Feykir - 07.02.2013, Side 7
05/2013 Feykir 7
kl. 6 á morgnanna og unnum
til miðnættis. Við vorum
sex strákar að vinna saman í
lestinni og handlönguðum 50
kg poka á bretti og svo voru
þeir hífðir upp. Þetta var mjög
erfið vinna og maður var marga
daga að jafna sig á eftir,“ segir
hann. Á stríðsárunum vann
Sigurður við byggingarvinnu
en á þeim árum var sláturhúsið
byggt, sem nú er pakkhús. „Ég
vann við að rétta nagla svo
hægt væri að nota þá aftur,
en það var erfitt að fá nagla á
þessum árum. Svo keyrðum
við í fjöruna til að ná í möl til
að steypa. Það var mikið puð
að moka mölinni á bílana
en skóflurnar voru stórar og
þungar í þá daga. Svo var tínt
grjót hérna upp á Ás til að
drýgja steypuna. Þetta var
þrælavinna,“ segir hann.
Aðspurður um hvernig
stríðsárin hafi verið á
Hvammstanga segir hann frá
sex breskum hermönnum sem
bjuggu í bragga þar í bænum.
„Þetta voru bara strákagrey
frá Hjaltlandseyjum. Ég man
að þeir drukku stundum
kaffi hjá bæjarbúum og fengu
konurnar til að þvo fyrir sig.
Stundum gáfu þeir okkur epli
og appelsínur, þetta voru bestu
strákar. En okkur var bannað að
vera í kringum þá. Kennarinn
okkar sagði að við værum
hernumin þjóð og ættum ekki
að vera að sniglast í kringum
hermennina, við tókum það
alvarlega,“ segir Sigurður.
Hann segist muna vel eftir því
þegar þýsk flugvél flaug eitt
sinn yfir bæinn. „Hún flaug hér
yfir og við sáum hakakrossinn
á vélinni og sprengjurnar
undir henni, þá urðum við
krakkarnir logandi hræddir,“
segir hann. „Ég man eitt sinn
þegar einn skipslúðurinn
kallaði fólk til vinnu, þá kom
vinur minn Gústi í Gröf, Ágúst
Jakobsson, hlaupandi yfir
túnið og á leiðinni sá hann
eitthvað liggjandi í grasinu.
Hann stakk því í vasann í
hugsunarleysi og hélt áfram
að bryggjunni. Svo þegar hann
fór að sýna fólki hvað þetta
var þá kom í ljós að þetta var
ósprungin íkveikjusprengja,“
segir Sigurður. „Bretarnir voru
kallaðir til og þeir fjarlægðu
hana en þeir héldu sprengjunni
langt frá sér og voru greinilega
hræddir. Þá hafa Þjóðverjarnir
sennilega varpað henni úr
flugvélinni og hún lent í mýri
og þess vegna sprakk hún
ekki,“ bætir hann við.
Sigurður talar vel um hjónin
Ágúst og Helgu frá Gröf, þar
sem hann var tíður gestur á
sínum æskuárum. „Það var
alltaf gaman að koma þangað.
Þau áttu margar dætur og
Helga hélt stundum ball fyrir
stelpurnar sínar og spilaði þá á
hárgreiðu. Þá snópuðumst við
strákarnir að,“ segir Sigurður
kankvís á svip.
Hjálpaði til á
ögurstundum
Sigurði er ýmislegt til lista lagt
en hann lærði bæði vélvirkjun
og vélstjórnun og er menntaður
suðumaður. Menntun sína
sótti hann til Akureyrar og
Ísafjarðar og hann vann mest á
verkstæðinu á Hvammstanga.
Um 1960 kom í hlut Sigurðar
fremur óvenjuleg og oft á
tíðum erfið vinna. Sigurður var
bílstjóri Harðar Þorleifssonar
læknis á Hvammstanga í
læknisheimsóknum. Þeim
varð vel til vina og var
Sigurður lækninum oft innan
handar þegar mikið lá við.
Þegar bráðatilfelli kröfðust
skurðaaðgerðar þá voru
kallaðir til menn frá Blönduósi
til að hjálpa til við uppskurðinn
og að svæfa sjúklingana.
Hörður vildi hafa Sigurð
viðstaddan svo hann myndi sjá
hvernig ferlið væri, þannig að
ef sú staða kæmi upp að ekki
væri hægt að flytja sjúklingana
eða fá utanaðkomandi aðstoð
þá gæti Sigurður verið til
aðstoðar. Sú varð reyndar
raunin og aðstoðaði Sigurður
við nokkra uppskurði.
Síðar tók Frosti Sigurjóns-
son héraðslæknir við starfi
Harðar og Sigurður hélt áfram
að aðstoða stöku sinnum í
neyðartilfellum. „Frosti var
lungnaskurðlæknir, alveg
geysilega flinkur maður,“
segir hann. Sigurður segir frá
því þegar bankað var upp á
hjá honum um miðja nótt í
stórhríð og hann beðinn um
að koma upp á sjúkrahús. Þar
var kona sem gat ekki fætt barn
og Frosti þurfti að framkvæma
keisaraskurð. „Ég man að það
var kolvitlaust veður og ljósin
komu og fóru af sjúkrahúsinu,“
segir hann en læknirinn tók á
móti barninu og allt gekk vel.
Sigurður rifjar upp aðra
stund á spítalanum sem hann
var viðstaddur og reyndi
mikið á Sigurð. „Þetta var
þegar síðasta kolaskipið kom
hingað á Hvammstanga. Það
var verið að landa þegar það
skall á hvínandi rok, skipið
slitnaði frá og rak út fjörðinn
áður en lönduninni var
lokið, með vinnumennina
frá Hvammstanga um borð.
Skipið sigldi til Hólmavíkur
þar sem það beið óveðrið af
sér áður en það gat snúið aftur
með mennina. Á Hólmavík
var fársjúkt barn sem þurfti að
komast undir læknishendur
og skipstjórinn ákvað að flytja
móður og barn til læknisins á
Hvammstanga. Frosti hringir
í mig og segir mér að koma
upp á sjúkrahús í hvelli.
Þegar ég kem þangað sé ég að
sjúklingurinn er barn á öðru
ári, það fékk mikið á mig þar
sem ég átti barn á saman aldri.
Mig langaði helst bara að fara
aftur heim,“ segir Sigurður og
heldur áfram: „Frosti segir við
mig að þetta sé ekkert grín.
„Þetta barn er búið að vera
veikt í marga sólarhringa og
getur dáið hvenær sem er. Ég
ætla að vera tíu mínútur að
skera það upp.“ Barnið var
með botnlangakast og þegar
Frosti sker þá vellur gröfturinn
upp úr skurðinum. Frosti kallar
þá til hjúkrunarkonunnar:
„Sog strax.“ En þá svarar hún
að það sé ekki til neitt alvöru
sog, bara lítið rör til að soga úr
vitum nýbura. Þá sagði hann
við mig: „Sogaðu“. Það gerði
ég án þess að blikna, þetta var
bara þannig stund. Svo spurði
Frosti um silkið til að sauma.
„Guð minn almáttugur,“ svarar
hjúkrunarkonan. „Ég gleymdi
að setja það í sótthreinsun.“ –
„Farðu fram í eldhús og settu
það í hraðsuðuketilinn,“ skipar
Frosti. Til allrar hamingju var
ketillinn á suðu og hún snéri
fljótt aftur með silkið. Eftir að
hann hafði lokað skurðinum
leit ég á klukkuna og hann
hafði verið nákvæmlega tíu
mínútur,“ segir Sigurður og
bætir við að barninu hafi
heilsast vel eftir þetta. Þegar
Sigurður kom heim eftir þessa
lífsreynslu segist hann hafa
þurft að fara úr öllum fötunum
þar sem hann hafi verið
kófsveittur. Honum hafði ekki
liðið vel.
Frumkvöðlastarf
í skógrækt
Sigurður og Ingibjörg kvænt-
ust árið 1956. Ingibjörg er
frá Bjargi í Miðfirði og lýsir
Sigurður henni sem músíkant
af guðs náð. „Hún hefur verið
með músík í fingrunum alveg
frá því ég kynntist henni en
þá var hún að spila á orgelið
í kirkjunni í Melstað en hún
byrjaði 13 ára að spila í kirkju,“
segir hann. „Þá hefur hún
einnig verið að stjórna kórum
alveg frá því ég kynntist henni
og útsett fyrir þá,“ bætir hann
við.
Saman eignuðust þau
tvo stráka, þá Odd og Skúla
Sigurðssyni, og í dag eiga
þau níu barnabörn og þrjú
barnabarnabörn sem þau
segjast vera afar hreykin af.
Hjónin hafa notið ýmissa
sameiginlegra áhugamála í
gegnum tíðina, til að mynda
skógrækt en þau stofnuðu
ásamt fleirum Fegrunarfélagið,
sem hafði það að markmiði
að koma á skógrækt í bænum.
Sjálf réðust þau í að gróðursetja
sunnan við bæinn árið 1958 en
frá því Sigurður var á Akureyri
setti hann sér það markmið
að láta reyna á skógrækt á
Hvammstanga. „Það var alltaf
sagt að það væri ekkert hægt
að græða hér, vegna roks
og norðanáttar. Ég var alveg
staðráðinn í að afsanna það,“
segir hann og ber gróskumikill
skógarlundurinn, sem prýðir
innkeyrsluna á Hvammstanga,
vitni um að þær sögusagnir
áttu ekki við rök að styðjast.
Sigurður og Ingibjörg fluttu
á Strandgötuna á aðfangadag
1956 en faðir hans hafði arfleitt
hann að húsinu. „Þetta var
svona kastarholubúskapur
til að byrja með. Við vorum
í gamla húsinu áður en við
byggðum við, þar var ansi
þröngt fyrstu árin en við
höfum lifað góðu lífi,“ segir
hann í lokin og brosir. Tvö stór skip við bryggjuna á Hvammstanga um 1950-1960.
Hjónin Ingibjörg og Sigurður um 1970.
Siglt í heimsókn að Heggstöðum á bátnum Svan frá Mörk. Sigurður Gestsson, Hörður Jóhannsson en
nafn þess þriðja er óþekkt.