Sveitarstjórnarmál - 01.03.2016, Síða 5
Forystugrein
Efnahagssamráð ríkis
og sveitarfélaga lögfest
Með nýjum lögum um opinber fjármál er stokkað upp í fjárlagagerð ríkisins svo um munar. Samband
íslenskra sveitarfélaga hefur lengi hvatt ríkisvaldið til lagasetningar á þessu sviði og tekið þátt í mótun hinna
nýju laga, enda yfirlýst stefna sambandsins að lögin yrðu mikið framfaraskref í stjórnun opinberra fjármála.
Fjárhagsleg stefnumörkun til langs tíma er sá grunnur sem svokallaðar rammafjárveitingar eiga að byggjast á.
Nú mun reyna á alþingismenn, hvort þeir verði tilbúnir til að hverfa frá vinnubrögðum sem byggjast á ítarlega
sundurliðuðum smáfjárveitingum og taka í staðinn upp stefnumótandi fjárlagagerð að hætti nútímalegra
stjórnunaraðferða.
Það mikilvægasta í þessu fyrir sveitarfélögin er að lögin boða skipulagðari og formfastari samskipti en
áður í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Markmiðið er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn
á fjármálum hins opinbera þar sem fjallað skal á formlegan hátt um hvernig fjármagna megi opinbera þjón-
ustu í sátt milli ríkis og sveitarfélaga.
Reglur um fjármál sveitarfélaga voru bundin í lög í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008, ekki síst að
frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þau lög hafa fyrir löngu sannað gildi sitt og stuðlað að stór-
auknu aðhaldi í fjármálum sveitarfélaga. Aðhaldið sem lögin veita varðar ekki einungis rekstur sveitarfélaga
heldur einnig fjármálalegar skuldbindingar þeirra fram í tímann. Í lögum um fjármál sveitarfélaga er m.a.
kveðið á um hámarkshlutfall skulda og tekna. Samband íslenskra sveitarfélaga vakti athygli á því snemma árs
2014 að miðað við A-hluta ríkissjóðs og A-hluta sveitarfélaga skuldaði ríkið um 93% af vergri þjóðarfram-
leiðslu en sveitarfélögin um 11%. Ríkið skuldaði sem sagt átta sinnum meira en sveitarfélögin þá, mælt með
þessum einfalda en skýra hætti. Hver staðan er nákvæmlega í dag skal ekki fullyrt hér en þó er ljóst að
munurinn er enn margfaldur. Án efa hefðu ýmsar rekstrareiningar ríkisins þurft að kalla til utanaðkomandi
fjárhaldsstjórn, ef sömu reglur hefðu gilt um fjármál ríkis og sveitarfélaga undangengin ár.
Ljóst er að skuldalækkunarviðfangsefnið er hjá ríkinu. Þeir fulltrúar ríkisins sem komið hafa að þróun
þessa máls hafa viðurkennt það. Sveitarfélögin þurfa engu að síður að halda áfram því góða starfi sem þau
hafa unnið á liðnum árum á þessu sviði. Markmiðið er sem fyrr að styrkja reksturinn en halda þjónustustiginu
eins háu og unnt er, innan lögbundinna fjárhagslegra marka.
Markmið lagasetningar um opinber fjármál eru háleit: Hið opinbera skal stuðla að góðri fjárhagsstjórn og
styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Í öðru lagi skal móta heildstæða stefnumörkun í opinberum fjár-
málum til lengri og skemmri tíma – fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Í þriðja lagi skal vanda til lagasetningar
um fjármál opinberra aðila. Síðast en ekki síst skal eftirlit með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eigna og
réttinda vera traust. Náist þessi markmið í náinni framtíð má tala um stökkbreytingu til hins betra í opinberri
stjórnsýslu hér á landi.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur markvisst hvatt til þess að vinnubrögð ríkisins á fjármálasviði verði
endurskoðuð og bætt. Sveitarfélögin hafa gengið á undan með góðu fordæmi. Það er því mikið fagnaðar-
efni að lög um opinber fjármál hafa nú loksins tekið gildi. Fjárhagslegar samskiptareglur ríkis og sveitarfélaga
verða héðan í frá lögbundnar. Framhaldið liggur ljóst fyrir: Nú er það okkar allra, sem störfum í opinberri
stjórnsýslu – hvort sem er hjá ríkisvaldinu eða á sveitarstjórnarstiginu – að sjá til þess að hinum nýju lögum
verði framfylgt af kostgæfni og skynsemi, íbúum landsins til heilla.
Halldór Halldórsson, formaður
Danfoss tengigrindur
Danfoss hf. • Skútuvogi 6 • 104 Reykjavík • Sími 510 4100 • www.danfoss.is
Fyrir neysluvatns-, ofnhita-, gólfhita-,
snjóbræðslukerfi, setlaugar og fl.
Sérhannaðar fyrir íslenskar aðstæður.
Áratuga reynsla stjórnbúnaðar
við íslenskar hitaveituaðstæður.
Við erum leiðandi í hönnun og framleiðslu á
stjórnbúnaði og tengigrindum fyrir hitakerfi.