Morgunblaðið - 06.04.2018, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. APRÍL 2018
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Á
undanförnum árum hefur rekstr-
arumhverfi íslenskra fiskframleið-
enda farið versnandi. Arnar Atlason,
formaður Samtaka fiskframleiðenda
og útflytjenda (SFÚ), segir sérstakt
áhyggjuefni að greina megi þá þróun að
vinnsla á íslenskum fiski er byrjuð að færast til
útlanda. Meðlimir SFÚ eru einkum sérhæfð
fiskvinnslufyrirtæki sem stunda ekki útgerð
heldur kaupa afla á mörkuðum.
„Við vitum af tilvikum þar sem fiskurinn
hefur verið fluttur lítið unninn eða jafnvel
óunninn til staða eins og Póllands þar sem
hann er fullunninn og sendur áfram til kaup-
enda á erlendum mörkuðum í beinni sam-
keppni við íslenska framleiðslu. Með þessu eru
fyrirtæki að nýta sér ódýrara vinnuafl en um
leið er virðisaukinn að færast úr landi,“ segir
Arnar. „Það er alveg ljóst að sjávarútvegurinn
stendur og fellur með krónunni og að bæði
gengisþróunin og launaþróun á Íslandi er farin
að ýta undir útflutning á óunnum fiski.“
Skekkt samkeppni
Arnar nefnir fleira sem gert hafi fiskútflytj-
endum lífið leitt, s.s. verkfall sjómanna á síð-
asta ári. Hann tiltekur líka að meðlimir SFÚ
reiði sig á að eðlileg verðmyndun sé á fisk-
markaði en skekkja sé í samkeppninni vegna
afsláttar á hafnargjöldum og launum sjó-
manna til þeirra útgerða sem landa í eigin
vinnslu.
„Fiskmarkaðirnir hafa orðið hvati að mikilli
nýsköpun og verðmætasköpun, enda eru allir
aðilar keyrðir að jafnvægispunkti framboðs og
eftirspurnar ef samkeppnin er frjáls og þurfa
stöðugt að leita að nýjungum. Ekki sitja samt
allir við sama borð þegar kemur að viðskiptum
með íslenskan fisk,“ útskýrir Arnar. „Sam-
keppniseftirlitið sendi frá sér álit um þessi
mál, sem í dag er orðið sex ára gamalt, og
bendir þar á að gildandi lög og framkvæmd
þeirra skapi samkeppnishindranir á markaði
með fisk. Í þessu áliti beindi Samkeppniseft-
irlitið því til stjórnvalda að grípa til úrbóta.
Samkeppnishindranir birtast bæði í gegnum
afslætti af hafnargjöldum og líka í gegnum
breytingar eins og nýjustu kjarasamninga sjó-
manna sem fela í sér tvenns lags uppgjör á
launum fyrir sama fiskinn. Benti SE á að þess-
ir aðilar, sem standa á margan hátt betur að
vígi, kæmu svo inn á fiskmarkaðina og skekktu
mjög samkeppnisstöðu fyrirtækja þar í krafti
stærðar og vegna þeirra atriða sem áður eru
nefnd.“
Má útfæra betur
Aðspurður hvaða lausnir hann leggur til segir
Arnar að sér hugnist illa boð og bönn, en þó sé
athugandi að gera t.d. þá kröfu að útgerð-
armenn þurfi fyrst að bjóða fisk til sölu innan-
lands áður en þeir geta boðið hann erlendum
vinnslum. Betri tæknilegar útfærslur geti líka
leitt til sanngjarnari samkeppni útgerð-
arfélaga og fiskvinnsla. Eitt verð hljóti líka að
eiga að gilda fyrir fisk í öllum viðskiptum svo
fyrirtæki sitji við sama borð. Þá eigi laun að
vera á jafnréttisgrunni og hafnarsjóðir lands-
ins ekki að bera skarðan hlut frá borði.
„Við verðum líka að hafa hugfast að íslensk-
ur sjávarútvegur er í beinni samkeppni við
lönd þar sem greinin býr við miklar ívilnanir
og jafnvel niðurgreiðslur úr opinberum sjóð-
um. En þegar sjávarútvegurinn hér á landi er
til umræðu virðist ekki koma til greina að
ívilna með nokkrum hætti,“ segir Arnar. „Er
þó vert að skoða tæknilegar útfærslur sem
gætu t.d. ýtt undir vinnslu aflans hér heima,
s.s. að veita afslátt af veiðigjöldum ef fiski er
landað á Íslandi og seldur á fiskmarkaði.“
Segir Arnar líka eðlilegt að umræða eigi sér
stað um gengi krónunnar og þá með tilliti til
þess hvaða áhrif sterkara eða veikara gengi
hefur á útflutningsgreinar og lífsgæði þjóð-
arinnar. „Gengi krónunnar hefur bein áhrif á
afkomu þjóðarinnar og leiðir veikari króna til
batnandi afkomu framleiðslufyrirtækja en
hærra verðs á aðkeyptum vörum og öfugt ef
krónan styrkist. Ef við viljum marka þá stefnu
að Ísland verði framleiðsluþjóð kallar það jafn-
framt á samsvarandi stefnu um gengi krón-
unnar.“
Morgunblaðið/Hari
Færist vinnslan til útlanda?
Varasamt „Við vitum af tilvikum þar sem fiskurinn hefur
verið fluttur lítið unninn eða jafnvel óunninn til staða
eins og Póllands þar sem hann er fullunninn og sendur
áfram til kaupenda á erlendum mörkuðum í beinni sam-
keppni við íslenska framleiðslu,“ segir Arnar.
Formaður SFÚ segir vert að
skoða hvata sem umbuna þeim
sem afla fisks á Íslandi og selja
á fiskmarkaði t.d. með afslætti
af veiðigjöldum. Í dag skapar
kerfið samkeppnishindranir á
markaði með fisk.
Flest þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að SFÚ
byggja starfsemi sína á þjónustu fiskmark-
aðanna og urðu til eftir að þeir voru stofnaðir á
9. áratugnum. Arnar segir fiskmarkaðina hafa
leyst mikla krafta úr læðingi og skapað tækifæri
til aukinnar sérhæfingar í vinnslu og sölu á fiski.
Í kringum markaðina hafi orðið til fullkomið
flutningskerfi og markaðir og flutningsaðilar
vinni saman að því að gera sjávarútveginn í heild
skilvirkari og ýti undir verðmætasköpun.
„Ef t.d. 10 kílóum af karfa hefði verið landað á
Patreksfirði fyrir röskum 30 árum hefði ekki ver-
ið hægt að gera mikið við hráefnið enda góðar
flutnings- og söluleiðir ekki fyrir hendi. Í dag er
hins vegar afli fluttur og seldur alla daga ársins í
kerfi sem virkar eins og vel stillt klukka, svo að
hver einasti tittur sem landað er hvar sem er á
landinu er kominn inn í virðiskeðjuna,“ segir
Arnar. „Þegar rætt er um þann ávinning sem
skapaðist með breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi á
sínum tíma held ég að við höfum stórlega van-
metið þátt fiskmarkaðanna í að skapa þann virð-
isauka sem orðinn er í greininni.“
Fiskmarkaðirnir styðja líka við starfsemi
strandveiðibáta og öfugt og bendir Arnar á að af
þeim liðlega 50.000 tonnum af þorski sem rata
á markað árlega komi 8-9.000 frá strandveið-
um. Kveðst Arnar almennt ánægður með það
hvernig umhverfi strandveiða hefur þróast og
jafnframt að miklar framfarir hafi orðið í með-
ferð aflans svo að betra hráefni skilar sér til fisk-
vinnslanna.
„Það má heldur ekki gleyma að strandveið-
arnar munu leika æ mikilvægara hlutverk í
markaðssetningu íslensks fisks. Þróunin í sölu
sjávarafurða virðist vera á þá leið að neytendur
láta sig uppruna vörunnar meiru varða og er því
spáð að í framtíðinni þegar fólk kaupir sér fisk í
soðið hjá netverslun verði hægt að smella á upp-
runavottorð sem sýnir ekki aðeins hvar fiskurinn
var veiddur heldur líka mynd af sjómaninnum
sem veiddi hann,“ segir Arnar. „Þessir sjálf-
stæðu sjómenn, „karlarnir með krókinn“, leyfa
okkur að segja mjög jákvæða sögu um íslenskan
fisk og munu skipta miklu máli fyrir ímynd ís-
lensks sjávarútvegs.“
Fiskmarkaðir og strandveiðar
eru mikilvægar stoðir
Morgunblaðið/RAX
Löndun Ímynd íslenska sjómannsins mun skipta æ meira máli fyrir markaðsstarf greinarinnar.