Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.11.2018, Síða 18
VIÐTAL
18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 4.11. 2018
aðrir að freista gæfunnar í Noregi. Ég fékk
góða vinnu þar við laxeldi og okkur líður ljóm-
andi vel. Mér gengur allt í haginn í dag, guði sé
lof, og fyrir það er ég óendanlega þakklátur. “
Börnin hafa enn sem komið er takmarkaða
vitneskju um erfiðleikana sem faðir þeirra
gekk í gegnum en Hasim hefur áform um að
segja þeim alla sólarsöguna, þegar þau hafa
aldur til.
Börnin hafa lagað sig vel að aðstæðum í
Noregi og tala norsku en ekki íslensku. Á
heimilinu talar fjölskyldan urdu, móðurmál
Hasims sem hann þurfti að læra upp á nýtt.
„Ég lærði að tala urdu upp á nýtt af indversk-
um dans- og söngvamyndum sem eru á hindí
sem er mjög líkt urdu,“ segir hann hlæjandi.
„Ég kann hins vegar hvorki að lesa né skrifa
málið. Ég er líka búinn að læra norskuna og
þar sem íslenska og norska eru svo lík mál,
skilja börnin mig þegar ég tala íslenskuna
„illa“.“
Hann hlær aftur.
Hasim hefur bundist tengdafjölskyldu sinni
í Pakistan traustum böndum og þangað fara
þau Attia reglulega með börnin í frí. Loksins
tilheyrir hann fjölskyldu.
Hvernig man hún eftir mér?
Spurð hvers vegna hún hafi ráðist í að skrá
sögu Hasims nú svarar Þóra Kristín: „Ég hef
oft hugsað til Hasims og hvernig hafi farið fyr-
ir honum. Þegar ég var fréttastjóri á Frétta-
tímanum og var að velta fyrir mér áhugaverð-
um viðmælendum kom hann upp í hugann.
Áður en ég hafði haft uppi á Hasim fór Frétta-
tíminn á hausinn en ég lét eigi að síður kné
fylgja kviði. Fann hann í Noregi og spurði
hvort hann væri ekki tilbúinn að segja sína
sögu.“
Hasim varð undrandi þegar hann heyrði frá
Þóru Kristínu. Það hafði raunar ekkert með
bókina að gera. „Mér fannst bara merkilegt og
vænt um að hún skyldi muna eftir mér og hefði
hugsað til mín allan þennan tíma. Það snerti
mig. Hvernig man hún eftir mér? Hvað sögu
mína varðar þá höfum við konan mín spjallað
reglulega saman um hana gegnum tíðina og
þremur vikum áður en Þóra Kristín hringdi þá
hafði ég verið að segja konunni minni frá henni
og að hún hefði viljað skrifa um mig bók þegar
ég var unglingur. Og nú var hún allt í einu í
símanum. Magnað.“
Hasim þurfti ekki að hugsa sig lengi um; nú
var hann tilbúinn að kryfja líf sitt og segja
þessa óvenjulegu sögu. Þau byrjuðu að spjalla.
Frábær söguhetja
„Ég reyni að vinna þetta heildstætt,“ segir
Þóra Kristín. „Tala við fjölmargt fólk í kring-
um Hasim og skoða gögn af ýmsu tagi en út-
gangspunkturinn er samt í Hasim sjálfum.
Hann er frábær söguhetja, lífsglaður og
skemmtilegur, þegar þannig liggur á honum.
Þetta tók samt á taugarnar og ég fékk reglu-
lega samviskubit. Er ég að ganga of hart að
honum? Þegar upp er staðið held ég samt að
Hasim hafi haft mjög gott af þessu en líklega
er best að hann svari því sjálfur.“
Hasim kinkar ákafur kolli. „Algjörlega. Ég
er allur léttari eftir að hafa sagt þessa sögu –
og þá er ég ekki að tala í kílóum.“
Þau hlæja bæði.
„Hasim er óvenjulega góður kokkur; það sér
á mér eftir þessa samvinnu,“ segir Þóra Krist-
ín brosandi. „Hann eldar til dæmis gómsætt ís-
lenskt lambalæri að pakistönskum hætti.
Hann er kominn langt frá þeim tíma þegar
hann lifði á núðlum og mjólk úr Bónus.“
Hasim brosir. „Rétt er það. Ég hef mjög
gaman af því að elda og lærði margt af sjálfum
mér þegar ég var einn á báti. Ekki var öðrum
tilraunadýrum til að dreifa.“
Allir fengu að lýsa sinni hlið
Spurður hvort hann kvíði viðtökum nú þegar
sagan er komin á prent veltir Hasim vöngum.
„Aðeins, já. Ég veit ekki hvernig fólk sem
kemur við sögu í bókinni mun taka þessu. Ann-
ars verður það bara að hafa sinn gang,“ segir
hann og Þóra Kristín bætir við að allir sem
vildu hafi fengið að lýsa sinni hlið í bókinni.
Spurð hvort til standi að þýða bókina á önn-
ur tungumál segir Þóra Kristín ekkert liggja
fyrir í þeim efnum en hún sé vitaskuld opin
fyrir því. Horfa má til Skandinavíu og hins
enskumælandi heims í því sambandi og svo er
til lítill markaður sem heitir Indland. En það
eru auðvitað bara fabúleringar blaðamanns.
Hasim hefur fengið ákveðna fjarlægð á líf
sitt á Íslandi og hugsar með hlýju hingað upp á
skerið. „Í Noregi er ég oft spurður hvaðan ég
sé og ég svara því alltaf til að ég sé Íslend-
ingur. En þú lítur ekki út fyrir það? segir fólk
þá á móti. Það gildir svo sem einu, ég er samt
Íslendingur og ákaflega stoltur af því. Jú, jú,
líf mitt á Íslandi var lengi vel enginn dans á
rósum en hefði ég ekki komið hingað veit ég
ekki hvað hefði orðið um mig. Allt endaði þetta
líka vel, það skiptir mestu máli. Ég elska Ís-
land!“
Vegabréf, hvað er það?
Spurður hvort hann sé með tvöfalt ríkisfang,
íslenskt og indverskt, hristir Hasim höfuðið.
„Nei, nei, nei, ég er bara með íslenskt ríkis-
fang. Hef ekkert við hitt að gera.“
Þóra Kristín bendir á að Hasim hafi lengi
verið án ríkisfangs úr því að ættleiðingin rann
út í sandinn. Það kom í ljós þegar hann átti að
fara til Svíþjóðar sem unglingur að keppa í
frjálsum íþróttum þar sem hann þótti mikið
efni. Ríkisfangslaus átti hann ekkert vegabréf
og komst fyrir vikið ekki með í ferðina. „Ég
botnaði hvorki upp né niður í þessu; hafði aldr-
ei heyrt um vegabréf enda er það hlutur sem
foreldrar manns græja fyrir mann. Ef maður á
foreldra,“ segir Hasim.
Ríkisfangið fékk hann eftir þetta með lögum
frá Alþingi og rígheldur að vonum í það.
Laskaður er landlaus maður.
Hasim hefur aðeins einu sinni komið til Ind-
lands eftir að hann var sendur til Íslands. Þá
var hann um tvítugt og heimsótti meðal annars
barnaheimilið sem hann bjó á og fór að finna
móður sína. „Hún var ekki í sömu borg og mér
hafði verið sagt, þannig að ég þurfti að hafa
fyrir því að finna hana. Nú er hún látin.“
Mjög mikil saga
Þóra Kristín vissi undan og ofan af sögu
Hasims þegar samstarf þeirra hófst en segir
eigi að síður margt hafa komið sér á óvart.
„Þetta er mjög mikil saga og maður skynjar
sterkt hversu mikið tilfinningalegt álag þetta
hefur verið á lítið barn. Það hefur ekki verið
auðvelt fyrir íslenska götubarnið að horfa upp
á félaga sína eiga allt sem þá dreymdi um
sjálfa, meðan það átti ekkert. Einmanaleikinn
var algjör og engin völ á þessari skilyrðislausu
ást sem við þurfum öll á að halda til að vaxa og
þroskast. Það er í raun ótrúlegt að Hasim hafi
lifað þetta af. Algjört kraftaverk.“
Höfundurinn tileinkar bókina milljónum
vegalausra barna úti um allan heim sem rekast
alls staðar á veggi. „Það er lífseig mýta að
börn geti lagað sig að öllu. Í mínum huga er
þetta einfaldlega rangt og við þurfum nauð-
synlega að bregðast við til að sitja ekki uppi
með milljónir bálreiðra barna. Barna eins og
Hasim. Viljum við það?“
Heldur þétt utan um börnin
Talið berst að lokum að framtíðinni sem Ha-
sim horfir til björtum augum. Eins og fyrr seg-
ir kann fjölskyldan vel við sig í Noregi og hann
á síður von á því að flytja aftur heim, alltént
ekki í bráð. „Annars er lífið svo fljótt að taka
nýja stefnu; þurfi ég að koma heim þá geri ég
það. Ég hef ekki í annan tíma verið sterkari og
kvíði fyrir vikið ekki breytingum á mínum hög-
um. Nú hugsa ég í lausnum.“
Þóra Kristín tekur undir það. „Hasim er
orðinn alþjóðlegt fyrirbæri og getur búið hvar
sem er.“
Sjálfur kinkar hann kolli til samþykkis. „Ég
get búið hvar sem er, svo lengi sem börnin mín
þurfa ekki að lifa eins lífi og ég gerði. Ég held
mjög þétt utan um börnin mín; oft og tíðum of
þétt geri ég ráð fyrir en ég get bara ekki ann-
að.“
Lái honum hver sem vill.
Barnaheimilið á Indlandi
árið 2000, þegar Hasim
kom þar í heimsókn.
Hasim og Attia, eiginkona hans, í brúðkaupinu í Pakistan. Hasim fimmtán ára á rauðakrossheimilinu.
’Það er lífseig mýta að börngeti lagað sig að öllu. Í mín-um huga er þetta einfaldlegarangt og við þurfum nauðsynlega
að bregðast við til að sitja ekki
uppi með milljónir bálreiðra
barna. Barna eins og Hasim.
Viljum við það?