Feykir


Feykir - 15.03.2012, Blaðsíða 11

Feykir - 15.03.2012, Blaðsíða 11
11/2012 Feykir 11 fært til bókar. Þetta var mikið starf fyrir prest á svona stað að heimsækja hvert heimili í þessum erindagjörðum. Þegar Binni er beðinn um að rifja upp eitthvað eftirminnilegt frá fermingardeginum kom ansi skrautlegt atvik upp í hugann. -Við stóðum hlið við hlið eftir altarisgönguna, ég og Bíi Malla, og hann var búinn að segja okkur að hann ætli sér að tæma úr bikarnum þegar séra Helgi kæmi með hann til að láta okkur dreypa á. Við höfðum öll nýlega verið sprautuð eða bólusett fyrir einhverjum barnaveikindum og vorum flest öll veik af þeim sökum. Þegar kemur að Bía bítur hann í bikarinn og ætlar að hvolfa innihaldinu í sig en séra Helgi grípur bikarinn af honum. Jæja, svo er Bíi rétt staðinn upp og er kominn við hliðina á mér, þá allt í einu sé ég hvernig hann skrúfast í gólfið. Þá hafði honum ábyggilega svelgst svona á og var slappur fyrir þannig að það líður yfir hann. Ég man svo vel eftir því þegar Skóarinn kom svífandi upp til að grípa drenginn sinn og gera honum gott. Maður hrökk illa við þegar maður sá vin sinn liggja við hlið sér í gólfinu en það var nú svo að við vorum öll hálfslöpp út af þessum sprautum sem framkvæmdar voru á mjög slæmum tíma, segir Binni ósáttur við bólu- setninguna, enda flestir með hita á fermingardaginn. Binni segir að flestir úr hans árgangi hafi fermst en líklega ekki nema einn aðili sem ekki gekkst undir þá athöfn en hann var úr sértrúarsöfnuði, ef leyfilegt er að kalla þá því nafni. Á Sauðárkróki var starfandi Fíladelfíusöfnuður og þótti það góð tilbreyting að fara á samkomu þangað. –Maður fékk verðlaun í myndum ef maður mætti vel og við mættum vel krakkarnir því það var gaman, bæði söngur og gleði og stundum var strítt. Þetta var nokkuð stór samkoma hjá Hvítasunnuflokknum í bænum. Það hafa líklega verið á milli 30 og 40 manns í söfnuðinum sem þótti nokkuð stórt þá. Binni segir að ekki hafi verið skilyrði að vera í söfnuðinum þótt samkomur væru sóttar og allir velkomnir og því fleiri því betra, segir Binni en krakkarnir sóttu í þessar samkomur á sunnu- dagsmorgnum. -Það var svolítið gaman að þessu og maður heyrði oft sagt „hallelúja“ og einn sem hafði manna hæst, Kristján Reykdal, hitti ég um daginn á elliheimilinu Grund fyrir sunnan. Þar kom „hallelúja“ upp hjá honum en hann er kominn á tíræðisaldur. Þegar Binni er spurður að því hvort hann hafi verið trúaður segir hann það varla geta talist en honum hafi verið kennt Faðirvorið. –Á mínu heimili þekkti ég ekkert annað en trúna hjá afa mínum og ömmu. Ég held að trúin hafi fylgt þessu fólki alla tíð og það trúði virkilega. Ég man eftir því að þau misstu son sinn þegar ég var u.þ.b. sex ára gamall. Hann fórst af slysförum í báti hér út á firði og því var erfitt að kyngja. En þegar eitthvað á bjátar þá leitar fólk í trúna. Þú getur þurft að biðja fyrir þér, ekki satt? Fólk leitar oft í trúna þegar það þarf á því að halda til að fá stuðning. Eitthvað hefur barnatrúin hangið inn í höfðinu á Binna því í dag er hann titlaður formaður sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju og því forvitnilegt að vita hvað hafi komið til. –Ég var búinn að vera lengi í stjórn sóknarinnar en svo var ég beðinn um að taka þetta að mér og ég gerði það. Ég var lengi gjaldkeri í Safnaðarheimilinu og kannski get ég sagt að ég hafi unnið mig upp. Mér finnst notalegt og gott að starfa við þetta og kannski áhugi minn á kirkjunni og ekki síður því sem er hérna í kringum okkur sem hefur haft áhrif. Svo geyma Nafirnar okkur vel, segir Binni og bendir á að fólk stígur upp þar. –Þú ert búinn að fá hækkun frá mölinni og upp og við lítum á að við eigum eftir að stíga upp ennþá hærra. Þetta er svona milligangan hjá okkur Króksurum að vera fyrst hérna á ströndinni og fara svo upp á Nafirnar og síðan hærra, en að sjálfsögðu er hann að vitna til þess að kirkjugarður bæjarbúa er á Nöfum fyrir ofan gamla bæinn. Aðspurður um stöðu kirkjunnar í dag segir Binni að ýmislegt hafi komið upp á á síðustu árum sem hafi dregið niður kirkjustarfið í hugum fólks. –Kirkjan á erfitt uppdráttar vegna þess að það er boðið upp á svo margt í dag, allskyns afþreying sem fólk sækist í. Hér eru fjölmiðlarnir svo vakandi að þeir fylla t.d. sunnudaginn frá morgni til kvölds og aðra daga er þétt skipuð dagskrá. Mér finnst vanta meira líf í kringum kirkjuna en það er alltaf verið að byggja upp með barnastarfi sem heldur svo upp. Ég myndi vilja sjá miklu fleira fólk í messu. Það er notalegt að koma í messu, það fer enginn reiður heim heldur notalegur í hugsun. Þetta er sú stund sem gefur manni mikið. Orginali Ekki er hægt að sleppa Binna við að skilgreina „orginala“ en eins og oft vill verða í smærri bæjarfélögum þá er mönnum skipað í flokka. Þannig er það einnig á Króknum og mun einn þeirra vera hinn eftirsótti „orginalflokkur“. Þeir sem komast í þann flokk eru kallaðir orginalar og Binni er einn af þeim og er stoltur af. En hvað þarf til að komast í þann hópinn? –Þeir sem eru búnir að vera á Króknum eiginlega frá fæðingu teljast orginalar, en svo getum við aðeins lengt í því og sagt að hafir þú búið í fjórtán til fimmtán ár á Króknum þá ertu orðinn fullmótaður orginali í mínum augum og eyrum. Það er svona sú mælistika sem notuð er af þeim sem hafa á annað borð eitthvert vit á þessu, segir Binni og nú skulu þeir aðfluttu fara að telja árin sín á Króknum og vera stoltir af ef þau reynast vera fjórtán eða fimmtán. Sjóbúðin sem stóð við Freyjugötuna. Fyrsta húsið sem byggðist sunnan við á.Króksarar ganga Skagfirðingabrautina, yfir Læknisbrúna, í átt að íþróttavellinum frammi á Flæðum. Skrúðganga kemur eftir Aðalgötu. Sauðárkrókskirkja til vinstri, þá Gamla sjúkrahúsið (nú Safnaðar- heimilið) og Gamli barnaskólinn lengst til hægri þar sem nú er Náttúrustofa Norðurlands vestra. Myndirnar hér að ofan eru úr myndasafni Kristjáns C. Magnússonar. Mynd tekin á fermingardegi Binna. Frá vinstri: Ingibjörg Júlíusdóttir, Brynhildur Jónsdóttir amma, Brynjar, Sigurlaug Júliusdóttir móðir hans og Júlíus Pálsson afi.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.