Fréttir - Eyjafréttir

Issue

Fréttir - Eyjafréttir - 16.04.2014, Page 10

Fréttir - Eyjafréttir - 16.04.2014, Page 10
° ° 10 Eyjafréttir / Miðvikudagur 16. apríl 2014 Lionsklúbbur Vestmannaeyja 40 ára: Lions gaf andvirði 25 einbýlishúsa í gosinu :: Safna fé fyrir samfélagið auk þess sem þeir leggja alheimsverkefnum lið :: 28 félagar í Lionsklúbbi Vestmannaeyja :: Hörður Pálsson, formaður og Valdimar Guðmundsson, gjaldkeri teknir tali Lionsklúbburinn í Vestmanna- eyjum hélt á laugardaginn upp á 40 ára afmæli klúbbsins. Saga klúbbsins er að mörgu leyti samofin gosinu 1973 en eftir það gaf Lionshreyfingin allt sem þurfti til á nýja sjúkrahúsinu sem opnaði fljótlega eftir gos. Í kjölfarið var Lionsklúbburinn í Vestmannaeyjum stofnaður en í dag eru 28 menn í klúbbnum. Lionsklúbburinn er góðgerðar- félag og hefur Sambýlið notið aðstoðar klúbbsins auk þess sem hann sinnir öðrum sam- félagslegum verkefnum. Blaðamaður Eyjafrétta hitti á þá Hörð Pálsson, formann Lions- klúbbsins í Vestmannaeyjum og Valdimar Guðmundsson, ritara í félagsaðstöðu klúbbsins í Vestmannaeyjum, í Arnardrangi og fékk innsýn inn í starfsemi félagsins. „Lionshreyfingin gaf á sínum tíma allt inn í sjúkrahúsið, tæki og tól, hnífa og gafla, rúm og allt sem þurfti til að koma sjúkrahúsinu af stað eftir gos. Þetta var stærsta gjöf sem hreyfingin hefur gefið á heimsvísu og vakti mikla athygli á sínum tíma enda skilst okkur að andvirði gjafarinnar hafi verið andvirði um 25 einbýlishúsa í dag. Og ef við gefum okkur að einbýlishús sé á 30 til 35 milljónir þá sérðu hvað þetta var stór gjöf,“ sagði Hörður þegar hann var spurður út í upphafið að Lionsklúbbi Vestmannaeyja. „Í kjölfarið var svo stofnaður Lionsklúbbur í Vestmannaeyjum 8. apríl 1974 og eflaust hefur þessi gjöf haft eitthvað um það að segja með stofnun klúbbsins.“ Lionshreyfingin kemur að ýmsum verkefnum á heimsvísu en klúbbar um allan heim leggja til fjármagn í verkefnin. „Allir klúbbar borga gjald til hreyfingarinnar sem er nýtt í stærri verkefni á heimsvísu. Lions hefur t.d. sinnt verkefnum í Malasíu að undanförnu. Auk þess sinna klúbbarnir sínu nærumhverfi eins og við gerum. Við t.d. smíðuðum í kringum pottinn á Sambýlinu sem strákarnir í Ufsaskalla gáfu og tengdum hann. Við byggðum líka útsýnispallinn á Stórhöfða og svo húsið yfir hann. Við vorum svo auðvitað líka á Vigtartorginu þar sem við smíðuðum í kringum fiskikörin,“ bætti Valdimar við. „Á hverju hausti er ákveðið fyrir hverju á að safna. Þá er farið í svokallaða fyrirtækjasöfnun þar sem við sendum út bréf til fyrir- tækja og fáum styrk til kaupanna. Sem betur fer njótum við velvildar fyrirtækja og getum safnað fyrir tækjum sem nýtast svo í samfé- laginu. Núna síðast gáfum við t.d. Slökkviliði Vestmannaeyja 650 þúsund krónur sem nýtast í kaupum á nýjum klippum sem eru komnar til liðsins. Svo tökum við þátt í matargjöfum í kringum jólin eins og önnur félög og klúbbar hér í Eyjum.“ Allir mjög virkir Hvernig er starfsemin hjá Lions- klúbbi Vestmannaeyja? „Annan og fjórða þriðjudag í hverjum mánuði hittumst við hér í Arnardrangi á kaffifundum en erum einnig með svokallaða pílufundi, þar sem við spilum pílukast. Á kaffifundum fáum við gjarnan gestafyrirlesara og nú síðast fengum við t.d. Adda Steina sem útskýrði fyrir okkur undirbúningsvinnu fyrir nýja ferju. Við byrjum starfið í september og erum fram í maí. Starfið snýst um tvennt, góðan félagsskap og að láta gott af sér leiða. Þessi stærð finnst mér henta mjög vel, 28 karlar enda eru allir virkir og að jafnaði eru rúmlega 20 á fundum hjá okkur. Við erum með aðstöðu í Arnardrangi og sjáum um viðhaldið á húsinu og vinnum þannig upp í leigu,“ útskýrði Hörður. „Við höfum verið að vinna í húsinu jafnt og þétt enda er húsið orðið mikið prýði hér í miðbænum. Reyndar voru uppi hugmyndir hjá Rauða krossinum að loka húsinu en það var vandkvæðum bundið því Vestmannaeyjabær greiddi upp í skuld við Rauða krossinn með því að gefa þeim húsið hér. Hluti af samkomulaginu var að Rauði krossinn mætti ekki selja húsið. Búið er að taka húsið alveg í gegn að utan og svo höfum við verið að vinna í því innandyra síðustu ár. Núna síðast gerðum við íbúðina hér á efstu hæð tilbúna undir leigu og þannig fær Rauði krossinn leigutekjur af íbúðinni. En til að svo mætti verða, þurftum við að breyta inngangi í íbúðina sem hefur nú sér inngang og er búið að loka á milli félagsaðstöðunnar og íbúðarinnar. Eru þið í góðum tengslum við aðra klúbba á landinu og heimshreyf- inguna? „Við borgum okkar gjöld og reynum að fara á þau þing sem eru á hverju tímabili. Við fáum líka heimsókn frá umdæmisstjórn en samgöngur eru ekki að hjálpa okkur í að rækta sambandið,“ sagði Hörður og bætti við að Lionsklúbba væri að finna hringinn í kringum landið. „Klúbbarnir eru af öllum stærðum og gerðum. Hér er t.d. karlaklúbbur en svo eru kvenna- klúbbar annarsstaðar á landinu og svo blandaðir klúbbar líka. Hér var gerð tilraun til að stofna ungmennaklúbb en því miður lognaðist hann út af þegar sporgöngumennirnir hurfu á braut.“ Velja formenn eftir sætaröð Af hverju og hvenær genguð þið til liðs við Lionsklúbb Vestmannaeyja? „Ég byrjaði árið 2000,“ svaraði Hörður. „Það æxlaðist nú bara þannig til að Lions valdi húsið okkar hjónanna sem Jólahús það ár og í kjölfarið var ég dreginn á fund. Þar með var ég kominn inn í klúbbinn og hef verið þar síðan.“ Styttra er síðan Valdimar gekk í klúbbinn en hann byrjaði fyrir tveimur árum. „Ári áður komu tíu inn í klúbbinn en þá hafði orðið svolítil hnignun í félagafjölda. Þá voru þeir aðeins um fimmtán en var fjölgað í kjölfarið. Hvernig veljast menn í stöður? „Stundum veljum við þetta hvernig menn sitja við borðið, svona nokkurn veginn,“ sagði Hörður og hló. „Það er auðvitað enginn neyddur til þess að taka að sér starf í stjórn en yfirleitt gengur mjög vel að manna þessar stöður. Við erum semsagt þrír í stjórn núna og svo er varastjórn þriggja manna, sem svo tekur við næsta vetur. Þannig gengur þetta fyrir sig hjá okkur og með þessu reynum við að virkja sem flesta enda snýst þetta að miklu leyti um það að virkja sem flesta.“ Erfiðara að safna fé en áður Þeir félagar eru sammála um að fjáraflanir séu orðnar erfiðari en áður. „Fjáraflanir hafa breyst. Við vorum áður með perur sem við pökkuðum inn og seldum. Því var í sjálfu sér sjálfhætt og nú er samkeppnin alltaf að verða meiri og meiri í jóladagatölunum. Við erum í sjálfu sér ekki að fá stærstu upphæðirnar í gegnum söluna á dagatölunum en auðvitað munar um allt,“ sagði Valdimar. „Við gerum það aðallega fyrir hefðina að vera með jóladagatölin því mörgum finnst nauðsynlegt að kaupa dagatal af Lions fyrir jólin. En í dag er orðið mjög erfitt að finna fjáröflun sem enginn annar er með. En við fáum oft einhverja greiðslu fyrir þá vinnu sem við innum af hendi, t.d. fyrir palla- smíðina út á Stórhöfða. Svo notum við það fjármagn til góðgerðarmála. Menn eru með allar klær úti og hafa alltaf verið. Hér á árum áður förguðu Lionsmenn einu sinni báti, rifu hann niður og brenndu. Svo fóru Lionsfélagar einu sinni einn túr á sjó en nú má það ekkert, allt þarf að vera í kvóta,“ sagði Hörður og þar með var spjallinu lokið enda framundan afmælisveisla hjá Lionsfélögum. Lionsmenn færðu Slökkviliðinu 650 þúsund krónur að gjöf upp í kaup á klippum liðsins. Frá vinstri: Ragnar Baldvinsson, slökkviliðsstjóri, Kári Höskulds- son, Stefán Bjarnason, Sigmar Georgsson, Ágúst P. Óskarsson, Hörður Pálsson, Ingimar Georgsson, Friðrik Harðarson, Ægir Ármannsson, Valdimar Guðmundsson, Óskar Örn Ólafsson, Sævar Þórsson, Stefán Sigurðsson, Arnar Andersen, Hörður Þórðarson, Erlingur Einarsson og Georg Skæringsson. JúlíuS G. InGaSon julius@eyjafrettir.is Stjórn Lionsklúbbs Vestmannaeyja veturinn 2013-2014. Frá vinstri, Gunnar Andersen, ritari, Hörður Pálsson, formaður og Valdimar Guðmundsson, gjaldkeri.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.