Feykir


Feykir - 07.11.2013, Blaðsíða 7

Feykir - 07.11.2013, Blaðsíða 7
42/2013 Feykir 7 ekki á hverju strái. Um kvöldið héldum við tólf saman úr Steinullarhópnum á prýðilegt steikhús. Máltíðin var ljúffeng, hvort sem voru forréttir, steikur eða eftirréttir. Þegar átti að greiða fyrir herlegheitin kom þjónninn með einn reikning sem við urðum að gjöra svo vel að skipta sjálf. Hófst nú mikil rekistefna og flóknir útreikningar og ekki einfaldaði málið að kartöflur, sósur og annað meðlæti var pantað sér og tók því klukkutíma að finna út úr þessu meðan pirringur þjón- ustustúlkunnar sem hafði brosmild borið á borð, fór vaxandi. En heim á hótelbar komumst við og ekki reyndist úthaldið betra en svo að um miðnætti var maður kominn til koju. Föst í sporvagni Síðasti dagurinn var því tekinn snemma, þar sem bóndinn ásamt fjórum vinnufélögum heimsótti skotæfingasvæði, þar sem prófaðar voru ýmsar gerðir skotvopna. Sjálf tók ég sporvagninn í bæinn og hittumst við svo á markaðnum stóra þar sem ægir saman öllum mögulegum matvöru- tegundum sem finnast í Lettlandi, í umhverfi og húsnæði sem að íslenskum heilbrigðiseftirlitum myndi tæplega hugnast. Lyktin var slík að maður stóð ekki lengi við en rölti í staðinn um útimarkaði sem þarna voru. Okkar síðasta erindi var svo að taka leigubíl í búð eina sem seldi föt í stærri kantinum og heitir Guliver eftir samnefnd- um risa sem hefur líklega ekki brúkað minna en 4xl á sínum tíma. Tóku þar á móti okkur þrjár rússneskar boldangskell- ingar og seldu okkur grimmt. Eftir smá vandræði með posann í búðinni hoppuðum við kát út um dyrnar og tókum sporvagn heim. Að þessu sinni reyndist ekki hægt að borga hjá bíl- stjóranum og ekki fundum við aðra leið til að greiða. Í þann mund að við ætluðum að hoppa út aftur kom vörður og sektaði okkur um þrjá latta hvort. Vorum við ekki með nema fyrir annarri sektinni, sem endaði með því að vörð- urinn kallaði á annan ensku- mælandi og saman fylgdu þau okkur út úr vagninum og að hraðbanka þar sem ekki tók betra við því að kortið virkaði ekki. Stóðum við í þrefi við vörðinn sem reyndist tilgangs- laust, því báðir málsaðilar töluðu sitt tungumál. Það var ekki fyrr en góðlátlegur maður kom þar að og bauð okkur ókeypis skutl upp á hótel að vörðurinn gafst upp og við sáum ekki annað í stöðunni en þiggja farið, hvert sem það Gísli Kristjáns virðir fyrir sér handprjónaðar húfur sem komu sér vel í kuldanum. Úr gönguferð um gamla bæinn í Riga. leiddi okkur. Óneitanlega fóru þó nokkrar norrænar glæpa- sögur þar sem söguþráðurinn berst til Eystrasaltsins í gegnum hugann í bílferðinni. En maðurinn reyndist heiðar- legur og skilaði okkur fljótt og vel á hótelið og ekki seinna vænna því nú var aðeins klukkutími í brottför. Heimferðin gekk áfallalaust og mikið var nú gott að lenda á Akureyrarflugvelli og fá þægi- lega heimferð með Gísla á Suðurleiðarútunni. Snilldarferð til Lettlands Laugardagsmorgunn, of snemma fyrir minn smekk, lögðum við hjónakornin upp í ferðina sem lengi hafði verið stefnt á ásamt fjölda annarra úr Skagafirði. Vinnufélagar frúar- innar höfðu sameinast um að taka flugið til Lettlands og við makarnir teknir með. Farið frá Króknum klukkan hálfsjö með rútu Suðurleiða til Akureyrar og í loftið var áætlað að fara klukkan tíu. Allt gekk eins og átti að gera, innritunin fumlaus og vopnaleitin gekk fljótt og vel fyrir sig. Fríhöfnin lítil en hafði upp á að bjóða það sem mest þykir eftirsóknarvert, nammi, bjór og áfengi. Kannski einhver hafi laumast til að kaupa ilmvatn en það stórefa ég. Á flugstöðinni ríkti gleði og eftirvænting hjá farþegum og einstaka „kviss“ heyrðist er dolla var opnuð og aðeins var dreypt á koníaki meðan veðurskeytin voru tekin. Veðrið virtist indælt á Akureyri og því kom það öllum á óvart er tilkynnt var í hátalarakerfinu að þotan sem átti að flytja okkur út fyrir landssteinana hefði þurft að snúa aftur til Keflavíkur vegna veðurs. „Hvurs konar er þetta eigin- lega? Þeir hljóta að sækja Íslending til að lenda vélinni. Ekki er það óveðrið sem hrjáir Norðlendinga í dag,“ gæti ég ímyndað mér samræðurnar sem þá fóru af stað enda lentu innanlandsvélarnar hver á eftir annarri. Margfölduð „hviss“ og fleiri koníakspelar voru keyptir í Fríhöfninni enda sátu farþegar og biðu jafnan eftir nýjum upplýsingum úr kallkerfinu sem ætíð gáfu vonir um að vélin væri rétt að koma. Um miðjan dag rann loks upp sú stund eftir átta tíma setu biðleiðra en ákaflega skilnings- ríkra farþega að vélin lenti á Akureyrarflugvelli en þá kom í ljós að lögboðinn hvíldartími flugmanna var að hefjast og frekari tafir því óumflýjanlegar. Við þær fréttir þykknaði heldur í góðmennunum sem þótti illa farið með sig. „Voru þessir flugmenn ekki að hvíla sig í allan dag?“ En eftir að farþegar höfðu fengið inni á hóteli reyndu fulltrúar ferðaskrifstof- unnar hvað þeir gátu til að laga ástandið og útskýra fyrir okkur hvernig málin höfðu gengið fyrir sig um daginn en gekk misvel þar sem margir voru ósáttir og létu það berlega í ljós. Var ferðaskrifstofumönnum vorkunn þar sem þeir höfðu engin tök á að hafa áhrif á gang mála hjá flugfélagi né flug- umferðarstjórn. En eftir mikið karp og vangaveltur um hvort ferðinni skildi haldið áfram af hálfu Skagfirðinga var ákveðið að láta slag standa og í loftið var svo farið um klukkan hálf fjögur um nóttina og lent heilu og höldnu í Lettlandi tæpum fjórum stundum síðar. Ég fullyrði að enginn maður sjái eftir því. Moll og markaðir Ég er óhemju latur að eðlisfari og hafði því ekki nennt að hafa fyrir því að kynna mér hvað Riga hefði uppá að bjóða, ákvað ég heldur að kynnast borginni jafn óðum og ég gengi um stræti hennar. Þess vegna kom það mér á óvart hvað allt er orðið nútímalegt eða öllu heldur alþjóðlegt því mér finnst svo stutt síðan Lettar brutust undan ægivaldi Sovétsins. En það sýnir bara hvað maður er illa að sér, því rúm tuttugu ár eru síðan Ísland, fyrst ríkja, viðurkenndi sjálfstæði þjóðanna þriggja við Eystarsaltið. Alls staðar er hægt að hafa samskipti við innfædda á ensku og allir mjög indælir sem ég hitti. Ekki er hægt að kvarta yfir ónæði af ágengum sölumönnum eins og víða þekkist, ekki einu sinni á „útimarkaðnum við braggana“ en þeir sem heimsækja Riga mega ekki láta hjá líða að kíkja þangað eða í braggana sjálfa. Bara það að upplifa lyktina sem þar er inni er þess virði að staldra við og kannski líka að sjá hvernig reglur ESB eru sveigðar í U í matvörusölunni. Gamli borgarhlutinn í Riga er afskaplega skemmtilegur og var hótelið sem við gistum á rétt í göngufæri. Byggingarnar eru gamlar og fallegar af þeim sökum enda er reynt að halda þeim við og er þessi hluti borgarinnar á heimsminjaskrá UNESCO. Innan um bygging- ar frá 17. öld má þó sjá nýrri hús sem hýsa verslanir eða matsölustaði. Stórverslanir eru nokkrar á litlu svæði og öll helstu merkin fáanleg sem ég þekki frá Íslandinu góða og kætti það marga þó verðlagið væri síst betra en á landinu bláa. En fyrst maður er mættur í stórmarkað þá er keypt, punktur. Ef þú bragðar áfengt vín, ertu Skagfirðingur Kaffihús og matsölustaðir eru við hverja götu og bjórinn er ódýrari en vatnið, hvernig sem á því stendur, enda var hann teygaður við hvert tækifæri. Ekki fer maður að spreða í rándýrt vatnið! Matsölustað- irnir bjóða upp á frábæran mat og góða þjónustu. Það kom mér samt nokkuð á óvart þegar við fengum okkur að borða á fínum stað að hvert atriði var verðlagt sér. Kíkti ég á girni- legar nautasteikurnar sem mér þótti bara á fínu verði og spáði ekkert í hvað meðlætið eða rauðvínsflaskan kostaði, hvað þá írska kaffið á eftir. Sá það síðar að kartaflan, sósan og maísstöngullinn kostaði sitt. Hve oft hefur maður ekki verið spurður að því hvort ekki eigi að syngja, fyrst ættir eru raktar til Skagafjarðar. Ekki það að innfæddir hafi spurt en þeir fengu að vita hvernig á að syngja stemmur og gangna- vísur er hópurinn sem ég tilheyrði snæddi í kjallaraholu í gömlum kastala eitt kvöldið, eða var þetta dýflissa? Hljóm- urinn var einstaklega góður í þykkum steinveggjunum og þóttumst við hafa staðið okkur með miklum sóma svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það þótti Rússunum líka sem voru í næsta herbergi og báðu okkur um að syngja fyrir sig áður en við færum. Var það auðsótt mál enda áfengið farið að stíga okkur til höfuðs. Héldum við söngnum áfram fram á nótt er á hótelið var komið og var barþjónninn ánægður með afrakstur kvöldsins. Ekki verður sagan rakin lengra að sinni heldur skal þakka ferðafélögum fyrir skemmtilegar stundir og ferða- skrifstofunni Trans Atlantic fyrir góða ferð. FRÁSÖGN Páll Friðriksson

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.