Morgunblaðið - 20.01.2017, Side 6

Morgunblaðið - 20.01.2017, Side 6
6 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 20. JANÚAR 2017 Þ orri er nefndur í heimildum frá miðöldum og þá sem ein- hvers konar vættur vetrar og einnig er minnst á þorrablót í því sambandi. Lýsingar benda til að menn hafi þá gert vel við sig í mat og drykk. Orðið þorrablót kemur fyrir í Orkneyinga sögu og á tveimur stöð- um í Flateyjarbók. Þorrablót í nútímalegum skilningi er þó ekki ýkja gamall siður. Elsta þorrablót sem heimildir geta um hélt Kvöldfélagið í Reykjavík árið 1867. Ólafur Davíðsson, höfundur bók- arinnar Íslenskar gátur, skemmt- anir, víkivakar og þulur sem hið Ís- lenska bókmenntafélag gaf út á árunum 1889 til 1903, segir: „Þorrablótin eiga upptök sín að rekja til íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, eða að minnsta kosti héldu þeir þorrablót 1873. Ég hef heyrt sagt, að doktor Björn Ólsen hafi gengist mest fyrir því og eftir hann er veislukvæðið, Full Þórs. 1880 mun Forn- leifafélagið í Reykja- vík hafa haldið þorra- blót, þótt ég hafi ekki rekið mig á skýrslur um það í blöð- unum. Aftur hélt það stóreflis þorra- blót 21. janúar 1881. Veislusalurinn var búinn fornum voðum, skjald- armerkjum og öndvegissúlum. Lang- eldar brunnu á gólfinu. Samsætið byrjaði með griðasetningu að fornum sið og var ekki mælt meira undir samsætinu. Við samdrykkjuna á eftir var guðanna minnst, Óðins alföður, Þórs, Freys og Njarðar til ársældar, Braga og Freyju o.s.frv. Ekki hef ég rekið mig á skýrslur um önnur þorra- blót í blöðunum, en það er vonandi að þau leggist ekki niður. Það má ekki minna vera en gömlu guðanna sé minnst einstöku sinnum í þakklæt- isskyni fyrir fornöldina.“ Sagan sýnir að Ólafur Davíðsson hefði ekki þurft að kvíða framtíðinni hvað snertir þorrablótin. Þau eru nú haldin víða um land og eru sum æði fjörug. Siðurinn er síður en svo á undanhaldi – þvert á móti. Þorrablót- in eru raunar einskonar árshátíð sveitanna og oft eru þar heimatilbúin skemmtiatriði. Margrét Jónsdóttir á Syðra-Velli í Gaulverjabæjarhreppi var í skemmtinefnd þorrablóts sinnar sveitar í fyrra. „Í nefndinni í fyrra voru sveit- ungar frá sex bæjum hér í hreppn- um, þeir eru Syðri-Völlur, Galtastað- ir, Hamar, Hamarskot, Dverghamar og Hamarshjáleiga, við köllum nefndina Hamarssamtökin. Formað- ur hennar er Sigurður Ingi Sigurð- arson í Hamarskoti. Við byrjuðum að funda strax í upphafi árs 2016. Fund- irnir voru haldnir bæði á bæjum nefndarfólks og í Félagslundi sem er félagsheimilið okkar,“ segir Margrét. „Vinnan fór líka fram út um alla sveit því við tókum upp kvikmynd. Þetta hefur áður verið gert – en ekki í svona ríkum mæli. Ingveldur Þor- steinsdóttir á Syðra-Velli, nemandi í Kvikmyndaskóla Íslands, sá um myndatökuna hjá okkur og alla eft- irvinnu við myndina líka.“ Hvað var verið að kvikmynda? „Þetta er leikin kvikmynd, sviðsett voru atvik sem átt höfðu sér stað árið 2015 eða réttara sagt á milli þorra- blóta hér í sveitinni. Yfirleitt eru blót- in haldin snemma í febrúar. Helst voru til umfjöllunar skemmtileg atvik úr sveitinni sem sett voru upp á spaugilegan hátt.“ Nefndin leikur sjálf grínatriðin Hvernig tók fólk í að leika þessi grín- atriði? „Við í nefndinni lékum öll atriðin en ekki þeir sem verið var að gera grín að. Við vorum á lítilli rútu sem einn í nefndinni á og þetta var þannig sett upp að það voru leiknir túristar sem óku um sveitina og komu við á bæjunum sem í hlut áttu og þar voru atriðin tekin upp. Forðast var þó að hitta ábúendur eða heimilisfólk svo ekki fréttist af uppátækinu.“ Hvernig var kvik- myndinni tekið á þorra- blótinu? „Henni var mjög vel tekið og mikið hlegið. En kvikmyndin var ekki sýnd í beit held- ur voru leikin atriði í bland á sviðinu sem tengdust efni myndarinnar.“ Hvað var helst tekið fyrir? „Við tókum ýmis atriði. Til dæmis tókum við fyrir stofnfund nýs ung- mennafélags. Stofnfundur nýs ung- mennafélags í sveitinni hafði átt sér stað skömmu áður í Flóahreppi. En nefndarmenn voru ekki beint ung- legir í myndinni svo vægt sé til orða tekið. Einn var svo gamall að hann dó á sviðinu. Í öðru atriði fórum við í fjósið hjá einum góðbónda sem hafði fengið sér vélmenni. En hjá okkur í myndinni var vélmennið lifandi maður sem smurði júgurfeiti á frúna á bænum og vildi helst eltast við dætur góðbónd- ans. Einnig tókum við svo fyrir jarð- arkaup eins bóndans sem höfðu í raun farið fram nokkru áður hér í ná- grenninu. En við settum það þannig upp í myndinni að bóndinn var látinn bjóða frúnni í sumarbústað. Hún vissi ekkert hvert þau væru að fara og var mjög ánægð með uppátækið. En það runnu á hana tvær grímur þegar hún sá hvert þau fóru. Þau fóru á jörðina sem hann keypti og þar bauð hann henni að dveljast með sér í íbúðar- húsinu og hann hafði með sér vinnu- gallann og stígvélin sín og jarð- arkaupalistann.“ Hefðbundinn þorramatur á borðum Hvernig gekk að undirbúa sjálfa veisluna? „Það gekk mjög vel. Við fengum matinn frá Veisluþjónustu Suður- lands. Þetta var hefðbundinn þorra- matur, hangikjöt, svið, súrmatur og svo var raunar boðið upp á lamba- steik líka fyrir þá sem ekki borða þorramat. Þannig hefur það verið haft í mörg ár. Áður fyrr sá skemmti- nefndin um matinn. Við keyptum hann þá tilbúinn en sáum um að sneiða hann niður í trog og sjóða kartöflur og rófur. Þetta er aflagður siður fyrir nokkrum árum, honum fylgdi svo mikil vinna. Nefndarfólki finnst þægilegra að kaupa allt að tilbúið, annars fór dagurinn í að und- irbúa matinn. Nú getur nefndin ein- beitt sér betur að skemmtiatrið- unum, oft er síðasta æfing sama daginn og þorrablótið er. Einnig er ýmislegt annað sem hún þarf að sjá um, svo sem að selja inn og fleira sem heyrir til skemmtuninni.“ Er þorrablót gamall siður í Gaul- verjabæjarhreppi? „Það er búið að halda þorrablót í Gaulverjabæjarhreppi í nærri sjötíu og fimm ár. Það má kannski geta þess að þessi skemmtun var í upphafi nefnd hjónaskemmtun og það var ekki þorramatur fyrstu árin en svo breyttist það og farið var að bjóða upp á þorramat. Ég veit ekki alveg hvenær, sennilega á sjötta áratugn- um eða þar um bil. Árið 1949 var lokið við byggingu Félagslundar og síðan hafa þorra- blótin verið haldin þar. Áður hafa þessar skemmtanir líklega verið haldnar í gamla samkomuhúsinu sem byggt upp úr 1911. Það hefur ein- kennt þorrablót okkar hér í Gaul- verjabæjarhreppi lengi að fenginn er ræðumaður fyrir hvert blót utan sveitar. Hjá okkur í fyrra var ræðu- maður Björgvin Skapti Bjarnason sem er oddviti Skeiða- og Gnúpverja- hrepps.“ Fór kornung á fyrsta þorrablótið Manst þú eftir þorrablótum frá æsku þinni? „Ég er frá Syðri-Velli og ólst hér upp og fékk fyrst að fara á þorrablót árið 1980, þá var ég á sextánda ári og foreldrar mínir í skemmtinefndinni. Ég skemmti mér konunglega á þessu þorrablóti eins og alltaf síðan. Sjálf var ég fyrst í skemmtinefnd fyrir þorrablót árið 1986. Sveitinni er skipt í sex þorrablótsdeildir, þannig að fólk er í nefndinni í sinni deild á sex ára fresti.“ Er erfitt að finna skemmtiatriði? „Nei, ekki hefur okkar nefnd fund- ist það. Við notumst mikið við grínið, setjum allt upp á spaugilegan hátt. Stundum eru samdir söngtextar sem koma inn í grínið. Stefanía Geirs- dóttir í Hamarshjáleigu er helsta grínskáldið okkar og svo dóttir henn- ar, Fanney Hrund Hilmarsdóttir. Einnig hef ég og fleiri komið að því að semja texta. Svo er alltaf dreift á borðin svokölluðum borðsálmum fyr- ir fjöldasöng.“ Hvernig skipuleggið þið það sem fram á að fara? „Öll nefndin kemur saman og varpar fram hugmyndum. Meðan við erum að vinna að skemmtiatriðunum fæðast nýjar hugmyndir og þær eru svo útfærðar. Stundum eru atriðin orðin svo mörg að skorið er niður. Við vorum lengst af í fyrra að slípa atrið- in í kvikmyndinni. Hún var mikið verkefni – ekki síst fyrir Ingveldi sem tók allt upp og klippti saman.“ Prúðbúnir gestir duglegir að dansa Er mikið dansað á þorrablótum ykk- ar? „Já, það er mjög mikið dansað og þátttakan er almenn í dansinum. Við fáum hljómsveit á þorrablótin. Í fyrra var það hljómsveitin Band- menn sem lék fyrir dansi. Bæði eru dansaðir gömlu dansarnir og einnig dansað eftir vinsælum lögum.“ Er mikill spenningur fyrir þorra- blótinu í sveitinni? „Já, það er alltaf mikil stemning fyrir þorrablótinu, fólk býr sig uppá og kemur prúðbúið. Hér hefur ekki mikið tíðkast að konur komi á upp- hlut en það er þó alltaf ein og ein í þjóðbúningi. Vilji fólk drekka áfengi hefur það með sér sinn drykk. Allra síðustu ár hafa nefndirnar þó boðið upp á að fólk geti keypt sér bjór og létt vín. Annars er sjaldan drukkið í óhófi á þorrablótum hér, fólk fer yf- irleitt vel með vín á þessum skemmt- unum. Oft voru þó þorrablótin skrautlegri hér áður fyrr, meira var þá drukkið af sterku víni og áhrifin eftir því. Þetta breyttist nokkuð þeg- ar bjórinn kom.“ Hvernig gengur fólki að komast á þorrablótin veðursins vegna? „Yfirleitt höfum við verið heppin með veður en ég man eftir einu þorrablóti þar sem kyngdi niður snjó allan daginn. Þetta var árið 1984 og nánast orðið ófært um kvöldið. Því komu það ár þónokkuð færri á blótið en venjulega. Mig minnir að ég og maðurinn minn, Þorsteinn Ágústs- son, höfum það árið farið á traktorn- um á þorrablótið en það er raunar ekki langt fyrir okkur að fara í Fé- lagslund, um tveir kílómetrar.“ Hefur þú frétt af undirbúningi þorrablótsins í ár? „Nei, ég hef ekkert frétt af því og bíð bara spennt. Núna er skemmti- nefndin frá Partabæjunum svoköll- uðu, Ragnheiðarstöðum og Fljóts- hólum. Sú nefnd hóf sína vinnu ábyggilega fyrir nokkuð löngu og þorrablótið verður núna 4. febrúar í Félagslundi.“ Ertu búin að ákveða hvaða kjól þú ætlar að vera í? „Nei, ég ákveð það bara daginn sem ég fer. Ég velti því ekkert óskap- lega fyrir mér og fæ mér ekki endi- lega nýjan kjól fyrir hvert þorrablót. Kannski verð ég í sama kjólnum og ég var í í fyrra. Ég keypti þann kjól í München í Þýskalandi árið 2012. Hann er fjólublár og örlítið fleginn, hnésíður og þægilegur til að dansa í.“ gudrunsg@gmail.com Undirbúningur Salurinn í Félagslundi. Kokkurinn, Ole Olesen, setur á borðið. Mannfagnaður Hvergi skortir á gleðina á þorrablótunum enda þekkt að þar sem Gaulverjar koma saman – þar er gaman. Skemmtiatriði Atriði úr kvikmyndinni sem unnin var fyrir þorrablót. Túristar á ferð um Gaulverjabæjarhrepp hinn forna, fólk af ýmsum þjóðernum saman komið. Þorrablót í Gaulverja- bæjarhreppi Þorrablót landsmanna auka á léttleika tilverunnar víða um byggð ból á Ísland og veitir ekki af á dimm- um vetrarkvöldum. Þorrablót hafa verið haldin í einhverju formi í nær sjötíu og fimm ár í Gaulverja- bæjarhreppi að sögn Margrétar Jónsdóttur á Syðri- Velli sem var í þorrablótsnefnd í sinni sveit í fyrra. Margrét Jónsdóttir á Syðri-Velli í Flóahreppi. Gaman Allt getur gerst!

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.