Norðurslóð - 26.02.2002, Blaðsíða 2

Norðurslóð - 26.02.2002, Blaðsíða 2
2 - Norðurslóð Norðurslóð Útgefandi: Rimar ehf. Ritstjórar og ábyrgðarmcnn: Hjörleifur Hjartarson, Lauga- steini, 621 Dalvík, sími: 466 3370. Netfang: hjhj@ismennt.is Jóhann Antonsson, Dalvík. Netfang: ja@radgjafar.is Framkvæmdastjóri: Sigríður Hafstað, Tjöm. Sími: 466 1555. Umbrot: Þröstur Haraldsson, Reykjavík. Netfang: throsth@isholf.is Prentvinnsla: Alprent, Glerárgötu 24, Akureyri, sími: 462 2844.. Samvinna ÓlafsQarðar og Dalvíkur Auðvitað er það merkilegt að nú sé í fullri alvöru verið að ræða um að Dalvíkingar og Ólafsfirðingar sendi sameiginlegt lið í meistaraflokki til keppni í 1. deild ís- landsmótsins næsta sumar. Það hefur reynst erfitt að stofna til samvinnu á ýmsum sviðum milli nágranna- sveitarfélaga hvort heldur það er hér á þessu svæði eða annarsstaðar. Samvinna milli keppnisliða í flokkaíþrótt- um virðist í fljótu bragði vera óhugsandi yfir sveitar- félagamörk. Það hefur reynst erfitt að sameina lið innan sveitarfélaga eins og sannast hefur í umræðunni um sameiningu KA og Þórs á Akureyri. Menn hafa sagt að hægt væri að sameina flest allt annað en íþróttafélög. Hvert lið á sinn áhangendahóp, fólk sem alltaf er til- búið að styðja við bakið á sínum mönnum hvort sem það er að hvetja liðin á leikjum eða vinna sjálboðavinnu þegar þörf er á og í mörgum tilfellum styrkja liðin fjár- hagslega. Vafalaust er það ekki síst svona bakhópur sem á erfitt með að sjá sitt lið sameinast liði andstæðinganna og hafa þá varla nokkurt lið til að standa á bakvið. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr svona tilfinningamálum heldur aðeins til að benda á að slíkt er til staðar. Við erum hins vegar heppin hér við utanverðan Eyja- fjörð að félögin á Dalvík og Ólafsfirði hafa unnið saman á þennan hátt hvað varðar yngstu flokkana nú í tíu ár. Þess vegna er unga fólkið vant þessu og finnst samvinna sjálfsögð. Eitthvað af þeim kemur líklega til með að keppa saman ef sameiginlegt lið verður að veruleika. Aðrir fyrrum leikmenn munu þá vafalaust mynda bak- sveit nýja liðsins. Þannig má leiða líkur að því að sam- vinnan á liðnum árum muni auðvelda þetta nú. Svo er líka hitt að á undanförnum árum hefur keppni á milli þessara félaga ekki verið mjög hatröm. Liðin hafa lengst af keppt hvort í sinni deildinni. Það er aðeins allra seinustu ár sem þau hafa keppt sem andstæðingar. Ólafsfirðingar hafa á undanförnum árum lengst af verið með liðið sitt í úrvalsdeildinni og stundum náð mjög góðum árangri. Lið Dalvíkinga hefur verið í neðri deild- unum en nú síðustu ár í 1. deild en Leiftur í Ólafsfirði hefur verið þar líka síðustu tvö árin. A undanförnum árum hefur samvinna verið vaxandi milli sveitarstjórnanna á Dalvík og Ólafsfirði. Mörg verkefni eru nú sameiginleg. Má nefna samvinnuna í skólamálum og félagsþjónustu sveitarfélaganna. Fyrir- sjáanlegt er að umræða um sameiningu þessara sveitar- félaga og Siglufjarðar verður tekinn upp á næstu árum af meiri þunga en áður. Hugmyndir um að efla Eyja- fjarðarsvæðið sem viðleitni í að minnka fólksstrauminn til höfuðborgarsvæðisins hafa verið vaktar upp að nýju í umræðunni. Þar beinast sjónir manna fyrst og fremst að Akureyri en flestum á að vera ljóst að styrkur Akureyr- ar er og verður að hafa öfluga byggð í nágrenninu. Byggðin hér við utanverðan Eyjafjörð á sér vaxtar- möguleika og þeim er hægt að ná fram ef menn ná að nýta sér kosti samvinnu og sameiningar þar sem það á við. Rétt er hér að lokum að draga fram eitt af þessum samstarfsverkefnum sem sveitarstjórnirnar á Dalvík og Ólafsfirði hafa unnið að saman sem mjög mikilvægt er að skili árangri sem fyrst en það er stofnun framhalds- skóla við utanverðan Eyjafjörð með aðsetur á Dalvík. Það er undarlegur seinagangur á þessu máli af hálfu menntamálaráðuneytins. Lfndirbúningur sveitarstjórn- anna hefur verið mjög faglegur og góður en málið hefur verið sent á milli Heródesa og Pílatusa kerfisins og hvergi fengist svör. Vonandi tekst með sameiginlegum þrýstingi sveitarstjórnanna að ná árangri í þessu máli. Það skiptir miklu að ná aftur upp aðsókn í framhalds- skóla hér og ekki síst að byggja aftur upp nám á fisk- vinnslubraut sem og skipstjórnarnámið sem hér var enda er afbragðs aðstaða fyrir fyrir hendi sem ekki er notuð. JA Þórarinn Eldjárn: Lenska Eins og fram kemur hér í blað- inu verður Svarfdælskur mars nú endurtekinn þar sem hann þótti lukkast með afbrigðum vel í fyrra. Meðal annarra hélt þar erindi Þórarinn Eldjárn. Birtum við hér crindið um leið og við hvetjum íbúa Dalvíkurbyggðar og alla landsmenn til að mæta á marsinn og brúsinn og tónleik- ana og fyrirlestrana 22. og 23. febrúar nk. Ágœta samkoma. Ég verð að byrja á því að játa að sú var tíð, og það ansi lengi, að ég áttaði mig ekki almennilega á þeim mönnum sem treystu sér til og höfðu yndi af að brytja hina örsmáu íslensku þjóð niður í ótalmargar enn smærri þjóðir, afskaplega ólíkar innbyrðis. Ein- um ágætum höfundi man ég til dæmis eftir sem gjarna skrifaði minningargreinar í blöð um fólk víðs vegar af landinu. Þar mátti iðulega sjá setningar eins og þessa: „Hún var svo mikill Hún- vetningur að hún skildi aldrei Skagfirðinga.“ Eða: „Þetta skil- ur enginn sem ekki er alinn upp á Ólafsfirði." Ég átti líka bágt með að skilja hörmuleg vandkvæði skáldsins sem átti í svo miklum tjáskipta- erfiðleikum við hamingjuna af því hann talaði vestfirsku, en hún sunnlensku. Þegar hann var síðan loksins búinn að tileinka sér sunnlensku hafði hamingjan svissað yfir í vestfirsku, svo þau náðu aldrei saman. Ég trúði því hreinlega ekki að í slíkum suðu- potti sem Reykjavík var á nýlið- inni öld hefði svo veigalítill mál- lýskumunur sem munurinn á vestfirsku og sunnlensku getað valdið viðlíka stórum og afdrifa- ríkum misskilningi. Mér fannst miklu líklegra að hamingjan hefði hreinlega ekki áttað sig á því hver þetta var af því að hann hafði skipt um nafn eftir að hann flutti í bæinn. Var hættur að heita því veglega nafni Aðalsteinn og hét nú bara Steinn. Kannski til að villa um fyrir henni viljandi, hér áður fyrr sóttust skáld eftir lífsháska og hamingjuleysi, en nú er Launasjóður rithöfunda kominn í staðinn. Mér hefur reyndar lengi verið ljóst að þessar innlendu þjóð- flokkapælingar eiga sér stoð í gömlum ritum. Ekki þeim allra elstu kannski, því eflaust hafa allir verið eins á landnámsöld, þeas. sem íslendingar, en sjálf- sagt í staðinn flokkað sig fyrstu áratugina sem ýmis konar af- brigði af Norðmönnum. I Fær- eyjum búa svo enn þeir sem skiptu um skoðun á leiðinni. Þetta er skýringin á því hvers vegna íslendingar vita enn þann dag í dag ekkert fyrirlitlegra en það að skipta um skoðun. Hitt er ljóst að þegar tímar liðu fram hefur ekki farið hjá því að einhver munur sprytti fram á lífsstíl og viðhorfum, eftir því hvar á landinu menn höfðu hol- að sér niður án þess að eiga afturkvæmt þaðan öldum saman vegna lélegra samgangna. Þá hljóta aðstæður og sveitarbragur á hverjum stað að hafa sett mót sitt á fólkið. Ég man í fljótu bragði eftir lýsingum séra Jóns Steingríms- sonar á slíkum mun, eftir að hann flyst úr Skagafirði og sest að meðal Skaftfellinga. Sú reynsla virðist hafa verið líkust því að þurfa að flytja í aðra heimsálfu nú á dögum. Og reyndar verð ég að viðurkenna að ég hef heyrt svipaða lýsingu frá vorum tímum. Kona héðan af Tröllaskaga settist að í af- skekktri sveit á Suðausturlandi. Spurð að því hvort þetta hefðu ekki verið nokkur umskipti svaraði hún því til að viðbrigðin hefðu ekki getað verið meiri þó hún hefði flutt til tunglsins. Hún sagði þetta hvorugum staðnum til lasts, aðeins til að undirstrika þann reginmun sem hún taldi vera á lífsmáta öllum, verklagi, mataræði og veðurfari á þessum tveimur landshornum. En sem sagt, þrátt fyrir svo ótvíræð dæmi, bæði forn og ný, hef ég einhvern veginn aldrei náð upp í slíka speki. Ég hef aldrei getað séð neinn mun á fólki eftir því hvaðan það er af landinu. Ekki þannig að mér þyki allt fólk vera eins, heldur finnst mér það vera eins mis- munandi hvar sem er, Húsvík- ingar til dæmis jafnmikið eða lít- ið skrítnir og segjum Hornfirð- ingar. En ég treysti mér hinsveg- ar ekki til að þekkja Húsvíking frá Hornfirðingi svona almennt séð, án fyrirframvitneskju eða annarra hjálpartækja. En sér- fræðingarnir sem þekkja svo vel sundur Húnvetninga og Skag- firðinga færu ábyggilega létt með það. Mér hefur löngum þótt það leitt að vera svona gerður og með sjálfsrannsókn komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta hæfi- leikaleysi stafaði af því að sjálfur er ég Reykvíkingur. Fæddur og uppalinn á stað þar sem eigin- lega allir eru meira og minna að- komumenn. Og þar að auki langflestir mjög illa haldnir af sektarkennd, eins og nýlega kom fram á æðstu stöðum í hinni ein- kennilegu umræðu sem geisaði á undan hinni stórfurðulegu skoð- anakönnun og lýðræðistilraun sem gerð var fyrr í þessurn mán- uði um bernskuslóðir mínar um- hverfis Reykjavíkurflugvöll. Þeirri tilraun var þannig háttað að rótgrónir Kópavogsbúar við flugbrautarendann máttu ekki kjósa en nýbakaðir Reykvíking- ar búsettir langleiðina upp að Hvalfjarðargöngum höfðu full- an rétt til að segja sitt í sönnum lýðræðisanda. Ekki meira um það. í uppvexti mínum í Reykjavík á sjötta og sjöunda áratug síð- ustu aldar hef ég sem sagt verið haldinn þeirri firru barnsins að ég væri sífellt að umgangast Reykvíkinga, meðal-íslendinga eða bara hreinlega fólk, en sé nú auðvitað með trega eftir á að þetta hljóta að hafa verið Skag- firðingar, Bolvíkingar, Þingey- ingar, Húnvetningar og svo framvegis. Auðvitað heyrði mað- ur þetta stundum nefnt og vissi að til voru félög þessa fólks, svo- kölluð átthagafélög (sem nú er orðið ljóst að voru ekki stofnuð af félagskennd, heldur sektar- kennd) en maður vissi ekki af hverju það kallaði sig þetta og ekki var nokkurt viðlit að maður treysti sér til að þekkja það í sundur. Kannski var helst að maður teldi sig hafa Rangæinga á hreinu, en jafnvel það krosstré brást þegar ég komst að því að faðir besta vinar míns var for- maður Rangæingafélagsins, en samt tiltölulega mjög réttsýnn. Svona fór þetta sem sagt: Það fór allt í einn hrærigraut og afleiðing þessa uppvaxtar varð óhjá- kvæmilega sú, að minnsta kosti í mínu tilfelli að ég varð sleginn þessari miklu þjóðflokkablindu. Nú megið þið ekki halda að ég ætli að fara að harma þetta eitthvað sérstaklega, og enn síð- ur megið þið vonast eftir því að ég ætli að fara að hallmæla reyk- vískum uppruna mínum, hreint ekki, slíkt er óhæfa, enda tek ég heilshugar undir þau orð sem standa einhversstaðar í Sturl- ungu að „leiðast mér jafnan fuglar þeir er í sitt hreiður skíta.“ Það sem ég gerði hins- vegar í þessu máli á sínum tíma fólst í gamalkunnu bragði, ég sneri vörn í sókn, gerði dyggð úr ódyggðinni. Ég varð mjög gjarn á að halda því fram að allt svona hjal um mismunandi íslendinga eftir búsetu, eða jafnvel búsetu forfeðra þeirra væri ekkert ann- að en innlent afbrigði af rasisma af verstu sort og hið versta böl. Fyrst eðlilegt og sjálfsagt teldist að Húnvetningar og Skagfirð- ingar gætu með engu móti skilið hver annan, hvernig væri þá hægt að ætlast til þess að Arabar og Israelsmenn gerðu það, Eng- lendingar og írar eða Olsarar og Sandarar? Því hvað er það sem fram fer á helstu átakasvæðum heimsins annað en einskonar hrepparígur í æðra veldi? Og svo var vitnað í Reykja- víkurskáldið Tómas Guðmunds- son (sem var nú víst reyndar Ár- nesingur) og sagt að hjörtum mannanna svipaði saman í Súdan og Grímsnesinu. Þvílík vitleysa að vera að einbeita sér að því að vera Snæfellingur eða Þingeyingur í stað þess að reyna bara að vera íslendingur og helst heimsborgari. Áfangasigrar unnust vissu- lega, fannst mér, einn sá alstærsti var breytingin sem gerð var á bílnúmerakerfinu 1989. Við þá breytingu hurfu smátt og smátt tvær mjög þekktar manngerðir úr þjóðlífinu, annars vegar freki og yfirgangssami Reykjavíkur- bflstjórinn úti á landi og hins vegar ráðvillti sveitamaðurinn í borgarumferðinni. Svona er nú auðvelt að leysa vandamál, bara með því að beita réttum aðferð- um. Jæja, en ég var víst ekki feng- inn hingað til að rekja ævisögu mína og fer því að reyna að stytta mál mitt. Ég væri ekki hér ef ég hefði ekki allrækilega skipt um skoð- un á þessum innlendu þjóð- flokkamálum. Nú er svo komið að ég vil hlúa að allri dælsku, firsku, vísku, vetnsku, eysku og lensku. Ekki til að efla útúrboru- hátt og hrepparíg, heldur þvert á móti í þeirri trú að innri fjöl- breytni geri okkur betur í stakk búin til að taka fagnandi við nýj- um straumum úr ýmsum áttum. Til að hérlendis geti þróast fjöl- þjóðamenning með farsælum hætti er nauðsyn að fyrir ríki hér sterk fjölþjóðleg menning. Það er enn nauðsynlegra í því milli- bilsástandi sem nú stendur yfir meðan sveitirnar eru að tæmast. Þráðurinn má ekki slitna, hann verður að vera til staðar þegar sveitirnar fyllast á ný á næstu áratugum.

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.