Franskir dagar - 01.07.2016, Blaðsíða 21

Franskir dagar - 01.07.2016, Blaðsíða 21
(móður mína), Þorgeir Ragnar, Elínu Sigdóru, Sigurlaugu og Eirík Ármann og ólu upp tvö fósturbörn, Birnu Kristborgu Björnsdóttur og Albert Stefánsson sem héldu alla tíð tryggð við Brimnesheimilið. Ég fæddist í hjónarúmi þeirra ömmu og afa á Brimnesi og var ég næst elsta barnabarnið, en tveimur árum áður hafði Birna, fósturdóttir Sólveigar og Guðmundar, eignast dótturina Jó- hönnu. Dvaldi ég flest sumur hjá ömmu og afa til fjórtán ára aldurs. Við amma vorum alla tíð nánar. Ég er örvhent en hún kenndi mér að halda á nál, prjóna og hekla áður en ég man eftir mér eins og ég rétthent væri. Amma var mjög fær í hannyrðum og vefnaði. Þegar ég man fyrst eftir mér á Brimnesi var vefstóll í einu horninu í borðstofunni. Þar voru ofnar tuskumottur og dreglar sem huldu gólf og forstofu. Einnig púðar, dúkar og margt fleira. Prjónavél var við einn gluggann í borðstofunni og man ég til dæmis eftir fallegum peysum, prjónaklukkum og nær- bolum sem amma sendi okkur systrunum til Norðfjarðar. Fyrstu ár ömmu og afa á Brimnesi dvöldu hjá henni ungar stúlkur sem lærðu að baldera og sauma sér íslenska búninginn. Eins og fram hefur komið hafði amma mikið yndi af trjárækt og blómarækt. Í garðinum fyrir framan húsið var fagur garður með trjám og blómum. Þar ræktaði hún jarðarber og einnig voru þar margir rifsberjarunnar. Mér er það minnistætt hvað jarðarberin spruttu vel og voru gómsæt. Amma var með falleg blóm í stofugluggum og ef henni fannst blómapottarnir ekki fallegir var settur utan um þá kreppappír í fallegum litum. Mitt aðalstarf með ömmu var að hjálpa henni í blómagarðinum, laga til í beðum, sækja mold og vökva og reyta kanta. Ekki fannst mér þetta skemmtileg vinna en mér þótti svo vænt um ömmu og hún var svo glöð þegar við vorum úti í garði. Amma umbunaði mér vel dagsverkið. Þegar því var lokið mátti ég klippa blóm í vasa. Oftast valdi ég regnfang sem ilmaði svo vel og eitthvað blómstrandi með, til dæmis morgunfrú eða stúdentanellikkur en þessi blóm ræktaði amma upp af fræjum sem mágkona hennar sendi henni frá Ameríku. Þegar amma var búin að þvo sér og skipta um föt fórum við að spila. Við höfðum báðar mjög gaman af því að spila. Stundum spiluðum við rommý, kasínu, ólsen eða rússa, svo átti amma alltaf nammi í skápnum sem við gæddum okkur á. Ömmu fannst líka gott nammi. Ég var svo glöð þegar afi hringdi á vordögum til að athuga hvenær ég gæti mætt í sauðburðinn. Ég er forsjóninni þakklát fyrir allt það góða veganesti sem amma, Sólveig Eiríksdóttir, gaf mér með sinni sterku fyrirmynd. Fyrir alla hennar hlýju og umhyggju í minn garð og að eiga minningar um hennar göfuga starf er dýrmætur fjársjóður sem aldrei verður frá mér tekinn. Gígja Sólveig Guðjónsdóttir greinarhöfundur með ömmu sinni og afa, Sólveigu Eiríksdóttur og Guðmundi Þorgrímssyni á Brimnesi. Brimnesfjölskyldan. Aftari röð f.v. Guðrún, Sigurlaug, Elín, Birna. Fremri röð f.v. Eiríkur, Guðmundur, Sólveig og Þorgeir. Á myndina vantar Albert Stefánsson. Sólveig Eiríksdóttir, Gígja Sólveig Guðjónsdóttir og Sólveig Þorleifsdóttir. Allmörg sumur var ég á Brimnesi í góðu yfirlæti og þaðan á ég fjölmargar góðar minningar. Amma var kona sem alltaf gekk í peysu- fötum hversdags en upphlut til spari. Eins og alsiða var með konur af hennar kynslóð var hún með fléttur og ég var alltaf undrandi á því hvernig hún gat fengið þær til að tolla, en þá vissi ég ekki að hún notaði hárin úr greiðunni sinni til að festa flétturnar. Þetta þótti mér merkilegt. Amma mín var vinnusöm kona, en hún gekk þó ekki í útiverkin. Heimilið á Brimnesi var fjölmennt og sumarvinnufólk sem þurfti að hafa umsjón með. Amma og afi Guðmundur voru frábær hjón. Man ég eftir að ef einhverjir afgangar voru af mat, þá voru afa gefnir þeir þó það væri honum ekki að skapi. En það þýddi ekki að segja nei því ekki vildi afi styggja ömmu, en stundum maldaði hann í móinn en niður fór maturinn samt. Sólveig Þorleifsdóttir Með miklum hlýhug minnist ég ömmu minnar, Sólveigar Eiríksdóttur. Foreldrar mínir, Eiríkur sonur hennar og Hulda Steinsdóttir, hófu búskap sinn í tveimur herbergjum á loftinu á Brimnesi 1 og fæddist ég þar 23. febrúar 1960 og átti heima þar mín fyrstu ár. Heimilisfólkið á Brimnesi var hluti af minni tilveru frá upphafi og amma stakk að mér góðgæti sem ég kunni vel að meta. Hún átti yfirleitt brjóstsykur og það átti að sjúga molana en ekki að bryðja. Hún átti líka í fórum sínum fjallagrasaseyði sem var soðið með kandís. Einn sopi á dag var allra meina bót og kom í veg fyrir kvef og gott ef ekki aðra kvilla líka. Ef maður fékk rispu eða skrámur átti amma joð sem græddi og kom í veg fyrir að illt hlypi í en joðið litaði hörundið gult og það sveið undan því. Amma sagði skemmtilega frá atvikum úr sínu lífi og þótti mér alltaf gaman að hlýða á frásagnir hennar. Hún lýsti því þegar bróðir hennar sá álfkonu í Papey skammt frá heimilinu og elti hana en enginn annar sá þá konu og stöðvaði heimafólk drenginn. Í fallega blómagarðinum sem hún kom upp á Brimnesi var meðal annars listilega útbúin skeifulaga laut, mót suðri, umlukin hækkuðum blómabeðum sem tré og runnar skýldu. Blóm úti og inni voru hennar yndi og hún reyndi líka að koma fyrir plöntum utan garðsins. Handavinna lék í höndum hennar alla tíð og var hún þolinmóð við að kenna afkom- endum handtökin. Undirrituð lærði að sauma krosssaum og telja út en það reyndist nokkuð erfitt fyrir nemandann og líklega kennarann líka. Jafnt og áferðarfallegt átti stykkið að vera og rangan skyldi líka vera jöfn og falleg. Oft þurfti að rekja upp það sama til að standast kröfurnar. Fyrsta prufan sem var gerð varð nokkuð þvæld af átök- unum. Æ síðan hef ég tamið mér að rekja upp ef ég hef ekki verið ánægð með handa- vinnu mína. Hún kenndi mér ýmis vers, bænir og ljóð og ekki mátti nokkur tala ljótt eða bölva. Öllu lifandi skyldi sýnd virðing og egg vera ósnert í hreiðrum þegar þau fundust. Sólveig Eiríksdóttir frá Brimnesi 21 Franskir dagar Les jours français

x

Franskir dagar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Franskir dagar
https://timarit.is/publication/1108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.