Franskir dagar - 01.07.2016, Blaðsíða 22

Franskir dagar - 01.07.2016, Blaðsíða 22
22 Franskir dagar Les jours français Vilborg Sigfúsdóttir fæddist 2. janúar 1916 á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu. Foreldrar hennar voru Sigrún Pétursdóttir (1898-1932) frá Galtastöðum fram og Sigfús Stefánsson (1878- 1969) frá Geirastöðum. Á fyrsta aldursári flutti hún með foreldrum sínum að Gröf í Eiðaþinghá þar sem hún ólst upp. Eftir andlát móður sinnar flutti Vilborg, þá 17 ára gömul, ásamt föður sínum og 7 ára bróður að Gestsstöðum í Fáskrúðs- firði. Hún fór fljótlega að vinna fyrir sér sem vinnukona, fyrst í Tungu og svo seinna í Dölum Fáskrúðsfirði. Vilborg giftist Steini Björgvini Steinssyni (1900-1952) frá Dölum þann 7. des- ember 1935. Börn þeirra eru Sigrún (1936), Guð- björg (1937), Hulda (1939), Hermann (1940- 2016), Sigríður (1944) og Friðrik (1948). Steinn og Vilborg tóku við búi í Dölum. Steinn lést úr krabbameini langt um aldur fram eða aðeins 52 ára gamall. Vilborg, sem þá var 36 ára gömul, var áfram í Dölum en flutti í Egilsstaði 1963 þar sem hún bjó með seinni manni sínum, Marinó Guðfinnssyni (1905-1985) frá Seyðisfirði. Vil- borg lést á jóladag árið 2005. Fimm af barnabörnunum bera nafn ömmu, flest hafa einnig gælunafn til aðgreiningar. Í aldursröð eru það þau Vilborg Elísdóttir (Bobba), Vilborg Eiríksdóttir (Villa), Vilborg Björnsdóttir, Vilborg Friðriksdóttir (Bogga) og Vilberg Marinó Jónasson (Villi). Vilborg amma okkar var ætíð kölluð „amma á Egilsstöðum“ í tali barnabarnanna enda munum við hana ekki öðruvísi en búandi þar með Marinó á Selásnum. Við aldarminningu ömmu voru af- komendur í beinan legg um 160 og mun fleiri ef öll tengsl eru talin með. Allar minningar um ömmu á Egilsstöðum eru undantekningarlaust tengdar hlýju, ástúð, skapmildi og einhverju góm- sætu matarkyns. Amma var glaðlynd, ákaflega barngóð og hún var svona ekta amma, hlý og innileg þegar hún tók á móti okkur í forstof- unni, fyrst að Selási 19 og síðar á Faxatröðinni. Amma var falleg kona með svart sítt hár. Afar sjaldan sást hárið slegið og það vakti því meiri eftirtekt þegar hún sást greiða síða hárið sitt. Svo fléttaði hún hárið í tvær þykkar fléttur sem náðu tvo hringi um höfuðið. Hún notaði ekki teygjur eins og títt er í dag því hún nýtti bara hárin sem losnað höfðu og sátu í greiðunni, lagði þau til og vafði þétt um enda fléttanna, þetta þótti okkur börnunum alveg sérstök snilld að hægt væri að leysa málið á þennan hátt. Það var alltaf tilhlökkunarefni, þegar farið var erinda í Egilsstaði, að heimsækja ömmu en það var fastur liður í þeim ferðum. Eitt dæmi um slíkt er eftirfarandi frásögn Bobbu: „Það var snemma morguns og mikil eftirvænting, tilhlökkun og gleði í loftinu. Við vorum að fara í Egilsstaði að heimsækja ömmu. Við settumst upp í Land- Roverinn og keyrðum af stað, keyrt var um Staðarskarð og yfir til Reyðarfjarðar. Ég man að mér fannst við aldrei ætla að verða komin, þetta ferðalag tók óralangan tíma, hvað þá í huga barns- ins. Vegurinn var holóttur og mjór og hlykkjað- ist upp og niður snarbrattar hlíðar. Þegar komið var upp á Fagradal vissi ég að nú væri leiðin farin að styttast í Egilsstaði. Þegar við svo loksins renndum í hlað, stóð amma í dyrunum með opinn faðm og tók á móti okkur með bestu jólaköku í heimi og marmaraköku. Það var líka alltaf svo góð lykt heima hjá ömmu og svo voru svo flottar svalir...vá! Allt var svo framandi, mér fannst ég vera komin til útlanda eða á einhvern alveg sérstakan stað. Að skreppa í mjólkurbílinn eða kjörbílinn var líka mjög spennandi. Allt í kringum ömmu var svo nota- legt, mér leið alltaf mjög vel í kringum hana.“ Ömmu féll aldrei verk úr hendi og var alltaf eitthvað að gera; baka, elda, prjóna, sauma, hekla og að sinna öllum gestunum sem komu á Sel- ásinn. Þar var alla tíð mikill gestagangur, enda voru allir velkomnir, frændfólk sem og aðrir sem leið áttu um og þáðu „stórar góðgerðir“ eins og einn tengdasonur hennar orðaði það. Það virt- ist alltaf nóg pláss á Selásnum og stundum var sofið í öllum rúmum og um öll gólf. Oftast var einhver að koma eða fara, vinir eða ættingjar og húsið ilmaði af einhverju matarkyns, því ekki mátti nokkur maður fara svangur út frá henni. Það var samt eins og amma hefði ekki mikið fyrir þessu, ekkert gert með látum og jafnvel raulað við matseldina. Allt í einu var borðið orðið fullt af mat. Það var líka siður hjá henni að hafa eftirrétt eftir heitri máltíð í hádeginu alla daga. Margir muna eftir dásamlegum köldum ávaxtagrautum eða búðingum. Á þessum árum var fæðingardeild við Sjúkra- húsið á Egilsstöðum og oft fengu barnshafandi konur húsaskjól hjá ömmu meðan þær biðu eftir fæðingunni, dögum og stundum vikum saman. Amma hugsaði vel um þær og gaf ýmis góð ráð Amma á Egilsstöðum Texti: Vilborg Elísdóttir, Vilborg Eiríksdóttir, Vilborg Björnsdóttir, Vilborg Friðriksdóttir og Vilberg Marinó Jónasson Myndir: Ýmsir Hjónin í Dölum, Steinn og Vilborg. Aftari röð f.v. Friðrik, Hermann, Sigrún, Guðbjörg. Fremri röð f.v. Hulda, Vilborg, Marinó og Sigríður.

x

Franskir dagar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Franskir dagar
https://timarit.is/publication/1108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.