Morgunblaðið - 22.11.2018, Blaðsíða 18
18 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. NÓVEMBER 2018
Talið er að allt að 85.000 börn undir
fimm ára aldri hafi dáið úr hungri í
Jemen frá því að stríðið í landinu
hófst fyrir rúmum þremur árum, að
sögn alþjóðlegu hjálparsamtakanna
Barnaheilla (Save the Children).
Þessi tala byggist á gögnum frá
Sameinuðu þjóðunum sem hafa varað
við því að hungursneyð vofi yfir allt að
fjórtán milljónum Jemena. Þar af er
um helmingurinn börn.
Haft er eftir framkvæmdastjóra
Barnaheilla í Jemen, Tamer Kirolos,
að rannsóknir hafi leitt í ljós að þegar
alvarlega vannærð börn fái ekki hjálp
á átakasvæðum deyi um 20-30%
þeirra á ári. „Á hvert barn sem lætur
lífið í sprengju- eða skotárás deyja
tugir barna úr hungri og þetta eru
dauðsföll sem hægt er að koma í veg
fyrir,“ hefur fréttaveitan AFP eftir
Kirolos. „Börn sem deyja með þess-
um hætti þjást gríðarlega vegna þess
að það hægir á starfsemi líffæra og
hún stöðvast að lokum alveg.
Ónæmiskerfi barnanna er svo veikt
að þeim er mjög hætt við sýkingum
og sum þeirra eru svo veikburða að
þau geta jafnvel ekki grátið. Foreldr-
arnir þurfa að horfa upp á börn sín
veslast upp, geta ekki gert neitt við
því.“
Átökin verði stöðvuð tafarlaust
Stríðið hófst fyrir rúmum þremur
árum með uppreisn Húta sem njóta
stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran
og hafa náð stórum hluta Jemens á
sitt vald, m.a. höfuðborginni Sana.
Sádi-Arabía og fleiri arabaríki hafa
gert loftárásir á yfirráðasvæði upp-
reisnarmannanna og notið stuðnings
stjórnvalda í Bandaríkjunum, Bret-
landi og Frakklandi.
Kirolos segir að matvælaskortur-
inn í Jemen hafi aukist vegna loft-
árása Sáda og bandamanna þeirra á
hafnarborgina Hodeida sem er á valdi
uppreisnarmanna. Um 80% af mat-
vælum sem send hafa verið til Jemens
hafa verið flutt til Hodeida en árás-
irnar urðu til þess að matvælaflutn-
ingarnir snarminnkuðu. Barnaheill
og fleiri hjálparsamtök hafa þurft að
flytja matvælin til hafnarborgarinnar
Aden í sunnanverðu landinu og þaðan
til norðurhlutans. Það hefur hægt á
matvælaflutningunum.
„Síðustu vikur hafa hundruð loft-
árása verið gerð á Hodeida og ná-
grenni og þær stefna lífi um 150.000
barna á svæðinu í hættu. Barnaheill
hvetja til þess að endi verði bundinn
tafarlaust á átökin til að afstýra því að
enn fleiri deyi,“ segir Kirolos.
Embættismenn Sameinuðu þjóð-
anna hafa sagt að um helmingur íbúa
Jemens, eða 14 milljónir manna, sé al-
gerlega háður aðstoð hjálparstofnana
til að halda lífi og hætta sé á hungurs-
neyð á næstu mánuðum. Um 1,8 millj-
ónir barna undir fimm ára aldri standi
frammi fyrir alvarlegri vannæringu
og um 400.000 séu nú þegar alvarlega
vannærð. bogi@mbl.is
AFP
Getur ekki hreyft sig Tíu ára piltur, Ghazi Saleh, á sjúkrahúsi í borginni Taez í Jemen. Hann er aðeins átta kíló-
grömm og orðinn svo veikburða af vannæringu að hann er ófær um að hreyfa sig og getur ekki einu sinni grátið.
Telja tugi þúsunda
barna hafa soltið í hel
Vannærð börn orðin svo veikburða að þau geta ekki grátið
Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Forystumenn repúblikana og demó-
krata í utanríkismálanefnd öldunga-
deildar Bandaríkjaþings hafa sent
Donald Trump forseta bréf þar sem
þeir krefjast þess að stjórn hans
rannsaki hvort
Mohammed bin
Salman, krón-
prins Sádi-Arab-
íu, beri ábyrgð á
morðinu á sádi-
arabíska blaða-
manninum Jamal
Khashoggi.
Að sögn frétta-
veitunnar Reut-
ers sendu repú-
blikaninn Bob
Corker og demókratinn Bob Menen-
dez bréfið fyrir hönd utanríkismála-
nefndarinnar. Krafan um rannsókn
byggist á svonefndum Magnitskí-
lögum sem heimila stjórninni að
refsa erlendum embættismönnum
fyrir mannréttindabrot í öðrum
löndum. Samkvæmt lögunum þarf að
svara bréfinu innan fjögurra mán-
aða.
Áður hafði Donald Trump sent frá
sér yfirlýsingu þar sem hann árétt-
aði stuðning sinn við ráðamennina í
Sádi-Arabíu og hét því að halda
áfram samstarfinu við þá. Forsetinn
lagði áherslu á mikilvægi samstarfs-
ins við Sádi-Arabíu fyrir efnahag og
öryggishagsmuni Bandaríkjanna.
Hann sagði að Sádar hefðu lofað að
verja 450 milljörðum bandaríkjadala
í kaup á bandarískum vopnum og
fjárfestingar í Bandaríkjunum og
það væri „heimskulegt að rifta þess-
um samningum“.
Trump sagði ennfremur að „það
gæti vel verið“ að krónprins Sádi-
Arabíu hefði vitað af morðinu á
Khashoggi og bætti við: „Kannski
vissi hann af því, kannski ekki!“
Vísar niðurstöðu CIA á bug
Hægriblaðið The Wall Street
Journal sagði að Trump hefði vísað á
bug þeirri niðurstöðu bandarísku
leyniþjónustunnar CIA að morðið á
Khashoggi hefði verið framið að
fyrirmælum krónprinsins. Blaðið
hefur eftir bandarískum embættis-
mönnum að niðurstaða leyniþjónust-
unnar byggist á upplýsingum sem
aflað hafi verið með tölvunjósnum og
einnig gögnum sem hún hafi fengið
frá tyrkneskum yfirvöldum.
Repúblikaninn Lindsey Graham,
öldungadeildarþingmaður frá
Suður-Karólínu, hefur spáð því að
margir þingmenn í báðum flokkun-
um styðji refsiaðgerðir gegn stjórn-
völdum í Sádi-Arabíu.
Demókratinn Adam Schiff, sem
verður formaður leyniþjónustu-
nefndar fulltrúadeildarinnar í jan-
úar, sagði að það væri „óhugsandi“
að morðið hefði verið framið án fyr-
irmæla frá krónprinsinum.
Repúblikaninn Rand Paul, öld-
ungadeildarþingmaður frá Ken-
tucky, sagði á Twitter að yfirlýsing
Trumps benti til þess að forsetinn
hefði „Sádi-Arabíu í fyrirrúmi, ekki
Bandaríkin.
„Ég hefði aldrei trúað því að ég
ætti eftir að lifa þann dag að Hvíta
húsið gegndi hlutverki almanna-
tengslafyrirtækis fyrir krónprins
Sádi-Arabíu í hjáverkum,“ sagði
repúblikaninn Bob Corker, sem sótt-
ist ekki eftir endurkjöri í öldunga-
deildina og lætur af störfum sem for-
maður utanríkismálanefndar hennar
í janúar.
Krefjast rann-
sóknar á þætti
krónprinsins
Donald Trump áréttar stuðning
sinn við stjórnvöld í Sádi-Arabíu
Mohammed bin
Salman
Suður-Kóreumaðurinn Kim Jong-yang var kjörinn forseti
Interpol á ársfundi í Dubaí í gær. Búist hafði verið við því að
Rússinn Alexander Prókoptsjúk, varaforseti Interpol, yrði
kjörinn forseti alþjóðalögreglunnar en hann mætti vaxandi
andstöðu á Vesturlöndum þar sem talið var að Rússar gætu
misnotað stöðuna til að koma höggi á stjórnarandstæðinga í
Rússlandi. Ósigur Prókoptsjúks var álitinn áfall fyrir rúss-
nesk stjórnvöld sem sökuðu vestræn ríki um að hafa beitt
„fordæmalausum þrýstingi“ í forsetakjörinu.
NÝR FORSETI INTERPOL KJÖRINN
Rússneska forsetaefnið beið ósigur
Kim Jong-yang
Leitar þú að traustu
BÍLAVERKSTÆÐI
Smiðjuvegur 30 (GUL GATA) | 200 Kópavogi
Sími 587 1400 |www. motorstilling.is
SMURÞJÓNUSTA < HJÓLBARÐAÞJÓNUSTA
TÍMAPANTANIR
587 1400
Við erum sérhæfðir í viðgerðum
á amerískum bílum.
Mótorstilling býður almennar
bílaviðgerðir fyrir allar tegundir bíla.
Svartur föstudagur
45%
afsláttur
af Bonna Ban
quet
postulíni
sjá einnig önnur
tilboð á heimasíðu
progastro.is
Progastro | Ögurhvarfi 2, Kópavogi | Sími 540 3550
progastro.is | Opið alla virka daga kl. 9–17.
Allir velkomnir einstaklingar og fyrirtæki
Allt fyrir eldhúsið