Morgunblaðið - 20.02.2018, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 20.02.2018, Blaðsíða 4
4 ÍÞRÓTTIR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 20. FEBRÚAR 2018 Mér fannst engu líkara en ég væri að horfa á Disney-mynd þegar úrslitin réðust í risasvigi kvenna á Vetrarólympíuleikunum á helginni (vestfirska). Oft hefur farið í taugarnar á mér þegar skíðafólk byrjar að fagna sigri á stórmótum þegar margir eiga í raun eftir að keppa. Þegar farnar eru tvær ferðir þá er slíkt kannski eðlilegra. Þá er alla vega ljóst að munurinn er til staðar og líkurnar mjög litlar á því að staðan breytist. En þegar um er að ræða eina ferð eins og í risasvigi eða bruni þá finnst mér í þessu felast óvirðing gagnvart keppinaut- unum. Þótt frægustu nöfnin hafi skíðað niður þá eru úrslitin ekki endilega ráðin. Í þessu tilfelli var ólympíu- meistarinn í greininni frá 2014 með forystuna, Anna Veith (Fenninger) frá Austurríki, þegar frægustu nöfnin höfðu skilað sér í mark. Hún var búin með allan tilfinningaskalann fyrir framan ljósmyndarana og sjónvarpsvél- arnar þegar Ester Ledecká frá grannríkinu Tékklandi fór af stað númer 26. Hlæja, gráta og allt þar á milli. Ledecká sigraði með minnsta mun, eða einu fátæk- legu sekúndubroti. Í því felst einhver fegurð að hrokafull framkoma hjá stórveldi í alpagreinum eins og Austurríki, skuli hafa komið í bakið á því fyr- ir framan stóran hluta heims- byggðarinnar. Fjöldi fólks hafði óskað Veith til hamingju með sigur sem hún hafði ekki unnið. Æðsti maður ólympíu- hreyfingarinnar hafði einnig sést á spjalli við hana á meðan beðið var eftir því að „minni spámenn- irnir“ myndu ljúka sér af. Topp- urinn á þessu öllu var svo að Le- decká ætlaði seint að trúa því að hún væri með besta tímann. BAKVÖRÐUR Kristján Jónsson kris@mbl.is GOLF Gunnar Valgeirsson Los Angeles Bubba Watson vann Genesis Open mótið á sunnudag hér í Los Angeles eftir hörkubaráttu við hóp af kylf- ingum alla helgina. Þetta var tíundi sigur hans á PGA móti og í þriðja sinn sem hann vinnur þessa keppni hér á Riviera golfvellinum sem er rúman kílómetra upp hlíðarnar frá Kyrrahafinu á Santa Monica strönd. Írinn Graeme McDowell hafði for- ystuna í keppninni eftir tvo fyrstu leikdagana, en Bubba Watson tók síðan tveggja högga forystu eftir að hafa farið átján holurnar á laug- ardag á 65 höggum. Watson lék körfuboltaleik á föstudagskvöld í keppni tengdri NBA Stjörnuleik- num hér í Staples Center. Sá leikur er aðeins til skemmtunar þar sem þar leikur mest fólk úr skemmt- anaheiminum. „Ég var bara að reyna að halda mér heilum í leiknum og gerði lítið til að eiga hættu á meiðslum,“ sagði hann við fréttafólk eftir umferðina á laugardag. Mótið var mjög jafnt alla helgina og seint á síðasta leikdeginum leit út fyrir að allt að sex leikmenn gætu orðið jafnir í forystunni á níu undir pari. Í fyrsta sinn um helgina fann maður að áhorfendur væru loks að taka við sér eftir að hafa séð Tiger Woods rúlla út úr mótinu á föstudag. Aðrir stjörnukylfingar gáfu smám saman eftir og augljóst var að nýi uppáhaldsmaður áhorfenda var nú Bubba Watson. Watson, Kevin Na og Patrick Cantlay virtust ætla að berjast til lokaholunnar um titilinn, en Watson setti boltann beint í holuna úr glompu á fjórtándu holu og náði þar með allt í einu tveggja högga forystu á ellefu undir pari. Þetta dugði honum til sigurs Holuröð 12–15 var erfið fyrir kylf- ingana alla helgina og par var gott skor í henni. Watson lék þær holur á einu undir pari á sunnudag, en það tókst keppninautum hans ekki. „Ég átti fjögur erfið pútt þetta sex til níu jarda frá elleftu til þrettándu holu og setti þau öll niður. Fuglinn úr glomp- unni gerði þetta mun léttara fyrir mig því að ég sá að keppinautar mín- ir áttu í erfiðleikum. Watson hafði ekki unnið PGA mót í tvö ár og hann átti við heilsuerfiðleika að etja síð- asta ár. „Maður veit aldrei hvort maður á eftir að vinna annað PGA mót þegar svo langt hefur liðið síðan maður vann síðast. Ég er þó nú aftur heill heilsu og ánægður að hafa náð tíu sigrum sem hefur verið markmið allan ferilinn.“ Watson er sérstakur leikmaður í bandaríska golfheiminum. Hann er ekki eins fágaður í framkomu og flestir kylfingarnir á PGA mótunum. Hann er mun líklegri til að sýna til- finningar sínar á almannafæri. Hann gróf andlit sitt í öxl aðstoðarmanns sín og grét um leið og síðasta skotið fór í holuna í lokin. Watson er líkur Phil Mickelson í leikstíl. Hann hefur nóg vald á bolanum til að geta reynt skot sem flestir aðrir PGA kylfingar láta óreynd. Þegar hann nær eins góðum teig- skotum og í þessu móti er voðinn vís fyrir keppinauta hans. Vegna þessa leikstíls er Watson mjög vinsæll hjá áhorfendum. Það var augljóst eftir að Tiger Woods féll úr leik um helgina. Áhorfendur þurftu ekki að leita lengra en til Bubba til að finna leikmann til að halda með. Hann var vinsæll sigurvegari meðal áhorfenda þegar hann fékk verðlaunin afhent þegar skuggar lengdust í gilinu seinnipart eftirmið- dagsins þar sem völlurinn liggur. Allir komnir til leiks Þetta mót var það sterkasta það sem af er golfkeppnistímabilinu hér vestra hjá PGA atvinnumönnunum rétt eins og í fyrra. Eins og undirrit- aður benti á fyrir ári síðan á þessum síðum hefst golfkeppnistímabilið hjá PGA strax eftir áramótin í Hawaii. Það flyst síðan í febrúar hingað til Kaliforníu og í eyðimörkina í Ari- zona áður en mótin flytjast austur á við til Florida og loks á fyrsta stór- mót ársins, Masters mótið í Georgíu, í apríl. Keppnin dreifist síðan um fylkin austanmegin það sem eftir lif- ir árs. Forráðamenn mótsins hér hafa nú náð að laða að alla bestu kylfinga heimsins ár eftir ár, þannig að það er ávallt spennandi að sjá hvernig topp- kylfingunum gengur gegn sterkasta leikhóp ársins hér í Los Angeles. Meiri stemning vegna Tigers Enginn einn leikmaður hefur náð að taka kórónu besta leikmanns heimsins til lengdar síðan Tiger Woods hélt henni yfir áratug, og hafa margir verið til kallaðir. Dustin Johnson var sá síðasti eftir að hann vann þetta mót í fyrra. Af þeim sök- um langar margt golfáhugafólk að fá einhvern einn leikmann sem virðist skera sig úr. Það var augljóst þegar undirrit- aður mætti á mótið á öðrum keppn- isdeginum á föstudag. Í fyrra var leikmannahópurinn rétt eins sterkur og í ár, en það var augljóst strax og ég gekk inn á völlinn að mun fleira fólk var í áhorfendasvæðunum og það virtist miklu meiri stemming. Mest út af veru Tiger Woods á leik- vellinum eftir langan tíma. Það var ótrúlegur fjöldi fólks að fylgjast með honum hita upp og strax við upphafsteigskotið var mér ljóst að það voru hundruð áhorfenda sem fylgdu honum um allan völlinn. Ég fylgdi þessum hóp þrjár fyrstu holurnar en vegna fjöldans var erfitt að sjá vel til kylfinganna, þar á með- al Rory McIlroy. Augljóst er að áhorfendur á PGA mótum vilja fátt meira en að sjá Wo- ods berjast um toppsæti á mótum, en það mun enn þurfa að bíða því augljóst er að hann á nokkuð í land til að komast í toppform. Hann lék þokkalega á fyrsta leikdeginum, en á föstudag lék hann fjögur skot yfir pari og missti af lestinni að geta leik- ið tvo síðustu dagana þar sem aðeins helmingurinn af leikmönnum í PGA mótunum sem hefja það leika tvo síðustu dagana, Woods virtist ekki mikið vonsvikinn á blaðamannafundi eftir umferðina á föstudag. „Ég lék alls ekki vel í dag. Öll upphafshöggin fóru til vinstri og púttin voru flest af- leit. Það er svo ólíkt að spila í keppn- um miðað við að leika á heimavelli þegar maður er að ná sér úr meiðslum. Ef ég ætla mér að komast í toppbaráttuna á mótum verð ég einfaldlega að keppa oftar. Ég hef sett mér það markmið og verð því að vera þolinmóður á meðan ég finn mig aftur í PGA mótum.“ gval@mbl.is Tíundi sigurinn hjá Bubba  Fyrsti sigurinn hjá Bubba Watson í tvö ár á PGA-mótaröðinni  Vinsæll hjá áhorfendum vegna leikstílsins  Ótrúlegur fjöldi sem fylgir Tiger Woods AFP Sigurvegari Bubba Watson metur stöðuna á átjándu og síðustu holunni í Los Angeles í fyrrinótt. LeBron James var valinn besti leik- maðurinn í Stjörnuleik NBA í fyrri- nótt, í þriðja skiptið á ferlinum, en þessi árlega körfuboltahátíð Banda- ríkjamanna fór fram í Los Angeles. Að þessu sinni mættust ekki úr- valslið Austur- og Vesturdeildanna eins og áður, heldur var keppn- isformið brotið upp með því að Le- Bron James og Stephen Curry, sem urðu efstir í atkvæðagreiðslu fyrir Stjörnuleikinn, völdu sitt liðið hvor eftir ákveðnu fyrirkomulagi. LeBron hafði betur í því uppgjöri, 148:145, í leik sem þótti líkjast meira alvöru körfuboltaleik en sýning- arleikir margra undanfarinna ára. Í fyrra var t.d. enginn varnarleikur á boðstólum, leikurinn fór 192:182, og þessvegna var fyrirkomulaginu breytt. „Þetta var vel heppnað fyrir alla, ekki bara fyrir leikmennina og deild- ina, en líka fyrir stuðningsmennina og alla sem fylgdust með. Helgin var frábær og lokapunkturinn eins og hann átti að vera,“ sagði LeBron James sem fór fyrir sínu liði með 29 stigum, 10 fráköstum og 8 stoðsend- ingum. vs@mbl.is AFP Bestur LeBron James tekur við viðurkenningunni eftir leikinn. LeBron bestur í endur- bættum Stjörnuleik Það verður sann- kallaður stór- leikur á Stamford Bridge í kvöld þegar Englands- meistarar Chelsea taka á móti Barcelona í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meist- aradeildar Evr- ópu í knattspyrnu. Hvort sem fólk trúir því eða ekki þá hefur Lionel Messi aldrei tekist að skora mark gegn Chelsea í Evr- ópuleik. Messi hefur mætt Chelsea átta sinnum og hefur ekki tekist að finna netmöskvana í þær 655 mín- útur sem hann hefur spilað gegn Lundúnaliðinu. Í þessum átta leikj- um hefur Messi aðeins einu sinni verið í sigurliði. Barcelona hefur aðeins tapað ein- um af 38 leikjum sínum í öllum keppnum á leiktíðinni og er með sjö stiga forskot á toppi spænsku 1. deildarinnar. Það hefur hins vegar gengið á ýmsu hjá Chelsea-liðinu á leiktíðinni. Englandsmeistararnir hafa tapað sex leikjum í úrvalsdeild- inni og eru í fjórða sætinu, 19 stigum á eftir Manchester City sem trónir á toppnum. Í hinum leik kvöldsins eigast við Bayern München og Besiktas. gummih@mbl.is Skorar Messi loksins hjá Chelsea? Lionel Messi

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.