Akureyri - 13.05.2015, Blaðsíða 13
13. maí 2015 18. tölublað 5. árgangur 13
okkur gagnrýnislausum augum
og ábyrgðin sem því fylgir er
gríðarleg.
Rennur tónlist í blóði barnanna?
Umhverfið þeirra er hlaðið tónlist
og mér finnst mjög mikilvægt að
svo sé. Við höfum óhikað tekið
þau með okkur á ýmiskonar við-
burði og mig langar að þau alist
upp í umhverfi þar sem þau fá
að kynnast allskonar tónlist. Þau
elska að syngja og dansa og strák-
urinn okkar 7 ára hefur stundað
tónlistarnám frá 4 ára aldri. Það
er hinsvegar aldrei að vita hvað
svo verður, kannski verða þau
búin að fá nóg af tónlistariðkun
foreldra sinna og snúa sér að ein-
hverju allt öðru í framtíðinni, en
ég veit að þau munu búa að því
alla æfa að hafa hlustað mikið
á tónlist.
Er ekki beinlínis hneyksli að börn
geti átt von á að híma árum saman
á biðlista áður en þau fá inni í Tón-
listarskólanum á Akureyri?
Það er mjög leitt að heyra af því
að nemendur þurfi að bíða lengi
eftir því að geta hafið tónlistar-
nám og í fullkomnum heimi væri
frábært ef öll börn fengju tæki-
færi til þess að kynnast því að
stunda nám í tónlist, að það væri
hreinlega partur af námskránni í
grunnskólum að nemendum væri
boðið að stunda nám í tónlist. Ég
er viss um að forsvarsmenn Tón-
listarskkólans myndu vilja veita
öllum aðgang að námi, en fjár-
magnið er af skornum skammti.
Stundum er bent á að auka þurfi
hópkennslu til þess að koma
fleirum að, en ég held að slík
kennsla skili sér ekki jafn vel og
einkakennslan. Ég held að það
sé mikilvægt að við gerum þeim
nemendum sem fá tækifæri til
þess að stunda nám í tónlistar-
skóla grein fyrir því að því fylgir
ákveðin ábyrgð og sú ábyrgð snýst
um að sinna náminu. Ég á ekki
við að við tónlistarkennarar þurfi
að hafa það að markiði sínu að
gera atvinnu tónlistarmenn úr
öllum nemendum, heldur að nem-
endurnir hafi áhuga fyrir því sem
þeir eru að læra og meti það að fá
til þess tækifæri, því eins og við
vitum bíða margir á kanntinum
eftir því að fá tækifæri til þess
að komast að.
Taug barnanna, skólastarfs og at-
vinnulífs mætti vera sterkari þegar
kemur að tónlistinni ekki satt?
Skólatónleikar eru mjög mikil-
vægur partur af fræðslu. Fyrstu
árin eftir að ég settist að á Ak-
ureyri heimsótti Sinfóníuhljóm-
sveit Norðurlands grunnskóla á
svæðinu og hélt metnaðarfulla og
skemmtilega skólatónleika fyrir
nemendur. Þessu starfi hefur hins-
vegar ekki verið sinnt síðustu ár
og þykir mér það mjög miður. Að
mínu mati er þetta eitt mikilvæg-
asta hlutverk hljómsveitarinnar.
Ég fór því af stað með verkefni
eftir áramótin ásamt vini mín-
um Eyþóri Inga, organista Ak-
ureyrarkirkju, þar sem að við
settum saman prógram, sóttum
um styrki og heimsóttum marga
grunnskóla á Eyjafjarðarsvæðinu.
Viðtökurnar voru frábærar og við
fundum fyrir því hversu mikil-
vægt er að börn öðlist reynslu og
innsýn inn í klassíska tónlist. Oft
er talað um að aðsókn á klass-
íska tónleika sé ekki nógu góð, en
hvernig getum við ætlast til þess
að komandi kynslóðir sæki slíka
tónleika, ef við höfum ekki sinnt
þessu mikilvæga uppeldisstarfi.
Þú talaðir áðan um ákvörðun þína
að stökkva en hrökkva ekki. Hverju
breytir það fyrir þig að fá nú með
skömmu millibili listamannalaun,
fyrst frá ríkinu og nú frá bænum?
Þetta breytir öllu fyrir mig. Ég
get framkvæmt verkefni og hug-
myndir sem ég hef gengið með
lengi og látið drauma mína ræt-
ast. Starfslaunin veita einnig
mikla hvatningu í að helga mig
listsköpun.
Hefurðu hitt einhvern sem kallar
þig og aðra opinbert launaða lista-
menn afætur – hér í miðju brjálæði
nýfrjálshyggjunnar, Íslandi, þar
sem furðu margir virðast trúa að
allt skuli ráðast af markaðslausn-
um?
Ég hef ekki fundið fyrir mikilli
gagnrýni en þó einhverri og jafn-
vel frá fólki sem stendur mér ná-
lægt. Ég held að fólk geri sér oft
ekki grein fyrir því að á bak við
umsókn um úthlutun slíkra launa
er mikil skipulags- og hugmynda-
vinna þar sem verkefni viðkom-
andi eru útlistuð með nákvæmum
hætti. Síðan þarf eftirfylgnin að
vera góð, þar sem listamenn þurfa
að skila skýrslum um framvindu
verkefna sinna sem þeir hafa ein-
sett sér að framkvæma. Ég er þess
fullviss að gróskan og framþró-
unin í íslensku tónlistarlífi, væri
ekki svona mikil og við ættum
ekki jafn mikið af framúrskar-
andi listafólki eins og raun ber
vitni ef ekki væri um starfslaun
sem þessi að ræða. Ég er hins-
vegar algjörlega á því að fólk eigi
ekki að geta verið í einhverskon-
ar áskrift að slíkum launum eins
og stundum er talað er um, en ég
þekki heldur engin slík dæmi.
Hvort skiptir hinn veraldlegi eða
andlegi ávinningur af listamanna-
launum þig meira máli? Hvatningin
hlýtur að vera mikilvæg – en ein og
sér greiðir hún ekki hitaveitureikn-
inginn eða plokkfiskinn að kvöldi
dags?
Án efa skiptir andlegi ávinningur-
inn mig meira máli. Það er samt
ómetanlegt að fá tækifæri til þess
að koma af stað ýmsum verkefn-
um og hugmyndum sem ég hefði
aldrei getað framkvæmt án þessa
stuðnings.
Ertu kona sem þrífst betur í fá-
menni en margmenni?
Mér finnst gaman að velta þessu
fyrir mér. Mér leið mjög vel í fá-
menninu á Húsavík og sæki oft
þangað í kyrrðina hjá mömmu
og pabba. Hinsvegar elska ég
líka borgirnar tvær sem ég bjó
í í Bretlandi, London og Cardiff,
og sæki líka mikið í að heimsækja
þær. Niðurstaðan er því líklega
sú að ég þrífst ágætlega bæði í
fjölmenni og fámenni.
Ertu e.t.v. svolítið mögnuð blanda
af introvert og extrovert?
Ég hef ekki velt þessu fyrir mér
áður, en hugsa að það sé rétt hjá
þér. Sem tónlistarkona er ég
auðvitað oft innan um mikið af
fólki og þarf að vera ófeimin við
að spjalla og tjá mig. Hinsvegar
kerfst undirbúningur og æfingar
þess að maður getur verið mikið
einn með sjálfum sér. Ég kann
mjög vel við það líka. Ég hugsa
að ég hafi verið meiri introvert
sem barn, en þá leitaði ég mikið
í að vera ein með fiðluna í stað-
inn fyrir að eiga samskipti við
önnur börn. Þetta hefur hinsvegar
breyst með aldrinum, kannski
sérstaklega eftir að ég kynntist
Hjalta, ætli hann hafi ekki ýtt
undir extrovertinn í mér.
Hver er þín besta stund í lífinu það
sem af er?
Besta stund lífs míns var rétt eft-
ir fæðingu dóttur minnar, Huldu
Margrétar, þegar Jói sonur minn
kom og sá hana í fyrsta sinn. Þessi
stund er algjörlega ógleymanleg.
Gleðin og stoltið sem færðist
yfir andlit hans þegar að hann
sá systur sína í fyrsta sinn og að
hafa þau bæði í fanginu á mér
með Hjalta mér við hlið var eitt-
hvað alveg einstakt.
En versta?
Það erfiðasta sem ég hef tekist
á við var þegar ég lenti í bílslysi
í Cardiff vorið 2004. Ég held ég
hafi aldrei verið eins hrædd og
einmanna á ævinni og aldrei
fundið jafn vel hversu litla stjórn
á lífinu við í raun og veru höf-
um. En þó þetta sé það erfiðasta
sem ég hef lent í fylgir því líka
ákveðin gleði, því ég slapp ótrú-
lega vel og lærði mikið um sjálfa
mig á þessum tíma. Ég glímdi
við áfallastreituröskun í tals-
verðan tíma á eftir, en með hjálp
minna nánustu náði ég að sigr-
ast á hræðslunni sem bjó innra
með mér og varð miklu sterkari
einstaklingur fyrir vikið með aðra
sýn á lífið.
Munt þú fá tækifæri til að spila
í stúdíóhljómsveit Hofs sem m.a.
hefur unnið tónlist fyrir Walt Dis-
ney og Atla Örvarssonar á vegum
Menningarfélags Akureyrar?
Ég hef spilað í þeim verkefnum
sem nú þegar hafa verið tekin
upp og vona svo sannarlega að
ég fái tækifæri til þess áfram.
Svona verkefni eru frábær fyrir
hljómsveitina og tónlistarfólk á
svæðinu. Þetta leiðir að sér fleiri
atvinnutækifæri fyrir tónlistar-
fólk á svæðinu og innsýn inn í
annarskonar vinnu.
Hverju þarf að breyta hér í bænum
til að gera góðan stað enn betri?
Ég væri alveg til í millilandaflug
og að það væri ódýrara að fljúga
innanlands.
Ég væri líka til í að bæjarbúar væru
óhræddari við að sækja tónlistar-
viðburði þar sem þeir vita ekki al-
veg að hverju þeir ganga, að þeir
væru opnari fyrir nýrri og framsæk-
inni tónlist.
Mig dreymir líka um að samstarf
milli ólíkra listgreina aukist enn
frekar. Undanfarið hef ég sótt í
samstarf og samtal við myndlist-
arfólk og fólk sem starfar í Gilinu.
Úr því eru að spretta spennandi
samstarfsverkefni og ég fæ mik-
inn innblástur úr samtali mínu
við þessa aðila.
Hver eru helstu markmið þín fram
undan núna – hvar mun áherslan
einkum liggja?
Ég er þessa dagana að klára
vögguljóðaplötu sem ætluð er
ungum börnum og stefni að því
að hún komi út á næstu vikum.
Ég gef hana út sjálf og því er
heilmikil vinna framundan við
að koma henni í sölu og kynna.
Ég er svo búin að setja upp
metnaðarfullt plan fyrir árið og
mun ég leggja mig alla fram um
að ná þeim markmiðum sem ég
hef sett mér. Ég er að semja tón-
verk fyrir fiðlu og kór, þar sem
fiðlan er í einleikshlutverki, en
í verkinu reyni ég að sameina
klassíska tónlist og raftónlist
með hjálp tækninnar. Ég og Hjalti
erum í rólegheitunum að vinna
að nýrri plötu saman og stefnum
við á að hún komi út á næsta ári.
Áherslurnar eru svolítið breyttar
frá síðustu plötu og mun þónokk-
uð af frumsömdu efni vera á nýju
plötunni. Ég stefni einnig á tón-
leikaferð með breskum píanóleik-
ara hér heima og á Bretlandi á
árinu.
Undanfarin ár hef ég kennt
námskeið hjá Fjölmennt og er á
stefnuskránni að semja tónlist
sem hentar þeim sem námskeiðin
sækja sérstaklega vel og flytja á
List án Landamæra 2016. Það er
frábært að öll þessi verkefni séu
að verða að veruleika. Meðganga
þeirra margra er löng og mér
finnst draumar mínir til margra
ára vera að rætast.
MYNDIR Völundur Jónsson
Besta stund lífs míns var rétt eftir fæðingu dóttur minnar, Huldu margrétar, þegar Jói sonur minn kom og sá hana í fyrsta sinn.