Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - 01.04.2014, Qupperneq 5

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - 01.04.2014, Qupperneq 5
5 Skíðagöngumót í Fljótum Haldið verður skíðagöngumót í Fljótum um páskana, nánar tiltekið á skírdag. Þetta er samvinnuverkefni Siglfirðinga og Fljótamanna rétt eins og fyrsta skíðamót á Íslandi sem haldið var í Fljótum árið 1905. Skipuleggjendur mótsins eru Siglfirðingarnir Björn Z. Ásgrímsson og Sóley Ólafsdóttir oft til heimilis að Búðatungu í Fljótum, Fljótamennirnir Guðmundur Jónsson og Anna Hermannsdóttir frá Lambanesi og með dyggri aðstoð Brúnastaðabænda, Jóhannesar Ríkharðssonar og Hjördísar Leifsdóttur. Að sögn Björns verður mikil fjölbreytni í gönguleiðum og öll fjölskyldan hvött til þátttöku, ungir sem aldnir. Gengnar verða vegalengdirnar 1, 5, 10 og 20 km í öllum aldursflokkum karla og kvenna. Hver og einn getur valið sína vegalengd, allt eftir getu. Keppendur fá viðurkenningar og veitingar að móti loknu að Ketilási. Öðrum gestum mótsins gefst kostur á að kaupa veitingar á vægu verði. Einnig verður happdrætti þar sem dregnir verða út veglegir vinningar úr nöfnum þátttakenda. Meðal styrktaraðila mótsins eru sælgætisgerðin Freyja, sem gefur páskaegg, Hópferðamiðstöðin Trex, Sparisjóður Siglufjarðar, Fjallakofinn, Byko og Veiðiklúbbur Íslands (Orri Vigfússon). Það er orðið nokkuð langt um liðið síðan haldið var skíðamót í Fljótum eða amk. 15 ár. Fljótin eru jú vagga skíðamenningarinnar og þaðan hafa komið margir frægir skíðakappar eins og Trausti Sveinsson og Magnús Eiríksson, margfaldir Íslandsmeistarar og ólympíufarar. Það virðist vera nokkuð mikill áhugi fyrir mótinu og höfum við fengið fjölda fyrirspurna. Áhugi á skíðagöngu er að aukast enda er þetta ein besta útivistin og hreyfingin sem völ er á, staðhæfir Björn. Við eigum von á gömlum og nýjum skíðahetjum og meðal annars Íslandsmeistaranum og ólympíufaranum Sævari Birgissyni sem að sjálfsögðu er ættaður frá Siglufirði og Fljótum. Mótið verður undir tryggri stjórn Siglfirðingsins og skíðakappans Birgis Gunnarssonar. Við vonumst eftir góðu og skemmtilegu móti og að veður og snjóalög verði okkur hagstæð. Það hefur verið snjólétt í Fljótum það sem af er vetri en nú síðustu daga hefur heldur betur ræst úr því og vonandi dugar það fram að páskum enda eru þeir með seinna móti núna. Fljótin eru jú „heimkynni snjóskaflanna“ og þar er fagurt hvernig sem viðrar segir Björn að lokum og lætur þessa vísu fljóta með. Fljótin hafa fáir þekkt faðmi vafin grónum. Þar er afar yndislegt allt á kaf´ í snjónum. höf. ókunnur

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.