Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - 01.04.2014, Side 6
6
Afreksmaður á skíðum
Siglfirðingar hafa hampað fjölda Íslands-
meistaratitla á skíðum í gegnum tíðina.
Skíðakappann Jón Þorsteinsson þekkja
allir og birtist hér viðtal við hann sem var
tekið fyrir áratugum síðan á heimili hans og
konu hans Ingibjargar Jónasdóttur. Höf. er
ókunnugur.
Jón Þorsteinsson er tvímælalaust einn
fræknasti skíðamaður sem Siglfirðingar
hafa eignast. Jón byrjaði ungur að æfa og
var kominn í fremstu röð skíðamanna
hérlendis aðeins 15 ára gamall. Við lok 20
ára viðburðaríks keppnisferils hafði Jón
orðið Íslandsmeistari í göngu, stökki, svigi og
norrænni tvíkeppni og hlotið fjölda annarra
viðurkenninga fyrir afrek á skíðum.
Ég bað Jón að segja eitthvað frá sínum
viðburðaríka keppnisferli.
Ég er fæddur hér í Siglufirði og hef dvalið
hér alla mína ævi. Ég byrjaði ungur að leika
mér á skíðum eins og krakkar gerðu í þá
daga. Þegar ég var 11 ára fór ég að keppa á
skólamótum og vegnaði oftast vel. Smá óhöpp
komu þó fyrir, maður datt úr skíðunum
og oft þurfti ekki langa töf til að missa af
fyrsta sætinu. Útbúnaðurinn var líka heldur
bágborinn í þá daga, furuskíði sem ekki mátti
mikið á reyna svo þau hrykkju í sundur. Ég
átti góðan afa sem var mjög lagtækur og var
oft búinn að setja klampa á skíðin fyrir mig
eftir að strákur hafði ætlað sér um of. Þessi
furuskíði voru í rauninni bara tunnustafir
sem voru lagaðir til og síðan settar á leðurólar
sem bindingar. Fljótlega fóru þó að koma
betri skíði sem þoldu meiri átök. Það varð
okkur krökkunum í Siglufirði mikil lyftistöng
þegar norskur skíðakennari, Helge Torvö,
var fenginn hingað sem leiðbeinandi. Helge
var hér í tvo vetur og var ákaflega mikill
íþróttamaður og afburða skíðastökkvari.
Þegar hann tók þátt í stökkmótum kom allur
þorri bæjarbúa að horfa á og ég man vel hvað
fólk var eins og dáleitt að horfa á hann enda
lenti hann svo mjúklega að það sást varla.
Helge Torvö lyfti mjög undir skíðaáhugann
í bænum og ekki síst hjá mér sem snerist
mikið í kringum hann meðan hann dvaldist
hér. Um þetta leyti var ég 11 ára og mér er það
minnisstætt að ég náði að stökkva 11 metra
og þótti það talsvert afrek.
Náði 40 metra stökki 14 ára gamall
Síðan þróaðist þetta næstu árin. Ég var nánast
á skíðum frá morgni til kvölds allan veturinn
þegar ég var ekki í skólanum. Smám saman
byggðum við strákarnir stærri stökkpalla og
sterkari og betri skíði gerðu okkur mögulegt
að ná lengri stökkum. Þegar ég var 14 ára
stökk ég 40 metra sem var með því lengsta
sem stokkið var á þeim tíma í Siglufirði. Um
þetta leyti var farið að halda Siglufjarðarmót
á skíðum. Þar réði úrslitum samanlagður
árangur í göngu og stökki svo mikið reið
á að vera jafnvígur á báðar greinarnar og
flestir sem æfðu á þessum tíma voru í öllum
greinum, þ.e. göngu, stökki og svigi og margir
nokkuð jafnvígir á þær allar. Þegar ég var 14
ára tók ég þátt í mínu fyrsta göngumóti í
flokki fullorðinna. Ég man vel eftir þessari
keppni. Við vorum 20 keppendur og gengum
18 km sem var algengasta keppnisvegalengdin
á þessum árum. Ég startaði númer 9 og kom
fyrstur í mark og sigraði og það þótti vel af
sér vikið því flestir keppinautar mínir voru
um og yfir tvítugt. Ég var hinsvegar frekar
stór og bráðþroska svo þetta var mér alls ekki
svo erfitt. Þessi Siglufjarðarmót tókst mér að
vinna þrjú ár í röð og ég hlaut fyrir stóran
verðlaunabikar til eignar.
Thúlemótin í Reykjavík
Um veturinn 1937 þegar ég var 15 ára fréttum
við Siglfirðingar að halda ætti opið skíðamót
í Reykjavík. Okkur strákana langaði mjög að
komast á mótið þótt lítið væri um peninga því
oft var lítið um atvinnu yfir vetrarmánuðina
á þessum árum. Þá var gripið til þess ráðs að
ganga í hús og safna peningum. Söfnunin
gekk svo vel að hægt var að senda allstóran
hóp héðan á mótið. Rétt er að fram komi að
þá voru tvö skíðafélög starfandi í bænum,
Skíðafélag Siglufjarðar sem ég var ávallt í
og Skíðafélagið Skíðaborg. Það var einkum
göngukeppnin á Thúlemótinu sem við
lögðum áherslu á. Hún var sveitakeppni og
árangur fimm bestu frá hverju félagi kom til
útreiknings. Verðlaun fyrir Thúlegönguna
voru veglegur farandgripur sem vannst til
eignar af því félagi sem hann hlyti þrisvar
í röð eða fimm sinnum alls. Auk þess voru
einstaklingsverðlaun fyrir þrjá fyrstu menn.
Við Siglfirðingar héldum suður rúmum
hálfum mánuði fyrir mótið. Farkosturinn
var eitt af strandferðaskipum Eimskipafélags
Íslands. Veran um borð með tilheyrandi
sjóveiki og vanlíðan þar sem við höfðumst
aðallega við í lest skipsins var tæpast mönnum
bjóðandi en við urðum að hafa það því ekkert
kojupláss var laust þegar við komum um
borð. Þegar til Reykjavíkur kom skildu leiðir.
Við Skíðafélagsmenn bjuggum á Kolviðarhóli
þar til mótinu lauk en Skíðaborgarmenn
gistu í skála Ármenninga í Jósepsdal. Fram
að mótinu var æft kappsamlega nánast frá
morgni til kvölds enda áhuginn mikill.
Ég minnist þess að ég gat varla sofið fyrir
spenningi en þetta var mín fyrsta keppnisferð
í annað byggðarlag og ég langyngstur í okkar
hópi.
Þurfti undanþágu til að fá að keppa en
sigraði samt
Til að ég mætti taka þátt í göngukeppninni
á mótinu þurfti undanþágu hjá ÍSÍ.
Undanþágan fékkst en samt þótti vissara að
láta lækni skoða mig áður en ég fór í gönguna.
Doktorinn fann ekkert athugavert en menn
voru hræddir um að ég myndi ofreyna mig
í svo harðri keppni því flestir keppendurnir
voru um tvítugt og þaðan af eldri. Thúlemótið
var síðan haldið í Hveradölum í ágætu
veðri. Hjarn var yfir öllu og færið mjög létt.
Mótið vakti mikla athygli og Reykvíkingar
þyrptust uppeftir í þúsundatali til að fylgjast
með keppninni. Mér gekk mjög vel var
vel upplagður og tókst að sigra í göngunni
eftir hörkukeppni við Ísfirðinginn Magnús
Kristjánsson. Auk þessa persónulega sigurs
náðum við Skíðafélagsmenn bestum árangri
sem sveit í göngunni og hlutum því bikarinn
góða til varðveislu í fyrsta skiptið sem um
hann var keppt. Í stökkkeppninni náði ég
einnig góðum árangri, varð í öðru sæti á eftir
Alfreð Jónssyni Siglfirðingi, sem flutti síðar
út í Grímsey. Það mátti því segja að hið mikla
kapp við æfingar sem ég lagði á mig þennan
vetur hafi skilað allgóðum árangri og ég var
mjög sáttur við mína frammistöðu á mótinu.
Glæsilegt tilboð frá Morgunblaðinu
Sigurinn í göngunni vakti talsverða athygli
sérstaklega vegna þess hve ungur ég var. Samt
varð ég alveg undrandi þegar ég var boðaður
á fund forráðamanna Morgunblaðsins
meðan á dvölinni syðra stóð. Erindi þeirra
við mig var að segja mér að blaðið byðist til
að kosta mig til náms á skíðaskóla í Noregi
næstu 1-2 árin. Ekki veit ég af hverju blaðið
gerði mér þetta ágæta boð. Vera má að Ívar
Guðmundsson sem starfaði þar hafi átt
hugmyndina en hann hafði spjallað talsvert
við mig á meðan Thúlemótið stóð yfir. Þetta
boð var auðvitað ákaflega höfðinglegt og
einstakt. Foreldrar mínir voru hins vegar
ekki þess fýsandi að ég færi til Noregs, töldu
mig of ungan og óþroskaðan til að fara til
langdvalar í öðru landi. Ég var ekkert ósáttur
við þessa afstöðu þeirra, hraus hálfpartinn
Jón Þorsteinsson - f. 27. apríl 1921, d. 10. apríl 1993