Feykir


Feykir - 15.03.2012, Blaðsíða 19

Feykir - 15.03.2012, Blaðsíða 19
11/2012 Feykir 19 Heilir og sælir lesendur góðir. Langar mikið til að byrja þáttinn á að rýna í blöðin sem ég fékk send úr Skagafirði og getið var um í síðasta þætti. Þar er til dæmis þessi ágæta kunna vísa eftir Kristján Samsonarson frá Bugðustöðum. Nú skal vakka vegum á venja blakka káta. Strjúka makka strengi slá stöku flakka láta. Ekki minnist ég þess að hafa heyrt illa talað um þá mögnuðu bræður og athafnamenn Svein og Pétur á Egilsstöðum. Benjamín Sigvaldason er á annarri skoðun eftir þessari vísu að dæma. Dygðum fleygir djúpt í ál á djöfulsvegi hröðum. Þessi regin svíðingssál Sveinn á Egilsstöðum. Næst kemur ótrúlega mögnuð hringhenda, án þess að getið sé um höfund. Gaman að fá frá lesendum línu ef þið þekkið vísuna. Þúsund lampa ljósum frá í loga glampa brotum. Aldan hampar úti hjá ægi kampa votum. Næsta vísa á þessu blessaða blaði er sögð vera eftir Sigmund Sigurðsson frá Hofsósi. Tel ég það vera af og frá að svo sé. Vísa þessi er mörgum kunn og minnir mig að hún sé ættuð úr Þingeyjarsýslu án þess að þora að fullyrða þar um. Bið lesendur endilega að hjálpa mér með upplýsingarnar ef þeir muna betur en ég. Upp er skorið engu sáð allt er í varga ginum. Þeir sem aldrei þekktu ráð þeir eiga að bjarga hinum. Næst í röð á þessu dásamlega blaði kemur falleg bæn sem því miður er höfundarlaus. Niður ég beygi höfuð hljóður. Helga leið þú á bata stig. Ég bið þig svo sjaldan Guð minn góður gerðu nú þetta fyrir mig. Ekki skemmir þáttinn sú sem næst er á dagskrá þessa dýrmæta blaðs. Vel gerð hringhenda þar á ferð. Við skulum halda heim í kvöld hrinda vanda öllum. Að verki standa myrkra völd verði strand hjá köllum. Næsta innlegg í þessum vísnagátum er höfundarlaust en hljómar mjög vel og er reyndar það sem við margir karlar vissum að væri kannski ágætur lendingarstaður. Það sem prýðir meyna mest má ei upphátt ræða. Vísnaþáttur 566 Það er ekkert sem að sést svona utan klæða. Endalaust gaman virðist vera á þessu blaði, eftir þessari að dæma sem líka er höfundarlaus. Undir komu út á sjó Alda litla og Bára. En í tjaldi Tóti bjó til þá Storm og Kára. Enn kemur undarleg vísa af þessu ágæta blaði, er hún eins og fleiri höfundarlaus. Stendur reyndar undir Sveinn. Flest er gleymt, en fáu leift farið sleipt úr mörgu hlaði. Oft var keypt og stömpum steypt stundum hleypt á tæpu vaði. Eina vísu í viðbót langar mig til að birta af þessu ágæta blaði. Er höfundur hennar skráður Birna Ólafsdóttir frá Ferjubakka. Þykir mér ekki líklegt að þar sé mikill sannleikur á ferð. Veit þó ekki um höfund þessarar ágætu hringhendu. Upp við breiða á til heiða ýmsir skeiða holdsins leið. Hórur beiða halir veiða hátt þeir greiða nætur reið. Gott í bili af þessu gulnaða blaði sem ég tel mikinn fjársjóð okkar vísnavina. Ágætt að hressa sig næst með þessari mögnuðu limru eftir Eystein Gíslason í Skáleyjum. Hann Sigurður heitinn á Hamri var hrjáður af síbylgjuglamri. Er heyrð´ann í Bubba hann byrjaði að gubba og andaðist úti á kamri. Þegar rætt er um hina svokölluðu kvenna- guðfræði, er ekki skrítið þó Skáleyjarbónda detti limra í hug. Faðir vor ku vera kvenmaður og kona var sonurinn blessaður. Efum samt ei að María mey var mikill og harðsnúinn karlmaður. Minnir að það hafi verið Óli í Forsæludal sem orti þessa. Verð ég oft í lífsins leik leiða og ergi gripinn. Þar sem hræsnin hangir bleik með hátíðleika svipinn. Gott að enda með þessari fallegu játningu. Höfundur Ósk Skarphéðinsdóttir á Blönduósi. Oft þó hafi illu kynnst á það hiklaust treysti. Að búi í hvers manns eðli innst einhver góður neisti. Verið þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) ( MATGÆÐINGAR VIKUNNAR ) berglindth@feykir.is Herdís og Óskar kokka Hversdagsleikinn í matargerð FORRÉTTUR Kjúklingasúpa fyrir 6 manns 2 kjúklingabringur ½ blaðlaukur 1 rauð paprika 1-2 hvítlauksrif 1 msk olía 1-2 l vatn 1 dós saxaðir tómatar 5-6 msk Sweet Chili sósa 3 msk tómatþykkni 1 kjúklingatening nachos flögur, t.d. Doritos krydd eftir smekk ostur, rifinn Aðferð: Skerið kjúklingabringur í teninga, kryddið og steikið við vægan hita. Setjið svo kjúklingateninginn út í vatnið og hitið, svo er blaðlaukur, paprika og hvítlaukur settur út. Næst eru tómatarnir og tómatþykknin sett út í og rjómaostur eftir smekk. Soðið í 10 til 30 mínútur. Gott að mylja nachos flögur Matgæðingar vikunnar að þessu sinni eru þau Herdís Jakobsdóttir leikskólakennari á Vallabóli á Húnavöllum og Óskar Ólafsson bóndi á Steiná II í Svartárdal. Þau skora á Turid Rós Gunnarsdóttur og Þórhall Haraldsson í Húnaveri í Svartárdal að koma með næstu uppskrift. „Allir á heimilinu eru fyrir hversdagsleikann í matargerð og hér koma nokkrar auðveldar og fljótlegar uppskriftir. Einnig látum við fylgja tvær uppskriftir af salötum sem eru einstaklega góðar með reyktu og gröfnu kjöti.“ út í ásamt rifnum osti áður en súpan er borin fram. AÐALRÉTTUR Lambapottréttur Lambasúpukjöt eða sneiðar 3 tsk kjötkraftur 1 l vatn kartöflur rófur gulrætur laukur Aðferð: Lambasúpukjöt eða sneiðar eru kryddaðar og settar í ofnpott. Kjötkraftur settur í skál leystur upp í vatni. Kartöflur soðnar í 10 mín. og skrældar og settar í ofnpott, ásamt rófum, gulrótum og lauk. Látið malla í svona 3-4 tíma við 150 gráður. EFTIRRÉTTUR Cherry terta 1 hvítur botn cherry- eða jarðaberjasafi 3 eggjarauður 3 msk sykur 1 dós jarðaber 1 peli rjómi, þeyttur súkkulaði Aðferð: 1 hvítur botn bleyttur með cherry eða jarðaberjasafa. Eggjarauður og sykur þeyttur vel saman í svona 10 mín. Jarðarberin eru stöppuð og sett yfir botninn, því næst eru eggjarauðurnar og þeytta rjómanum blandað varlega saman og sett svo yfir berin. Skreytt með bræddu súkkulaði. Forréttasalat Þetta er gott með reyktu og gröfnu kjöti, einnig gott með silung. Tvær dósir sýrður rjómi og einn rauður pakki horseraddish piparrót. Blandið þessu vel saman, tvö til þrjú græn epli skorin niður og bætt út í. Saltið og piprið eftir smekk. Forréttastappa Þessi stappa er góð með reyktu og gröfnu kjöti, líka með hreindýri. Gulrætur, kirsuberjatómatar og snjóbaunir settar í pott og soðnar í svona 15 til 30 mín. Stappað og borið fram. Verði ykkur að góðu!

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.