Feykir


Feykir - 11.11.1987, Blaðsíða 4

Feykir - 11.11.1987, Blaðsíða 4
4 FEYKIR 37/1987 Á Sauðárkróki er starfrækt rækjuverksmiðja. Hún ber nafnið Dögun. Framkvæmda- stjórinn þar heitir Garðar Sveinn Árnason. Þegar hann tók við rekstrinum var bullandi halli á fyrirtækinu. í dag er Dögun orðið vel stætt fyrirtæki og núna á sunnu- daginn var starfsfólk Dögunar á leið til Hamborgar i V- Þýskalandi í boði fyrirtækis- ins. En hver er þessi Garðar Sveinn sem lyft hefur Grettis- taki hvað atvinnumál snertir, á Sauðárkróki? Blaðamaður hitti Garðar Svein að máli á dögunum og spurði fyrst hvemig það hafi verið að koma á Sauðárkrók og taka við rekstri sem bullandi hallarekstur var á. „Ég kom á staðinn í lok ágústmánaðar 1984. Þá var verið að ljúka sumarrækju- vertíð sem hafði gengið illa og óvíst var með framtíð fyrirtækisins. Að vísu hafði rækja fundist hér í firðinum. Steingrímur Garðarsson á Tý hafði fundið rækju og einmitt þessa dagana hafði verið byrjað að vinna þessa rækju. Við fengum tveggja mánaða reynslutíma til þess að sjá hvort hægt væri að halda þessu fyrirtæki áfram eða ekki en þessi innfjarðar- rækja bjargaði okkur. Það var haldið áfram að vinna rækju þann vetur. Það má segja að ég hafi byrjað að endurskipuleggja fjárhag fyrir- tækisins með auknu hlutafé. Hlutafé hafði í upphafi verið tvær milljónir en þær höfðu að verulegu leyti farið í skuldir. Hlutafé var aukið í fimm milljónir, þar sem nýir eignaraðilar komu inn í fyrirtækið. Sumarið eftir vorum við síðan með tvo 50 tonna báta og það var nú frekar erfið tíð þá þannig að þessir bátar náðu ekki sama afla og þeir höfðu náð árinu áður. Þarna um haustið 1985 vorum við nokkuð róleg vegna þess að við treystum á innfjarðarveiðina. Það hafði verið mjög góð veiði um vorið en um haustið fannst engin rækja. Þá syrti verulega í álinn. Þá um haustið fengum við bát, Gissur hvíta frá Blönduósi sem rækjuvinnslan á Blöndu- ósi á og hann landaði hjá okkur í þrjá mánuði. Rækju- vinnslan á Blönduósi var þá að vinna skel og innfjarðar- rækju á smærri bátum. Þeir gátu því losnað við Gissur þennan tíma. Eftir að Gissur hvíti er búinn að vera þessa þrjá mánuði, er stopp hjá okkur. Á aðalfundinum haustið 1985 var samþykkt að kanna með bátakaup. Um leið og ákveðið var að kaupa bát var tekin sú ákvörðun að auka hlutafé úr fimm milljónum í tíu milljónir og það hlutafé var allt keypt af hluta þeirra sem hlutafé áttu frá fyrri tíð. Það kom enginn nýr inn heldur breyttust hlutföll hjá fyrri eigendum. Við keyptum þá um veturinn Fjölni GK 17sem viðfengum afhentan eftir vertíð og hann fór í fyrsta rækjutúrinn 14. júní 1986. Þann bát skírðum við Röst SK 17. Röstin er 150 tonna bátur og sú útgerð hefur gengið vel og þó ýmsum þyki nú báturinn ljótur er kramið í honum gott og hann hefur reynst okkur happafleyta og raunverulega það lífakkeri sem við þurftum. Staða fyrirtækisins núna er allt önnur og miklu betri en áður en við keyptum hann. Þess fyrir utan þá vorum við með i fyrrasumar og í sumar á leigu bát frá sama fyrirtæki og seldi okkur Fjölni, þ.e.a.s. Sighvat GK sem hefur fiskað vel þann tíma sem hann hefur verið. Auk þess hefur Hafborgin frá Hofsósi landað hjá okkur. I sumar voru þar að auki hjá okkur í stuttan tíma bæði Haförninn frá Stokkseyri og Sigrún frá Grindavík. Staða fyrirtækis- ins er held ég núna nokkuð þokkaleg. Tryggingarmat eigna er ekki langt frá 60 milljónum en skuldir fyrir- tækisins eru um 30 milljónir”. Nú hefur mikið verið rætt um kvóta á rækjuveiðar og skiptingu hans á milli vinnslu- stöðva og báta. Þín skoðun á málinu. „Það hefur mikið verið rætt um það að vegna þessa gífurlega fjölda báta sem hefur hafið rækjuveiðar nú síðustu tvö ár, gæti stofninn verið í hættu og persónulega er ég þeirrar skoðunar að það sé gengið full nærri honum. Að mínu mati þarf að taka upp stjórn á þessum veiðum. Rækjuverksmiðjur hafa á undanförnum tveim árum sprottið upp eins og gorkúlur og leyfi fyrir fleirum. Þessar verksmiðjur eru aðallega á Suðvesturlandi og á Snæfells- nesi og ætla sér að byggja aðallega á vinnslu á rækju sem fryst er um borð. Við hérna fyrir norðan höfum verið að leggja áherslu á að miðin eru hér og að við fáum einhvern forgang miðað við Suðvesturlandið. í því sam- bandi höfum við bent á humarinn þar sem að ekki fá bátar að norðan að veiða hann. Ég held að það komi einhverskonar kvóti á. Loðnu- flotinn hefur nokkuð sterka aðstöðu og Kristján Ragnars- son leggur á það ríka áherslu að kvóta verði eingöngu skipt niður á skip. Hinsvegar hafa vinnslu- stöðvarnar talið eðlilegt að þær fái hluta af þessum kvóta til úthlutunar til þess meðal annars að koma í veg fyrir þær sjálfsmorðsaðgerðir sem sumir lentu í í sumar þegar menn fóru til þess að fá rækju að yfirborga í stórum stíl. Þetta var náttúrulega alltof hátt verð miðað við það heimsmarkaðsverð sem ríkti og fór lækkandi. Þær verk- smiður sem ekki áttu nein skip og fóru út í verulegar yfirborganir standa illa í dag. Ég tel eðlilegt að kvótinn komi að einhverju leyti á verksmiðjur og þá verði tekið mið af nálægð miðanna á hverjum stað. Ef rækjuveiðin fer út í það að rækjan verði veidd af skipum með mikla frystigetu, getur svo farið að vinnslan fari öll fram á suðvesturhorninu. Af því getur hlotist veruleg byggða- Úr vinnslusal Dögunar. Rækjan fínhreinsuð. Garðar Svei Garðar Sveinn Árnason framkvæmdarstjóri. röskun. Nú þegar eru erlendir aðilar komnir inn í verksmiðju suður á Reykja- nesi og þeir tala um að vinna 2000 tonn á ári. Það er nokkuð hátt hlutfall miðað við að rækjuafli verður líklega um 36000 tonn á þessu ári. Við hérna norðan- lands leggjum ríka áherslu á að við fáum kvóta á verksmiðjurnar þannig að tryggt verði að hluti aflans verði unninn hér því að á sumum stöðum er þetta verulega stór þáttur í atvinnu- lífi staðanna, eins og til dæmis á Blönduósi, Hvamms- tanga og Kópaskeri. Hjá Dögun eru oftast um 15-20 manns á launaskrá en svo koma tímabil þar sem starfsmannafjöldi fer upp í 40 manns”. Nú hefur þér tekist að rífa Dögun upp. Ertu töframaður? „Nei, aldeilis af og frá held ég. Ég er hinsvegar þrjóskur og það er það sem gildir í þessum bransa. Ég hef einnig verið heppinn og hef alltaf reynt að sjá fótum mínum forráð. Nú, stundum hefur þurft að láta gusast og þá hefur gusast vel. Svo má ekki gleyma þeim stóra þætti, sem það ágæta starfsfólk á, er með mér hefur starfað hjá Dögun í velgengninni”. Rollubandalag Þú hefur komið víða við hef ég heyrt. Nú ert þú ættaður frá Norðfirði austur. Segðu mér frá þínum árum þar. „Já ég er fæddur þar og ólst þar upp. Norðfjörður var þá eins og náttúrulega núna fyrst og fremst sjávarpláss. Samt var nú þarna svolítill rollubúskapur. Allt snérist um sjó, það var fjöldinn allur af trillum og bátum. Við strákarnir vorum að sniglast þarna mikið á bryggjunum, völdum okkur báta og fengum stundum að koma inn í skúrana og stokka upp eitt og eitt bjóð. Ég hafði þó nokkra sérstöðu þama. Þannig var að móðuramma mín og hennar börn voru saman með búskap. Þau voru með fjórar kýr og sjötíu kindur þannig að sumrin hjá mér fóru að verulegu leyti í heyskap og allt sem að því sneri og ég varð mjög snemma kúasmali. Mínar bernsku- minningar eru því ekki síður háðar skepnunum. Á þessum árum voru þarna þó nokkuð margir rollukarlar. Og einmitt veturinn 1955 - 1956 þegar menn vom að stofna Hræðslu- bandalagið og Alþýðubanda- lag þá komu rollukarlar saman á Norðfirði og stofnuðu Rollubandalagið (fjáreigendafélag). Þá stóð mikill styr á milli forystu bæjarstjórnarinnar sem vildi gera útlægar allar skepnur í bænum og manna sem höfðu kindur til aðstoðar við sitt framfæri. Það gekk svo langt að í bæjarstjómarkosningunum 1958 lá við að Rollubanda- lagið byði fram. Ég held að það hafi verið Jónas Árnason sem skaut fram eftirfarandi vísu í orðastað nágranna síns sem var rollukarl. Garðarolla mér leggur lið í lífsbjargarviðleitni minni. Hún breytir í hrútspunga, blóðmör og svið blómaræktinni þinni.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.