Morgunblaðið - 29.10.2018, Qupperneq 27

Morgunblaðið - 29.10.2018, Qupperneq 27
hann svaraði: Ætli ég sé ekki búinn að gera nóg um dagana. Svo kom ný saga. Fjölskyldum Óla vottum við samúð og þökkum fyrir kynni og vinskap. Margrét og Reynir. Sumarið 1955 er eitt eftir- minnilegasta sumar úr æsku minni, því ég hafði fengið pláss í sveit í Garðshorni í Kræk- lingahlíð hjá ungum bónda, Ólafi Ólafssyni, og móður hans og þremur systrum. Ekki þekkti ég þessa fjöl- skyldu, en vinur pabba kom þessari ráðstöfun á , sem varð mér til mikilla heilla því þarna eignaðist ég vini fyrir lífið. Ferðin með póstbátnum Drang gekk vel og var mér vel tekið við komuna. Ég fann mig fljótt velkominn til þessa góða fólks, sem hafði svo margt gott til að bera, var lífsglatt og ákaflega duglegt og hjartahlýtt. Ólafur var meðalmaður að hæð, samsvaraði sér vel, hafði þétt liðað hár, með glettið augnaráð, eilítið tileygt sem gerði það að verkum að þegar hann sagði skemmtisögur þá virkaði glettnin sem úr þeim skein enn áhrifameiri, en hann var mikill húmoristi. Þetta vissu allir sem hann þekktu og var því mikill gestagangur hjá hon- um alla tíð. Einu sinni kom nágranni hans sem var haldinn ótta um að sér fylgdu púkar og draugar. Óli taldi að það væri nú ekki mikið mál að losna við þá, náði í haglabyssu og hlóð hana og rétti manninum og sagði honum að skjóta beint upp í loftið og sagði honum þegar höglin fóru að falla á þökin að nú væri hann laus við ófögnuðinn og fór þessi maður léttstígur og glaður heim. Einu sinni komu fjórar stúlkur í heimsókn sem voru að vinna í Skjaldarvík, en þær höfðu heyrt að Óli væri góður í að spá í bolla. Þannig vildi til að Óli hafði þegar hann var 15 ára verið skorinn upp við botnlanga sem hafðist illa við og var hon- um þá komið fyrir hjá ömmu og afa einnar stúlkunnar. Vissi hún ekki um þekkingu Óla á heim- ilishögum þar. Þegar svo Óli lýsti nákvæmlega forstofunni hjá ömmu stúlkunnar og út- skornu fatahengi sem þar var, þá var henni allri lokið. Á eftir sagði hann mér allan sannleik- ann í málinu, er stúlkurnar voru farnar. Þær fengu þó aldrei að vita málavöxtu og töldu að hann væri gæddur ófreskigáfu. Þann- ig leið allt sumarið með góðum húmor, en mikilli vinnu því mik- ið var að heyja bæði á túnum og engjum. Á þessum tíma voru traktorar að koma í sveitir en hestar voru samt enn notaðir í heyannir í miklum mæli. Við Óli vorum miklir mátar alla tíð og í hvert skipti sem ég kom á Akureyri og færi gafst, þá fór ég í heimsókn og alltaf voru fagnaðarfundir. Eins hefur fjölskyldan mín haft mikið dá- læti á því að koma við hjá Óla og hans góðu fjölskyldu enda hægt að spjalla við hann um allt á milli himins og jarðar. Óli var líka alvörumaður og hafði mikl- ar áhyggjur af íslenskum land- búnaðarmálum. Taldi hann að bændur þyrftu að láta allt of mikið undan ásóknar mengaðra kjöt- og grænmetisvara frá Evrópu á kostnað heilnæmari íslenskra matvara, en vonaði að neytendur myndu átta sig á þeim gæðamun. Óli var góður og heill drengur og öllum vel- viljaður. Fjölskylda hans og vinir sakna hans mikið en vita að vel er tekið á móti honum af ættingjum og vinum sem fagna honum vel. Ég þakka honum vináttu í yfir 60 ár og við fjöl- skyldan í Dalsbúi biðjum Guð að blessa og varðveita hann og fjölskyldu hans og vini. Þorlákur Ásgeir Pétursson. MINNINGAR 27 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 29. OKTÓBER 2018 ✝ Jón HafsteinnJónsson stærð- fræðikennari fæddist á Haf- steinsstöðum í Staðarhreppi í Skagafirði 22. mars 1928. Hann lést 17. október 2018. Foreldrar Jóns Hafsteins voru Olga Sigurbjörg Jónsdóttir, f. 2.5. 1903 , d. 4.5. 1997, og Jón Jónsson, f. 21.5. 1888, d. 5.11. 1972. Bróðir Jóns Hafsteins er Ingvar Gýgjar, f. 27.3. 1930. Eiginkona hans var Sigþrúður Sigurðardóttir, f. 1.6. 1934, d. 12.10. 2015. Þau eignuðust fimm börn. Jón Hafsteinn var kvæntur Soffíu Guðmundsdóttir, tónlist- arkennara og bæjarfulltrúa, f. 25.1. 1927, d. 8.12. 2011. For- eldrar Soffíu voru Lára Jó- hannesdóttir, f. 25.5. 1899, d. 18.8. 1968, og Guðmundur Sig- geir Guðmundsson, f. 10.11. 1895, d. 20.5. 1942. Jón Haf- steinn og Soffía gengu í hjóna- band 30.8. 1951. Þeirra börn Katrín. Jón Ingvar kvæntist Brigitte M. Jónsson, f. 12.2. 1959. Börn þeirra eru a) Jón Stefán, f. 1981. Kona hans er Eva Sólan, f. 1972. Þeirra börn eru Bríet Helga og Yrsa Röfn. b) Christiane, f. 1981, d. 1981. Jón Hafsteinn lauk stúdents- prófi frá MA 1948 og cand. mag. prófi í stærðfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1953. Hann kenndi stærðfræði við MA 1953 til 1986 og við Verzlunarskóla Íslands frá 1986 til starfsloka. Soffía og Jón Hafsteinn bjuggu á Akureyri frá 1953 til 1986, en þá fluttu þau til Reykjavíkur. Jón Hafsteinn var virkur í baráttunni gegn hernaðinum í Víetnam. Hann var esperantisti og öt- ull talsmaður alþjóðatungu- málsins. Jón Hafsteinn gegndi trúnaðarstörfum fyrir Íslenska esperantosambandið, var m.a. forseti þess á tíunda áratugn- um og tók þátt í alþjóðlegu starfi hreyfingarinnar. Jón Hafsteinn ritaði greinar um stærðfræðikennslu í blöð og samdi kennslubækur í stærðfræði ásamt samkenn- urum sínum. Útför Jóns Hafsteins fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 29. október 2018, og hefst athöfnin klukk- an 13. eru Guðmundur Karl, f. 12.12. 1951, Olga Björg, f. 20.3. 1954, Nanna Ingibjörg, f. 7.10. 1955, og Jón Ingvar f. 4.2.1957. Eiginmaður Olgu Bjargar var Ragnar Hreinn Ormsson, f. 12.11. 1952, d. 23.7. 2010. Börn þeirra eru: a) Helga Björg, f. 1973. Hennar börn eru Ragnar Steinn, Þorsteinn Elvar og Guðrún Soffía. b) Jón Hafsteinn, f. 1975. Hann kvæntist Elísabetu Dröfn Er- lingsdóttur (skilin), f. 1974. Börn þeirra eru Hafsteinn Eyvar, Ragnheiður Olga og Ísabella Eir. Sambýliskona Jóns Hafsteins er Isabella Lo- pez Molina, f. 1991. c) Kjartan Orri, f. 1984. Nanna Ingibjörg giftist Stefáni Sigtryggssyni, f. 19.6. 1952. Börn þeirra eru: a) Þorbjörn Ingi, f. 1977. b) Hulda Katrín, f. 1981. Eigin- maður hennar er Snorri Jóns- son, f. 1980. Börn þeirra eru Jón Ingvar Valberg og Nanna Þegar ég var barn og ung- lingur kom frændfólk mitt frá Akureyri stundum í heimsókn. Mér hlýnar alltaf innan í mér þegar ég hugsa um þessar heim- sóknir. Það var rætt um allt milli himins og jarðar en þó ekki síst pólitík: landshornapólitík, borgarpólitík og alþjóðapólitík. Þó að ástandið virtist stundum bágborið hvert sem litið var skemmtu þau sér svo vel saman mamma, pabbi og gestirnir að hláturinn glumdi um allt húsið – og það lifir með manni mörgum áratugum seinna. Akureyringarnir voru Soffía Guðmundsdóttir og Jón Haf- steinn Jónsson. Soffíu kynntist ég nánar þegar ég var komin á þrítugsaldur, í starfi í Alþýðu- bandalaginu, en Jóni Hafsteini ekki fyrr en rúmum áratug seinna þegar við unnum saman við kennslu í Verzlunarskólan- um. Okkur varð vel til vina. Jón var reffilegur maður, grannur og kvikur í hreyfingum og bar sig vel. Hann var esper- antisti og átti bágt með að skilja að ég legði mig ekki eftir að læra alþjóðamálið; þreyttist enda ekki á að hvetja mig til þess að byrja. Ég þorði víst aldrei að segja honum að nafni hans, afi minn Jón, hefði gert tilraun til þess að koma mér á sama bragð forðum þegar mað- ur gat lært esperantó af Æsk- unni. Strax þá hefði ég fundið mér annað til, t.d. klippt út ind- íána af haframjölspakka. Jón Hafsteinn var íhugull og hafði einarðar skoðanir á hverju því sem hann hafði lagt niður fyrir sér. Við vorum ekki alltaf sammála í kennslumálum og ein- hvern tíma stríddi ég honum víst á að hann væri íhaldssamur í ákveðnum efnum. Ég sé hann að minnsta kosti fyrir mér þar sem hann horfir alvörugefinn á mig og segir með sínum skýra myndugleika: Það er ekki gott að hafa bernska oftrú á mönn- um, hvorki nemendum né öðr- um. Mig minnir að ég hafi tekið þeim orðum þegjandi. Jón var afburða kennari og vann að öllu sem hann tók að sér af stakri samviskusemi og nákvæmni. En sem félagi og vinur var hann ekki síst þrennt; kurteis, feiknalega hlýr og um- hyggjusamur. Og þannig mun ég ávallt minnast hans. Ég og mínir sendum afkom- endum Jóns og venslaliði þær kveðjur sem við eigum bestar. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir. Fallinn er frá afburða kenn- ari, sem fann oft í nemendum hæfileika sem þeir höfðu ekki hugmynd um sjálfir, sem sprungu út undir handleiðslu hans og blómstruðu síðar á æv- inni. Hann hafði tröllatök á sinni fræðigrein og valdi námsefni af kostgæfni, yfirleitt það besta sem til var í heiminum. Hann samdi og átti þátt í að semja kennslubækur sem voru braut- ryðjendastarf, sem umbyltu smátt og smátt stærðfræði- kennslu í landinu. Nemendur hans eru alls staðar í farar- broddi, verkfræðingar, stærð- fræðingar og aðrir vísindamenn. En hann var einnig húmanisti og lærði esperanto og sótti þing esperantista, aðhylltist mannleg- an kommúnisma og stóð alltaf með þeim sem minna mega sín. Svo var hann ótrúlega spaug- samur þegar svo bar undir. Ein- hverju sinni átti að reka menn úr skóla fyrir drykkjuskap, en hann kom í veg fyrir það með þessari setningu: „Þeir höfðu þó eitt sér til afsökunar, þetta var á bindindisdaginn.“ Hjónaband hans og Soffíu Guðmundsdóttur, femínista á Betty Friedan-línunni, var fal- legt og hamingjuríkt, unun var að vera í félagsskap þeirra. Börnum og vandamönnum flyt ég samúð mína og þakka fyrir að hafa átt Jón að bakhjarli alla mína starfsævi. Guðmundur Ólafsson. Mér er í barnsminni þegar ég sá Jón Hafstein fyrst. Ég var að reka kýrnar og þá kom jeppi og út úr honum leit maður sem mér sýndist vera Ingvar Gýgjar (bróðir Jóns) og spurði eftir afa. Ég benti honum á hvar afi væri. Um kvöldið voru einhverjar hvíslingar í foreldrum mínum og ég áttaði mig á að Jón Hafsteinn hafði beðið Gunnlaug í Brimnesi stjúpafa minn að koma með sér á fund Sveins kaupfélagsstjóra út af skuldum föður síns, Jóns í Steinholti. Ingvar Gýgjar rifjaði upp um daginn að bærinn í Steinholti brann og þegar verið var að byggja upp á nýbýlinu Gýgjarhóli varð ósamkomulag um úttektir. „Við vorum að múra,“ sagði Ingvar Gýgjar, „og þá lokaði Sveinn kaupfélags- stjóri á sementið.“ Afi kom á fundi og það var opnað á sem- entið enda hafði lokunin ekki endilega verið vegna óhóflegra skulda, hvað þá heldur pólitísk, heldur hefði þetta gerst upp úr rifrildi enda Hafsteinsstaða- frændur kunnir málafylgju- menn. Leiðir okkar Jóns lágu síðan aftur saman þegar hann kenndi mér í 5. bekk í stærðfræðideild í MA. Jón var cand. mag. í stærð- fræði en áður höfðu kennt stærðfræði þar þýskmenntuðu doktorarnir Sveinn Þórðarson og Trausti Einarsson. Jafnframt sat þriðji þýski doktorinn, Leif- ur Ásgeirsson, sem skólastjóri héraðsskólans á Laugum í Reykjadal. Trausti og Leifur voru síðar tveir af þremur fyrstu prófessorum við verk- fræðideild HÍ, sóttir í unglinga- og framhaldsskóla svo það er ekki ofsagt af norðlenska skól- anum. Framhaldsskólar í dag gætu verið stoltir af slíku mann- vali. – Eftir rólega yfirferð yfir geometríu í 3. bekk, nákvæma yfirferð Þóris Sigurðssonar fil. kand. yfir kóordinantkerfi og hornaföll í fjórða bekk riðu yfir delta epsilon sannanir í byrjun 5. bekkjar hjá Jóni og þóttu óárennilegar. Ég fann fljótt að ég varð að leggja mig allan fram til að fylgjast með en þá urðu þetta skemmtilegir tímar. Jón sagði reyndar um árangur í tíma; „Það er gott ef maður hef- ur tvo eða þrjá með.“ En það má ekki líta svo á að hann legði sig ekki fram við að ná til nem- enda. Þó voru ekki allir hand- gengnir langa essinu um vorið. Einn nemandi nefndi við Jón að sig vantaði aðstoð í stærðfræð- inni og Jón svaraði „það er ljóst“ og lauk svo því máli. Metnaðarfull kennsla Jóns dugði mér vel þegar kom að námi í verkfræði. Steindór Steindórsson skóf ekki utan af því að hann hafði ekki trú á þeim doktorametnaði sem var í stærðfræðikennslu í stærðfræðideildinni í MA, sem hófst með Trausta Einarssyni og Sveini Þórðarsyni „sem var nasisti“. Og var áfram haldið af Jóni Hafsteini, sem var „komm- únisti og því hættulegri sem hann var gáfaðri og betri kenn- ari,“ eins og segir í Sólarbók Steindórs. Kalda stríðið geisaði líka á kennarastofu MA. Aldrei man ég eftir að pólitík bæri á góma í tímum hjá Jóni en ég var oft spurður í vegavinnu hvort hann væri með mikinn áróður. En ég komst gegnum menntaskólann án þess að vita af uppreisnum sem ég hef lesið um síðar. En Jón var einarður og samúð með lítilmagnanum rík. Ég sendi afkomendum Jóns Hafsteins bestu kveðjur. Hann lifir í góðum minningum. Símon Steingrímsson frá Laufhóli. Jón Hafsteinn Jónsson var eftirminnilegur maður og góður kennari fyrir góða nemendur og góður samstarfsmaður. Hann er síðastur til að kveðja hinna gömlu framvarða Menntaskól- ans á Akureyri sem mörkuðu stefnu í kennslu um árabil, þeirra Aðalsteins Sigurðssonar, Árna Kristjánssonar, Brynjólfs Sveinssonar, Friðriks Þorvalds- sonar, Gísla Jónssonar, Her- manns Stefánssonar, Jóns Árna Jónssonar og Sigurðar Líndals Pálssonar. Jón Hafsteinn Jónsson stund- aði nám við hinn gamla háskóla Íslendinga Københavns Uni- versitet og lauk þaðan kandí- datsprófi í stærðfræði árið 1953 og kenndi síðan við Menntaskól- ann á Akureyri frá hausti 1953 til vors 1968, er hann var sæmd- ur gulluglu skólans fyrir vel unnin störf. Aðalkennslugrein Jóns Hafsteins var stærðfræði auk eðlisfræði, stjörnufræði og efnafræði auk þess sem hann kenndi esperanto sem valgrein, en hann trúði á alþjóðasamvinnu undir merkjum alþjóðatungu- málsins og kenninga þýska heimspekingsins og hagfræð- ingsins Karls Marx um aukinn jöfnuð og að öreigar allra landa sameinist. Aðrar kenningar hafa hins vegar orðið sterkari í heimi þar sem misskipting fer víða vaxandi. Ánægjulegt og gefandi var að kynnast og vera samvistum við þau hjón Soffíu Guðmundsdótt- ur, píanókennara og bæjarfull- trúa á Akureyri. Áttum við Gréta marga ánægjustund með þeim heiðurshjónum sem við þökkum og sendum börnum þeirra hjóna samúðarkveðjur í minningu um góðan dreng og mikinn baráttumann. Tryggvi Gíslason. Á öndverðum áttunda ára- tugnum, eftir að kennsla hófst til BS-prófs í stærðfræði við Há- skóla Íslands, þótti einboðið að leitað skyldi eftir því við Jón Hafstein Jónsson, að hann tæki að sér að vera prófdómari í námsefni, sem þá var tekið upp. Af kennslu hans á Akureyri fór slíkt afburðaorð, að ljóst var, að fengur yrði að því, að hann tengdist hinu nýja námi með þessum hætti. Þannig hófst samstarf okkar Jóns Hafsteins og varði það fjórðung aldar. Snurðulaust var það vissulega, varð í rauninni ekki á betra kosið í þeim efnum, og var að því styrkur að hafa hann sér við hlið í munnlegum prófum, sem ætíð voru hjá okk- ur að undangengnu hinu skrif- lega. Hann var glöggskyggn á hið skýra og tæra í framsetn- ingu, þegar það gafst, og kunni slíkt vel að meta, jafnframt því sem honum leyndist ekki loðin hugsun. Framgöngu hvers stúdents yfirvegaði hann af gaumgæfni áður en endanlegt mat lá fyrir og var þá hugað að mörgu í senn; víst var það vandasamt verk þetta allt. Af langvarandi samstarfi hlauzt jafnframt vinfengi, sem stóð allt til hinzta dags. Að lok- inni langri ævigöngu er ljúft að láta í ljós þökk og eru fjölskyldu Jóns Hafsteins Jónssonar færð- ar samúðarkveðjur. Jón Ragnar Stefánsson. Kveðja frá MA Jón Hafsteinn Jónsson setti svip sinn á Menntaskólann á Ak- ureyri. Hann varð stúdent frá MA 1948, lauk cand. mag. prófi í stærðfræði frá Kaupmannahafn- arháskóla 1953 og kom rakleitt til kennslu í MA. Hann hafði um árabil umsjón með stærðfræði- deildum skólans, kenndi aðal- lega stærðfræði en einnig eðl- isfræði, stjörnufræði og efnafræði, og auk þess valgrein- ina esperanto árum saman. Þá var hann ötull höfundur náms- efnis og gaf út kennslubækur. Jón Hafsteinn gegndi stöðu kennara við MA frá 1953 til 1989, en þrjú síðustu árin var hann í leyfi frá skólanum og sneri sér að kennslu við Versl- unarskóla Íslands. Jón Hafsteinn var eftirminni- legur kennari og gamlir MA- stúdentar minnast hans á tíma- mótum og margan stúdentinn leiddi hann á brautir raunvís- inda. Blessuð sé minning hans. Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri. Það voru viðbrigði fyrir okkur í 5. bekk stærðfræðideildar MA haustið 1953 að fá Jón Hafstein Jónsson sem kennara okkar í stærðfræði. Hann var þá 25 ára gamall, nýútskrifaður frá Kaup- mannahafnarháskóla með láði, og geislaði af honum áhuginn á faginu. Við höfðum veturna tvo á undan haft þrjá kennara í grein- inni, ágæta hvern um sig, en auðvitað eru tíð mannaskipti við töfluna ekki heppileg fyrir nem- endur, hvað þá í aðalgrein eins og hér um ræðir. Hafði þetta óhjákvæmilega komið niður á leikni margra í þessari undir- stöðugrein og biðu sum okkar þess varla bætur. Kennarinn ungi var frísklegur og leiftraði af áhuga fyrir kennsluefninu, þó tæpast búinn að átta sig á efni- viðnum í bekknum og misjafnri stöðu manna í fræðunum. Við glímdum við „differential- og in- tegralreikning“ þennan vetur, og það tók mig tíma að komast í takt við þau fræði. Brá ég á það ráð að heimsækja kennarann heima fyrir og sá ekki eftir því. Jón Hafsteinn var mikið ljúf- menni og það sama gilti um konu hans, tónlistarkennarann Soffíu, sem ég átti eftir að kynn- ast síðar á stjórnmálavettvangi. MA bjó þá sem lengst af síðar að úrvalsliði kennara, en margir þeirra voru nokkuð við aldur er hér var komið sögu og fæstir hallir undir vinstristefnu í stjórnmálum. Þar skar bónda- sonurinn úr Skagafirði sig hins vegar úr og þá og síðar bárust út til nemenda spennuþrungnar frásagnir af andrúmslofti og orðahnippingum á kennarastof- unni eftir að sósíalistinn Jón Hafsteinn bættist þar í hópinn. Ég hygg að þau hjón bæði hafi verið trú þeim málstað alla tíð. Jón Hafsteinn kenndi við MA og Verslunarskólann í aldar- þriðjung. Hafa fáir reynst jafn endingargóðir lærifeður og hann með óbilandi áhuga á viðfangs- efninu og að koma nemendum yfir torfærur reikningskún- stanna. Hann leið önn fyrir hrakandi árangur nemenda í stærðfræði í framhaldsskólum er á leið öldina, eins og glöggt kom fram í ágætu viðtali við hann í Morgunblaðinu 26. nóv- ember 1996. Kennir hann þar m.a. um „sænsku viðhorfunum“ sem haldið hafi innreið sína í ís- lenska skólakerfið á sjöunda áratugnum. „Dönsku viðhorfin leggja meira upp úr faglegri hæfni, en nú var farið að draga úr kröfum ef nemendur eða hóp- ur nemenda skilaði ekki nógu góðum árangri“. Í viðtalinu koma líka greinilega fram efa- semdir hans um gildi uppeldis- og kennslufræða, og þótti hon- um sem dregið hefði úr námsaga og að nemendum væru kennd góð vinnubrögð, þar á meðal að nota táknmál rétt í stærðfræði. Með Jóni Hafsteini sjáum við á bak mikilli kempu, sem lagði alúð við það starf sem hann hafði kosið sér. Þegar hann nú kveður okkur níræður verður hans minnst af mörgum. Hjörleifur Guttormsson. Jón Hafsteinn Jónsson

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.