Morgunblaðið - 16.04.2019, Síða 20
Hafþór Hreiðarsson
skrifar frá Húsavík
A
ð sögn Þóris Arnar Gunn-
arssonar, hafnarstjóra
Norðurþings, hafa orðið
mikil umskipti í komum
flutningaskipa síðustu ár
en fyrir árið 2015 komu alla jafna þrjú
til fjögur skip á ári með salt og áburð.
Á árinu 2015 komu 27 skip og hefur
komum fjölgað jafnt og þétt síðan.
Samkvæmt áætlunum á árinu 2019 er
gert ráð fyrir að um 80 flutningaskip
komi til Húsavíkur.
„Á árunum 2015 til 2017 var bróð-
urparturinn af skipaflutningum til
Húsavíkur vegna uppbyggingar PCC
á Bakka, Landsvirkjunar á Þeista-
reykjum og Landsnets og Rarik en
unnið var sam-
hliða að uppbygg-
ingu raforkuvirkis
á Þeistareykjum
og raforkuflutn-
ingskerfis frá
Þeistareykjum að
Bakka. Á árinu
2018 hófust svo
hráefnisflutningar
hjá PCC sem fóru
svo á fullt skrið á
seinni hluta sama
árs og eru uppistaða flutninga í dag til
Húsavíkur. Eimskip siglir á tveggja
vikna fresti til Húsavíkur og má segja
að uppistaðan hjá þeim séu einnig
flutningar fyrir PCC en eitthvað er
um fiskflutninga frá Húsavík með
Selfossi,“ segir Þórir Örn.
Ráðast þurfti í umtalsverðar hafn-
arframkvæmdir svo höfnin væri í
stakk búin til að taka við aukinni
skipaumferð. Viðlegukantur við
Bökugarð var lengdur um 90 metra
og er í dag 220 metrar. Grjótvörn ut-
an á Bökugarði var færð til norðurs
að hluta og framlengd að ganga-
munna Húsavíkurhöfðaganga. Að
auki var hafnarsvæði fyrir innan
Bökugarð dýpkað og athafnasvæði
skipa stækkað og gengið var frá
geymslusvæði fyrir gáma og varning
innan við Bökugarð.
Bakki ákjósanlegur staður
Að sögn Þóris Arnar er ljóst að með
uppbyggingu PCC á Bakka hefur
rekstur hafnarinnar og annarra fyr-
irtækja á svæðinu breyst til muna og
rekstrarumhverfið orðið allt annað.
Þrátt fyrir að rekstrarumhverfið hafi
breyst til batnaðar hefur kostnaður-
inn einnig aukist og miklum fjár-
munum hefur verið varið í uppbygg-
ingu innviða.
Ljóst var strax í upphafi að PCC-
verkefnið mundi ekki eitt og sér
standa undir þeirri innviðauppbygg-
ingu sem ráðist var í á svæðinu. Iðn-
aðarsvæðið á Bakka var byggt upp og
skipulagt fyrir fjölbreyttan iðnað og
gert er ráð fyrir að þar séu mögu-
leikar fyrir fjölmörg fyrirtæki að
setja sig niður. Það sé því mikilvægt
að vinna áfram að fjölgun fyrirtækja
og verkefna á iðnaðarsvæðinu Bakka
svo og annars staðar í sveitarfélaginu
en með þeirri uppbyggingu sem ráð-
ist var í eru bæði Bakki og sveitarfé-
lagið í heild sinni, með þeim flutnings-
möguleikum sem komnir eru við
höfnina, orðin ákjósanlegur staður
fyrir fjölbreytt verkefni af ýmsum
toga.
„Hvað varðar uppbyggingaráform
hafnarinnar á næstu árum þá stendur
til að endurbyggja svokallaðan Þver-
garð en hann er kominn til ára sinna
og þarfnast viðhalds. Þá stendur til að
lengja hann til suðurs um 50 metra og
dýpka við viðleguna,“ segir Þórir Örn.
„Þetta mun auka til muna mögu-
leika hafnarinnar til að taka á móti
fleiri og stærri skemmtiferðaskipum,
ásamt öðrum skipum, og bæta til
muna þá aðstöðu sem boðið er upp á í
dag við móttöku slíkra skipa. Þver-
garðurinn er mjög vel staðsettur með
þetta í huga og frekar stutt fyrir far-
þega skemmtiferðaskipa að miðhafn-
arsvæðinu og miðbæ Húsavíkur.
Áætlanir gera svo ráð fyrir frekari
uppbyggingu í innri höfninni til að
bæta aðstöðu ferðaþjónustubáta og
smærri báta með aukinni viðlegu, efl-
ingu raforku og vatnstenginga fyrir
báta ásamt lagfæringum á miðhafn-
arsvæðinu.“
Vinnuaðstaða starfsmanna bætt
Í uppbyggingaráætlun hafnarinnar
var gert ráð fyrir nýrri vog á svokall-
aðri Bökufyllingu við Bökugarð. Búið
er að ganga frá undirstöðum fyrir
vogina og gert er ráð fyrir að vogin
verði sett niður nú á vordögum. Vogin
er nokkuð stór og er um 24 metra
löng og gert er ráð fyrir að hún nýtist
til að vigta hráefni og varning sem fer
um höfnina, hvort sem um er að ræða
inn- eða útflutning, ásamt öðru sem
þarfnast vigtunar.
Til margra ára hefur höfnin haft
aðstöðu í vigtarskúr sem staðsettur er
á miðhafnarsvæðinu. Með fjölgun
starfsmanna og stórauknum um-
svifum á höfninni var brýn þörf á að
bæta vinnuaðstöðu starfsmanna hafn-
arinnar. Þegar ákveðið var að ráðast í
byggingu nýrrar slökkvistöðvar á
hafnarsvæðinu var tekin sú ákvörðun
að samnýta bygginguna með höfninni.
Höfnin verður þar með skrifstofu
og aðstöðu fyrir mannskap ásamt því
að vera með eitt bil í tækjasal hússins
undir tæki og búnað hafnarinnar.
Þetta mun gjörbreyta aðstöðumálum
starfsmanna. Einnig felast í þessu
ákveðin samlegðaráhrif en möguleiki
skapast á samnýtingu starfsmanna
hafnarinnar og slökkviliðs í ýmsum
verkefnum, til dæmis varðandi við-
brögð vegna mengunarslysa í höfn og
fleira þess háttar.
Um 110 þúsund farþegar árlega
Hvalaskoðun og ferðaþjónusta hefur
verið með svipuðu sniði síðustu árin
og er nokkuð stór þáttur í rekstri
hafnarinnar, en um tuttugu ferða-
þjónustubátar eru í siglingum um
höfnina frá fjórum fyrirtækjum.
Ferðaþjónustan hefur verið nokkuð
metnaðarfull á Húsavík í allmörg ár
og uppbyggingin nokkuð mikil hjá
fyrirtækjunum sem að þessu standa.
Um 110 þúsund farþegar hafa farið
í ferðir ár hvert undanfarin ár og því
mikið um að vera á höfninni á sumrin.
Þess má þó geta að undanfarin ár
hafa fyrirtækin byrjað fyrr á vorin og
siglt fram eftir vetri og má því segja
að fyrirtækin séu að störfum nánast
allt árið sem er mjög jákvæð þróun í
þeirri viðleitni að lengja ferðamanna-
tímabilið, sem styður við aðra þjón-
ustu svo sem veitingahús, gististaði
og aðra starfsemi.
Útgerð minni báta hefur heldur
verið að dragast saman á Húsavík á
undanförnum árum enda rekstrar-
umhverfi smærri útgerða orðið mjög
erfitt á landsvísu. Landaður sjávarafli
hefur þó ekki minnkað á milli ára en
landanir á árinu 2017 voru 813 talsins
og landaður afli um 2.096 tonn. Land-
anir á árinu 2018 voru 697 talsins og
landaður afli um 2.317 tonn. Uppi-
staða aflans er þó af stærri bátum, s.s.
frá GPG fiskverkun, Ugga ehf. og
vertíðarbátum frá Grímsey.
Landaður afli hefur þó aukist frek-
ar á Raufarhöfn á milli ára og var á
árinu 2017 um 2.023 tonn en 3.693
tonn á árinu 2018. Landaður afli jókst
einnig lítillega á Kópaskeri á milli ára
eða úr 383 tonnum á árinu 2017 í 402
tonn á árinu 2018.
„Tveir starfsmenn eru alla jafna við
störf á Húsavíkurhöfn. Einu stöðu-
gildi er bætt við á sumrin til að leysa
sumarfrí og mæta auknu álagi vegna
skemmtiferðaskipa og aukamenn eru
kallaðir inn við skipakomur auk þess
sem hafnarstjóri hefur brugðist við ef
leysa þarf ýmis verkefni á höfninni.
Alla jafna eru um sjö aðilar sem koma
að hverri skipakomu af hálfu hafn-
arinnar,“ segir Þórir Örn en hafnir
Norðurþings samanstanda af höfn-
unum á Raufarhöfn, Kópaskeri og
Húsavík og eru stöðugildin fimm í
heildina fyrir allar hafnirnar.
Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Skemmtiferðaskip liggur við Þvergarðinn í Húsavíkurhöfn síðasta vor. Hvalaskoðunarbátur siglir hjá skipinu á leið að landi með ferðamenn. Til stendur að endurbyggja garðinn.
Skipaumferð eykst við Húsavík
Með tilkomu kísilvers PCC á Bakka við Húsavík hefur umferð flutningaskipa aukist mjög um Húsavíkurhöfn og oft má orðið sjá skip
bíða fyrir utan höfnina eftir að röðin komi að því við Bökugarðinn. Ráðast þurfti í talsverðar framkvæmdir á höfninni vegna þessa.
Selfoss, flutningaskip Eimskipa, við Bökugarðinn í Húsavíkurhöfn í vetur.
Dráttarbátur Hafnarsamlags Norðurlands, Seifur, hefur aðstoðað í Húsavíkurhöfn.
Seifur aðstoðar skip sem er að fara frá höfninni á Húsavík. Gert er ráð fyrir áttatíu flutningaskipum til Húsavíkur á þessu ári.
Þórir Örn
Gunnarsson
20 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. APRÍL 2019
Leita eftir samstarfi
við Hafnasamlagið
Með stórauknum skipakomum til Húsavíkur þykir ljóst að gríðarlega mik-
ilvægt sé að höfnin hafi dráttarbát tiltækan öllum stundum til aðstoðar við
móttöku og brottfarir skipa til að tryggja öryggi allra aðila sem að þeim
koma, bæði áhafna skipanna og starfsmanna hafnarinnar.
„Að svo stöddu hefur hafnarsjóður ekki möguleika á að fjárfesta í drátt-
arbát og hefur því verið leitað eftir samstarfi við Hafnasamlag Norðurlands.
Unnið er samstarfssamningi á milli hafnanna sem mun tryggja viðveru drátt-
arbáts við Húsavíkurhöfn allt árið og þar með stórauka öryggið og þjónustu
við höfnina. Gert er ráð fyrir að gengið verði frá samkomulagi þar um von
bráðar,“ segir Þórir Örn.