Ljósmæðrablaðið

Volume

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2012, Page 27

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2012, Page 27
27Ljósmæðrablaðið - desember 2012 Um þriðja stig fæðingar – hvenær er rétt að skilja á milli barns og móður? Björg Sigurðardóttir ljósmóðir, MSc á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja INNGANGUR Þegar ég var að læra til ljósmóður var talið bráðnauðsynlegt að skilja á milli barns og fylgju eins fljótt og auðið væri. Var okkur kennt að það væri til að minnka líkur á vandamálum hjá barninu eins og nýburagulu eða öndunarörðugleikum. Að auki var talið að minni blæðing væri í fæðingunni ef snemma væri skilið á milli. Sérstaklega þurfti að hraða því að skilja á milli ef barnið var slappt eða þurfti að endurlífga það eða hjálpa því á annan hátt. Þetta var í samræmi við þá fæðingarfræði sem þá var við líði og var stunduð í vestrænum löndum (Arca, Botet, Palacio og Carbonell-Estrany, 2010; Mercer og Skovgaard, 2002). Tvær meginstefnur hafa verið við lýði í meðhöndlun á þriðja stigi fæðingar, annars vegar lífeðlisfræðileg fæðing fylgju og hins vegar virk meðferð í fylgjufæðingu (Krist- björg Magnúsdóttir og Ólöf Ásta Ólafs- dóttir, 2005; McDonald og Middleton, 2008). Þessum stefnum fylgja gjarnan mismunandi skoðanir á því hvort rétt sé að klemma strax fyrir naflastrenginn (McDonald og Middleton, 2008). Alþjóðaheilbrigðismála- stofnunin mælir með virkri meðferð við fylgjufæðingu, en bíða megi svolítið með að loka fyrir naflastrenginn, nema ef barnið þarf á sérstakri umönnun að halda, svo sem vegna súrefnisskorts í fæðingunni (World Health Organization, 2007). Fróðlegt er að skoða nánar hvenær rétt sé að skilja á milli móður og barns og hvað skuli gera þegar barn hefur upplifað erfiða fæðingu og þarfnast sérstakrar meðferðar vegna súrefnis- skorts eða jafnvel endurlífgunar eins og getur til dæmis verið raunin eftir axlarklemmu í fæðingu og/eða fast vafinn naflastreng. Þriðja stig fæðingar Fæðing fylgjunnar hefur verið skilgreind sem þriðja stig fæðingar, þá losnar fylgjan frá legveggnum og hún fæðist ásamt belgjunum. Tíminn sem getur liðið frá fæðingu barnsins þar til fylgjan fæðist getur verið breyti- legur eða allt frá nokkrum mínútum og upp í klukkustund án þess að nokkuð óeðlilegt sé á ferðinni (Fraser og Cooper, 2008). Spurningar um hvenær sé rétti tíminn til að skilja á milli barns og móður og hvernig standa skuli að fæðingu fylgjunnar hafa verið til umræðu meðal fræðimanna í að minnsta kosti tvær aldir eða frá því að Erasmus Darwin skrifaði í Zoonomiu 1801, en þar segir svo í lauslegri þýðingu höfundar: Annar þáttur sem getur verið barninu hættulegur er að binda fyrir og klippa á naflastreng of snemma. Bíða ætti með það þar til barnið er ekki bara farið að anda eðlilega, heldur þar til að æðasláttur í strengnum er hættur. Að öðrum kosti verður barnið mun viðkvæmara en það ætti annars að vera; hluti af því blóði sem tilheyrir barninu verður eftir í fylgjunni; og jafnframt því þá losnar fylgjan ekki á náttúrulegan hátt. (Darwin, 1801. Bls. 302). Þessi gömlu skrif eru áhugavert innlegg í þá umræðu hvenær beri að skilja á milli og hvað sé í húfi ef gripið er inn í of snemma. Lífeðlisfræðileg fylgjufæðing er án inngripa, sem þýðir að beðið er þar til fylgjan losnar sjálfkrafa frá legveggnum og fæðist í kjölfarið. Móðurinni eru ekki gefin samdráttarlyf til að flýta fylgjufæðingunni, en þó má örva samdrátt í leginu til dæmis með því að nudda geirvörtur. Þá er gert ráð fyrir að beðið sé með að skilja á milli í að minnsta kosti tvær til þrjár mínútur, en helst þar til æðasláttur í naflastreng er hættur, eða þar til móðirin samþykkir að skilið sé á milli eða hvorutveggja, er þetta skilgreint sem síðbúin lokun fyrir naflastreng (Arca o.fl. 2010; Krist- björg Magnúsdóttir og Ólöf Ásta Ólafsdóttir, 2005; McDonald og Middleton, 2008; World Health Organisation, 2007). Þegar virkri meðferð við fæðingu fylgjunnar er beitt er móðurinni gefið samdráttarlyf til að flýta fyrir samdrætti legsins. Fljótlega eftir fæðingu barnsins, helst innan 30 sekúndna, er skilið á milli óháð því hvort sláttur í streng er hættur eða ekki, skilgreint sem snemmbúin lokun fyrir naflastreng, og notað stýrt tog í naflastreng til að stjórna fylgjufæðingunni (Baddock og Dixon, 2006; Fraser og Cooper, 2008; Kristbjörg Magnúsdóttir og Ólöf Ásta Ólafsdóttir, 2005; Landspítali háskóla- sjúkrahús, 2012; McDonald og Middleton, 2008; World Health Organisation, 2007). Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með því að ekki sé skilið á milli móður og barns fyrr en nauðsynlegt þyki að beita stýrðu togi í naflastrenginn til að fylgjan fæðist. Er talið að ekki sé þörf á því fyrr en eftir þrjár mínútur frá fæðingu barnsins. Þá er talið að hjá fyrirbura sé rétt að bíða eins lengi og kostur er með að skilja á milli, eða í að minnsta kosti 30 sekúndur (World Health Organisation, 2007). Arca o.fl., (2010) og Mercer o.fl. (2006) segja að mjólka megi strenginn til að auka blóðmagn til barnsins ef nauðsynlega þarf að flýta því að skilja á milli. Á Landspítala háskólasjúkrahúsi (2012) er mælt með virkri meðferð á þriðja stigi fæðingar og að gefa samdráttarlyf innan mínútu frá fæðingu. Er þar meðal annars stuðst við ráðleggingar frá ICM og FIGO (2003), um meðferð við þriðja stigi fæðingar. Er þessari aðferð ætlað að auðvelda fylgjufæðingu og koma í veg fyrir blæðingu eftir fæðingu (Reynir Tómas Geirsson, 2005). Þó er gert ráð fyrir að ekki sé skilið á milli fullburða barns og fylgju fyrr en sláttur er hættur í naflastreng, með þeim fyrirvara að mögulega þurfi að flýta því vegna ástands barnsins. Hjá fyrirbura er mælt með að beðið sé með að skilja á milli í 30–120 sekúndur, nema barnið þoli ekki biðina (Landspítali háskólasjúkrahús, 2012). F R Æ Ð S L U G R E I N

x

Ljósmæðrablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.