Norðurslóð - 26.08.1994, Blaðsíða 2
2 — NORÐURSLÓb
NORÐURSLOÐ
Útgefandi:
Rimar hf.
Ritstjórar og ábyrgðarmerm:
Hjörieifur Hjartarson, Laugahlíð, Svarfaðardal
Jóhann Antonsson, Dalvík
Framkvæmdastjóri:
Sigríður Hafstað, Tjörn. Sími 96-61555
Blaðamennska og tölvuumbrot:
Þröstur Haraldsson, Dalvík
Prentun: Dagsprent hf. Akureyri
Dalvískir íþróttamenn
- Til hamingju!
Knattspyrnumönnum og knattspyrnukonum á
Dalvík hefur ekki gengið sem skyldi í sumar og
hefur það runnið sumum bæjarbúum mjög til rifja.
Hafa menn jafnvel haft á orði að til lítils hafi verið
ráðist í rándýra uppbyggingu íþróttamannvirkja
þegar útkoman er ekki glæsilegri. Þessi málflutn-
ingur er náttúrulega ekki þess virði að honum sé
svarað, en hann lýsir þó ákveðnum hugsunarhætti
sem virðist nokkuð algengur meðal manna. Það er
sú skoðun að ekkert sé íþrótt nema keppnisíþróttir
og þá helst hópíþróttir þar sem menn sparka,
henda eða slá á milli sín bolta eftir ákveðnum al-
þjóðlegum reglum.
Vissulega geta frækin knattspyrnu- og hand-
boltalið borið hróður bæjarfélags síns vítt um Iönd
og jafnframt stuðlað að samstöðu í sinni heima-
byggð og er ekkert nema gott um það að segja. En
íþróttir og útilíf er annað og meira en boltaleikir
fárra útvalinna og sé litið á málið frá því sjónar-
horni kemur í ljós að á Dalvík er blómlegra íþrótta-
líf en víða þar sem gulldrengir hafa gert garðinn
frægan. Stöðugt verða þeir fleiri sem rífa sig upp úr
kyrrstöðunni og bætast í hóp líkamsræktenda.
Daglega sjást flokkar manna og kvenna, ungra og
aldinna ganga eða skokka út úr bænum, fram í
sveit, niður á sand eða upp í fjall. Á nýja íþrótta-
vellinum er alltaf eitthvað um að vera. Þar fær
yngsta kynslóðin leiðsögn hæfra leiðbeinenda í fót-
bolta og fleiri íþróttum og þar æfa þeir lengra
komnu með sínum þjálfurum. Reglulega mætir þar
stór hópur fólks á öllum aldri til þrekæfinga og
þannig mætti lengi telja. Það er sama hvert litið er,
á öllum sviðum íþrótta- og útivistarlífs hefur orðið
stórkostleg bylting. Æ fleiri hella sér út í hesta-
mennsku í kjölfar uppbyggingarinnar í Hringsholti
og á það ekki síst við um yngri kynslóðina. Sömu
sögu er að segja um kylfinga eftir að Arnarholts-
völlur komst í gagnið. Á vetrum dvelur stór hluti
bæjarbúa langdvölum í Böggvisstaðafjalli við iðk-
un skíðaíþrótta. Gönguferðir um fjöll og firnindi
eru ekki lengur áhugamál einhverra sérvitringa og
stöðugt fjölgar þeim sem samræma líkamsrækt og
náttúruskoðun með því móti. Það má því fullyrða
að iðkun íþrótta er óvíða almennari en hér og með
það í huga er óhætt að slá því föstu að sú uppbygg-
ing íþróttaaðstöðu sem orðið hefur hin síðustu ár
hefur svo sannarlega skilað sér í heilbrigðari Iífs-
háttum bæjarbúa.
Á næstu dögum verður ný sundlaug tekin í gagn-
ið á Dalvík. Sem fyrr heyrast þær raddir að hún sé
allt of flott og allt of dýr. Því er þá til að svara að á
íslandi þar sem veðráttan er eins rysjótt og raunin
er gegna sundlaugar sérstöku hlutverki. Þar stund-
ar stór hluti þjóðarinnar, menn og konur, börn og
gamalmenni, sína líkamsrækt reglulega og fær þá
hreyfingu sem mönnum er nauðsynleg óháð duttl-
ungum náttúruaflanna. Því er ekki nema sjálfsagt
og eðlilegt að í einu snjóþyngsta plássi á íslandi þar
sem aukin heldur er ríkjandi almennur brennandi
áhugi á hvers kyns líkamsrækt sé vel búin og glæsi-
leg sundlaug. Norðurslóð óskar Dalvíkingum til
hamingju með nýju sundlaugina.
hjhj
Ævintýri úr Afréttinni
í þessari syrpu minni úr Af-
réttinni hef ég greint frá nokkr-
um atburðum, sem ég var þátt-
takandi í að einhverju leyti.
Nú ætla ég að rifja upp enn eitt
„ævintýrið", sem ég rataði í á þess-
um slóðum. Það var í fyrstu göng-
um eitthvert haustið skömmu fyrir
stríð eða í byrjun stríðsins. Sjálf-
sagt muna einhverjir fleiri en ég
þessar göngur, einkum fyrir þau
ósköp af lausamjöll, sem við áttum
við að strfða. Þegar komið var
framfyrir Sveinsstaði ösluðu hest-
arnir snjóinn í miðja síðu og kindur
voru nær á hvarfi í ntjöllinni.
Eg var hinsvegar skikkaður
ásamt nokkrum öðrum til að ganga
fram Krosshólsfjallið, en þeir sem
þar smala hafa enga hesta með í
för. Ég var ungur og frár á þessum
árum ævi minnar, liðlega tvítugur,
og var settur til að vera í efstu
manns göngum.
Ég öslaði nú upp Fjallið og
gekk seint vegna fannferginnar,
komst þó um síðir upp eins og mér
sýndist ástæða til í öllum þessum
snjó.
Nú segir ekki af för minni fyrr
en ég er kominn fram að Nónsskál-
arbrún og er þá vel hálfnuð leiðin
fram í Sveinsstaðaskál, þar sem
„Fjallsmenn" eiga að mæta
gangnamönnum af Vesturárdal.
Ekki minnist ég þess, að ég kæmist
í tæri við nokkra kvika skepnu á
leið minni fram Fjallið, hvorki fugl
né ferfætling.
Rebbi yfirbugaður
Afram braust ég samt gegnum
snjóinn og hélt hæð til að ná brún
Sveinsstaðaskálar. Þá bar nokkuð
nýrra við: Nokkru sunnar og neðar
en ég geng fer ég að sjá skrýtna
sjón. Upp úr fönninni skýst dökkur
blettur en hverfur jafn skyndilega.
Aftur stekkur svarti depillinn upp
úr snjónum og hverfur nær sam-
stundis. Þannig áfram en þó færð-
ist depillinn ofar í fjallið við hverl
hopp.
Mjög fljótlega fór mig að gruna
hvaða fyrirbæri þetta gæti verið.
Hvorki var ég trúaður á drauga
né huldufólk. Varð ég því að leita
að nærtækari skýringu. Eiginlega
gat þetta ekki verið neitt annað en
konungur óbyggðanna, íslenski
fjallarefurinn. Hann var bersýni-
lega á leið upp í Sveinsstaðaskál,
en komst lítið áfram, því í hverju
stökki sökk hann á hvarf djúpt í
lausamjöllina.
Ég hraðaði mér nú sem mest ég
mátti til að missa rebba ekki fram
hjá mér. Ég var reyndar ekki ein-
samall í för. Með mér var hann
Smali, fullorðinn hundur, sterkur
og duglegur bæði við kindur og
kýr. Smali var nú líka farinn að sjá
þessar skrýtnu aðfarir skammt
framundan og gerði sér grein fyrir
að þarna væri eitthvað spennandi á
ferð. Ég tók hann í fangið og lyfti
honum svo að hann gæti betur átt-
að sig á afstöðunni. Ég þurfti ekki
að hvetja hann, hann stökk úr fangi
mínu og braust með heljarátökum
gegnum snjóinn í veg fyrir „bráð-
ina“. Hann var miklu stærri og
sterkari og náði von bráðar rebba,
sem snerist til vamar og tók að
hvæsa ferlega að hundinum og
snoppunga hann sitt á hvað með
loppunum.
Seppa var ekkert um þetta gefið
og stóð frammi fyrir rebba svo sem
í vamarstöðu. Þegar hér var konrið
reis upp í mér einhver frumstæð
veiðimannsnáttúra, sem ég vissi
vart að væri til. Ég reif mig úr
stuttjakka, sem ég var klæddur yst-
um flíka, læddist í sveig aftur fyrir
refínn, sem veitti mér ekki athygli.
að því er virtist, og kastaði honum
fagmannlega yfir refinn. Sntali dró
sig í hlé og horfði undrandi á, þeg-
ar ég hnýtti bandi fyrir aðra ermina
og tókst að ýta refnum fram í þá
sömu ermi og vefja svo úlpunni í
ólögulegan böggul utan um skjálf-
andi, óttaslegið dýrið.
Þetta tókst vel en þó ekki betur
en svo, að rebba tókst að merkja
mig nokkrum tannaförum á hægri
hendi í gegn um þykka ullarvettl-
inga og pálþykkar gúmmílúffur ut-
anyfir.
Svikist uin í
smalamennskunni
Nú var komið að mínum hlut í at-
burðarásinni og var hann hvorki
hróss verður né hetjulegur. Þátt-
taka mín í smalamennskunni var
harla lítil úr jtessit. Ég keifaði
snjóinn niður að „Bragga" sem var
forveri Stekkjarhúsa og bar í fangi
mér refinn dúðaðan í úlpunni og
næstu menn fengu að hlaupa í
skarðið fyrir gangnamann, sem
skyndilega hafði breyst í tófubana.
Reyndar ekki strax því refurin var
lifandi og lét við og við á sér bæra
í erminni. Ég slakaði á bandinu,
sem lokaði erminni, svo að loft
gæti örugglega streymt inn og út.
Þama var ég þá kominn með
þennan fanga minn og allir vildu
ólrnir sjá rebba og helst taka á
honum. Mér fannst ég vera hetja
dagsins.
Skömmu síðar var lagt af stað
með tjársafnið niður eftir dal áleið-
is til rétta. (Síðar var fyrirkomulag-
inu breytt og safnið hvílt í nátthaga
við Braggann en rekið til réttar í
býti næsta morgun.)
Allir voru sammála um að ekki
mætti sleppa „skaðvaldinum" lif-
andi á fjall aftur fyrst hann var á
annað borð fangaður. Ég fékk því
aðstoð við að konta honum í þægi-
legri poka og hreiðra svo um hann
í bakpoka mínum, en aðrir holuðu
farangri mínum í sína bakpoka.
Síðan fór ég á bak Blesa mínum
með pokann á bakinu en í pokan-
um brölti vesalings refurinn.
Grimmileg öiiög
Síðan hófst hin langa, hægfara
ganga frá Krosshóli og niður á
Tungurétt. Rebbi varð spakari í
pokanum og ég hélt um tíma að
hann hefði gefið upp öndina. Ekki
fór það þó svo og út á Tungurétt
komst hann heill og lifandi.
Fiskisagan hafði flogið á undan
mér og kom heill skari unglinga á
móti mér fram á melana og vildu
allir fá að snerta hinn nýstárlega
fanga. Og enn gekkst ég upp við
öllu tilstandinu og fannst ennþá ég
vera hetja dagsins.
Og enn fékk rebbi að dúsa í
pokanum í nokkra klukkutíma og
fylgja eftir Tjarnarrekstrinum.
Hvað varð svo um þennan
happafeng minn? Það mun hafa
verið loðdýrabú á Dalvík þegar
þetta var. Ég hafði það í huga allan
tímann síðan refurinn kom til sög-
unnar, að þetta bú myndi taka við
dýrinu af mér. En því var nú ekki
að heilsa. Sigfús, eða hver sem bú-
stjórinn var, hafði öldungis engan
áhuga á íslenskum fjallaref í búið
sitt.
Þá var aðeins ein leið eftir og
hún þótti mér hábölvuð: ég fór
með pokann með refnum í niður í
kjallara, náði í stóran hamar og
greiddi þessum fanga mínum
bylmingshögg ofan á höfuðið.
Annað til vara, og refurinn hrærði
sig aldrei eftir það.
Þegar frá leið fór ég að skamm-
ast mín fyrir þetta tilefnislausa
dráp. Þó ekki fyrr en ég hafði sent
dálítið grobbkendan fréttapistil í
blaðið Dag á Akureyri, en ekki
kann ég einusinni að tilfæra ártal-
ið, hvað þá dag og mánuð þegar
greinin birtist.
Einnig fékk ég kunnáttumann í
uppstoppun dýra til að taka að sér
að stoppa hann upp og festa hann í
hlaupandi stellingu áfótstykki. Þar
var hann mér til frægðar og öðrum
til fróðleiks í nokkur ár eða þangað
til böm mín stækkandi og fjölg-
andi komumst upp á lagið með að
nota hann sem hest. Þannig var
honum riðið á slig á skömmum
tíma og fór veg allrar veraldar,
þ.e.a.s. í ruslatunnuna á Tjöm.
Ég er ekki stoltur af þessari
sögu. Nú myndi ég haga mér öðru-
vísi ef ég rækist á einfararef uppí
fjalli að vetri til. Ég rnundi horfa á
hann með velþókknun eins lengi
og hann Ieyfði, rölta svo heim og
ekki niinnast á það við nokkurn
mann, að ég hefði fengið að sjá
fjallaref, ofsóttasta dýr á íslandi
svo nú sést hann aldrei eða nær
aldrei í heilum sýslum landsins.
HEÞ.
ÞVOTTUR Á SNÚRU og nýborin kýr leiðir afkvæmi sitt fyrstu skrefin í veröldinni.
Mynd: hjhj