Feykir


Feykir - 07.12.2016, Blaðsíða 9

Feykir - 07.12.2016, Blaðsíða 9
46/2016 9 Guðmundur: „Já, þetta er Guðmundur hérna.“ Blm: „Guðmundur?“ „Já einmitt.“ „Hvaða Guðmundur?“ „Það skiptir ekki máli góði.“ „Get ég eitthvað aðstoðað þig Guðmundur?“ „Nei, ég reikna nú ekki með því, þið eruð náttúrulega aumingjar upp til hópa þarna fjölmiðlafólkið, vælandi alla daga og hvað kemur út úr því? Ekkert! Ekki nokkur skapaður hlutur.“ „Hvers vegna varstu þá að hringja?“ „Ég hringi nú, væni minn, út af svindlinu í þjóðfélaginu. Jaaááá. Svindlinu sjáðu.“ „Hvaða svindli?“ „Rólegur, ég skal segja þér undan og ofan af því, væni minn. Þannig eru nú mál með vexti að ég verslaði mér ferð til Lundúnaborgar með ferðaskrifstofu.“ „Hvaða ferðaskrifstofu?“ „Það skiptir ekki máli góði.“ „Jú, það skiptir máli Guðmundur.“ „Já, jájá, að sjálfsögðu skiptir það máli. Við skulum þá bara kall'ana Svindlferðir. Það er gott nafn já og oft hæfir skel... aaa... skiptir ekki máli, það sem ég ætlaði að segja hérna að þeir svindluðu á mér!“ „Höfðu þeir af þér pening?“ „Ekki beinlínis. Ekki bein- línis. En ég fór semsagt til Lundúna með þessum Svindlferðum og þar var nú ekki allt með felldu. Ég hringdi strax í þá og sagðist vilja fá endurgreitt en ég var nú bara beðinn um að láta renna af mér. Andskotans ósvífni í manninum...“ „Og varstu drukkinn?“ „Síður en svo væni minn. Ég var bara búinn með fjeeegur bjórglös og einn afréttara.“ „Það er nú eitthvað, en Guðmundur, í hverju lá svindlið?“ „Ég skal nú segja þér það væni minn. Ég var þarna staddur á Leister Skver og þar var einhver sýning. Einhver sköllóttur maður, nokkuð vel í holdum, var kallaður fram og sagður vera heimsmeistari í armbeygjum. Hann var sagður geta tekið 1000 armbeygjur á korteri. Það getur enginn tekið 1000 armbeygjur og hvað þá á korteri. Núnú, ég var spenntur að sjá þennan mann gera þetta þarna og fylgdist spennur með. Hann leggst þarna á magann á stéttina og þá segir kynnirinn... já, hvað heldurðu að kynnirinn hafi sagt þá?“ „Nú veit ég ekki.“ „Heyrðu, hann segir að þar sem fólk sé á hraðferð á þessum föstudegi, þetta var nefnilega á föstudegi, þá muni heimsmeistarinn í armbeyjum ekki tefja fyrir fólki og taki þess vegna bara síðustu tíu armbeygjurnar af þessum 1000! Fólk hló þarna í kringum mig eins og fábjánar en sjáðu til, það var bara verið að svindla á því! „Heldurðu að þetta hafi ekki bara verið eitthvað grín Guðmundur?“ „Grín!? Maðurinn var í búning og öllu! Þetta var ekkert grín. Ég nenni ekki að taka þátt í svona þjóðfélagi þar sem er endalaust svindlað á manni...“ ( DREIFARI ) feykir@feykir.is Guðmundur er orðinn leiður á að láta svindla á sér Dreifarar birtast óreglulega á Feykir.is og eru vanalega uppspuni og hugarleik- fimi starfsmanna Feykis. Ef einhver kannast við persónur og leikendur í þessum skáldskap þá er það einstök tilviljun og á alls ekki við rök að styðjast. Ég vil þakka vini mínum Svavari fyrir að skora á mig og gefa mér tækifæri á því að senda pistil í þetta góða blað. Vil ég samt aðvara lesendur því ég mun skrifa um sjálfan mig í þessum pistli. Vel má vera að hann verði þungur á pörtum en fyrir þá sem halda út að lesa hann til enda mun hann enda vel. Þeir sem þekkja mig vita að ég er mikill keppnismaður og á mjög erfitt með að taka tapi hvort sem það er mitt eigið tap í leik eða tap liðs sem ég fylgi í kappleik. Fyrir mér hefur það verið fyrsta sætið sem skiptir máli og allt annað verið tap, því skildi ég aldrei orðtiltækið „það er ferðin sem skiptir máli en ekki áfangastaðurinn“. Hvernig getur ferðin skipt máli þegar það er nú áfangastaðurinn sem maður er að reyna að komast á og ferðin eingöngu hindrun. Þessu hef ég trúað öll mín uppvaxtar og fullorðinsár. Hvort sem það snéri að margra ára háskólanámi sem lauk með gráðu eða um undirbúning fyrir jól, þar sem öllu skipti að hafa allt tilbúið klukkan 18:00 á aðfangadagskvöld því þá bæri ég inn steikina. Í sumar urðu þáttaskil hjá mér og ákvað ég í framhaldinu að endurskoða allt sem ég hef gert og í raun lifað fyrir. Það sem ég komst að var að ég hef aldrei almennilega kunnað að meta það þegar ég hef náð þeim markmiðum sem ég stefndi að né verið tilbúinn fyrir þær áskoranir sem komu á eftir þeim. Komst ég líka að því að ferðin skiptir öllu máli, helvítis steikin skiptir engu máli ef við fjölskyldan höfum ekki notið aðventunnar, farið á skauta í miðbænum, drukkið kakó í Árbæjarsafninu og skreytt piparkökur saman. Ef við höfum ekki notið þess að gera neitt af þessu saman þá er alveg hægt að panta pizzu og leigja mynd. Maður tekur eftir því núna í aðdraganda jólanna að það eru margir í þjóðfélaginu sem sjá ekki gildi ferðarinnar heldur líða áfram í stressi og geta ekki beðið eftir að klukkan slái 18:00 á aðfangadag. Mitt innlegg fyrir ykkur ágætu lesendur, eða eins og kaninn segir „my two cents,“ er því njótið ferðarinnar og helst með þeim sem eru ykkur næst því þið vitið ekki hvað gerist á morgun. Er ekki ferðin dásamleg. - - - - - - Stefán Gestsson „yngri“ er fæddur og uppalin á Arnarstöðum. Er fyrst og fremst fjölskyldufaðir og núna nýlega ferðamaður. Ég vil skora á Viðar Örn Steinþórsson frá Hofsósi að skrifa næsta pistil. Stefán Gestsson brottfluttur Skagfirðingur Ferðin en ekki áfangastaðurinn... ÁSKORENDAPENNINN UMSJÓN palli@feykir.is Söfnuðu fyrir nýjum búningnum Hestafimleikakrakkar á Hvammstanga Síðustu þrjú ár hafa hestafim- leikakrakkar á Hvammstanga verið á ferðinni og safnað dósum og flöskum en upp- hafslegt markmið var að stofna sjóð og nota í eitthvað skemmtilegt saman. Í ár var hins vegar brugðið út af þeim áætlunum og ákveðið að safna fyrir nýjum búningum. „Og það tókst!“ segir Irina Kamp hjá hestamannafélaginu Þyt og þakkar fólki á Hvammstanga fyrir að taka svo vel á móti krökkunum að draumurinn þeirra rættist. „Búningurinn var sérhann- aður fyrir hópinn þar sem íslenskir litir og þemað eldur og ís átti að koma fram. Allir biðu spenntir eftir því að sjá útkom- una. Allir 24 krakkarnir voru rosalega glaðir að fá tækifæri til þess að vera í þeim á haust- sýningunni þeirra og notuðu tækifærið til að þakka fyrir sig. Ákveðið var að bjóða öllum sem að styrktu þau í íþróttahúsið til að horfa á frumsýningu bún- inganna og brot af því sem krakkarnir voru að æfa í haust, segir Irina. Áhorfendur fengu að sjá glansandi búninga í tískusýningarútgáfu þar sem yngstu byrjendurnir voru á kubbahesti, fimleikadans frá þeim lengra komnu og að sjálfsögðu fjör og stökk frá öllum saman í restina. „Tónlistin var skemmtileg blanda af íslenskum lögum og þekktum hestafimleika lögum sem strik- uðu vel undir atriðin. En rjóma- toppurinn kom svo í lokin sem töfraði áhorfendur í annan heim. Ljósið var slökkt og lýst bara með sérstöku bláu ljósi sem endurkastaðist frá hvíta lit búninganna eins og endurskins- merki. Allir voru sammála um að sýningin hefði tekist mjög vel og hlakka krakkarnir strax til að halda næstu sýningu í flottum búningum,“ segir Irina ánægð með framtakið /PF Flottir hestakrakkar á Hvammstanga í glæsilegum búningum. MYND: IRINA KAMP

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.