Lögmannablaðið - 01.12.2006, Blaðsíða 29

Lögmannablaðið - 01.12.2006, Blaðsíða 29
LÖGMANNABLAÐIÐ – 4 / 2006 > 29 Af Merði lögmanni Mörður skar augað úr og stakk því upp í sig með hnífnum. Eftir að móðir hans sáluga féll frá fékk hann ekki svið nema á matsölustöðum og um árabil hafði hann vanið komur sínar á BSÍ. Hann lagði stundum til við kollegana sem voru í hádegishléi í Héraðsdómi Reykjavíkur að þeir kæmu með honum út á BSÍ til sviðaáts en þeir færust nær undantekningarlaust undan. „Of langt;“ „tekur því ekki að hreyfa bílinn“ var viðkvæðið hjá þeim og sumir settu upp frekar furðulegan svip. Þess í stað var pulsa með kransæðakítti tekin fram yfir þjóðlegan og góðan mat. En svo kom Mýrin í bíó og síðustu vikurnar hefur Mörður stöðugt verið að rekast á félaga úr lögmannastéttinni á BSÍ, slafrandi í sig svið með sama fagmannlega hættinum og forfeðurnir. Mörður horfði einmitt á þrjá lögmenn í yngri kantinum sem sátu saman við eitt borðið, meðan hann tuggði á hnakkaspikinu. Huggulegasta fólk og hann vissi að þau voru betur klædd en hann, að maður tali nú ekki um bílakostinn þeirra. En Mörður fann, aldrei þessu vant, ekki til neinnar minnimáttarkenndar. Hann var sannfærður um eigið ágæti sem lögmanns. Staðfesta. Það var orðið. Mörður var ekki áhrifagjarn. Þetta sviðaátsæði sannaði hins vegar að stór hluti kolleganna voru bara flöktandi strá sem hreyfðust eftir vindi. „Já, það er margt breytt“ hugsaði Mörður með sér. Lögmenn eru ekki bara sólgnir í að éta svið nú um stundir – þeir þrá líka að standa á því. Baða sig í sviðsljósinu. Mörður gjóaði augunum aftur á þessa þrjá ungu lögmenn. Var annar strákurinn ekki alltaf að gapa eitthvað í fjölmiðlum? Stjörnulögmaður! Merði var alltaf meinilla við þegar mál sem hann tók að sér voru flutt í fjölmiðlum. Honum virtust það alltaf vera sömu lögmennirnir sem voru með svo merkileg mál að um þau þyrfti að fjalla í dagblöðunum eða á öldum ljósvakans. Voru þetta óskir umbjóðenda þeirra eða var þetta „ex officio“ skynjun lögmannanna á því að „júsinn“ í málinu átti ekki bara erindi við dómstóla heldur allan almenning líka. Mörður leit aftur á stjörnulögmanninn. Það skipti ekki máli hvaða kjaftaþáttur það var, eða hvort verið væri að ræða um réttarstöðu burðardýra eða gæludýra, alltaf var hann kominn og hafði skoðun á öllu. Jafnvel þótt hann hefði ekki kynnt sér það mál sérstaklega sem til umfjöllunar var í það og það skiptið. Mörður hugsaði með sér að meiri hluti lögmanna hlyti enn að vera sama sinnis og hann og væri þar af leiðandi tregur til að láta sínar skoðanir uppi hvenær sem einhver fjölmiðill kallaði. Þess vegna yrðu vesalings fjölmiðlamennirnir alltaf að kalla í sama fólkið til að fylla upp í þættina sína. „Kannski er þetta bara fyrsta skrefið í prófkjör fyrir einhvern flokkinn“ hugsaði Mörður og mátaði stjörnulögmanninn inn í hina ýmsu stjórnmálaflokka, um leið og hann fylgist með honum hverfa út í norðan garrann með félögum sínum. Eftir erfiða vinnuhelgi var Mörður sestur fyrir framan sjónvarpið á sunnudagskvöldi. Edduverðlaunin í beinni – vinsældakosning sjónvarpsmanna. Ætli stjörnulögmaðurinn sé að reyna að ná í Edduna? Þetta var síðasta hugsun Marðar áður en hakan seig niður í bringu og hann byrjaði að hrjóta.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.