Norðurslóð


Norðurslóð - 17.12.1985, Qupperneq 9

Norðurslóð - 17.12.1985, Qupperneq 9
Fyrsta ferð mín út í heiminn Það mun vera sameiginlegt hjá mörgu öldruðu fólki að minn- ingar frá bernsku eru rótfastari í hugum manna heldur en atvik sem gerast á fullorðinsárunum. Eitt atvik frá minni bernsku er mjög Ijóslifandi í huga mínum og þar sem ég álít að máli þessu líkt mundi vera ráðið á mjög ólíkan hátt nú, vil ég gjarnan festa atburðinn á blað. Sumarið 1917, þegar ég var 10 ára var ég léttadrengur á Hrísum, hjá þeim hjónum Arnóri Björnssyni og Þóru Sigurðardóttur. Starf mitt var sérstaklega það að passa kví- ærnar, því fært hafði verið frá, einnig átti ég að gæta hestanna, sem voru 2, grár klárhestur og ljósrauð hryssa, sem hafði verið keypt frá Hallfríðarstaðakoti í Hörgárdal, ljómandi reiðhross, viljug og falleg. Hestum hafði ég kynnst sumarið áður, því þá var ég í vist í Brekku hjá Halldóri dýralækni, en hann hafði þá nokkur tryppi í tamningu. Lærði ég þar bæði að umgangast hesta og sitja þá, voru öll samskipti við hestana mér til mikillar ánægju og ég held til verulegs þroska. Eitt af því sem mér bar að gera á Hrísum var að hefta hrossin á kvöldin, því nokkur ótti var að hryssan tæki upp á því að strjúka inneftir, enda kom á daginn að sá ótti var ekki ástæðulaus, því þrátt fyrir það að ég hefði heft hana eins og venjulega eitt kvöld var hún horfin morguninn eftir. hafði losað sig úr haftinu og auðvitað strokin inneftir. Þetta mun hafa verið seint í ágúst og því heyskapur í hápúnti. Enginn fullorðinn karlmaður var á bænum nema Arnór. Að vísu var Stefán Helgi Sigurðsson frá Kongsstöðum til heimilis á Hrísum, en hann var við sjóróðra á Dalvík. Veður var þurrt og gott á átti Arnór erfitt með að fara frá heyskapnum, hinsvegar var slæmt að missa hryssuna frá heyflutningnum. Arnór biður mig því að taka Grána og fara eitthvað inn á Árskógsströnd til að vita hvort eitthvað hafi séðst til hryssunn- ar, enda ekki vonlaust að hún hefði stansað í einhverjum hrossahóp. Ég hafði aldrei komið neitt út fyrir sveitina, ekki einu sinni inn á Strönd, auðvitað var ég fús til að fara, enda fannst mér það vera mér að kenna að hryssan slapp úr haftinu. Nú var lagt á Grána og ég lagði af stað inn götur. Þegar ég kom inn á Strönd var fólk allstaðar í heyskap. Ég spurði eftir hvort það hefði orðið vart við hryssuna og fékk fljótlega upplýsingar um að hún hefði farið inn allar götur, snemma um morguninn. Enginn latti mig þess að elta hryssuna, ég spurði bara til vegar og hvað bæirnir hétu. Arnór hafði talið að ekki væri óhugsandi að hryssan mundi stöðvast í einhverjum hrossahóp, sem á leið hennar yrði, hélt ég mig við þá von og aðgætti ef ég sá hrossahóp nærri götunum. Alltaf spurði ég hey- skaparfólk og oft frétti ég að það hefði sést til hennar, en alltaf dofnaði vonin um að ég mundi ná hryssunni. Ég hafði farið ýmsa króka til að tala við fólk og tafðist því nokkuð, en áfram hélt ég út í óvissuna þar til ég stansaði hjá einum bæ og var fólkið þar við heyskap í hlað- varpanum, svo að segja. Ég sagði því frá ferðum mínum og fékk að vita að bærinn héti Ytri- Reistará. Mér var boðið inn í bæ og fékk ég þar góðgerðir. Bóndinn sagði mér að engin von væri til að hryssan hefði stöðvast fyrren fram í Hallfríðarstaðakoti, það væri eðli strokuhesta að stöðv- ast ekki fyrr en á uppeldisstað. Hann benti mér á að frameftir væri að minnsta kosti jafnlöng leið og ég væri búinn að fara frá Hrísum og að ýmsu leyti erfiðari og þar sem degi væri tekið að halla sagðist hann ráðleggja mér að snúa til baka og láta húsbændurna ráða hvað gert yrði. Ég lét mér þessi ráð að Hrísabærinn snemma á öldinni. kenningu verða og náði heim fyrir myrkur, slippur og snauður en töluverðri reynslu ríkari. Önnur tilraun Mjög þótti Arnóri miður að geta ekki náð í hryssuna, en útlit var fyrir gott heyskaparveður daginn eftir og átti Arnór því mjög óhægt með að fara heim- anað. Færði ég því í tal við hann hvort hann vildi lofa mér að fara og reyna að hafa upp á Rauðku, því eftir reynslu mína þennan dag treysti ég mér vel til að fara þessa ferð. Þau hjón voru nú mjög treg til að samþykkja þetta og sögðu að ég væri nú ekki nema barn. Ég þóttist vel geta þetta og benti á að það væru bæir meðfram allri leiðinni og ekki yfir nein fjöll að fara. Hvort sem um þetta var rætt lengur eða skemur, lallaði Gráni með mig inn allar götur, morg- uninn eftir. Veður var mjög gott, logn og sólskin. Nú þurfti ég ekkert að tefja mig á að tala við fólk og hélt því áfram, sem leið lá eftir götunum. Ég stansaði ekkert hjá. Ytri-Reistará enda sá ég að fólkið var að heyja nokkuð frá bænum. Gráni var ólatur og gat ég látið hann spretta úr spori annað slagið. Eftir nokkra stund sá ég að ég var að koma að einhverju stórbýli og þóttist ég vita að það gæti ekki verið annað en Möðruvellir, sem ég hafði bæði lesið og heyrt um. Gatan lá þarna meðfram staðn- um. Ég fór af baki og fór fyrst að skoða kirkjuna. Hafði ég aldrei séð svo fallega kirkju. Ég var orðinn þyrstur og fór því heim á hlaðið og barði að dyrum. Út kom fremur ungleg stúlka. Ég spurði hana hvort ég mundi geta fengið að drekka. Hvarfhúninn og kom að vörmu spori með stóra glerkönnu fulla af mjólk. Ég hef víst tekið hraustlega til könnunnar því stúlkan yrti ekki á mig fyrst en sagði svo. „Hvaðan ert þú? þú ert ekki hérna úr nágrenninu því ég hef aldrei séð þig áður.“ „Ég er utan úr Svarfaðardal, sagði ég og er að leita að strokuhrossi sem er líklega í Hallfríðarstaðakoti. „Hefurðu farið þetta áður?“ spurði stúlkan. „Nei aldrei neitt hér inneftir“ sagði ég. „Eru engir fullorðnir karlmenn i Svarfaðardalnum?“ spurði stúlk- an „þurfti að senda þig, bamið?“ „Ég bað að lofa mér að fara“ svaraði ég. Síðan spurði ég hana um leiðina fram Hörgárdalinn og hvort langt væri fram í Hall- fríðarstaðakot. Sagði hún það vera nokkuð langt en ég skildi passa mig að fylgja götunum og spyrja til vegar ef ég þyrfti þess með. Ég kláraði úr könnunni, kvaddi stúlkuna og þakkaði fyrir mig, bað hún mig vel að fara. Á leiðarenda Þá var lagt af stað að nýju, eins og leið lág fram Hörgárdal- inn. Auðvelt var að fylgja götum, þó lenti ég einu sinni út í mýrum og gekk erfiðlega að finna göturnar aftur, en allt fór vel. Ég gaf mér ekki tíma til að tala við fólk til að spyrja eftir bæjamöfnum þó fékk ég leiðbein- ingar um hvar Hallfríðarstaða- kot væri. Þegar ég sá trjágróður við einn bæinn vissi ég að það væri Skriða, þar sem langafi ömmu á Hóli hafði búið og hafði hann og sonur hans gróðursett trén. Loks kom égað bæ, sem ég hélt að væri Hall- fríðarstaðakot en það reyndist vera Hallfríðárstaðir. Leiðbeindi fólkið mér að hinum bænum og kom ég að þessum leiðarlokum að aflíðandi degi. Ég hitti heimilisfólkið og spurði eftir hryssunni. Hafði enginn orðið hennar var, en það væri ekki að marka því hún hefði siálfsagt leitað uppi hrossa- hóp. Benti fólkið mér á hrossa- hóp sem var þar suður og upp í hlíðinni, væri mjög líklegt að hún væri þar, en ég varð að lofa því að koma við á bænum þegar ég sneri til baka. Ég gat riðið á Grána í átt til hrossanna og þá fyrst fór ég að hugsa um hvort ég þekkti örugglega Rauðku, ef hún væri þarna og önnur hross lík henni. Þá mundi ég eftir að það vantaði skeifu undir einn fótinn og hafði dregist að járna hana. Þarna voru mörg hross í hópi. Ég fór af baki nokkuð frá þeim til að styggja þau ekki og teymdi Grána. Brátt gat ég ekki betur séð en Rauðka væri þarna ein í hópnum. Það var alltaf mjög gott aðná henni oggekk ég því til hennar og stóð hún alveg kyrr. Ég klappaði henni svolítið og fannst mér hún þekkja mig. Þótt ég væri orðinn öruggur um að þetta væri Rauðka lyfti ég samt upp fætinum og það passaði allt saman, skeifuna vantaði. Ég gaf mér góðan tíma til að klappa henni og klóra áður en ég lagði við hana. Síðan tók ég hnakkinn af Grána og lagði hann á Rauðku. Þá lagði ég af stað heim að bænum og nú teymdi ég Grána, sem hafði borið mig á þennan leiðarenda með miklum ágætum. Þegar ég kom heim að bænum fullvissaði fólkið sig um að ég væri með rétt hross og síðan var mér boðið inn, þar sem ég fékk kaffi og lummur, sem kom sér vel. Þá var lagt af stað heimleiðis og var degi nú mjög tekið að halla. Ég gat farið nokkuð greitt því bæði var að ég þekkti leið- ina, Rauðka viljug og Gráni léttur í taumi. Nú fyrst fór ég að hugsa um að ég kæmist ekki heim í Hrísa um kvöldið og ég yrði að gista einhversstaðar, sem ekki var álitlegt, hjá bráð- ókunnugu fólki, en á Ytri- Reistará gat ég vel hugsað mér að gista, þar sem fólkið var svo hlýlegt við mig daginn áður og ég ætti að geta náð þangað fyrir háttatíma. f náttstað Seint um kvöldið, í rökkri Tryggvi Jónsson. kom ég að Ytri-Reistará og hitti sama vingjarnlega fólki. Ég spurði hvort ég gæti fengið að vera (eins og þá var sagt um gist- ingu). Það var sagt velkomið. Bóndinn tók hestana og mér var fylgt til baðstofu. Þar fékk ég nóg að borða, sem kom sér vel því ég var orðinn svangur. Bóndinn kom inn og sagðist hafa látið hestana í hús og gefið þeim tuggu, því sá grái hefði verið orðinn svangur. Nú fór ég að hugsa um hvar mér yrði vísað til svefns. Ég gat ekki hugsað mér að sofa einn í myrkrinu frammi í einhvetju afhýsi eins og svo oft var með gesti og ákvað, ef svo yrði að biðja fólkið að lofa mér að sofa í baðstofunni. Ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af þessu því mér var vísað á rúm í baðstofunni og þar átt ég að sofa hjá strák á aldri við mig. Eftir viðburðaríkan dag sofn- aði ég fljótt og vaknaði þegar fólkið var að fara á fætur. Ég fékk að borða og bóndinn kom með hestana, var þá búinn að leggja á Rauðku. Ég held að ég hafi ekki getað kvatt þetta elskulega fólk eins og ég vildi, en eftir nokkra stund var ég kominn af stað. Heim í Hrísa kom ég að aflíðandi hádegi og fékk góðar móttökur. Þótti Arnóri gott að fá hryssuna aftur og sagði að ég hefði staðið mig vel. Var ég ekki settur í neina vinnu það sem eftir var dagsins og mátti hafa það eins og ég vildi. Ég held að ég hafi þroskast verulega af þessari ferð, sem mér fannst hafa verið mjög viðburðarík. Ég hafði séð hluta af veröldinni, kynnst góðvild bráðókunnugs fólks og nálgast unglingsárin í verulegum mæli. Ég get mér til að ungu fólki finnist það óeðlilegt að 10 ára barn hafi verið sent í svo langa ferð, eftir leið sem því var alger- lega ókunn, en það er bara þess að gæta að á þeim tíma voru gerðar allt aðrar kröfur til unglinganna en nú er. Krakk- arnir voru látnir kynnast öllum algengum bústörfum mjög snemma og þau urðu oft að taka sjálfstæðar ákvarðanir og treysta á sjálf sig. Arnór og Þóra voru mér mjög góð og mér leið vel hjá þeim þetta sumar þegar ég var 10 ára. Tryggvi Jónsson NORÐURSLÖÐ - 9

x

Norðurslóð

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.