Vesturbæjarblaðið - 01.12.2006, Qupperneq 4
Í húsi við Hringbraut 49, sem
margir eldri Vesturbæingar
kannast við sem verslun Silla &
Valda, en á seinni árum í mörg-
um tilfellum sjoppa, er í dag
rekið fyrirtæki sem ber nafnið
Klæðskerahöllin og er í eigu
Berglindar Magnúsdóttur kjóla-
og klæðskerameistara. Áður en
Klæðskerahöllin hóf þarna starf-
semi var í húsinu listagallerí.
Starfsemin hefur verið þarna í
liðlega eitt ár, en var áður stað-
sett á Laugavegi. Berglind seg-
ir staðsetninguna frábæra, nú
hafi þær auk þess útsýni yfir
fjölbreytt mannlíf en áður var
starfsemin í gluggalausum kjall-
ara. Það er ekki óalgengt að fólk
heilsi upp á þær og vilji fræðast
um hvaða starfsemi sé í húsinu.
Berglind segir að í Klæðskera-
höllinni sé veitt öll þjónusta sem
viðkemur saumaskap, en allir
starfsmennirnir eru iðnmennt-
aðir. Starfsemin fellst í sérsaum
á fötum fyrir einstaklinga og fyr-
irtæki, en einnig eru tekin föt til
breytinga og lagfæringa.
- Er stór hluti starfseminnar lag-
færingar og breytingar á fötum?
“Það er alltaf að aukast, margir
kaupa sér dýr og vönduð föt sem
þarf að aðlaga að einstaklingnum
svo þau fari betur og þegar þau
eldast vill fólk lengja líftíma þeir-
ra með viðhaldi og breytingum.
Svo færist það í aukana að fólk
hreinlega kann ekki að breyta eða
lagfæra fatnað, jafnvel kann ekki
að festa á eina tölu. Það er t.d.
orðið mun sjaldgæfara að konur
eigi saumavélar og því er því ein-
faldlega vandi á höndum ef það
vill gera einhverjar breytingar
á fatnaði. Þess eru oft dæmi að
fólk kaupir föt sem það passar
ekki fullkomlega í og þá erum við
fengnar til að laga þau. Við höfum
þekkinguna sem til þarf til þess
að þau fari eins vel og nokkurs
er kostur,” segir Berglind Magnús-
dóttir.
Föt við sérstök tækifæri
- Er meira um það að til ykkar
kemur fólk sem er ekki “venjulegt”
í laginu, þ.e. feitlagið eða þannig
vaxið að það á erfitt með að finna
á sig passlegan klæðnað og biður
um að að láta sérsauma á sig?
“Nei, ekkert frekar, en almennt
er það að aukast að fólk láti sér-
sauma á sig föt. Margir koma til
að láta sauma á sig föt fyrir sér-
stök tækifæri, eins og t.d. brúð-
kaup, afmæli og önnur hátíðleg
tækifæri. Ferlið er þannig að mál
eru tekin af viðskiptavininum sem
síðan er teiknað snið eftir. Síðan
er sniðið mátað í léreft. Sniðið er
aðlagað að manneskjunni og fötin
síðan saumuð. Þeir sem láta einu
sinni sauma á sig koma flestir
aftur. Klæðskerasniðin fatnaður
fæst ekki út í búð. Klæðskerasnið-
in flík er einstök flík.”
- Eru þetta eingöngu konur sem
eru ykkar viðskiptavinir?
“Alls ekki, karlmenn koma líka
þó það sé í mun minna mæli.
Karlmenn láta sauma á jakkaföt,
smókingföt og kjólföt.”
Jakkaföt á kött
- Hvað er það óvenjulegasta
sem þið hafið verið beðnar um að
sauma?
“Eitt af því er 260 sængur, eins
konar “rúllupylsa,” í tengslum við
upptöku á erlendri auglýsingu.
Það voru allir naktir í auglýsing-
unni sem var tekin upp víðs veg-
ar um landið og sængurnar voru
saumaðar til að halda hita á fólk-
inu. Það er ekki gott vera nakin
út í íslenskri náttúru, allra síst á
köldu haustkvöldi.
Það óvenjulegasta er örugglega
jakkaföt á kött sem notað var í
myndband hjá Björk Guðmunds-
dóttur söngkonu. Við tókum mát
af gerviketti sem var svipaður
af stærð og kötturinn sem kom
fram í myndbandinu. Við sáum
hins vegar köttinn aldrei fyrr en
í myndbandinu, en það var þar
ekki annað að sjá en jakkafötin
hefðu smellpassað á hann!”
Berglind segir að enn gæti nokk-
uð “saumakonuímyndarinnar” í
þessu fagi, þetta eigi helst ekki að
kosta neitt. Þetta er fjögurra ára
nám í Iðnskólanum í Reykjavík
auk meistaranáms og auðvitað
eigi að borga fyrir þessa vinnu
eins og aðra vinnu iðnlærðs fólks.
Mikil vinna liggur að baki hverri
flík. Berglind segir alla velkomna
að kíkja við og skoða starfssem-
ina.
4 Vesturbæjarblaðið DESEMBER 2006
Í Klæðskerahöllinni við Hringbraut
eru sérsaumuð föt á dömur og herra
Starfsmenn Klæðskerahallarinnar. Fjærst stendur eigandinn Berglind Magnúsdóttir, við hlið hennar
Laufey Jónsdóttir en nær Lilja Ósk Björnsdóttir.