Ægir - 01.07.2014, Blaðsíða 15
Flathaus, Cataetyx laticeps
Í haustralli Hafrannsóknastofnunar árið 2012 veiddist 80 cm
langur flathaus í djúpkantinum vestur af Faxaflóa (64°25´N,
28°07´V, dýpi 1165-1183 m). Alls er vitað um 7 fiska þessarar
tegundar sem veiðst hafa innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Þeir
veiddust allir á 1100-1500 m dýpi, flestir á svipuðum slóðum og sá
sem hér er greint frá.
Silfurhali, Malacocephalus laevis
Í maí 2012 veiddist 42 cm langur silfurhali í humarvörpu á 188-
193 m dýpi í Breiðamerkurdjúpi (63°45’ N, 15°57’ V). Heimkynni
silfurhala eru í öllum heimshöfum en hann er sjaldséður á
Íslandsmiðum því einungis er vitað um fjóra aðra fiska sem veiðst
hafa innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.
Silfurhali er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur
á 200-1000 m dýpi. Er hann sennilega algengastur á 300-750 m
dýpi.
Bletta, Gaidropsarus vulgaris
Hér við land fannst bletta fyrst árið 1965 en sú næsta sást
ekki fyrr en árið 1988 að önnur bletta veiddist suðvestur af
Vestmannaeyjum og 1991 veiddist sú þriðja á utanverðu
Papagrunni við Berufjarðarál. Eftir það fór hún að sjást tíðar hér
við land, því frá og með árinu 2000 hefur hún veiðst nær árlega
í marsralli Hafrannsóknarstofnunar. Árið 2012 veiddust 5 og 26
árið 2013. Þessar blettur voru 12-21 cm á lengd og fengust undan
Suðaustur- og Suðurlandi, frá Breiðdalsgrunni og vestur fyrir
Surtsey.
Bletta líkist frænku sinni rauðu sæveslu en litur er allt annar
því bletta er ljós til bleik á kviði með áberandi brúnum blettum á
haus, baki, bakugga og sporðblöðku.
Bletta er botnfiskur sem veiðst hefur á 10-120 m dýpi við
strendur Evrópu nema Íslands þar sem hún hefur veiðst á 120-780
m dýpi. Hún getur náð 60 cm lengd.
Ljóskjafta, Ciliata septentrionalis
Árið 1925 veiddust 7 cm seiði við Austfirði sem greind voru sem
ljóskjafta, en það var ekki fyrr en í mars 2008 sem fullvaxinna
fiska tegundarinnar varð vart á Íslandsmiðum. Þá veiddust tvær
ljóskjöftur, önnur vestur af Kópanesi og hin vestur úr Breiðafirði.
Árið 2010 veiddust aftur tvær í mars, en árið 2012 fengust 17
ljóskjöftur í marsralli og 23 árið 2013.
Útbreiðslusvæðið við Ísland er tvískipt, annars vegar fyrir
vestanverðu landinu frá Reykjanesi um Flákann og norður
á Deildargrunn og hins vegar undan Suðausturlandi frá
Breiðdalsgrunni og vestur á Mýragrunn. Þessir fiskar voru 8-18 cm
langir, en ljóskjafta getur orðið 20 cm á lengd.
Líkt og næsta tegund á undan, þá líkist ljóskjafta nokkuð rauðu
sæveslu, en ljóskjafta er kjaftstærri og kjafthol er ljóst. Þá er litarfar
talsvert annað, því bolur er grábrúnn eða gulbrúnn en kviður ljós.
Lýr, Pollachius pollachius
Sigurbjörg ÓF fékk tvo fiska þessarar tegundar í flotvörpu við
makrílveiðar í Jökuldjúpi í júlí 2012. Þeir voru 77 og 79 cm langir. Í
netaralli Hafrannsóknastofnunar veiddist lýr bæði 2012 og 2013,
alls 17 fiskar á lengdarbilinu 64-92 cm. Þeir veiddust á svæðinu frá
Hrollaugseyjum vestur í Hafnarsjó og á norðanverðum Faxaflóa.
Undanfarin ár hefur verið slæðingur af honum við landið, þannig
var skráður landaður afli alls 293 kg árið 2012 og 345 kg árið 2013.
Sædjöfull, Ceratias holboelli
Í febrúar 2013 kom 102 cm langur sædjöfull í botnvörpu
Guðmundar í Nesi á grálúðuslóðinni vestur af Víkurál (65°38´N
28°06´V, 840 m dýpi).
Gráröndungur, Chelon labrosus
Árið 2012 fréttist af tveimur gráröndungum sem báðir veiddust í
silunganet. Annar veiddist í Eyjafirði í júlí en hinn í Álftarfirði í Lóni
í ágúst. Sá síðarnefndi var 52 cm á lengd.
Búrfisksbróðir, Hoplostethus mediterraneus
Örfirisey RE fékk búrfisksbróður í botnvörpu í utanverðu
Skerjadjúpi (62°50’N, 24°46’V, 480 m dýpi)) í desember 2013. Árið
áður veiddust þrír slíkir í haustralli Hafrannsóknastofnunar á 960-
1050 m dýpi djúpt vestur af Snæfellsnesi. Þeir voru 16-27 cm langir.
Rauðserkur, Beryx decadactylus
Gullver NS veiddi í janúar 2012 57 cm langan rauðserk í botnvörpu
á 530 m dýpi í Hvalbakshalla (64°15’ N, 12°40’ V). Hér við land
hefur þessi fisktegund veiðst á svæðinu frá Rósagarði undan
Suðausturlandi og vestur með suðurströndinni og norður
með Vesturlandi allt norður á Halamið undan Norðvesturlandi.
Rauðserkur er þó fáséður fiskur á Íslandsmiðum, frændi hans
fagurserkur virðist heldur algengari.
Fagurserkur, Beryx splendens
Í febrúar 2012 veiddi Þerney RE 43,5 cm langan fagurserk í
botnvörpu við Reykjaneshrygg (62°57’ N - 25°11’ V). Hér við land
hefur fagurserkur einkum veiðst á svæðinu frá Litladjúpi undan
Suðausturlandi, suður og vestur á grálúðuslóð vestan Víkuráls.
Fagurserkur er botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 128-816
dýpi á Íslandsmiðum en er sennilega algengastur á 400-800 m
dýpi. Hann hefur veiðst allt niður á 1300 m dýpi.
Pálsfiskur Zenopsis conchifera
Í mars 2012 kom pálsfiskur á línu Bjargar Hauks ÍS í Ísafjarðardjúpi.
Fiskurinn barst ekki Hafrannsóknastofnun, en var greindur af
ljósmynd. Lengd fisksins er ekki þekkt. Áður höfðu sex pálsfiskar
veiðst við Ísland, einn árið 2002 og fimm árið 2008. Þessir fiskar
voru 24-31 cm á lengd, en tegundin getur orðið allt að 80 cm.
Pálsfiskur er miðsjávar- og botnfiskur sem veiðst hefur á um 50-
600 metra dýpi en er mest á 200-300 m og oft í smáum torfum.
Fæða er einkum fiskar.
Silfurhali.
Ljóskjafta.
Bletta.
15