Skólavarðan - 01.10.2001, Blaðsíða 4

Skólavarðan - 01.10.2001, Blaðsíða 4
Yngstu grunnskólabörnin Á haustin þegar skólarnir hefja störf á ný eftir sumarleyfið hugsa ég oft til yngstu barnanna sem eru að fara í skólann í fyrsta sinn. Sjálf á ég ljúfar minningar um fyrstu skóladaga mína norður í landi þá nýorðin sjö ára gömul. Vonandi eignast sem flest börn góðar minningar um skólagöngu á þessu hausti. Þegar ég fór að laga til á vinnuborðinu mínu um daginn rakst ég á úrklippu úr blaði sem ég hafði geymt síðan í vor. Þetta var rit- dómur um þá ágætu bók Tilfinningagreind eftir Daniel Goleman. Þá datt mér í hug að e.t.v. væri hollt og gott að rifja svolítið upp af því sem í þeirri bók stendur um leið og ég minnist á nokkrar þarfir yngstu nemendanna, á aldrinum 6-9 ára. Almennt er mikilvægi fyrstu æviáranna og einnig fyrstu skólaár- anna í uppeldinu nú viðurkennt þó að oft virðist litið fram hjá því, sérstaklega af ráðamönnum í þjóðfélaginu. Grunnskólanemandinn er á afdrifaríku stigi þroskaferils síns. Barnið er að skapa sér lífsstíl og sjálfsmynd þess er í mótun. Óróleiki og tilfinningalegt ójafnvægi einkenna oft aldursskeiðið 6-7 ára. Yfirleitt er óþarfi að hafa sérstakar áhyggjur þó að sex ára barn virki einbeitingarlaust og eirðarlaust, það stafar venjulega af sérstökum þáttum þroskaferilsins á þessu aldursskeiði og þarf því ekki að vera viðvarandi, þannig að barnið haldi áfram að vanta ein- beitingu og jafnvægi. En sex ára börn gera óneitanlega miklar kröfur til kennarans og til umhverfisins yfirleitt. Margir áratugir eru síðan sálfræðingar og læknar fóru að fjalla um sex ára aldur sem sérstakt milliskeið milli smábarns og skóla- barns. Á aldrinum 6-9 ára mótast sjálf barnsins mikið og einnig félags- leg viðhorf þess sem hafa áhrif á hvaða stefnu það tekur í lífinu. Rannsóknir benda til að margs konar vandamál, sem þjóðfélagið stríðir við nú á tímum, s.s. lögbrot unglinga, fíkniefnaneyslu, of- beldi, lélega félagslega færni og vanhæfni til að mynda tilfinninga- tengsl við aðra, megi rekja til grunnskólaára einstaklingsins. Lífið hefur sífellt orðið flóknara og um leið erfiðara fyrir börn að aðlag- ast aðstæðum sínum, ekki síst vegna breytinga á fjölskyldugerðinni. Þegar barnið kemur í skóla bætast við kröfur um nám og félagslega aðlögun þar. Námsráðgjafar í grunnskólum þyrftu að hafa tíma og getu til að vinna að forvörnum og þróa aðferðir með kennurum fyrir börn á aldrinum 6-9 ára. Þá væri sennilega hægt að ryðja úr vegi mörgum hindrunum fyrir þroska þeirra sem gætu síðar orðið að alvarlegum vandamálum í efstu bekkjunum, bæði fyrir nemandann og þjóð- félagið ef ekkert er að gert. Það hefur sýnt sig að mun auðveldara er að ráða fram úr erfiðleikum barna á þessum aldri heldur en þegar þau verða eldri. Þá hafa vandamálin magnast. Slíkt skólastarf hefur reynst vel bæði í Kanada og Bandaríkjunum. Eins og sýnt er fram á í bók Golemans um tilfinningagreind er aðkallandi nú á tímum að flétta þjálfun í nauðsynlegri mannlegri færni inn í kennslu námsgreinanna á kerfisbundinn hátt. Í mjög stuttu máli: •Börnin þurfa að styrkja sjálfsvitund sína, læra að bregðast við neikvæðum tilfinningum, vera bjartsýn og halda út þó að stundum blási á móti. •Nauðsynlegt er að tileinka sér sjálfsstjórn í uppvextinum, s.s. sjálfsaga, aðlögunarhæfni og samviskusemi. •Sjálfshvatningu þarf að leggja rækt við, s.s. metnað, markmið og frumkvæði. •Börnin þurfa að þroska með sér samkennd með öðru fólki, s.s. að hafa innsæi í líðan annarra og geta stutt aðra sem þurfa aðstoð. •Aðkallandi er að börnin læri og æfist í félagslegri færni og samstarfshæfni. Slík mannleg færni leiðir til jafnvægis milli skynsemi og tilfinn- inga. Taugalífeðlisfræðin hefur nú sýnt að það er full ástæða til að taka tilfinningarnar alvarlega, segir Goleman. Því miður eru upp- eldisaðstæður barna víða orðnar þannig að þau fara mikið á mis við að vera meðal fólks og læra samskipti á eðlilegan hátt. Foreldrar lifa undir miklu álagi af ýmsu tagi, þeir hafa minni tíma fyrir börn sín en þeir vildu og þurfa e.t.v. leiðsögn til að geta aðstoðað þau við að þroska með sér nauðsynlega mannlega færni, sem Goleman kallar tilfinningagreind. Guðrún Friðgeirsdóttir Höfundur er sjálfstætt starfandi náms- og uppeldisráðgjafi. Ges task r i f „Námsráðgjafar í grunnskólum þyrftu að hafa tíma og getu til að vinna að forvörnum og þróa aðferðir með kennurum fyrir börn á aldrinum 6-9 ára. Þá væri sennilega hægt að ryðja úr vegi mörgum hindrunum fyrir þroska þeirra sem gætu síðar orðið að alvarlegum vandamálum í efstu bekkjunum, bæði fyrir nemandann og þjóðfélagið ef ekkert er að gert. Það hefur sýnt sig að mun auðveldara er að ráða fram úr erfiðleikum barna á þessum aldri heldur en þegar þau verða eldri.“ 5

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.