Reykjanes - 17.12.2015, Side 4

Reykjanes - 17.12.2015, Side 4
4 17. Desember 2015 Jólafundur Norræna félagsins Nýlega hélt Norræna félagið í Reykjanesbæ jólafund sinn. Myndirnar eru frá vel heppnuðum fundi, önnur mynd er af gestum fundarins og hin af stjórn fé- lagsins. Formaður Norræna félagsins er Viðar Már Aðalsteinsson. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar-og viðskiptaráðherra: Þrífst best þegar allt er á fullu Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar-og viðskiptaráðherra hefur haft mörg mikilvæg mál á sinni könnu að undanförnu. Ragnheiður Elín hefur um nokkurt skeið verið í forystusveit Sjálfstæðisflokksins og er oddviti flokks- ins í Suðurkjördæmi. Reykjanes heyrði aðeins hljóðið í Ragnheiði Elínu. - Hvenær fékkst þú áhuga á pólitík? „Það má segja að ég hafi alltaf haft áhuga á stjórnmálum og á þjóðmálum almennt. Ég er stjórnmálafræðingur að mennt með mastersgráðu í alþjóða- pólitík, en ég ætlaði mér samt aldrei að starfa á vettvangi stjórnmálanna. Það var eiginlega óvart sem ég leiddist inni í stjórnmál. Geir H. Haarde, þá nýlega orðinn fjármálaráðherra árið 1998 hafði samband við mig og bauð mér starf aðstoðarmanns. Það kom mér algerlega á óvart enda þekkti ég hann lítið sem ekkert. En ég sló til og naut þess mjög að starfa með honum í samtals 9 ár, í fjármálaráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og síðast í for- sætisráðuneytinu. Þá var bakterían komin þannig að ég sló til og tók þátt í prófkjöri í Suðvesturkjördæmi fyrir kosningarnar 2007, þá búsett ásamt fjölskyldu minni í Garðabæ. Ég náði ætluðum árangri í prófkjörinu og tók sæti á Alþingi um vorið en færði mig síðan yfir í Suðurkjördæmi vorið 2009 og hef verið þar síðan – er komin heim aftur.“ - Hefur þú ánægju af því að starfa í stjórnmálum? „Já ég hef notið þess frá fyrsta degi, bæði sem þingmaður og nú sem ráð- herra. Á þessu er töluverður munur og skyldurnar að sumu leyti ólíkar þó að þingstörfin séu auðvitað þau sömu í grunninn. Það er mikið annríki og oft margir boltar á lofti í einu, en það á mjög vel við mig. Ég verð löt þegar lítið er að gera og þrífst best þegar allt er á fullu. Ég hef alltaf sagt að þann dag sem ég hætti að hafa ánægju af því að starfa í stjórnmálum verði kominn tími á að afhenda keflið öðrum.“ - Almenningur fær oft þá mynd af starfi Alþingis að þar fari fram tilgangslitlar umræður, endalaust þras. Hvað finnst þér um þessa mynd sem dregin er upp af störfum þingsins? „Því miður er ýmislegt rétt við þá mynd sem almenningur hefur og margt sem betur mætti fara. Ræðupúltið er það tæki sem stjórnarandstaðan á hverjum tíma notfærir sér til að vekja athygli á sér og sínum sjónarmiðum. Ég held að við sem sitjum á Alþingi viljum öll sjá bætt vinnubrögð. Eftir að hafa setið bæði í stjórn og stjórnar- andstöðu held ég að eina leiðin til að ná fram róttækum breytingum sé að menn komi sér saman um breyttar leik- reglur, en láti þær taka gildi að loknum kosningum. Þá hugsa menn út fyrir þau hlutverk sem þeir gegna á þeim tíma þar sem engin veit hver örlög sín verða eftir kosningar. Ég vona að við náum að gera umbætur á þingsköp- unum á þessu kjörtímabili þannig að meiri friður verði í störfum Alþingis en þó þannig að þingmenn geti áfram tjáð sig um þau mál sem eru í gangi hverju sinni og réttur minnihlutans sé tryggður.“ - Á síðustu árum hefur Sjálfstæðis- flokknum ekki tekist að halda sínu fylgi eins og áður. Sérstaklega er útkoman slæm meðal ungra kjósenda og í Reykja- vík. Er hægt að snúa þessari þróun við? „Það er vissulega hægt að snúa þessari þróun við. Ég held að flokkar verði á endanum metnir af verkum sínum og við erum með verkum okkar og þeim árangri sem við höfum náð á kjörtímabilinu að sýna að það skiptir máli að Sjálfstæðisflokkurinn sé í ríkisstjórn. Okkur hefur tekist vel til við ríkisreksturinn. Um leið og við erum að forgangsraða í þágu grunn- þjónustunnar hefur okkur tekist, frá því við tókum við, að skila fjárlögum með afgangi og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Þessi staða gefur okkur mikil tækifæri á næstu árum. Um leið erum við að lækka skatta og einfalda skattkerfið og bæta. Við höfum einnig sett húsnæðismálin í forgrunn og þau mál skipta ungt fólk miklu máli. Þá var síðasti Landsfundur okkur afar mik- ilvægur en áherslur ungra sjálfstæð- ismanna náðu þar gríðarlega vel inn í stefnumörkun flokksins. Þá kusum við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur ritara flokksins en hún er 25 ára gömul og frábær fulltrúi ungu kynslóðarinnar. Ég tel okkur eiga mikið inni og vona að ungt fólk muni á ný finna samleið með Sjálfstæðisflokknum.“ - Hver er þín skýring á hina mikla fylgi sem Píratar virðast njóta? „Það er erfitt að leggja mat á það – en þeir eru með einhverjum hætti að ná að svara kalli ákveðins hóps fólks, ef marka má kannanir. Þau hafa sýnt ákveðinn ferskleika og nálgast mál með öðrum hætti. Mér finnst skorta að ég viti í raun hvað þau standa fyrir í mörgum mikilvægum málum og hver stefna þeirra væri ef þau væru við stjórnvölin. Við höfum séð það bæði í kosningunum 2009 og 2013 að það er stór hluti kjósenda leitandi og Píratar hafa a.m.k. núna „náð“ þeim hópi til sín. Ég hef þá trú að þegar nær dregur kosningum fari kjósendur meira að kalla eftir skýrri stefnu flokkanna í mikilvægum málum og að litið verði til árangurs kjörtímabilsins. Ég kvíði ekki þeirri niðurstöðu.“ - Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar er mjög slæm. Eru einhverjar líkur til þess að bærinn ná að bæta sína stöðu? „Já, auðvitað eru líkur til þess og ég vona sannarlega að það takist. Það er mikilvægt að finna lausn á málefnum Reykjaneshafnar og að iðnaðarsvæðið í Helguvík byggist hratt upp eins og unnið hefur verið að í mörg ár og nú sér loks fyrir endann á. Þar skapast traustur tekjugrunnur fyrir höfn- ina og sveitarfélagið sem bæta mun reksturinn til muna. Ríkið er ekki í hópi lánadrottna hafnarinnar en fylgist náið með framvindu málsins að sjálf- sögðu og hefur gefið skýr skilaboð um að það komi að innviðauppbygginu í höfninni með sambærilegum hætti og annars staðar. Ég trúi því að það takist að semja við lánardrottna sveitarfélags- ins, enda öllum til hagsbóta að það ger- ist, og að kjörnir fulltrúar munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna að því. Það er ástæða til bjartsýni þegar litið er til atvinnuuppbyggingu og tækifæra í sveitarfélaginu með vexti í ferðaþjónustu, stækkun flugstöðv- arinnar og uppbyggingu í umhverfi- svænum orkutengdum iðnaði eins og Auðlindagarðurinn á Reykjanesi er frábært dæmi um og ég er sannfærð um að við komum okkur í sameiningu í gegnum þennan skafl.“ Hvers vegna eiga eldri borgarar ekki að fá sömu afturvirkni á launa- greiðslum og aðrir í þjóðfélaginu? „Það er mikilvægt að öllum stað- reyndum sé haldið til haga í þessari flóknu umræðu sem þróun bóta al- mannatrygginga er. Um þær gilda sérstök lög og þær taka hækkanir samkvæmt lögum ólíkt því sem gerist um launagreiðslur sem samið er um á milli launþega og launagreiðenda. Í lögum um almannatryggingar er kveðið á um að bætur almanna- trygginga breytist árlega í takt við fjárlög hverju sinni. Af því leiðir að bætur almannatrygginga hækki einu sinni á ári og hefur venjan verið að þær hækki frá 1. janúar ár hvert en ekki frá miðju ári þótt gerðir hafa verið kjara- samningar í millitíðinni. Þannig fengu eldri borgarar 3% hækkun bóta um síðustu áramót, nokkrum mánuðum áður en launþegar fengu sínar hækk- anir í þeim samningum sem gerðir voru í sumar og haust. Nú um ára- mótin munu bætur almannatrygginga hækka um 9,7% sem tekur bæði tillit til þeirra launahækkana sem orðið hafa á síðasta ári og spár um næsta ár, auk verðbólguþróunar. Það má alltaf deila um hvort nóg sé að gert, en það verður ekki litið framhjá þeirri staðreynd að frá því að þessi ríkisstjórn tók við hefur skerðingum þeim sem síðasta ríkisstjórn kom á verið aflétt og bætur hækkaðar meira en nokkru sinni hefur verið gert. Kaupmáttur bóta hefur aldrei verið hærri, gera má ráð fyrir að uppsöfnuð hækkun bóta lífeyrisþega verði 17,1% á árabilinu 2014-2016, sem er umtalsvert hærra en nemur uppsafnaðri hækkun verðlags á sama tíma, sem er áætluð 7,1%. Munurinn er nálægt 10% og því útlit fyrir að kaupmáttur lífeyrisþega muni aukast verulega á þessum tveimur árum. Við höldum því mikilvæga verkefni, sem er að bæta hag lífeyrisþega, að sjálfsögðu áfram, enda lýkur því aldrei.“ - Hver hafa verið þín mestu vonbrigði í starfi? „Ég get svo sem ekki nefnt neitt eitt atriði sem hefur valdið mér von- brigðum. Ætli það sé ekki frekar þannig að það veldur mér vonbrigðum þegar menn viðhafa ómálefnalega gagnrýni og fara í „manninn en ekki boltann“. Það getur verið lýjandi að standa í slíkum rökræðum en auðvitað er það því miður partur af pólitíkinni. Ég held nú samt að flest okkar, hvar í flokki sem við erum, séum í þessu af hugsjón og til þess að láta gott af okkur leiða.“ - Hvað er það ánægjulegasta sem gerst hefur í þínu starfi? „Eitt það ánægjulegasta er að fá tæki- færi til kynnast öllu því dásamlega fólki sem maður kynnist í gegnum starfið. Ég lít á það sem helber forréttindi að fá að fara um landið, kynna mér það fjölbreytta og stórkostlega starf sem unnið er í öllum þeim ótal atvinnu- greinum sem ég hef um að segja í mínu ráðuneyti. Hvort sem það eru nýsköp- unarmálin, hönnun, ferðaþjónustan, orkumál, tónlistar- og kvikmynda- iðnaðurinn, annar iðnaður stór og smár. . . alls staðar er fólk að vinna af dugnaði og krafti að uppbyggingu og verðmætasköpun. Það er sannarlega gefandi að sjá afrakstur samstarfs okkar í stjórnsýslunni við atvinnulífið t.d. við bætta lagaumgjörð verða til þess að ný fyrirtæki verða til eða að hagur samfélagsins verði betri. Þá verður öll vinnan svo sannarlega þess virði. Sem Suðurnesjamaður er ég auðvitað stolt af aðkomu minni að atvinnuuppbyggingu hér á svæðinu, við höfum reynt að greiða fyrir henni eins og mögulegt er með því að gæta þess að greitt sé hratt og örugglega úr því sem á okkar borði lendir. Afraksturinn er sýnilegur, fjárfestingasamningar sem þegar hafa leitt til nýrra verkefna og tækifæra í fjölbreyttum atvinnugreinum sem við eigum öll vonandi eftir að njóta ágóð- ans af í framtíðinni.“ - Og svona að lokum. Ætlar þú að lesa einhverjar bækur í jólafríinu? „Já, stefnan er að þær verði nokkrar lesnar í fríinu. Við fjölskyldan erum yfirleitt mjög værukær í jólafríum og stefnan er að taka eins marga nátt- fatadaga og við mögulega komumst upp með. Við hjónin pössum alltaf upp á að gefa hvort öðru bók til að tryggja að þær komi nú örugglega í hús. Mér finnst mjög notalegt að gleyma mér yfir góðum krimma og eru Arnaldur, Yrsa, Ragnar Jónasson o.fl. í uppáhaldi. Mig langar líka að lesa nýjustu bók vinkonu minnar Lilju Sigurðardóttur, Gildran, sem fengið hefur mjög góða dóma. Ég vona að Reyknesingar eigi gleðileg jól og ég þakka innilega frábært sam- starf og samveru á árinu sem er að líða.“

x

Reykjanes

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Reykjanes
https://timarit.is/publication/990

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.