Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.11.2018, Page 18
F
atou Sanneh var fjórtán ára gömul
þegar hún yfirgaf heimili sitt í Gam-
bíu og næstu nítján mánuði var hún
á flótta. Ástæðan fyrir því að Fatou
ákvað að flýja var að það átti að gefa
hana í hjónaband með eldri manni sem var bú-
settur í Noregi.
Nú er hún 18 ára gömul og búsett á Sikiley.
Án atvinnu og ekki í skóla því hún er skilgreind
sem fullorðin manneskja sem á að sjá um sig
sjálf. Á stað þar sem atvinnuleysi mælist um
50% hjá ungu fólki.
Hún er þrátt fyrir allt þakklát fyrir að vera á
lífi því það er ekki sjálfgefið þegar fólk er á
flótta í Afríku. Sérstaklega ekki eftir að komið
er til Líbýu. Landi sem lýst er sem helvíti af
fólki sem þekkir það af eigin raun að koma
þangað sem flóttafólk. Draumur hennar er enn
sá sami og hann var áður en hún lagði af stað.
„Mig langar að verða kokkur. Ég elska að búa
til mat og ég hef eldað mat frá því ég var lítil
stelpa eða allt frá því að pabbi lét sig hverfa og
skildi mömmu eftir með okkur börnin,“ segir
hún þegar blaðamaður ræddi við hana nýverið í
Palermo á Sikiley.
Að sögn Fatou var fjárhagur fjölskyldunnar
mjög slæmur og mamma hennar gat ekki fram-
fleytt sér og börnunum þremur án aðstoðar.
Fatou reyndi að styðja móður sína eins og henni
var unnt. Með því að gæta yngri systkina, elda
og þrífa. Þegar maðurinn óskaði eftir því að fá
að kvænast Fatou samþykkti móðir hennar
ráðahaginn.
14 ára á leið í þvingað hjónaband
„Ég var fjórtán ára og bara barn. Ég vildi ekki
giftast þessum gamla karli enda hefur engin 14
ára stelpa með réttu ráði áhuga á að ganga í
hjónaband. Hvað þá með einhverjum karli í
Noregi.
Ég leitaði því til konu sem ég þekkti og bað
hana um að hjálpa mér. Í mínum huga var ekkert
annað í boði en að flýja. Þegar hún spurði mig
hvert ég vildi fara þá vissi ég það ekki. Eina sem
ég vissi var að ég varð að forða mér. Ef mér tæk-
ist að komast frá Gambíu væri einhver möguleiki
fyrir mig að fá aðstoð og sleppa undan því að vera
þvinguð í hjónaband,“ segir Fatou.
Í febrúar 2015 lagði hún af stað með rútu frá
Gambíu og fór með henni til Senegal og þaðan
lá leiðin til Malí. Vinkona hennar borgaði far-
gjaldið þangað en eftir það var Fatou ein á báti.
Fyrstu tvær næturnar í Malí svaf Fatou á
götunni því hún var peningalaus – í raun alls-
laus og mállaus þar að auki þar sem önnur
tungumál eru töluð í Malí en Gambíu. Því þrátt
fyrir að hafa fengið sjálfstæði frá Bretum er
enska enn opinbert tungumál landsins. Auk
þess tala Gambíubúar nokkur önnur tungumál.
Allt eftir bakgrunni fólks.
Ekki vinna fyrir stelpur
Eftir tvo daga ráfandi um götur borgarinnar
gaf Fatou sig á tal við mann sem rak bílaverk-
stæði. Hann talaði bambara en sú tunga er töluð
í nokkrum ríkjum Afríku, þar á meðal Gambíu
þrátt fyrir ólík blæbrigði milli landa. Svona
svipað og fyrir Norðmenn og Svía að tala sam-
an.
Maðurinn sagði að það væri ekki fyrir stelpur
að vinna á verkstæði en Fatou grátbað hann um
að ráða sig í vinnu og samþykkti hann það að
lokum. Þar vann hún við að þrífa bíla í nokkra
daga og fékk alltaf smá pening í lok dags og gat
þannig safnað fyrir rútufargjaldi til höfuð-
borgar Níger, Niamey, með stuttri viðkomu í
Búrkína Fasó.
„Aftur var ég á götunni án þess að vita hvað
ég ætti að gera. Nú bara í nýju landi, Níger.
Fólk starði á mig á götum úti þar sem ég var
ekki klædd eins og flestar konur í Niamey. En
konur þar hylja yfirleitt andlit sitt með slæðu og
klæðast skósíðum kuflum. Heppnin var með
mér þegar ég hitti mann sem talaði tungumál
sem ég tala líka, wolof, en hann var frá Senegal.
Ég sagði honum sögu mína og hann bauð mér
starf á heimili sínu við að aðstoða eiginkonu
hans,“ segir Fatou.
Þar leið mér vel
Fatou dvaldi hjá þeim í tvo mánuði og annaðist
öll heimilisstörf, eldaði og þreif. Henni leið mjög
vel á heimilinu og þau voru góð við hana, að
sögn Fatou.
„En ég vildi halda ferðinni áfram þannig að
þau hjálpuðu mér við að komast á næsta stað
þar sem ég dvaldi í viku hjá kunningjum þeirra
sem búa rétt við landamæri Líbýu. Strax þar
varð ég uggandi um það sem biði mín hinum
megin við landamærin því þarna sá ég mikið of-
beldi,“ segir hún.
Líbýa er gríðarlega hættulegt land, ekki síst
fyrir ungar stúlkur, segir Fatou og ekki óhætt
fyrir mig að vera þar ein á ferli, bætir hún við.
„Á aðeins tveimur vikum kláruðust allir pen-
ingarnir mínir og ég ákvað því að taka áhættuna
og koma mér úr húsi, klædd í níkab (hylur allan
líkamann nema augu) í fylgd með strák frá
Senegal. Í tvo mánuði unnum við saman, ég eld-
aði og hann seldi matinn og þannig tókst mér að
kaupa mér far frá landamærunum til Trípólí,
höfuðborgar Líbýu,“ segir Fatou.
Í klóm glæpamanna
Þangað komst hún hins vegar ekki í fyrstu til-
raun því hún lenti í höndum glæpamanna og
endaði í Sabha, sem er 640 km suður af Trípólí.
„Þar var ég í nokkra mánuði og var haldið í hálf-
gerðu fangelsi. Ástandið var skelfilegt. Við vor-
um svo mörg og okkur leið skelfilega. Á meðan
ég var þarna frömdu einhverjir úr hópnum
sjálfsvíg eða voru drepnir þegar þeir reyndu að
flýja,“ segir hún og það tekur mjög á hana að
rifja upp þessa mánuði sem hún var föst í Líbýu.
Allt snýst um peninga hjá glæpamönnum
sem notfæra sér neyð flóttafólks og tókst Fatou
að fá einn þeirra til að lána sér síma svo hún
gæti hringt og útvegað peninga.
„Ég hringdi í fjölskylduna sem ég var hjá
fyrst eftir komuna til Líbýu og þau báðu mig
um að útvega heimilisfangið þar sem ég var í
haldi svo þau gætu sent hjálp. Ég bað manninn
um að gefa mér það undir því yfirskini að fjöl-
skyldan ætlaði að senda þangað peninga,“ segir
Fatou.
Seld á milli manna
Henni tókst að koma skilaboðunum áfram og
hjónin báðu hana um að hafa varann á sér, sér-
staklega að næturlagi og sæta lagi þegar hún
fengi merki um að hennar væri beðið. Um miðja
nótt barst ljósmerkið sem Fatou hafði beðið eft-
ir og henni tókst að strjúka.
Fatou segir að þarna hafi hún talið að sér
væri borgið en raunin varð önnur á leið hennar
til Trípolí.
„Mér var rænt að nýju og nú voru mér allar
dyr lokaðar því það gat enginn útvegað peninga
til að kaupa mig lausa. Ég þorði ekki að reyna
að flýja því þeir sem það reyndu voru ann-
aðhvort drepnir eða aflimaðir með sveðjum.
Lögreglan hafði hins vegar komist á snoðir um
starfsemina í húsinu og ákváðu eigendurnir að
losa sig við okkur og selja til þess að komast
sjálfir undan fangelsi. Ég var seld til manns
sem var skelfilegur og eina leiðin til að kaupa
sig í burtu var að borga tvöfalda þá fjárhæð sem
hann hafði greitt fyrir mig,“ segir Fatou.
Fatou var í haldi þessa manns um tíma en
tókst loks að flýja ásamt tveimur öðrum. Þau
héldu út í eyðimörkina án vatns og matar og það
var ekki fyrr en eftir þrjá daga sem þeim var
bjargað ef hægt er að tala um björgun. Því tveir
menn á vörubíl tóku þau upp í bílinn og fór ann-
ar þeirra með Fatou heim til sín en hinn mað-
urinn tók félaga hennar. Maðurinn leit á hana
sem sína eign, hún var beitt líkamlegu og and-
legu ofbeldi auk kynferðislegs ofbeldis.
Minningarnar eru svo sárar að Fatou treystir
sér ekki til þess að rifja þetta tímabil í lífi sínu
upp en á þessum tíma var hún fimmtán ára
gömul. Líkt og gildir um mansal þá var eina
leiðin til að losna lifandi sú að borga.
„Hann heimtaði að ég borgaði honum lausn-
argjald en ég átti enga peninga. Þegar hann fór
að heiman þá læsti hann mig inni en einn daginn
var heppnin með mér því hurðin hafði ekki læst
almennilega og ég náði að forða mér enn einu
sinni á flótta. Þarna var ég ráfandi ein um göt-
urnar allslaus. Ég talaði ekki tungumálið og var
að lokum handtekin af lögreglunni sem varpaði
mér í fangelsi.“
Hélt að þetta væri hennar síðasta
Um 400 fangar voru í sömu álmu og Fatou og
fengu fangarnir lítið sem ekkert að borða eða
drekka. Nánast daglega dó einhver en Fatou
var í þessu fangelsi í mánuð. „Ég hélt að þetta
væri mitt síðasta enda ekki hægt að lýsa
ástandinu fyrir fólki sem hefur ekki upplifað
það að vera lokað inni með fólki sem smátt og
smátt missir geðheilsuna eða deyr.“
Fatou var flutt í annað fangelsi og var þar í
lengri tíma. Hún segir að þar hafi fangarnir
nánast ekkert fengið að borða og fólk hrundi
niður vegna vannæringar.
„Ég stóð vart undir mér lengur vegna van-
næringar og ég hefði alveg eins getað verið
dauð. Enda þráði ég að deyja og taldi að það
væri eina lausnin til þess að losna úr þessu hel-
víti. Ég var lifandi dauð. Ef ítölskum stjórnvöld-
um er alvara með því að senda fólk aftur til Líb-
ýu þá geta þau alveg eins drepið fólkið hér á
Sikiley. Því það eina sem bíður fólks er dauði
eða þrælahald. Líbýumenn hafa engan áhuga á
að fá snauða flóttamenn senda aftur til baka frá
Ítalíu þó svo að ítölsk stjórnvöld ætli að greiða
með þeim,“ segir hún.
Hennar eina von var að fá einhvern til þess að
reiða fram það fé sem þurfti til að múta fanga-
vörðum til að sleppa út. Nígerískur maður bauð
Fatou að greiða fyrir lausn hennar og fargjaldið
yfir Miðjarðarhafið. Hún gæti endurgreitt þeg-
ar til Evrópu væri komið.
Fatou segist hafa sagt manninum að hún
gæti ekki lofað að greiða til baka því framtíð
hennar væri algjörlega óviss. Hann lét hana fá
miða með upplýsingum, símanúmer og Face-
book-aðgang sem hún átti að hafa samband við
þegar hún væri komin á áfangastað. En Fatou
vissi sem var að það gæti þýtt að hún yrði seld í
vændi eða annan þrældóm og hún ákvað að taka
áhættuna og henda miðanum.
„Í sannleika sagt þá hafði ég ekki hugmynd
um hvort ég kæmist lífs af og hvort ég hefði ráð
á að endurgreiða. En ég vissi hvað biði mín ef ég
hefði samband – að vera seld mansali, í vændi
eða eitthvað annað. Líkt og hefur verið gert við
margar konur og stelpur frá Nígeríu og Kamer-
ún,“ segir hún en maðurinn og fólkið sem hann
starfar með hefur ekki enn haft uppi á Fatou
sem hefur verið á Sikiley í rúm tvö ár.
Við komuna til Sikileyjar var hún fyrst eina
viku í móttökubúðum og þaðan fór hún á heimili
fyrir börn á flótta skammt fyrir utan Palermo.
Þar var hún í átján mánuði og gekk í skóla þar
en skólaganga hennar hafði verið stopul áður en
hún flúði að heiman 14 ára gömul og engin
þessa 19 mánuði sem hún var á flótta.
Í tæpa átta mánuði hefur hún búið í bænum
Bagheria sem sem er einnig stutt frá Palermo á,
heimili fyrir flóttafólk.
Hún lauk grunnskólanámi í sumar, skömmu
fyrir 18 ára afmælisdaginn, og dreymir um að
verða kokkur í framtíðinni en þar sem hún er
orðin átján ára á hún ekki lengur rétt á skóla-
göngu og þarf að sjá fyrir sér sjálf. Illa gengur
að fá launaða vinnu en hún eyðir lunganum úr
deginum í að ganga á milli fyrirtækja og sækja
um vinnu.
Fatou segir það versta að hafa ekkert að gera
því þá sæki minningarnar á hana. Minningar
sem hún vilji gleyma en það er ekki auðvelt þeg-
ar hún veit ekki neitt hvað bíður hennar í fram-
tíðinni.
Hún hefur eignast vini á Sikiley en flestir
þeirra eru flóttamenn frá Afríku líkt og hún.
Fatou, sem fékk alþjóðlega vernd á Ítalíu, þarf
ekki að hafa áhyggjur af því að vera vísað úr
landi líkt og þeir sem fengu dvalarleyfi af mann-
úðarástæðum í tíð fyrri ríkisstjórnar. Því núver-
andi ríkisstjórn hefur það á stefnuskrá sinni að
hætta að veita slík leyfi og þau sem þegar hafa
verið veitt verða ekki endurnýjuð.
Fatou Sanneh er ein þeirra þúsunda barna
sem flýja heimaland sitt í Vestur-Afríku ár
hvert. Flóttinn tekur oft mörg ár og sum
þeirra komast aldrei á áfangastað. En Fatou
tókst það enda afar hugrökk og dugleg að
bjarga sér þrátt fyrir ungan aldur.
„Ég er á lífi“
Fatou Sanneh er ein þeirra fylgdarlausu barna sem hafa komið til Evrópu á síðustu
árum. Nú er hún orðin 18 ára gömul og á litla sem enga möguleika á að fá
launaða vinnu enda um helmingur ungs fólks án atvinnu á ítölsku eyjunni Sikiley.
Guðrún Hálfdánardóttir guna@mbl.is
’ Ég stóð vart undir mér lengur vegna vannæringarog ég hefði alveg eins getað veriðdauð. Enda þráði ég að deyja og
taldi að það væri eina lausnin
til þess að losna úr þessu helvíti.
Ég var lifandi dauð.
VIÐTAL
18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11.11. 2018