafa náð persónulegu trúnaðarsambandi við þrjá áhrifamenn í vinstrihreyfingunni. Hvernig var talað um þessi mál í kalda stríðinu? „Við vorum ekkert mjög uppteknir af þessu. Við vissum að Sovétríkin voru með njósnastarfsemi út um allan heim. Það gat komið upp sú hugmynd að hinn eða þessi væri njósnari Rússa eða Ameríkana en við gátum aldrei sannað neitt. Við höfðum enga njósnadeild sjálfir en vissum vel að ef Rússar væru hér með íslenska njósnara þá gat vel verið um að ræða einhvern innan okkar raða eða í einhverjum hinna flokkanna. Margir njósnarar á þeirra vegum um víða veröld gengu fyrir peningum og það komst aldrei neitt upp hér, nema málið þar sem Ragnar Gunnarsson kom við sögu en hann leiddi KGB mennina í gildru.“ Ragnar þessi Gunnarsson leiddi tvo starfsmenn rússneska sendiráðsins í hendur íslensku lögreglunnar við Hafravatn 1963. Þeir vildu að hann njósnaði fyrir þá, tæki myndir og þessháttar en Ragnar lék tveimur skjöldum og fletti ofan af þeim. Þá hafði hann leyst fyrsta verkefnið sem var að taka mynd af lóranstöðinni við Gufuskála. En voru einhverjir tilteknir vinstrimenn grunaðir um að vera á mála hjá Rússum? „Nei ég get ekki sagt það. Auðvitað var til fólk sem var einfaldara í sinni þjónustu en svo að því verði með orðum lýst, fólk sem hafði hreina trúarbragðaafstöðu í þessum efnum, sérstaklega hvað varðaði trúnað við Sovétríkin. En þetta var jafnframt fólk sem hafði upp á ekkert að bjóða sem njósnarar. Það hvarflaði aldrei að mér að einhver sem ég þekkti væri að lauma upplýsingum varðandi öryggi ríkisins til Rússanna. Hitt vitum við að furðu margir eru til sölu ef miklir fjármunir eru í boði, - reyndar fleiri nú en áður var. Gömlu mennirnir sem ólust upp við að þeir væri partur af heimshreyfingu kommúnismans og gátu ekki hugsað sér tilveruna öðru vísi, þeir áttu oftsinnis trúnaðarsamtöl við menn í sovéska sendiráðinu og fyrir austan tjald í boðsferðum. Þar var rætt um stjórnmál en slíkt flokkast ekki undir njósnir. „Eftir á að hyggja áttum við að slíta þessu erlenda samstarfi fyrr, en það varð ekki fyrr en innrásin var gerð í Tékkóslóvakíu 1968.“ „Menn þóttust heyra klikk í símanum sem var víst ekkert að marka og ef svo væri, gat þá ekki alveg eins verið að Rússarnir væru að fylgjast með okkur. Þeir gætu viljað vita hvað væri að gerast innan flokksins.“ Viðtalið við Stein Steinarr um Rússland 1956 Jæja, þú fórst til Rússlands sem frægt er orðið — hvernig leizt þér, á? „Humm — mér hefur verið kennt að tala gætilega um stórveldin, hvaða nafni sem þau kunna að nefnast. En Rússar eru ýmsu vanir — og sannast að segja varð ég ekki mjög hrifinn. Sovét- Rússland er að vísu stórt og auðugt land, ef til vill auðugasta land þessa heims, og þar er mikið um alls konar verklegar framkvæmdir. En það út af fyrir sig er ekki nægilegt til að hræra hug og hjarta hins „úrkynjaða skálds frá auðvaldsheiminum”, eins og vinur minn og samferðamaður Jón Bjarnason myndi orða það.“ „Rússar eru ákaflega hrifnir af Halldóri Laxness. Ég spurði einn frægan bókmenntagagnrýni þeirra, hverju það sætti. „Laxness er svo mikill sálfræðingur” svaraði hann. „Hvað er til marks um það?” spurði ég. „Jú, hann er svo mikill sálfræðingur, að hann minnir á Ibsen” svaraði gagnrýnirinn. Svo var því samtali lokið. Yfirleitt fundust mér þessir „andans menn”, sem við hittum í Rússlandi, frekar leiðinlegir og jafnvel ógeðfelldir. En þeir hafa búið vel um sig og hugsa og skrifa það eitt, sem Flokkurinn vill.“ Stalín? „Sennilega er það allt satt og rétt, sem þeir Krústjov og félagar hans segja um Stalín. Sennilega hefur hann verið brjálaður glæpamaður, og sennilega er það fyrst og fremst honum að kenna hvernig hin mikla hugsjón Leníns hefur verið svívirt og fótum troðin í Rússlandi. En hvað um það. Þetta veit ekki rússneska þjóðin í dag, af einhverjum ástæðum hafa ráðamennirnir í Kreml ekki ennþá treyst sér til að flytja sinni eigin þjóð þessi hörmulegu tíðindi. Stalín gamli er enn í dag „faðir” og „vinur” hinnar . rússnesku alþýðu. Hvar, sem maður kemur, og hvert sem maður fer, blasa við sjónum manns ljósmyndir, málverk og líkneski af þessum þögla, harða og skuggalega manni. Borgir, samyrkjubú, verksmiðjur, götur og torg bera ennþá nafn hans í þúsundatali. — Og þó hefur eitthvað gerzt, hvað svo sem það er. Vonandi tekst Krústjov og félögum hans innan stundar að skapa nýjan Guð til handa þessari undarlegu þjóð, fyrst hún endilega þarf þess með.“ Heldur þú, að Rússar séu friðelskandi þjóð? „Rússar hafa fundið upp friðinn, hvorki meira né minna, og má það teljast býsna laglega gert. Þar með er ekki loku fyrir það skotíð, að þeir hyggi á landvinninga og jafnvel heimsyfirráð í vissum skilningi. Þeim er sem sé ljóst, að friðsamleg vinna getur gert þá ríka og volduga langt út fyrir öll staðbundin landamæri. í Rússlandi fara nefnilega færri handarvik til ónýtis en í nokkru öðru landi.“ „Ég er vitanlega enginn Rússlandssérfræðingur, og það má vel vera, að ég hafi misskilið ýmislegt og kveði annars staðar fullsterkt að orði — og við því er ekkert að segja. En ég vil ógjarna láta loká mig inni í þeirri’ gaddavírsgirðingu, sem heim komnir Rússlandsfarar stund um gista, að þora ekkert að segja af ótta við það að vera stimplaðir annaðhvort „leiguþý kommúnismans“ ellegar „keyptir auðvaldslygarar.“ Fyrir okkur, svokallaða frjálsa menn, gildir sama um Rússland og önnur lönd. Við höfum fullt leyfi til þess að segja það, sem okkur finnst sannast og réttast, án þess að því þurfi að fylgja neinar heimskulegar og móðursjúkar getsakir.“ Úr Alþýðublaðinu 19. september 1956

x

Ský

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ský
https://timarit.is/publication/1110

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.