Morgunblaðið - 15.11.2016, Blaðsíða 16
16 | MORGUNBLAÐIÐ
Við sérhæfum okkur í
vatnskössum og bensíntönkum.
Gerum við og eigum nýja til á lager.
Þ
að er til marks um aukin
umsvif á bílamarkaði eftir
alltof mörg mögur ár í kjöl-
far hrunsins að nýtt bíla-
umboð haslar sér völl. Fyrirtækið
heitir Ís-Band – sem stendur fyrir Ís-
lensk-Bandaríska – og er umboðs-
aðili fyrir Fiat Chrysler hér á landi
en fyrirtækið hefur þess utan verið
öflugt við innflutning á jeppum frá
Jeep og Dodge auk Ram-pallbílanna.
Það er því við hæfi að máta eins og
einn jeppa frá Jeep til að bjóða Ís-
Band velkomna til leiks og úr varð að
reynsluaka Jeep Renegade í svokall-
aðri Trailhawk-útgáfu.
Sérstakur að sjá – en venst
Það er kunnara en frá þurfi að
segja að í seinni tíð hefur það færst í
aukana að framleiddir séu bílar með
„sérstakt“ útlit til að mæta óskum og
kröfum þeirra sem vilja skera sig úr.
Meðal slíkra ökutækja má nefna
bæði Nissan Juke og Citroën Cactus;
bílar sem sumir elska og aðrir elska
að hata. Hvorum megin sem fólk
skipar sér í sveit þá er óumdeilt að
eftir slíkum bílum er tekið á götunum
og þesslegur bíll er Jeep Renegade.
Hann er reffilegur að sjá og snagg-
aralegur og sigraði undirritaðan ekki
við fyrstu sýn. En reynsluakstur yfir
röska tvo sólarhringa mýkti mig all-
nokkuð í afstöðu minni til bílsins því
hann reyndist fínasti akstursbíll,
þéttur og góður, og að skilnaði má
segja að ég hafi „skilið“ hann betur.
Þar sem um alvöru jeppa er að ræða,
með háu og lágu drifi vel að merkja,
þá má hann alveg vera svolítið
óbyggðalegur í laginu. Það fer hon-
um bara vel.
Rammgerður og sterkbyggður
Að innan kemur Renegade
skemmtilega á óvart. Það er talsvert
lagt í hönnunina og þó er ekkert pjatt
í gangi heldur rímar útlitið innan-
dyra vel við ytra byrðið. Hér virkar
allt traust og rammgert og ökumaður
fær gott öryggi á tilfinninguna. Trail-
hawk-útgáfan sem reynd var skartar
skemmtilegum áhersluumgjörðum
kringum gírstöng, hátalara og aðra
slíka staði og ljær bílnum skemmti-
legan svip að innan og brýtur upp
annars kolsvarta innréttinguna.
Mælaborð og aðstaða ökumanns er
vel heppnuð, góður snertiskjár held-
ur utan um helstu hluti sem þarf að
eiga við og hátalararnir, sem eru frá
Beats By DrDre, skila fínasta hljóði.
Plássið er gott og einkum er hátt til
lofts, sem gerir bílinn þægilegan til
ferðalaga.
Merkilega sprækur í akstri
Fyrst í stað virkaði Trailhawk ei-
lítið stirðbusalegur en þegar und-
irritaður vandist bílnum og fann
taktinn, ef svo má segja, samdi okkur
prýðilega. Þetta er jeppi, svo því sé
haldið til haga. Trailhawk er kraft-
mesta útfærslan af Jeep Renegade
og vélin með sínum 170 hestöflum
skilar togi sem nemur 350 Nm og
bíllinn er skemmtilega kvikur þegar
gefið er í. Reyndar gafst ekki færi á
að prófa bílinn almennilega utanvega
en hann býr að skínandi góðri fjöðr-
un sem væntanlega er til marks um
ágætis eiginleika þegar komið er út
fyrir malbikið.
Jeep Renegade Trailhawk er
skikkanlega verðlagður fyrir jepp-
ann sem hann er og kostar frá tæp-
um sex milljónum króna. Fyrir hóp-
inn sem eltist við bíla sem eru
auðþekkjanlegir á sérstöku útliti og
skera sig úr í umferðinni er hér kom-
inn jeppi sem telst býsna góður kost-
ur.
Jeep Renegade er
kominn á klakann
Morgunblaðið/RAX
Það er hátt undir Jeep Renegade og sterklegir plastkantar sjá til þess að lakkið fari ekki illa í ófærum.
Sjö raufa grillið er kunnuglegt á Jeep Renegade (sbr. Jeep Li-
berty) en hann ætti engu að síður að vera auðþekkjanlegur.
Baksvipurinn er af sama meiði og útlitið allt, sterklegt en sérstakt.
Jeep Renegade
Trailhawk
Reynsluakstur
2,0 lítra díselvél
170 hestöfl/350 Nm
9 gíra sjálfskipting
0-100 km/klst: 8,9 sek
Hámarkshr.: 195 km/klst
Fjórhjóladrif
17“ álfelgur
Eigin þyngd kg: 1.606
Farangursrými: 351 L
Mengunargildi: 155 CO2/km
Verð frá: 5.990.000 kr.
5,8 L/100 km í bl. akstri
Umboð: Ís-Band
Jón Agnar Ólason
jonagnar@mbl.is
Innréttingin er vel út garði gerð, stýrið gott og snertiskjárinn góður.
+
Þéttur, skemmtilega
innréttaður, sprækur
-
Það þarf að venjast
útlitinu.