Feykir


Feykir - 12.03.2015, Blaðsíða 6

Feykir - 12.03.2015, Blaðsíða 6
6 10/2015 Heilir og sælir lesendur góðir. Þrátt fyrir að enn sé talsvert langt til vorsins, og enn ríki þess illviðra vetur, kemur upp í hugann í byrjun þessa þáttar yndæl vorvísa eftir Önnu Árnadóttur á Blönduósi. Hlustum á veröld vorsins óma vaxandi kveða sumarlag. Horfum á minnsta brumið blóma bjóða fagnandi góðan dag. Einhver á höfuðborgarsvæðinu sem kallaði sig listamann, fór eitt sinn skömmu fyrir jól með nokkrar Kristsmyndir sem hann hafði málað í Kringluna og vildi láta þær hanga þar uppi í nokkrar vikur. Eftir að sá tími var um það bil hálfnaður töldu húsráðendur þar á bæ nauðsynlegt að fjarlægja þær vegna jólaskrauts sem hengja átti upp. Fór þá eigandi þeirra með eina í Húsdýragarðinn og fékk að hengja hana þar upp. Að þeim tíðindum spurðum orti Hreiðar Karlsson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri á Húsavík svo. Í musteri auðs og markaðar mikið skortir á viðmóts hlýju, Kristur sem rekinn úr Kringlunni var kominn í gripahús að nýju. Vel passar við á þessum tímamótum í endalausu illviðri að rifja næst upp eftirfarandi vísu, sem ég man því miður ekki eftir hvern er. Lægðir stíga léttan dans lítið tíðin skánar. En svo fer allt til andskotans ef einhverntímann hlánar. Því miður er næsta vísa einnig höfundarlaus. Minnir mig að hún hafi verið skrifuð í vísnabók stúlku sem lagði mikið upp úr því að kynnast hagyrðingum og gleðimönnum, væri gaman ef lesendur gætu gefið upplýsingar þar um. Ef að bragnar bjóða þér blíðu sína að veita. Vita skaltu að vandi er velboðnu að neita. Ekki sel ég næstu vísu dýrara en hún var keypt. Heyrði hana eignaða Páli Péturssyni, áður ráðherra og bónda á Höllustöðum, og mun hún hafa verið ort á kaffistofu Alþingis og er þar enginn vafi að ort er um Samfylkinguna. Þið rauða litnum og róttækni hafnið, og rífist hvern einasta dag. En vonandi samstaða verði um nafnið, Vandræðabandalag. Kannski má rifja upp meira af hinum pólitíska vettvangi og minnir mig að um það leiti sem átti að sameina Samfylkinguna og Alþýðubandalag hafi Guðmundur bóndi á Skálpastöðum ort svo. Sá flokkur sem eitt sinn ég unni að endingu traustinu brást. Á miðlægum málefnagrunni þau Margrét og Sighvatur kljást. Vísnaþáttur 637 Mikið væri gaman að vita hver væri höfundur að þessari ágætu vísu. Líkt og væri sviptur sál og sönginn skorti braginn, ef ei heyrði íslenskt mál allan heila daginn. Það mun hafa verið gamli Káinn sem orti svo fallega til Stínu vinkonu sinnar. Harmaboðar heitir slá hjartað þjáða og lúna, liggur voða illa á okkur báðum núna. Skagfirðingurinn Jón Ingvar Jónsson mun einhverju sinni hafa ort svo er mikið gekk á fyrir krötum að berjast gegn siðleysi. Ef kratar gegn siðleysi storma í stríð má sterklega ráð fyrir gera, að Bakkus af umhyggju afvatni lýð og engjarnar spretti í frosti og hríð og hrútarnir byrji að bera. Snjöll er þessi vísa sem mig minnir að sé eftir Jósef Húnfjörð. Þeir sem auð og frama fá fjöldann yfir hafnir. Verða dauðans örmum á aumingjunum jafnir. Minnir að Kristmann Guðmundsson hafi einhverju sinni ort þessa. Gegnum lífið létt án vanda liðugt smó hann. Nennti seinast ekki að anda og þá dó hann. Kristján Árnason frá Kistufelli í Lundarreykjadal er höfundur að næstu vísu. Mun hún gerð er hann heyrði æsta aðdáendur fótboltaleika ræðast við. Boltaleikjakeppnin er della þykk og þung mér þykir hún til leiðinda og ama. Hitta þeir í netið, eða hver í annars pung? Hjartanlega stendur mér á sama. Næst kemur gömul vísa sem allt í einu datt inn í minn haus. Held að hún sé ættuð hér úr Húnaþingi en man alls ekki eftir hvern hún er. Væri gaman að heyra frá lesendum ef þeir kannast við hana. Bændunum vinsemd votta Vilmundar sauða hjörð. -Fjandinn og Gylfi glotta er gaddurinn nístir jörð. Önnur vísa kemur sem að rifjast upp á svipuðum nótum. Minnir að höfundur sé Ásgeir Jón Jóhannsson. Sveimaði lengi saman skroppinn á sundurlyndisheiðinni. Samfylkingin – komst á koppinn. Kúkurinn er á leiðinni. Verið þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) kristin@feykir.is Erla Hlín Hjálmarsdóttir, frá Brekku í Skagafirði, skrifar Bóndi inn við beinið - frá Íslandi til Afríku ÁSKORENDAPENNINN UMSJÓN kristin@feykir.is Áhugaverðar minningar komu í hugann þegar Elvar á Skörðugili póstaði merkismyndbandi um daginn á fésbókinni sem sýndi snör handtök atvinnurúningsmanna frá Nýja-Sjálandi og tók það þessa kappa örskotsstund að rýja hverja kind. Við Elvar og hinir krakkarnir í 9. bekk Varmahlíðarskóla fórum nefnilega á bráðgott rúningsnámskeið hér um árið þar sem við lærðum einmitt sömu handtökin og nýsjálensku kapparnir. Ekki náðum við krakkarnir nú alveg sama hraða, og kindurnar vildu ómögulega leggjast með sama þokka á lendarnar eins og þær nýsjálensku virðast gera. Afrakstur okkar var líka skrautlegur eftir því, kindurnar stauluðust í burtu eftir rúninginn með ullarflyksur og blóðugar hér og þar, og ein staulaðist bara ekki neitt. Þrátt fyrir að hafa nú ekki lagt mig mikið fram í búmennskunni síðan hér um árið, þá hefur áhuginn á blessaðri sauðkindinni ekki horfið að fullu. Nú á dögunum fór ég frá Íslandi í þreifandi hríð til Færeyja þar sem ég náði að dáðst að mörgu og mislitu fénu sem gekk úti í iðagrænum hlíðum. Svona um háveturinn. Þetta þótti mér stórmerkilegt og mikið var féð frítt. Það voru þó ekki mestar öfgarnar að fara frá Íslandi til nágranna okkar í Færeyjum því að hér um árið sat ég undir stýri úti í hálfgerðri eyðimörk í Afríku þar sem fátt í umhverfinu minnti á skagfirska fjallahringinn okkar. Þar var ég með einn innfæddan mér við hlið í framsætinu sem bað mig nú lengstra orða að hægja ferðina. Ég spurði félagann hvort að hann væri nokkuð hræddur að fara í bílferð með konu undir stýri, en hann gaf þá skýringu að hann hefði rétt um daginn farið í bílferð með Finna, sem hann efalaust lagði að jöfnu við Íslending. Ég fræddi hann á því að Finnar héldu örugglega allir að þeir væru kappakstursmenn af náttúrunnar hendi og keyrðu samkvæmt því. Ég væri sko úr sveit og því gæti hann verið alveg áhyggjulaus. Þá fór nú að losna um krampakennt tak hans á mælaborðinu en einnig tók að liðkast um málbeinið á mínum. Það kom í ljós að Finninn sem hafði verið að keyra í fyrsta skipti utan malbiks hafði velt bílnum, sem skýrði hina óstjórnlegu skelfingu sem hafði heltekið manngarminn mér við hlið. Hinn afríski var opinber starfsmaður en reyndist líka vera bóndi inn við beinið. Í framhaldinu barst talið náttúrulega að búfénaði. Ættbálkurinn hans, Herero, heldur nefnilega óskaplega mikið upp á nautgripi, sem eru líf allra og yndi og þeim mun fleiri gripi sem þú átt, þeim mun meiri maður ertu. Skagfirðingarnir vildu nú, ef ég man rétt, síður deila nákvæmum fjölda gripa með sveitungunum, og ekki veit ég með vissu hvort að góðbændur sveitarinnar hafi orðið þeim mun meiri menn eftir því sem að gripunum fjölgaði. En svona var nú fyrirkomulagið í Afríku. Þeim mun fleiri naut, og þeim mun fagurhyrndari gripir, þeim mun betra. Reyndar kom líka í ljós að hefðafyrirkomulagið hefti fjölda gripa því að bændur áttu ekki að eiga mikið fleiri gripi en aldursár þeirra sjálfra, því að annars væru þeir bara gráðugir. Fyrirtaks leið til að hefta ofbeit. Hann sagði mér síðan í algjörum trúnaði að hann héldi hins vegar sjálfur miklu meira upp á blessaðar kindurnar, sem ég skildi líka svona vel og innilega. Lokaniðurstaðan frá deginum okkar þarna í eyðimörkinni var að það væri sama hvernig fólk eyddi lífinu og hvar, hvort sem væri á Íslandi eða í Afríku, að ef að þú værir einu sinni bóndi, þá yrðir þú ætíð bóndi inn við beinið. - - - - Ég skora á Jóhönnu Friðbjörgu Sigurjónsdóttur frá Geldinga- holti að taka við pennanum.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.