Norðurslóð


Norðurslóð - 13.12.1991, Page 19

Norðurslóð - 13.12.1991, Page 19
NORÐURSLÓÐ - 19 Gunnar Stefánsson: „Faðir minn átti fagurt land. Um ævisögu Kristjáns Eldjárns Skylt er Norðurslóð að fjalla nokkrum orðum um ævisögu Kristjáns Eldjárns sem nú er komin út, skráð af Gylfa Gröndal og út gefin hjá Forlaginu. Hér er sögð saga þess manns sem kunnastur er Svarfdælinga á vorum dögum og gegndi um skeið æðsta embætti þjóðarinnar. En þótt svo hefði ekki orðið myndi Kristján Eldjárn samt talinn meðal fremstu manna sinnar samtíðar, fræðimaður og rithöfundur, einn þeirra sem best ræktuðu garð íslenskra mennta. Varla hefur nokkur maður honum samtíða notið almennari hylli landsmanna. Það kom fram meðan hann var þjóðminjavörð- ur, við sögulegt kjör hans til forseta tslands, alla stund með- an hann gegndi því embætti og loks þegar hann féll frá, snögglega og að því er flestir hugðu í fullu fjöri, haustið Kristján kemur úr veiðiferð á Grænlandi með nýskotinn snæhéra og rjúpur. 1982. Það er á ýmsan hátt vandasamt að skrá sögu Kristjáns Eldjárns nú. Sjálfur er hann horfinn og verður ekki framar spurður, eins og títt er að gera við ritun á sög- um samtíðarmanna. Hins vegar er svo skammt um liðið frá láti hans að sagan er ekki búin að kveða upp sinn dóm, - þær meg- inlínur sem fjarlægðin skerpir ekki fullljósar enn, og auk þess sumt í forsetastörfum hans sem ótímabært má þykja að taka til umfjöllunar. Þess vegna hefur þessi ævisaga nokkra sérstöðu meðal þeirra sem koma á markað sem óðast á þessari bókavertíð eins og öðrum. Að öllu þessu athuguðu tel ég að Gylfa Gröndal hafi tekist prýðilega að rita sögu Kristjáns, eins og það efni liggur fyrir nú. Gylfi er þrautþjálfaður við ævi- sagnaritun, smekkvís höfundur sem kann að framreiða efni sitt á þann hátt að það verði læsilegt. Hann er skýr í framsetningu og stíllinn sniðfastur. Þessara kosta nýtur ævisaga Kristjáns. Reyndar er það svo að margt gott sem aðrir hafa skrifað er Gylfa upp í hend- ur lagt, ekki síst skrif Kristjáns sjálfs, en hann kann líka vel með það að fara og fella inn í skipu- lega heild. Bókin skiptist í átta megin- hluta. Hinn fyrsti fjallar um for- feður og -mæður Kristjáns, eink- um afa hans, séra Kristján Eldjárn. Sá næsti segir frá bernsku Kristjáns á Tjörn, for- eldrum hans og næsta umhverfi. Sfðan kemur kafli um mennta- skólaárin á Akureyri. Þar næst um nám í fornleifafræði í Kaup- mannahöfn. Þar í er langur þátt- ur um Grænlandsför 1937, fyrstu fornleifarannsókn sem Kristján tók þátt í, en frásögnin byggir að miklu leyti á dagbók hans úr ferðinni. Eftir það segir frá því er Kristján varð innlyksa heima í stríðsbyrjun, kenndi á Akureyri en hóf síðan nám í Háskóla íslands sem hann Iauk 1944. Skömmu síðar tók hann við starfi á Þjóðminjasafni sem aðstoðar- maður þjóðminjavarðar. Hér segir frá fyrstu fornleifarann- sóknum hans, m.a. Grásíðu- manninum sem eina tönn vantaði í og Kristján segir skemmtilega frá í fyrstu bók sinni, Gengið á reka. - Frá þjóðminjavarðar- árunum segir svo vitanlega í all- löngum bókarhluta sem nefnist „í skuggsjá fortíðar". Síðan kem- ur kafli um forsetaárin, „Bóndi á Bessastöðum", og er hann raunar síst of langur miðað við annað efni. Síðasti kaflinn heitir svo Ævilok. Þar á eftir kemur ítarleg heimildaskrá, skrá um öll prent- uð rit Kristjáns og er hún ærið löng, og loks nafnaskrá. í bók- inni er fjöldi mynda og eykur það verulega gildi hennar. Þetta var yfirlit um bókina til glöggvunar. Eins og sjá má er ferill Kristjáns Eldjárns rakinn í skipulegri tímaröð. Mikið er not- að af prentuðum frásögnum, við- töl við Kristján og greinar eftir hann og aðra. í minna mæli er byggt á munnlegum frásögnum. Sums staðar er eins og heimildir séu rýrar og drýgir höfundur þá efnið óþarflega mikið, með frá- sögnum og fróðleik um menn sem að vísu koma á einhvern hátt við sögu Kristjáns en víðar hefur verið sagt frá. Þannig er til dæmis um Sigurð Skólameistara í menntaskólakaflanum. - En það sem forvitnilegast mun þykja í bókinni eru glefsur úr áður óprentuðum skrifum Kristjáns sjálfs. Þar er um að ræða dag- bækur, brot frá yngri árum og svo frá þjóðminjavarðar- og forseta- árum hans, og eru þær merk heimild. Einnig minningaþættir sem hann skráði á síðustu æviár- um sínum, og bréf, einkum til vinar hans og sveitunga, Tryggva Sveinbjörnssonar (Svarfaðar) sem varðveitt eru á Landsbóka- safni. Það eru ekki síst þessi skrif sem færa Kristján nálægt lesand- anum. Það er alkunna að einka- bréf sýna stundum aðra - og ógeðfelldari - mynd af bréfritara en hina opinberu. Svo er ekki um Kristján Eldjárn, hann er hinn sami í bréfum sínum og því sem hann skrifar handa almenningi. Ég hef sjálfur flett bréfum hans til Tryggva Sveinbjörnssonar og get um það borið. Það er einmitt heillyndið, hið hreina andrúms- loft sem jafnan fylgdi Kristjáni, sem mestu réð um það traust sem samtíðarmenn sýndu honum. Það er ástæðulaust hér að gefa einstökum köflum bókarinnar einkunnir. Þeir eru allir læsilegir, þótt stundum hefði maður kosið rækilegri umfjöllun, annað sé fulllangt eins og gengur. - Frá- sögnin frá Grænlandi sem fyrr var nefnd er ósvikinn skemmti- lestur og þar er á ferðinni efni sem fáir þekkja. - Þjóðminjas- afnskaflinn gefur glögga mynd af daglegu lífi Kristjáns og þeim miklu störfum sem á hann hlóð- ust þann tíma sem hann var þjóðminjavörður, bæði samfara því að safnið færði út kvíarnar og einnig því hve eftirsóttur hann var til ýmissa aukastarfa og bón- góður að sinna alls konar kvabbi. Þegar að forsetaárum Kristjáns kemur veldur það mestum von- brigðum að lesandinn skuli ekki fá að skyggnast meira á bak við tjöldin. Allan þann tíma hélt hann dagbók, en í heimildaskrá stendur svohljóðandi athuga- semd: „Bókarhöfundur sá ekki minnisblöð og þann hluta dag- bókanna, sem varða stjórnar- myndanir og fleiri atburði; þær heimildir bíða sagnfræðinga framtíðarinnar.“ - Þetta er skiljanleg afstaða, en ekki held ég að ástæða sé til að draga mjög lengi að leyfa mönnum að sjá þessar heimildir, enda hvort eð er farið að birta ýmislegt úr stjórnmálalífi að tjaldabaki síð- ustu áratugi. - Frá forsetaárun- um eru hér frásagnir um nokkra stórviðburði og svipmyndir frá þeim opinberu skyldustörfum sem forsetahjónin þurftu að sinna og Kristjáni voru greinilega misvel að skapi, þótt stundum geti hann séð spaugilegar hliðar á tilstandinu. En skyldum sínum gegndi hann af fyllstu nákvæmni, eins og fram kemur í frásögn af útför Danakonungs. Þar þurfti hann að ganga úr skugga um að fílsorðan sæti rétt á búningi hans í kirkjunni, og segir af því tilefni í minnisblöðum: „Orðu verður að bera rétt, hversu mikið sem maður hatar hana.“ Það má kallast viðeigandi í þessu blaði að víkja sérstaklega að þeim hluta bókarinnar sem fjallar um ættmenn Kristjáns og uppvöxt í Svarfaðardal. - Gylfi Gröndal byrjar ævisöguna einkar haglega: Það er verið að skíra barn í Tjarnarkirkju 4. mars 1917, þriggja mánaða svein. Þarna var séra Kristján Eldjárn að ausa vatni sonarson sinn og nafna, - fáum mánuðum síðar er gamli presturinn allur. í fram- haldi af þessari svipmynd segir nokkuð frá Tjarnarstað og síðan er greint frá æviferli séra Kristjáns. Er sá kafli fjörlegur og lifandi, unninn úr ýmsum hei- mildum, ekki síst æviminningum Snorra Sigfússonar sem segir ítarlega frá séra Kristjáni og Tjarnarheimilinu í fyrsta bindi Ferðarinnar frá Brekku. „Að hlæja hafísinn í burtu,“ heitir kaflinn og er tilvitnun í kvæði sem skólabróðir séra Kirstjáns, Jón Ólafsson, kvað til hans og minntist svo glaðværðar þessa æskuvinar síns. „Þegar lífið var einfalt" heitir kafli um bernsku Kristjáns Eldjárns. Hann er mjög byggður á minningaþáttum hans óprent- uðum og ágætu viðtali sem Hjört- ur Pálsson tók við Kristján á Tjörn, örskömmu áður en hann lést, og birtist ásamt fjölda mynda í tímaritinu Storð. Frá foreldrum hans, Þórarni Eldjárn og Sigrúnu Sigurhjartardóttur, og ýmsu öðru ættfólki segir sam- kvæmt prentuðum greinum kunnugustu manna. Ég geri ráð fyrir að margt af þessu sé Svarf- dælingum vel kunnugt, enda bók- in ekki skrifuð fyrir þá öðrum fremur. Mest er gaman að lesa ýmislegt smálegt úr fórum Kristjáns, sumt reyndar alvarlegs eðlis, eins og sagan um svip Björns Sigfússonar, annað spaugilegt öðrum þræði, eins og um tildrög tilsvarsins „Almáttug- ur guð, liggur hann þversum?“ Ýmsir smámunir af slíku tagi eru til þess fallnir að færa manni andblæ fortíðarinnar. Að ekki sé gleymt minningaþættinum Blíð- viðrisdagur á hausti sem reyndar var prentaður í jólablaði í Norðurslóðar 1979 og varð minn- isstæður vegna þeirrar heiðríkju sem yfir honum er. Á þeim þætti lýkur kaflanum um bernskuár Kristjáns í Svarfaðardal og fer vel á því. Átthagarnir koma víða við sögu í bókinni. Á ferðum sínum um landið í erindum Þjóðminja- safnsins og við athuganir forn- minja sætti Kristján tíðum færi að koma við á Tjörn. - Einnig vann hann að rannsóknum í heimahögum: í Klaufanesi í Svarfaðardal var fyrsta fornleifa- rannsóknin framkvæmd, þeirra sem Kristján stjórnaði og átti upptök að. Sú rannsókn þótti mörgum styðja sannleiksgildi Svarfdælu, en seinna vildi Kristján ekki gera mikið úr slíku. „Um dvöl mína á Tjörn gæti ég margt sagt,“ skrifar hann 16. ágúst 1965. „Það er gamla sagan, að ég kem þar aldrei nema verða fyrir svo einkennilegum geðhrif- um, að varla má með orðum lýsa.“ Og fáum árum fyrr er hann um haustið á réttunum í Svarfaðardal, en skemmtir sér ekki sem best. Orsökina telur hann vera tilfinningu sem nokkr- um sinnum áður hafi hríslast um sig og lýsir henni þannig: „Þetta er sársaukinn yfir því að vera í senn heimamaður og gestur.“ Að lokum langar mig að taka upp þátt sem mér er eftirminni- legastur af hinu svarfdælska efni bókarinnar, - og má raunar heita perla hennar. Þetta er minninga- brot sem Kristján skrifaði um föður sinn í janúar 1979. Tilefnið var orð Tómasar skálds Guð- mundssonar um trúarkennd sína, sem hann eigi stundum erfitt með að greina frá þeirri hrifningu sem fegurð geti vakið með honum: „Orð skáldsins minntu mig á það, sem ég heyrði föður minn segja frá oftar en einu sinni,“ skrifar Kristján. „Hann kallaði það, að hann hefði orðið frá sér numinn.“ Svo segir í bókinni, byggt á frásögn Kristjáns: „Þórarinn er orðinn fulltíða maður, þegar þetta gerist. Á heiðum degi snemma sumars er verið að reka saman fé til rúnings, og hann er einn af smalamönnunum. Hann gengur frá Tjörn og beint upp fjallið fyrir ofan bæinn; þar er bratt og torsótt að komast, en hann finnur æskuhreystina svella í æðum sér, andar að sér fersku fjallaloftinu og nýtur til fulls göngunnar og veðurblíðunn- ar. Hátt uppi á fjallinu heita Bunkar, og þaðan er skammt til efstu tinda. Þar nemur Þórarinn staðar og svipast um. Við honum blasir í einni sýn sveitin öll, þar sem hann er bor- inn og barnfæddur og hefur alið aldur sinn. Á þessum bletti jarð- arkringlunnar er allt, sem honum þykir vænt um: minningar, vinir og ættingjar, bújörð, kona og börn. Þá gerist undrið. Honum finnst hann naumast vera með sjálfum sér. Hann verður skyndilea gagn- tekinn tilfinningu, sem er ólýsan- leg, en líkist einna helst samblandi af fegurð, kvöl og fögnuði. Hann er frá sér numinn. Þessi kennd bjó með honum eftir þetta og var ljóslifandi í huga hans til hinstu stundar. „Oft hef ég komið upp á Bunka og horft á sömu dýrðar- sjón og faðir minn hinn eftir- minnilega dag,“ skrifar Kristján. „En ég er lítt af barnsaldri, þegar ég kom þar síðast, og vissulega hef ég ekki lifað neitt, sem kemst í hálfkvist við það sem fyrir hann bar, hvorki þar né annars staðar. En spölkorn áleiðis tel ég mig hafa komist og held því að ég skilji hann. Ég fór ungur að heiman, en á fullorðinsárum hef ég oft vitjað æskustöðva minna. Stundum hef ég þá staðið sjálfan mig að því að halda kyrru fyrir á sama stað langtímum saman og horfa og horfa, bara horfa, í einkennilegu leiðslukenndu hugarástandi, samblandi af ást og nautn og gleði, en um leið angurværð, einnig stundum sektarkennd og trega. Faðir minn átti fagurt land...“ Það er gott að þessi ævisaga Kristjáns Eldjárns hefur verið skrifuð og gefin út. Margt sem hér segir frá er að vísu áður þekkt. En hér er það dregið saman, aukið og kryddað. Bókin í heild verður greinargott yfirlit um ævi og störf þessa mæta Svarfdælings, sem vegna hæfi- leika sinna og mannkosta var kallaður til að vera fulltrúi og eins konar persónugervingur þjóðar sinnar. Það er bjart yfir minningu hans, - og þá birtu fær- ir þessi bók lesanda sínum föls- kvalaust.

x

Norðurslóð

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.